21.12.12

smá jólastress

Sumir dagar eru erfiðari en aðrir. Gærdagurinn var einn slíkur. Byrjaði á að ég átti tíma hjá kírópraktor klukkan 9. Ég mætti á réttum tíma því ég er með eindæmum stundvís kona, þegar ég var búin að sitja þar í 25 mínútur og klukkan að verða hálf 10 fór ég í móttökuna og spurði þar hvort hann væri ekki örugglega mættur til vinnu. Jú hann var nú það en voða seinn. Ég varð því miður að sleppa tímanum því ég átti að fara til læknis klukkan 10 og þurfti að koma við heima fyrst.

Ég var mætt til læknisins á réttum tíma og spurði hvort það væru seinkanir, nei nei ég var fyrsti sjúklingurinn. Eftir að hafa setið þar í að verða hálftíma fór ég í móttökuna og spurði hvort læknirinn væri ekki örugglega mættur í vinnu. Konan í móttökunni hringdi í lækninn sem var þá rétt að renna í bílastæðið. Kommon. Maður mætir ekki í vinnuna hálftíma eftir að fyrsti sjúklingurinn á að vera inni. Ég ákvað að segja eins og væri að þetta þætti mér bara alls ekki í lagi að koma svona seint og allt það og þetta var stutt heimsókn. Fékk allavegna lyfseðil og dreif mig í apótekið. Þar inni var um 20 manns og allt ellilífeyrisþegar, ekki þessir ungu og spræku en þessir sem eru um áttrætt og yfir.

Ég var orðin svo sein í vinnuna að ég ákvað að fara í annað apótek. Fór þangað, smá spölur að ganga, fyrst í gegnum verslunarmiðstöð og svo smá spotti úti. Ég hljóp þangað, klædd eins og eskimói í pelskápu og ull innst sem yst svo að ég var létt heit þegar ég kom þangað. Það apótek átti ekki þetta lyf!! Ég var búin að fylla innkaupakörfu með vítamínum og plástrum og jólagjöfum og varð nú pínu uppgefin en brosti eins og mér einni er lagið og sagði ok hvenær get ég náð í þetta? Á morgun var svarið og fyrst þú tekur þessu svona vel þá færðu allt sem þú ætlar að kaupa á 50 % afslætti. Mikið gladdi það mitt jólahjarta að fá svona gjöf svo ég þakkaði pent fyrir mig og sagði að ég næði í lyfið á morgun. Svo hljóp ég tilbaka að bílnum mínum og í því að ég var að hendast inn í bílinn hringir síminn. Apótekið. Ég hafði gleymt visakortinu mínu þar. Ég hljóp tilbaka náði í kortið og hljóp aftur tilbaka að bílnum. Orðin frekar sveitt og ég sem var að fara út eftir vinnu að hitta vinkonur og borða og hafa það gaman og sveitt delux. En klukkan orðin rúmlega hálf 12 og ég ekki enn komin í vinnuna, ákvað að keyra hraðbrautina þangað (sem ég helst ekki geri því mér leiðist að keyra hratt) og haldið þið að það hafi ekki verið bílaröð helvítis alla leiðina í vinnuna. Mjakaðist ekki fjanda á 20 mínútum.

Mætti í vinnuna AAAAlt of sein og að sjálfsögðu var serverinn niðri nánast allan daginn og ekkert hægt að gera og jólin að koma og auglýsingar þurftu að komast í prent og læti. Frábær vinnudagur, stress dauðans.

Fór svo út eftir vinnu og hafði það gaman.  Þegar ég ætlaði heim tókst mér að fara inn í vitlausa lest, lest sem keyrir bara einu sinni á klukkutíma og fer í þveröfuga átt við þar sem ég bý. Það voru einhver ónot í mér þegar ég henti mér inn í lestina en hafði ekki tíma að sinna þeim ónotum því þeir voru alveg að fara að loka dyrunum (kemur svona píphljóð). Á síðasta pípinu rann það upp fyrir mér hvaða ónot þetta voru og það rann upp fyrir mér hvað  eiginlega stóð á lestinni og náði að henda mér út rétt áður en hurðirnar lokuðust. Ég semsagt hljóp inn í lestina, inn í vagninn og í gegnum allan vagninng og út um næstu dyr. Tók nanósekúndu fyrir mig að hlaupa þetta! Hefði ég farið með þessari lest hefði það getað tekið mig fleiri tíma að koma mér heim aftur. Átti að taka Kongsberg lestina en var í Kongsvingerlestinni. Smá líkt en samt ekki!

Ogs svo eru piparkökurnar í ár hjá mér svartar! Lovlí.

Jæja þetta var jólastress saga ársins. Versegúð.

Jólalagið er norskt. Fallegt.



Næsta blogg á trúlega eftir að fjalla um fjölgun í fjölskyldunni okkar og pælingar um það.

Gleðileg jól og farsælt komandi ár.

7.12.12

Bestustu jólagjafirnar í ár.

Haldið þið að ég hafi ekki gengið inn um útganginn í Ikea í gær. Manni er stundum ekki viðbjargandi! En nóg um það, best að demba sér í jólin.

