24.2.12

Humarsumur - þegar alltaf var sól

Í síðustu viku minntist ég á humarsumar. Verð að viðurkenna að orðið humarsumar var næstum gleymt en eftir síðustu skrif fór ýmislegt af rifjast upp frá þeim sumrum. Mér finnst ég hafa verið óendanlega heppin að alast upp á Höfn á þessum tíma, þegar bærinn fylltist af nýju fólki við hverja vertíð. Alltaf jafn spennandi að sjá hverjir kæmu á sumarvertíð, hverjir kæmu á síldarvertíð og hvort kunn andlit kæmu aftur um veturinn eða sumarið eftir og ekki minnst hvort kæmu einhverjir sætir strákar. Man þegar humarvertíðin byrjaði og frystihúsið fylltist af unglingum. Þau sem voru nógu gömul bjuggu í Ásgarði, Grænu Höllinni og einni verðbúð í viðbót sem ég er búin að gleyma hvað hét en hún var á Hafnarbrautinni. Hin bjuggu hjá öfum og ömmum og öðru skyldfólki. Mörg þeirra komu ár eftir ár svo að maður hélt sambandi við nokkur þeirra í mörg ár á eftir. En allavegna fylltist bærinn og frystihúsið af fólki á sumrin og allir höfðu það gaman. Ekki var það endilega sjálf vinnan sem við unnum var neitt sérstaklega skemmtileg en það var samt alltaf gaman í vinnuni.

Þegar ég fór að rifja upp þenna tíma mundi ég allt í einu eftir þegar maður sat í pásu og skrifaði og teiknaði á vinnubuxurnar sínar og bakhliðina á svuntunni. Man að ÁTVR var sérstaklega vinsælt að hafa á buxunum, love og ýmis hljómsveitarnöfn og svo humarsumar 84 eða hvaða ár nú var. Stelpurnar sátu öðru meginn í pásusalnum og strákarnir hinu meginn. Maður reyndi alltaf að sitja á réttum stað miða við strákinn sem maður var skotin í þá vikuna. Sama gilti í mötuneytinu. Maður vildi helst geta séð sætu nýju strákana í von um að þeir tækju eftir manni. Föstudagarnir voru alltaf bestu dagarnir. Þá komu launin. Við stilltum okkur upp í röð í humarsalnum og svo fékk maður umslag með launaseðli og péníngum. Það var ekkert verið að leggja inn á mann á þessum tíma, kom að vísu seinna. En á föstudögum fór maður aldrei heim í mat. Þá var stefnan tekin í Hafnarbúðina, löbbuðum frá frystihúsinu yfir í Hafnarbúð í bláa sloppnum og stundum með netið á höfðinu. Hreinlætið í fyrirrúmi! Svo var borðað eitthvað hollt og svo fóru allir í bankann til að leggja inn launin. Þetta var fastur liður öll sumrin sem ég vann í humri.

Þegar fór að líða á vertíðina var oft minna að gera. Ef maður var ekki lánaður út í rækju eða eitthvað annað voru pásurnar oft langar. Þá sátum við vinkonurnar uppi í sturtuklefa og fórum í andaglas. Óskar bróðir sá fyrir ekki svo löngu síðan krot á vegg uppi í búingsklefa þar sem stóð Helga Dís og Hjödda bestar. Örugglega skrifað meðan beðið var eftir anda, oftast Stapadraug. Já maður var ekki alveg heill.

Á kvöldin var alltaf fullt af liði uppi í Hafnarbúð og svo var Hafnarbrautin vinsæll staður líka. Hún var gengin fram og til baka. Ekki skrýtið að unglingar á þessum tíma voru grannir. En við vorum alltaf úti, aldrei inni að horfa á sjónvarpið - ekki þegar var humarsumar allavegna.

