29.5.09

Mikið var að vökvar mínir vættu þessa sál

Kennarinn hennar Sögu hringdi í mig í vikunni og sagði að nú færi að koma tími á að hafa samband við barnasálfræðinginn í skólanum því Saga er orðin tilbúin að fræðast meira um sjálfa sig og fá hjálp við að setja orð á þær tilfinningar sem eru að brjótast um í henni. Ég varð nú hálf stressuð verð ég að viðurkenna því þetta er tímabil sem flestum foreldrum fatlaðra barna kvíðir fyrir. Ég hef alltaf vitað að þessi dagur kæmi en var að vona að það væri aðeins seinna en málið er að hún er að vera meira og meira meðvituð um það að vera öðruvísi. Hún upplifir það ekkert rosa sterkt með sjálfa sig en er farin að spyrja um þau börn sem ekki eru eins klár og hún, afhverju Ída vinkona hennar kann ekki að tala og afhverju Thea önnur vinkonan sé svona og hinseginn. Hún hefur líka nefnt að hún sjálf tali skrýtið og spurt hvort augun á henni séu skrýtin svo að hún er farin að skilja og taka til sín það sem önnur börn finna upp á að segja við hana. Þessvegna er komin tími til að hún fræðist um sína fötlun. við höfum svo sem aldrei falið það neitt heima og tölum opinskátt og hátt um downs syndrom en hún hefur bara aldrei tekið það til sín og ég vill ekki segja henni það beint og þessvegna verður sálfræðingur látin vinna með henni. Þetta er þónokkuð ferli og ég er spennt að sjá hvað gerist. Við byrjum ekki á þessu fyrr en eftir sumarfríið. Þau verða 3 í skólanum hennar sem byrja á þessu í haust svo að það verður gott, bæði fyrir hana og okkur. En vá hvað mér kvíður fyrir.

Annars bara allt fínt. Er að fara til Stokkhólms á þriðjudaginn í 2. daga ferð með vinnunni. Svo er spáð þessari rjómablíðu um helgina, 28 og sól. Held að maður skelli sér í smá sólbað og svo kannski smá veiðimennsku með börnunum eða eitthvað. Ekki alveg tilbúin í strandlífið því sjórinn er nú frekar mikið kaldur enn, ekki langt síðan síðasti ísinn hvarf úr firðinum. Svo er ég farin að hlakka ægilega til að fara í sumarfrí.Það helsta af mér annars er að ég er að borða brauð með danskri spæjepölse, drekk appelsinujús úr fernu og hlusta á Jamie Cullin. Já þetta var nú eitthvað sem var gott að vita!!

Drífa vann síðustu getraun og valdi meira að segja lag svo að lag vikunnar er úr hennar lagabanka.Veit ekkert um það og hef aldrei heyrt það áður svo að ég get því miður ekki komið með neina gullmola um það.



bæó og góða helgi frá sunny Norway!

22.5.09

Þú gafst mér skýin og fjöllin og Guð, til að styrkja mig

Venjulega gengur lífið sinn vanagang og maður er ekkert að spá í neinu, dagarnir bara þjóta framhjá og maður eldist og árin líða. Endrum og sinnum stoppar maður upp og spyr sig "hvernig endaði ég hér". Ekki miskilja mig, ég er ekkert óánægð með líf mitt, bara undra mig á því öðru hverju hvernig ég hef endað hér, í þessu húsi, með þessum manni í þessu landi og þessari vinnu. Aldrei hefði mig grunað á okkar Jans Chr. fyrstu mánuðum tilhugalífsins og jafnvel ári að við myndum enda saman, gifta okkur og flytja til Noregs með tvö börn, annað fatlað, eignast hús og bíl og allt það. Hefði einhver sagt mér það í byrjun okkar sambands hefði ég hlegið mig máttlausa en ég má þakka Jenný vinkonu minni fyrir karlinn því hún nánast bauð mér á fyrsta stefnumótið okkar, eða allavegna sá til þess að mér yrði boðið.En svona til að vera hreinskilin gaf ég ekki okkar sambandi langt líf því fyrsta árið var bölvað streð,annað aðeins skárra en fór batnandi og hér erum við 15 árum seinna. Enn saman og bara ánægð enn. Auðvitað gætum við verið meira rómó og allt það. En svona í hnotskurn held ég að við höfum það bara fínt miða við svo marga aðra, rífumst ekki oft, ekki alvarlega allavegna og höfum svipaðar skoðanir á því sem skiftir máli. Erum góðir félagar og okkur semur bara þokkalega en höfum eins og flest önnur pör málefni sem við erum ósammála um en erum orðin sammála um að vera ósammála og ræðum það ekkert frekar þar sem það leiðir ekki til neins ( eins og mikilvægi fótbollta í eins lífi!). En allavegna þá verð ég stundum hissa á að ég hafi búið svona lengi erlendis, langt frá fjölskyldu og vinum og hissa á að ég sé ekki löngu flutt heim. Ekki það að Ísland sé beint lokkandi þessa dagana. Veit eiginlega ekki hvað ég vill með þessu en eitt er víst og satt sem John Lennon sagði svo vel á engilsaxneskri tungu "Life is what happens to you while you're busy making other plans". Mikið var það satt hjá honum. Fyrir utan það að ég geri mjög sjaldan áætlanir, ég bara berst með straumnum.