Ef það hefur farið fram hjá þér þá eru jólin að koma.  Það er alltaf sama sagan á hverju ári að það situr fólk út um allt land og ef ekki heim og veltir fyrir sér hvað það á að gefa vinum og ættingjum í jólagjöf. Kannski eru sumir svo skipulagðir að þeir gera jólagjafalista sem er geymdur svo að maður getur fylgst með hvað maður hefur gefið fólki í gegnum árin og passar þannig upp á að maður gefi ekki það sama ár eftir ár. Hef lent í því sjálf, sama manneskjan fékk ilmkerti mörg jól í röð. Ekki sjarmerandi! Og afþví mér er svo annt um annað fólk vill ég hér með þessu bloggi hjálpa þeim sem eru enn ekki búnir að kaupa jólagjafirnar og gefa ykkur góðar hugmyndir að frumlegum og nýtilegum gjöfum sem fólk trúlega ekki á fyrir.

 1. Handa eiginmanninum.
Er eitthvað skemmtilegra fyrir eiginmannin en að  spranga um í þessum náttslopp á jóladagsmorgun og segja "may the force be with you" ? Þessi sloppur er uppspretta endalausrar barnslegrar gleði fyrir fullorðna mannin sem alltaf langaði að vera einn af Jediunum og vera í klíkunni hans Obi-Wan Kenobi. Og svo er hægt að nota sloppin sem baðkápu á sumrin og fara á ströndina og láta hina mennina verða öfundsjúka yfir stælnum á húsbandinu. Eðalgjöf finnst mér.

2. Unglingssonurinn
Hvað er betra í kuldanum en að vera heitt. Allstaðar. Þetta fína skegg/flískragi kemur í mismunandi litum en án gleraugna svo að maður þarf ekki að stunda skíðaíþróttir til að geta notað þetta skegg. Þetta er sérlega hentugt fyrir unglinginn með lítin eða engan skeggvöxt. Bústar sjálfsmyndina og heldur þér heitum á sama tíma. Þetta ætla ég klárlega að gefa syni mínum í ár.

3. Fyrir húsmóðurina


Hvað er betra en að geta verið hrein hvert sem þú ferð og ekki minnst hvenær sem er? Að geta skroppið í þína eigin sturtu þar sem engin er að berja á baðherbergishurðina afþví einhver krakkarass þarf að kúka. Óþolandi pirrandi. En nú er málið leyst. Þín eign ferðasturta. Er kannski best utandyra en mér finnst ekki málið að redda sér buslulaug sem hægt er að blása upp og rúmar smá slatta af vatni sem hægt er að standa í  þegar maður sturtar sig innandyra. Svona langar mér allavegna í!

4. Heimasætan


Svefnpoki og útigalli í sömu flík. Er því miður uppseld í bleiku í ár en kemur fyrir næstu jól í bæði bleiku og fjólubláu. Hér er ekkert vesen. Er dóttirin að fara að gista hjá vinkonunni en fyrst ætla þær að fara á skíði eða að renna sér? Nú þarf hún ekki að drösla með sér tösku. Stingur bara tannburstanum í vasan og svo er hún tilbúin fyrir helgina. Sneðugt.

Vona að þið hafið fengið smá innblástur hér og að þessar ljómandi fínu gjafir verði undir ykkar tré í ár.

Jólatónlist alltaf vinsæl í desember. Því þjóðlegri því betra.



Góðar aðventustundir frá henni sem átti afmæli í vikunni og varð eldri!

23.11.12

Lítil ferðasaga frá annari heimsálfu

Sorrý að ég hef ekki skrifað svo mikið undanfarið. Hefur einhvernvegin gleymst eða svo hef ég ekki verið heima. Var nefninlega í henni Afríkunni.Suðurhlutanum til að vera nákvæm. Og það get ég svarið að var ein besta ferð sem ég hef farið í. Það er svo ótrúlega fallegt þarna að maður á varla orð.Og yndislegt fólk, fyrir utan glæpamennina að sjálfsögðu en ég hitti enga sem betur fer.



Við fórum 16 saman, foreldrar JC, systur, þeirra makar og börn. Við komum til S-Afríku á föstudagsmorgni eftir næstum sólarhrings ferðalag. Við gistum á stað sem heitir Gordons Bay og er lítill baðstrandarbær ca 45 mín frá Cape Town. Við bjuggum á guesthouse þar sem við vorum nánast einu gestirnir. Eitt þýskt par var þar líka og ekki öfundaði ég þau því við tókum smá pláss. Á laugardagsmorgun var okkur stelpunum á öllum aldri keyrt á eitthvað lúxushótel þar sem við eyddum deginum við sundlaugina og létum snyrta hendur og fætur. Algjört dekur. Um kvöldið var stórveilsa í tilefni gullbrúðkaups tengdó. Veislan var haldin á veitingarstað sem er á stórum winefarm! Fengum rosa góðan mat og allt var mjög grand.