Og ekki má gleyma helgunum. Það var ball nánast á hverjum laugardegi , annaðhvort í Sindrabæ, Mánagarði eða Hrollaugsstöðum. Vinsælar hljómsveitir úr "nágrenninu" eins og Súellen og strákarnir úr Vík sem ég man ekki hvað heita fylltu húsin. Og svo að sjálfsögðu allar vinsælu hljómsveitirnar eins og Mannakorn, Bítlavinafélagið, Stjórnin og hvað nú allar þessar hljómsveitir hétu. Man meira að segja eftir að hafa farið á ball á Hofi í Öræfum og í Vík. Það var sko mikið lagt á sig til að hafa það gaman! Ekki komst ég nú inn á böllin sumrin í humri en það var sko ekkert síðra að hanga fyrir utan. Ég var líka óþreytandi að láta smygla mér inn á böllin og ég var góð í þeirri list. Gat verið þar heilt kvöld án þess að það kæmist upp um mig. Ef maður hélt sér á miðju dansgólfi án þess að fara á klóið heilt kvöld tókst þetta.

Svo voru náttúrulega fastir liðir eins og venjulega, hestamannaböllin og Lónsballið. Fór á mitt fyrsta hestamannaball fyrsta sumarið mitt í humri. Var 13 ára, held að allar mínar vinkonur muni eins vel eftir þessu kvöldi og ég. Þá kynntist maður nýjum heimi. Man að ég var nú svona smá óörugg yfir þessu öllu saman en það eltist fljótt af mér! Lónsballið var hápunktur sumarsins og maður sá til þess að vera heima þá helgi. Glætan að maður færi með foreldrum sínum í eitthvað ferðalag þá helgi, sem mig minnir hafi verið um miðjan júlí. Svona í dag man ég svo sem ekkert hvað var svona skemmtilegt við þessi böll en kannski af því þetta var útiball gerði Lónball miklu skemmtilegra en flest önnur böll.

Já Höfn var skemmtilegur bær að búa í á þessum tíma. Auðvitað sem fullorðin sé ég að ýmislegt hefði mátt vera öðruvísi. Unglingar á Höfn fóru flest að drekka snemma og sum reykja en sem betur fer höfum við nú öll spjarað okkur bara þokkalega þrátt fyrir það. Kannski afþví að það voru aldrei nein eiturlyf í umferð á þessum tíma sem minn aldurshópur hafði aðgengi að eða áhuga á.

Það var alltaf sól þessi sumur. Skrýtið hvað veðráttan hefur breyst!

Þetta var nú langt blogg en ég fór bara að muna svo mikið sem var alveg gleymt. Hollt að hræra aðeins í heilagumsinu öðru hverju. Hér er eitt lag frá þessum tíma. Varstu búin að gleyma þessu lagi? Ég líka - en það rifjaðist upp við þessi skrif. Talandi um að muna texta!



Góða helgi.

18.2.12

Ótengd!

Vaknaði í gærmorgun og komst að því að internetið, sjónvarpið og síminn virkuðu ekki. Hringdi fyrirtækið sem við kaupum þessa þjónustu af. Strengurinn í sundur og vissu ekki hvenær það yrði komið í lag. Ég var eitthvað slöpp í gær og var heima frá vinnu og var semsagt hérna heima allann daginn án þessara þörfu þjóna. Ég fór að hugsa með mér hvað við eiginlega gerðum hérna í den áður en við fengum allt þetta. Það er nú ekki svo langt síðan að það var bara sjónvarp á kvöldin, og það er nú heldur ekki ýkja langt síðan að maður fékk internet. Þegar við fengum okkar fyrsta modem þá borgaði maður fyrir þann tíma sem maður notaði svo að maður var ekki beint að hanga á netinu enda fátækur námsmaður. Núna er maður alltaf tengdur, kemst á netið með símanum og líka sjónvarpinu. Maður er orðin alveg fáránlega háður því að vera tengdur. Maður er líka orðin háður því að þurfa að hugsa minna en áður. Man þegar maður sat og horfði á eitthvað í sjónvarpinu og sagði "hvar hef ég séð þennan leikara áður, í hverju hefur hann aftur leikið" svo þurfti maður að hugsa og spá og spekúlera þangað til maður mundi það. Stundum gátu liðið nokkrir dagar. Núna googlar maður bara allt. Þarf ekkert að reyna að muna neitt, það er bara googlað. En semsagt þá lifi ég af heilan dag heima hjá mér ótengd. Ekkert mál í sumarbústað en heima þá verður maður eitthvað svo órórlegur yfir þessu. Og það er ekki eins og ég hangi og glápi á sjónvarpið alla daga eða hangi í tölvunni sem ég geri að vísu meira en yfir sjónvarpi. Það er að ekki hafa möguleikan á að geta þetta sem alveg fór með mig. Og mikil ósköp ég náði að gera heima í staðinn, tók til í tveim kommóðum og þvoði baðið. Seinni partinn þegar heilsan var farin að batna fór ég meira að segja í lítinn túr á gönguskíðunum. Kom semsagt miklu meira í verk en hefði ég haft netið og sjónvarpið.