Annars bara fínt, gaman í nýju vinnunni fyrir utan eitt. Fíla ekki þessa unisex klósettastefnu sem maður hefur þar. Mjög svo Ally McBeal en ekki minn stíll at all. Skil ekki svona, gef skít í femínístana ef þetta er eitthvað sem þær hafa haldið að væri eitthvað jafnrétti. Ellers takk segi ég nú bara.

Hefði aldrei spáð íslandi 2. sæti í júró svona við fyrstu hlustun. Fannst þetta lag hálf leiðinlegt en hún söng nú samt eins og engill og jafn falleg líka en eftir að hafa horft á öll hin skildi ég betur að þetta lag komst svo hátt. Svei mér þá ef austur evrópa og þýskaland og Grikkland ættu ekki bara að slá sig saman næsta ár og senda eitt lag með sama flytjanda. Myndi ekki skifta máli, allt sama draslið. Jísus. Ekki orð um það meir.

Lag vikunnar er tileinkað húsbandinu sem hefur endst í 15 ár. Hlustuðum mikið á þetta lag fyrsta sumarið okkar saman. Eitt skemmtilegasta sumar sem ég hef lifað. Grunar að Begga vinkona sé sammála mér þar. Lög gerast ekki sumarlegri en þetta í mínum heimi.



Gísli Eiríkur Helgi.

.p.s Drífa vann aftur en hefur ekki innheimt verðlaun.

15.5.09

Þetta er blús. Svona er lífið. Ég fíla mig í sukkinu en samt ekki grimmt

Einhverjir eru búnir að vera að spyrja um hvaða vinnu ég er komin með. Ég er komin með vinnu hjá If Inhouse sem vefhönnuður. If Inhouse er auglýsingastofa sem er í eigu og rekin af If sem er ein af stærstu tryggingarstofnunum skandinavíu. Í allt vinna um 6 þús manns hjá If, deilt á norðulöndin og Baltikum og eitthvað í rússlandi. Í húsinu sem ég vinn erum 700 manns svo að þetta er risa fyrirtæki. Svo stórt að hér er eigin líkamsrækt með föstum tímum(spinning t. d) sem hægt er að fara í innan vinnutímans,eigin listaklúbbur sem fer í listaferðir erlendis, lítið kaffihús hér í húsinu og ég veit ekki hvað. Er ekki búin að komast að öllu. Ég er að vinna með 5 öðrum, einn vefhönnuður, 3 grafískir hönnuðir og svo teksta og verkefnastjórar. Mjög fínt fólk svona við fyrstu kynni. Flest á milli 35-40 svo að þetta eru ekki bara unglingar. Ég get allavegna sagt að ég er orðin tryggð í bak og fyrir eftir að hafa byrjað hér. Mér finnst eins og ég sé komin í fyrstu fullorðinsvinnuna mína!

Ef það hefur farið fram hjá einhverjum þá er júróvisjon á laugardaginn. þetta verður í fyrsta skifti að krakkarnir fá að horfa, allavegna svona eitthvað fram eftir en við fáum gesti í mat og gláp. Held að í þetta sinn haldi ég með norðmönnum, gerði það að vísu líka í fyrra. Mér finnst íslenska lagið ekkert sérstakt í ár. Var þó skárra í fyrra þótt það sé ekki beint lag sem ég nenni að hlusta á heima hjá mér en mér fannst norska lagið í fyrra mjög fínt.

Annars er þjóðhátíðardagur norðmanna á sunnudaginn. Baltasar verður í bunad í fyrsta skifti(þ.e.a.s ef ég finn bunadssokka!) en það er þjóðbúningur og nánast allir klæðast svoleiðis á þessum degi. Hann fékk einn slíkan frá frænda sínum í arf og núna passar búningurinn. Ég var nú eitthvað efins að hann vildi vera í þessu en honum fannst bara kúl að vera klæddur eins og hobbit! Og spurði svo hvort hann gæti verið á skeitbordinu sínu á þjóðhátíðardaginn. Aldrei séð dreng í þjóðbúning á bretti áður en einhverntíma verður allt fyrst.