Sunnudagurinn var tekin rólega. Mánudagsmorgun kl 7 lögðum við af stað í Safarípark sem er ca 200 km frá gistiheimilinu. Þetta var rúmlega 3. tíma ferð og ég verð að viðurkenna að mér kveið smá fyrir að keyra svona ein langt inn í land en þær áhyggjur reyndust vera óþarfar. Rosa góðir vegir, breiðar hraðbrautir og vel merkt allt saman. Það var rosalega gaman að keyra þetta því það var svo mikið fallegt að sjá. Síðasti hálftíminn var á malarvegi án símasambands svo að við vorum fegin að bílinn veiktist ekki á þeim kaflanum. Safarígarðurinn var rosa fínn, keyrðum á opnum jeppum um risa svæði þar sem stóru dýrin búa. Safarípark er einskonar dýragarður bara miklu stærri. Dýrin veiða sér ekki til matar sjálf en eru samt það villt að þau eru ekkert að hanga þar sem fólk er svo að við keyrðum í 2 og 1/2 tíma og skoðuðum öll dýrin í garðinum fyrir utan nashyrninginn. Þeir földu sig og vel. Á heimleiðinni stoppuðum við á fleiri vínekrum og smökkuðum vín og keyptum til að taka með okkur heim.



Hinum dögunum eyddum við í að skoða svæðið. Keyrðum meðfram ströndinni og fundum rosalega fallegan stað með sjólaug við ströndina. Það er ekki hægt að synda í sjónum þarna svo að það eru byggðar sjólaugar sem eru miklu öryggari. Fórum til Simonstown sem er ein elsta byggð í S-A þar sem mörgæsir búa á ströndinni. Fórum líka til Capepoint sem er ysti punkturinn þarna og er rosalega flott rokrassgat þar sem hægt er að rekast á bavíana. Við gerðum það að vísu ekki.

Svo eyddum við 3 dögum í Cape town þar sem við túristuðumst fullt, borðuðum góðan mat og höfðum það gott. Verðlagið þar kom mér á óvart. Ódýrt miða við Noreg en dýrt miða við laun í S-A.

Það eina sem mér fannst erfitt í þessari ferð var að keyra framhjá svokölluðum township sem eru fátækrarhverfin. Risa stór svæði með kofum þar sem flestir íbúar eru svartir. Sumstaðar er ekki rafmagn eða vatn. Maður sá útiklósett standa í röðum við göturnar. Það var bændaverkfall þegar við vorum þar en bændur þéna 55 krónur norskar á dag! Og mjólkin í S-A er ekki svo mikið ódýrari en mjólkin í Svíþjóð. Munurinn milli ríkra og fátækra er stærri en maður er vanur hér í la la land sem norðurlöndin eru miða við Afríkulönd og mörg önnur lönd í heiminum. Sonur minn var orðin frekar leiður á mömmu sinni sem fannst mikilvægt að hann horfði á þetta fólk sem býr þarna og á sama tíma finndi fyrir þakklæti að eiga svo mikið og hafa það svo gott. Náði ekki alveg eins mikið í gegn og ég vildi. Sé eiginlega eftir að ekki hafa heimsótt township en það er boðið upp á ferðir þangað þar sem maður á möguleika á að hjálpa til. Vorum bara aðeins og stutt og vorum aðeins of mörg til að þetta var hægt í þessari ferð.

En allavegna þá var þetta mikil upplifun og get mælt með að fara þangað.

Hvað er meira við hæfi?



Góða helgi.

26.10.12

Ættjarðarljóð

Þó þú langförull legðir sérhvert land undir fót,
bera hugur og hjarta samt þíns heimalands mót,
frænka eldfjalls og íshafs sifji árfoss og hvers
dóttir langholts og lyngmós sonur landvers og skers

Yfir heim eða himin hvort sem hugar þín önd,
skreyta fossar og fjallshlíð öll þín framtíðar lönd
Fjarst í eilífðar útsæ vakir eylendan þín
nóttlaus voraldar veröld, þar sem víðsýnið skín.

Það er óskaland íslenskt, sem að yfir þú býr,
aðeins blómgróin björgin, sérhver baldjökull hlýr,
frænka eldfjalls og íshafs sifji árfoss og hvers
dóttir langholts og lyngmós sonur landvers og skers

Eitt af mínum uppáhaldsljóðum, er svo asskoti fallega skrifað. Íslensk tunga getur verið ansi falleg þegar fólk vandar sig. Þetta ljóð má finna í bláu bókinni sem öll börn á Íslandi hafa komist í kynni við.

Bara 2 vikur í Suður Afríku ferðina. Farin að hlakka slatta til.

Hér er annað uppáhaldsljóð úr sömu bláu bókinni. Fallegt og sorglegt.



Later!