Annars er vetrarfríið hér byrjað og mamma er að koma á eftir. Verður í viku, ég verð að vísu ekki í fríi allann tímann en tek nokkra daga. Verður gaman hjá okkur að fá hana.

Þetta lag minnir mig um humarsumar,partý og stuð á Höfn þegar verbúðirnar voru fullar af fólki. Það var svo gaman á Höfn á þessum tíma. Fullt af unglingum úti á kvöldinn. Humarsalurinn fullur af unglingum bæði heimamönnum og utanbæjar. Kiddi að skammast í manni þegar maður var óþekkur (sem ég stundum var). Eignaðist marga góða vini sem bjuggu hér og þar á landinu. Á meira segja eina vinkonu í dag frá þeim tíma. Hana Björk sem er núna gift Geir á Reyðará. Ljúfir tímar.



Góða helgi.

10.2.12

Vonderfúl.

Ókeypis uppskrift handa vinum mínum í blogginu!

Vonderfúl kjúklingaspjót með salthnetum

Kjúklingabringur í strimlum, ekki hafa þá allt of þunna því þá verða þeir þurrir.

Marinering/sósa:
Ca 3 dl olía
1 dl sæt soyasósa
1 ss karrý
Engifer rifið, eftir smekk.
saft af 1 lime
1 stórt hakkað chili
1 hvítlauksrif
1 stór poki salthnetur

Kvöldið fyrir át eða snemma sama morgun:

Hneturnar blendaðar í blender svo að sumar séu nánast heilar og hinar ekki eins heilar. Restinni blandað við og látið standa yfir nótt eða marga tíma.

3 tímum fyrir át: Kjúklingurinn settur í marineringuna og látin liggja í henni.

Eftir 3 tíma. Ofninn settur á 200 og spjótinn inn þegar hann er heitur. Snúðið eftir ca 10 mín. Látið vera í ofninun ca 20-25 mín. Restin av sósunni helt yfir síðustu 5 mínúturnar.

Étið með gleði og ánægju. Bon apetit!

Farin til Svíþjóðar í hytta mí.

Vá hvað er langt síðan ég heyrði þetta lag.



Gæða helgi.

p.s Hvað finnst þér um nýja bloggið mitt?

3.2.12

Drullukuldi

Maður er svo fljótur að gleyma. Í fyrravetur var 20 stiga frost daglegt brauð. Í vetur er búið að vera svo hlýtt(svona miða við) að í dag þegar var 19 stiga frost hélt ég hreinlega að ég myndi farast úr kulda. Horið hreinlega fraus. Það er skíðadagur hjá báðum börnunum í dag. BRRRR. Fegin að ég vinn inni.

Verð nú bara að minnast á hvað hann sonur minn er duglegur að redda sér. Venjulega hafa þeir vinirnir farið í brekkuna saman en síðasta föstudag voru allir uppteknir og hann ákvað að fara bara einn á snowboard(ég veit að það heitir snjóbretti eða brett en engin segir það!). Hann dreif sig einn út og var í brekkunni í fleiri tíma. Kynntist þar strák og daginn eftir ákváðu þeir að fara saman. Aldrei hist áður. Í gær dreif hann sig aftur einn í brekkuna. Mér finnst það frábært að hann sé svona opin og finnist lítið mál að gera hluti einn.

Er að fara í partý í kvöld. Maður er bara alltaf á djamminu. Eða þannig. En ég hefði nú viljað vera á Íslandi þessa helgi og fagna henni Guggu vinkonu minni en það er ekki allt hægt. Djamma með henni í anda annað kvöld.

Við höldum okkur áfram í íslensku deildinni. Man einhver eftir þessu. Ekki búin að heyra þetta lag í fleiri áratugi - sem betur fer. En er ekki alveg magnað að maður man texta fram í rauðan dauðann. Góða skemmtun.



Gæða helgi.