Það var mín kæra vinkona Drífa sem vann getraunina þessa vikuna. Að sjálfsögðu þekkir hún Mannakorn. Hún er ekki búin að velja lag en ég valdi eitt handa henni.Hún er ein af þeim á fullt af lögum í mínum huga og þar af leiðandi erfitt að finna eitt lag. Ég veit eiginlega ekki afhverju þetta lag minnir mig á hana, kannski hún man það og kannski kannast hún bara ekkert við þetta lag og ég bara í tómu rugli.



Góða helgi.

p.s Hvaða lag og flytjandi er um að ræða í dag?

7.5.09

Vetur kemur og vetur fer en alltaf vorar í sálinni á mér

Núna ætla ég að vera stuttorð aldrei þessu vant. Byrjaði í nýrri vinnu á mánudaginn og þar af leiðandi mikið að gera. Félagslífið hjá börnunum heldur virkt líka þessa dagana svo að ég geri lítið nema vinna og fara í afmæli og diskótek með dóttur minni. Skrifa meira þegar verður aðeins minna að gera.Er að fara í veislu með vinnunni, 10 ára afmæli fyrirækisins(er að vinna hér).Það hafa um 800 manns skráð sig í veisluna hér í bæ svo að þetta verður áhugavert!Held ekki að ég hafi farið í svona mannmarga veislu áður.

Lag vikunnar er samt ekki hægt að snuða fólk um og er það á léttari nótunum þessa vikuna. Pússaðu dansfótinn og taktu smá föstudagssnúning í tilefni dagsins.



góða helgi.

p.s enginn sigurvegari velur sér nein lög! koma nú.

1.5.09

Og í kvöld líkur vetri sérhvers vinnandi manns

Loksins kom vorið. Sól og blíða í dag og í gær og nokkrar freknur spruttu fram eftir hádegissólbaðið í gær. Grillveisla hjá vinum í kvöld. Túlípanarnir í fullum blóma fyrir framan húsið og það er ótrúlegt allt í einu að hugsa til þess að fyrir 8 dögum síðan var enn snjór í garðinum hjá mér. Maður er svo fljótur að gleyma. Og talandi um að gleyma, ég er tvisvar sinnum á 2 vikum búin að koma heilum klukkutíma of seint á fundi sem ég átt að sitja. Ég þessi stundvísa manneskja. Maður er nátturulega alveg í molum!

Annars var París var bara frábær. Þvílíkt flott borg. Við þvældumst um, borðuðum og drukkum vel og höfðum það notalegt. Ég var að vísu hálfgert fatlað fól því ég meiddi mig eitthvað á fæti seinni parts föstudags og haltraði það sem eftir var ferðar og fór ekki jafn fljótt yfir og ég annars hefði gert.Frekar erfitt fyrir mig þar sem ég er vön að labba hratt en ég er mjög svo fylgjandi instant skoðunarferðum. Sjá mikið á stuttum tíma! Það var nú lítið verslað en París er ekki beint ódýr borg. Bara á svipuðu verði og osló. Fór í geggjuðustu búð ever en það var sælkeramatvöruverslun í La Fayette sem er eitt af stórmagasínunum. Svei mér þá það leið nánast yfir mig í þeirri verslun. Annað eins flottheit af mat og kökum, brauði og drykkjum hef ég aldrei áður séð. Verðið svo sem eftir því en það var bara gaman að skoða. Ég væri örgugglega 15 tonn ef ég byggi í þessari mætu borg(yrði að vera rík líka til að hafa efni á þessum sælkeramat).

Byrja í nýrri vinnu á mánudaginn. Gekk út um dyrnar á þeirri gömlu í síðasta sinn á miðvikudag og það voru nú ekki mörg tár sem voru felld. Eiginlega ekki neitt, var alveg köld. Skrýtið eftir að hafa unnið þar þetta lengi.

jæja lítið meira að segja. Vill óska bróður mínum honum Óskari til hamingju með daginn en hann á ammæli í dag hann á ammæli í dag hann á ammæli han óskar hann á ammæliídag.

Lag vikunnar er nú ekki beint stuðlag en það er svona vorlag. Mig langaði svo að hafa það í dag afþví núna er vorið komið og svo er það líka svo afmælislegt!!!!!!



Gleðilegan 1. maí verkamenn og góða vorhelgi.