12.10.12

Unglingsmóðir

Litla stóra stelpan mín á afmæli um helgina. Hún verður 13 ára. Hún er þá formlega orðin unglingur og ég formlega orðin unglingsmóðir. Há tæm flæs. Í kvöld verður veisla með vinunum og kærastanum. Það er eitthvað óljóst hvort hann veit að þau eru kærustupar en það böggar ekki Sögu neitt. Hún er kærastan hans sama hvað! Núna er ég að fara út í búð og kaupa það síðasta sem vantar fyrir bökun og skreytingu. Svo ætla ég að kaupa handa henni maskara. Hún er búin að bíða lengi og ég var búin að lofa að þegar hún væri orðin unglingur fengi hún að nota maskara þegar hún væri að fara í partý. Og hér verður sko partý svo að maður verður að standa við það sem maður lofar.

Síðustu 13 ár hafa verið auðveld á margan hátt, allavegna auðveldari en ég hélt þegar hún var pínu ponsa og allir sögðu okkur hvað það væri hræðilega erfitt að eiga fatlað barn. Ég ætla ekkert að ljúga og segja að það hafi verið rosa auðvelt þegar hún var yngri og stakk af hverja sekúndu og við urðum að læsa og fela lykilinn alltaf þegar við vorum heima og við hlupum út í eitt og gátum aldrei lokið setningum eða klárað að ræða málin. Nei það var svo sem ekkert auðvelt við það en ég hélt mér grannri og dóttir mín varð sterk af öllum þessum hlaupum. Eftir að hún varð 8 ára fór hún að róast og núna er hún bara hin rólegasta og er alveg einstaklega meðfærileg í ferðalögum. En hún fæddist ekki með hjartagalla eða neitt annað alvarlegt. Hefur eiginlega aldrei verið veik. Fengið í eyrun 1 sinni á æfinni og varla flensu eða neitt. Alltaf verið já barn, ekkert mál að fá hana til að prófa eitthvað nýtt eða gera eitthvað sem henni finnst leiðinlegt. Svo að það verður að viðurkennast að Saga er alveg einstaklega velheppnað eintak. Ekki má gleyma hvað henni gengur vel faglega og svo er hún dugleg að hjálpa til heima. Tæmir uppþvottavélina annan hvern dag, leggur á borð á hverju kvöldi, smyr nestið sitt hvern dag(2 nestispakka), ryksugar þegar hún er beðin um það, tekur til í herberginu sínu og passar alltaf sjálf upp á að vera í hreinum nærfötum og sokkum. Þvær á sér síða hárið og greiðir og vill alltaf vera fín og snyrtilega Geri aðrir betur segi ég nú bara.

Svo er hún á fullu í tómstundum, fer á sundæfingar 2x í viku, fimleika og æfir píanó. Hún er svo köld að hún hoppar af 5 metra brettinu og getur stungið sér af minnst brettinu og gerir allskonar flikkflakk dót af brettinu(mest þegar mamma er ekki að horfa). Engin efi í mínu hjarta að hún eigi eftir að spjara sig seinna.
En hún er semsagt orðin unglingur og það er ekki "bara bara" eins og þeir segja í Noregi. Ó nei. Hormónarnir eru stundum alveg að fara með góða skapið, augun hringhvolfast þegar ég er eitthvað að skifta mér of mikið af og hurðum skellt með stæl. Allt eins og það á að vera. Situr inni í herbergi og æfir sig að mála sig, kemur svo út úr herberginu svo kasmáluð að það hálfa væri nóg og er með dúkku í fanginu. Jamm, unglingur með Downs er ekki alveg venjulegur unglingur. Spennandi tímar framundan.

Hér eru nokkrar myndir af heimasætunni frá í ár.



Næstum aftur búin að gleyma laginu en því MÁ ALDREI GLEYMA! Held að ég hafi haft þetta lag hér áður en þetta er eitt af uppáhaldslögunum hennar Sögu svo að það passar vel núna. Leyfilegt að vera væmin á afmælum.



Góðar stundir.

5.10.12

Matarmúffur - revisited

Þessa uppskrift var að finna á bloggi mínu fyrir nokkrum árum. Er orðin svo leið á því að þurfa að leita það uppi aftur og aftur og ekki drattast ég til að skrifa þetta niður svo voila, hér er sama uppskriftin aftur! Og viti menn, enn jafngóð.


Kjúklinga og hnettu múffupæ.

1 rif hakkaður Hvítlaukur
1 kjúklingabringa í litlum bitum
salt+pipar

Þetta tvent er steikt saman og látið kólna

1 stór Tómatur.

Skorin í litla bita en þetta fljótandi inní tómatnum er ekki látið með.

3 stór egg
1 1/2 bolli mjólk
3/4 bolli hveiti
1 bolli sterkur ostur að eigin vali

2/3 bolli gróft hakkaðar hnetur af eigin vali(ég hef notað valhnetur eða hesilhnetur)
Ferskar kryddjurtir(það sem þú átt) ég hef notað steinselju.


Egg og mjólk blandað vel saman og hveiti bætt út í og blandað saman vel. Saltað og piprað.Osti bætt út í og svo Tómatnum, kjúllanum, hnetum og kryddjurtum.

Muffinsmót(sjá mynd) eru smurð með olíu og gumsinu hellt út í. Bakað við ca 220 gráður í 25-30 mín. Fer eftur stærð formana.



Bara svo að það sé á hreinu þá þarf maður ekkert að nota kjúkling, hægt að nota skinku eða bacon eða bara ekkert kjöt. Og það má alveg skifta tómatnum út með púrru sem er búið að mýkja aðeins í olíu. Og sama með hneturnar, alveg hægt að sleppa þeim og nota kryddjurtir í staðinn. Mér finnst að osturinn sé mikilvægastur, sterkur og góður. Bara hægt að drullumalla þetta alveg eftir eigin lyst og því sem er í ísskápnum.


Góða helgi.

Ó, gleymdi næstum laginu.

28.9.12

Bilað stuð

Heimsókn lokið og allt hlæ hlæið búið í bili. Og það var mikið hlæ hlæ. Mikið var nú gaman að fá þessar brjáluðu konur í heimsókn. Og svo vorum við líka heppnar með veðrið(svona að mestu leiti). Ég komst allavegna að þeirri niðurstöðu eftir þessa heimsókn að H&M fer ekki á hausinn á næstu vikum! Voða finnst mér skrýtið að H&M er ekki á Íslandi. Íslendingar hljóta að vera verslunarglaðasta þjóð heims svo að það ætti ekki að vera neitt mál að opna búð þar. Ef það skildi gerast yrði opnunardagurinn trúlega eins og þjóðhátíð. Yrði svona eins og bjórdagurinn forðum þar sem allavegna við í Kvennó fengum frí fyrstu 2 tímana daginn eftir fyrsta bjórdaginn. Er það nú alveg í lagi ég spyr? En manni fannst þetta nátturulega alveg eðlilegasta mál að menntaskólanemar fengjum frí til að komast yfir verstu þynnkuna. Annars var ég trúlega eina manneskjan í allri stór Reykjavík á bíl þetta kvöldið. Var bílstjórin fyrir Ægi. Drakk ekki bjór og nennti greinilega ekki að vera að drekka neitt annað. Stundum var mér viðbjargandi.

Nú er farið að styttast í Afríkuferðina. Rétt rúmur mánuður og svo verður farið á vit ævintýra í Cape Town. Ég hlakka mest til að komast í hitann því nú verður maður bara að horfast í augu við þá döpru staðreynd að sumarið er búið. Kom kannski aldrei alveg hingað. Við erum búin að panta borð á einum besta veitingarstaðnum í S-Afríku og það verður ekkert smá næs.

Jæja best að fara að vinna. Hlusta á þessa, frábær rödd.



Hev a lovlí helg.

14.9.12

Eftirvænting tilhlökkun og gleði

Eftir 6 daga koma gömlu bestu í heimsókn til mín hingað til Noregs. Þrjár þeirra hafa komið áður en tvær aldrei áður. Vona að Noregur skarti sínu fegursta en það er því miður svoleiðis með veðrið í þessu landi að maður getur aldrei treyst á það. Skil eiginlega ekki afhverju ég ekki bý í Florida eða á öðrum heitum stað. En svona er lífið. Allavegna þá verður gaman að fá þær hingað. Ef það er eitt sem ég get treyst á í þessum heimi þá er það að það er alltaf gaman með þessum stelpukonum. Þær eru bara svoooo skemmtilegar og létt bilaðar eins og vinkonur eiga að vera. Hvernig væri lífið ef maður ætti leiðinlegar vinkonur. Get ekki einu sinni hugsað mér hversu dapur það væri. Nei ég er bara svo fegin að eiga vinkonur sem ég hef þekkt síðan ég var í barnaskóla. Og að þær séu skemmtilegar í þokkabót. Skál fyrir þeim Önnu,Beggu,Ellu,Guggu og Hönnu Siggu.

Var að koma af 3. daga námskeiði í HTML5 og CSS3. Frekar tóm í hausnum eftir þessa daga, ekki lengur vön að forrita svo mikið svo að heilasellurnar fengu algjört áfall yfir því að þurfa að hugsa svona mikið. Ætla að reyna að hugsa sem minnst næstu daga og slaka á. Húsbandið á rjúpu. Hef nú ekki miklar væntingar að fá rjúpu eftir þá ferð því það hefur víst lítið sést til hennar í haust, en hann fór nú samt.

Hvað á betur við núna en ekta girlpower frá liðnum tíma.



Gleðilega helgi

31.8.12

Rugl og vitleysa

Í gær las ég grein á netsíðu sem heitir www.hjernetips.dk. Þetta er eitthvað senter fyrir börn með heilaskaða og þjálfun á þeim. Ekkert að þessari síðu en þar er hægt að lesa um börn sem hafa verið þjálfuð eftir þeim aðferðum sem þessi staður notar og hvernig hefur gengið. Þar var einn drengur með Downs sem hafði verið þjálfaður þar. Þegar hann byrjaði þjálfun gat hann ekki skriðið og skildi fá orð. Eftir árs þjálfun gat hann skriðið 200 metra og skildi fullt af orðum og þar að auki voru Downs einkennin í andliti orðin minni. Það sem pirraði mig alveg geðveikt var að þessi drengur var 6 mánaða þegar þjálfun hófst og þegar þessi grein var skrifuð var orðin 18 mánaða. Sorry en myndi maður ekki halda að þetta væri venjuleg þroskaskref hjá barni? Á milli 6 mánaða og 18 mánaða þroskast börn alveg rosalega mikið. Engin eða allavegna fá börn geta skriðið þegar þau eru 6 mánaða og ekki mörg börn á þeim aldrei geta sýnt hvað þau skilja og ekki skilja af orðum. Og börn breytast mikið í útliti frá 6 mánaða til 18 mánaða og ef þú færð góða þjálfun á þeim vöðvum sem oft eru slappir hjá börnum með DS breytist kannski útlitið smá en þetta barn leit nú samt alveg út fyrir að vera enn með Downs.
Í byrjun greinarinnar var sagt að í staðin fyrir að móðirin skildi barnið eftir við fæðingu á stofnun fyrir heilasködduð börn þá ákvað hún að taka ábyrgð á honum sjálf! Og þetta var skrifað 2011! Sorrý en ég verð svo pirruð að lesa svona. Börn með Downs eru ekki heilasködduð. Þau eru með krómasómgalla sem hefur áhrif á allan þeirra þroska. Það er ekki hægt að finna einhvern stað í heilanum sem er skaddaður og svo þjálfa upp aðra hluta heilans til að taka yfir skaddaða hlutanum. Auðvitað þurfa börn með DS meiri örvun og þjálfun en önnur börn en svona rugl sögur fara bara í taugarnar á mér. Hægt að lesa söguna hér: http://www.hjernetips.dk/index.php?f=2&id=118

Danir hafa alveg einstakt sýn á börnum með Downs. Fór alveg svakalega í taugarnar á mér meðan við bjuggum þar og gerir enn.

Saga og sundhópurinn hennar eru komin með nýja sundkennara. Kona frá Ungverjalandi, 74 ára og búin að kenna börnum sund í 30 ár. Hún hefur aldrei kennt börnum með sérþarfir en fannst þetta spennandi verkefni og er rosa jákvæð. Hún hafði sinn fyrsta tíma á mánudaginn og náði rosa vel til barnana strax. Annars erum við búin að vera að spá í smá tíma að láta Sögu prufa að æfa sund með venjulegum börnum. Hún er orðin það góð að synda, stingur sér af bretti og hoppar frá 5 metra brettinu svo að hún myndi kannski ná betri árángri að synda með krökkum sem kunna meira en hún. Hún og Emilie vinkona hennar eru áberandi bestar af hópnum og nýji kennarinn ýtti meira undir þessar pælingar okkar þegar hún sagði að þær stöllur hafa alla burði til að verða góðir sundmenn(konur!).Við sjáum til eftir jól,núna ætlum við bara að sjá hvað hún lærir af þeirri ungversku.

Jæja farin upp í bústað.



Góða helgi.

24.8.12

Morðsaga

Morning! Bloggpásan búin í bili. Sumarfríið lööööngu búið og þessi litla sumarbrúnka sem kom orðin ansi ósýnileg. Axlirnar komnar upp undir eyrnasnepla að vanda og aðrir fastir liðir komnir vel í gírinn. Semsagt hversdagsleikinn tekin við með pompi og prakt. Ekkert breyst nema eitt. Ég er búin að fremja mitt fyrsta morð. Sagan sem hér fer á eftir er algjört leyndó því þetta er bannað gegn lögum svo að ég gæti verið handtekin og eytt restinni af ævinni í fangelsi eða einhverju öðru verra.

Veit ekki hvort það hafi komið fram á þessu bloggi fyrir sumarið að höggormar hafa unað sér vel á lóðinni okkar uppi í bústað í fleiri fleiri ár. Frá í vor erum við búin að sjá þó nokkra slíka. Baltasar synti við hliðina á einum í eitt skifti í sumar. Aldrei séð son minn synda eins hratt. Ekki skemmtileg upplifun. Sama dag fór rafmagnið, síminn minn með tóm batterí, húsbandið með bílinn í Noregi og sonurinn, eftir höggormasundið steig á naglamottu sem fór í gegn um skóna hans og blæddi vel. Eins gott að hann slasaði sig ekki mikið á þessu brölti, hefðum hvorki getað hringt í lækni ná komið okkur til læknis.En þetta var nú algjör útúrdúr.

Jæja allavegna - þá vorum við hjónin uppi í bústað síðustu helgi, barnlaus og kósí og vorum að versla bryggjuhúsgögn. Húsbandið ákvað að skreppa í sturtu og á meðan ætlaði ég að njóta lífsins úti og vafra aðeins um lóðina. Uppi á klöpp, stutt frá morgunverðarplássinu okkar lá þessi digri höggormur og horfði á mig grimmdar augum. Ég var ekki viss hvort hann væri að reyna að dáleiða mig svo að ég leit undan og bakkaði eins hægt og ég gat. Gargaði svo á húsbandið sem var sem betur fer með opin glugga og spurði hvað ég ætti að gera núna? Drepa kvikindið svaraði húsbandið. Ég, eins snör og Jón spæó náði í bláu skófluna mína og tiplaði á tánum til baka að dýrinu. Þarna lá hann enn alsæll með lífið(því þetta var karlhöggormur), leit aftur á mig með þessum stóru grimmu augum og gapti eins og slöngum einum er lagið. Höggtennurnar blöstu við mér risastórar og ég sá eitrið djúpa á klöppina. Ég hóf skófluna á loft og hjó með öllum mínum krafti á höggorminn sem á einni sekúndu varð höfuðlaus. Helvítis kvikindið fór allt á ið og mér varð svo um að sjá þessa höfuðlaususu skeppnu hreyfast svona mikið án höfuðs að ég hjó aftur og gargaði af öllum lífs og sálarkröftum. Það var hið eina og sanna frumóp. Ég fann fyrir veiðimanninum í sjálfri mér og lyfti skóflunni aftur yfir höfuð á mér og lagðist á hnén meðan ég gargaði frá iðrum sálar minnar. Ég gargaði í um það bil 35 mínútur og svo fláði ég orminn og nýtti og núna er hann orðin hið fínasta armband!

Ok þetta voru kannski smá ýkjur. Mikla ýkjur til að vera hreinskilin. Eiginlega öll sagan fyrir utan það að ég hjó hausin af honum og panikaði þegar hann fór að hreifa sig hauslaus og ég var með samviskubit það sem eftir var dags! Höggormar eru með svo litla hausa að maður sér varla augun og varla tennurnar heldur!! En stundum verður maður að skreyta sögur smá svo að þær séu áhugaverðar. Ekki satt?? En húsbandinu varð á orði að hann hefði aldrei haldið að ég væri fær um að gera svona svo að það er ekki alslæmt að geta enn komið á óvart eftir 18 ára samband. Kannski áhyggjuefni þó að það sé tengt dýramorði?

Njótið.


Gleðilega helgi.

10.8.12

Ekki enn alveg búin að ákveða mig

hvort ég ætla að halda áfram að blogga eða ekki. En á meðan ég er að hugsa þetta rækilega held ég samt áfram með föstudagslagið. Alltaf gaman að hlusta á góða tónlist.

Við mæðgur ætlum að hafa stelpukvöld í kvöld, strákarnir á fótbolltamóti. Diskó er alveg ómissandi þáttur á stelpukvöldum svo gerið svo vel...



Góða helgi

22.6.12

:´-(

Barnaskólinn var kvaddur í gær. Ég keyrði Söguna mína grátandi heim og hún hélt áfram að gráta þegar hún kom heim. Lokahófið fyrir 7. bekk var á miðvikudagskvöldið. Fín veisla með góðum mat og mikið af ræðum. Ein af stelpunum hélt ræðu, hún grét svo mikið að allir í veislunni voru farnir að gráta. Börn og fullorðnir. Múggrátur hreinlega. Í gær var svo sameiginlegur hádegisverður fyrir allan 7. bekk og þeim veisluhöldunum lauk með að 6. bekkur færði 7. bekk blöðrur sem var sleppt og þar með var barnaskólagöngunni lokið. Mikill grátur fylgdi þar á eftir, svona hjá stelpunum aðalega. Það er alltaf erfitt að kveðja. En svona er lífið. Einum kafla lokið og nýr hefst með nýjum tækifærum. Okkur er búin að líða vel í þessum skóla, mér sem foreldri og Sögu sem nema og ég er alveg viss um að nýji skólinn verður okkur líka góður.

Og ekki getum við grátið liðna tíð lengi því nú er komið að því. SUMARFRÍIÐ ER BYRJAÐ. JIBBÍ. Fer til Íslands á sunnudaginn og Hafnar á Þriðjudaginn. Tvær vikur á gamla landinu og svo 3 vikur uppi í bústað. Fimm heilar vikur þangað til ég fer aftur að vinna. Det er bare dejlig.

Í tilefni til að það er komið sumarfrí valdi ég þessi stuðlög fyrir ykkur að dansa inn í nóttina með. Fer alltaf í sumarskap þegar ég heyri þau.






Gott sumar. Heyrumst kannski eftir sumarið.

8.6.12

Gaggó vest...

eða kannski verður það gaggó best? Saga er að klára barnaskóla núna í sumar. Við höfum alltaf verið rosa ánægð með skólann hennar en sjáum að núna er tíminn komin til að hún skifti um skóla. Komin tími til að hún fari í skóla þar sem allir eru eins og hún. Pínu öðruvísi. Unglingsárin eru ekki tíminn til að finna fyrir hvað maður er öðruvísi. Og það gildir alla, ekki bara þá sem eru með þroskafrávik.

Saga er búin að læra rosalega mikið á því að ganga í venjulegum skóla og ég hef aldrei séð eftir þeirri ákvörðun. Verð alveg að viðurkenna að mér kvíður fyrir því að hún sé alfarin inn í sérskólann. Saga er ekkert sérstaklega krítísk, hún hermir eftir öllum sem henni finnast fyndnir, kúl eða eitthvað annað. Að ganga í venjlegum skóla hefur kennt henni að viss hegðun er ekki æskileg og við höfum alltaf gert þært kröfur til hennar að hún hagi sér vel. Ekki það að hún geri það alltaf en við búumst heldur ekki við því. En okkur finnst mikilvægt að hún fá ekki neinn frímiða á hegðun bara af því hún er með Downs. Núna er ég smá hrædd um að hegðun hennar eigi eftir að breytast. Sé það þegar ég er uppi á Haug, sem er sérskólinn að þau sem vinna þar eru stundum frekar slök á að aga börnin. Ég er þeirra skoðunnar að það eigi að gera kröfur um góða hegðu hjá öllum, eftir getu og skilningi að sjálfsögu. Allt of oft sé ég börn sem eru sko ekkert vitlaus en haga sér eins og þau séu það. Kannski afþví að foreldrarnir vorkenna barninu og vilja vera góð við það og leyfa allt. Mér finnst persónulega að það sé ekki að vera góður við barnið sitt. Öll börn verða fullorðin einn góðan veðurdag og þá er pínu seint að fara að hugsa um að barnið hafi tamið sér hegðun sem ekki er æskileg í okkar samfélagi. Vinkona Sögu, líka með DS er alltaf að setjast í fangið hjá fólki. Bæði fólki sem hún þekkir og fólki sem hún hefur aldrei séð áður. Hún talar lítið og illa og því erfitt fyrir fólk að skilja hana. Fæstir segja nei við hana eða benda henni á að svona geri maður ekki. Foreldrarnir gera það aldrei, þau yppa bara öxlum og brosa. Sorrý, ekki fyndið að sjá 13 ára stelpu gera svona. Hún er bæði læs og skrifandi og ég veit fullvel að hún getur lært svo að það er engin ástæða fyri því að ekki kenna henni að þessi hegðun er ekki æskileg. Hún og öll okkar börn eiga eftir að lifa í venjulegu samfélagi líka sem fullorðið fólk. Sum hegðun fylgir fötlun og svoleiðis er það bara en sum hegðun er agaleysi. Og það finnst mér ekki gaman að sjá.

En ég ætlaði nú ekkert að fara að ræða hegðun neitt, það bara kom. Því það er annað sem ég hef smá áhyggjur af líka. Fékk að vita með hvaða krökkum Saga á eftir að vera með í bekk og þar en enginn sem er sterkari faglega eða félagslega en hún. Ein stelpa sem er á svipuðu reki faglega og með betri málþroska en engin fyrir utan það. Við óskuðum eftir bekk þar sem það væri til staðar að það væru fleira en eitt barn sem væri faglegra sterkara en hún en einhverra hluta vegna hafa þau skipað í bekki núna eftir fötlun. Varð pínu fúl en við verðum bara að fylgjast þeim betur með næsta skólaárið. Eitthvað sem við höfum ekki þurft að hafa áhyggjur af í barnaskóla. Saga hefur verið með frábæran kennara allan barnaskólann sem hefur alltaf gert kröfur til hennar og uppskorið árángri eftir því. Í vetur hefur Saga verið 2 daga á Haug og 3 daga í sínum skóla til að undirbúa hana undir skólaskiftin. Eina vikuna í vetur var lestrarvika á Haug(sérskólanum) og þar fékk Saga lítið hefti með einni setningu á hverri blaðsíðu sem hún átti að lesa. Heima var hún að lesa Litli bróðir og Stúfur eftir Ann Cath Vestly! Þetta held ég að sé mjög algengt í skólum. Að kennarar og annað fagfólk haldi að krakkarnir okkar geti ekki lært neitt að ráði því þau eru fötluð og gera þar af leiðandi kröfur eftir því. Algjör misskilningur. Allir geta lært eitthvað og svo lengi maður hefur ekki prófað og séð hvað barnið getur náð langt er maður ekki að reyna í alvörunni.

En svona til að oppsúmmera eins og maður segir á góðri norsku þá held ég að þessi skólaskifti það verði af því góða fyrir Sögu. Þrátt fyrir áhyggjur móður verður fínt fyrir hana að komast í stuðið á Haug, alla vinina, kærastana, ástarsorgirnar og allan félagsskapinn sem skólinn á eftir að upp á að bjóða.

Jæja pæja varð þetta ekki lengra en erfðarsyndin sjálf. Stundum skrúfast fyrir skrif-kranann. það var semsagt í dag.


Varstu búin að gleyma þessu lagi? Mí tú.



Have a very nice weekend dear.

1.6.12

Ferðalög

ÉG ER AÐ FARA TIL SUÐUR AFRÍKU Í NOVEMBER!!!

Vikuferð sem er í boði tengdó. Þau eiga gullbrúðkaupsafmæli og bjóða öllum börnum og barnabörnum í aðra heimsálfu í heila viku. Næs segi ég bara. Búum á litlu pensjónati 100 metra frá ströndinni í baðstrandarbæ 30 mínútum frá Cape Town. Ferðin hefst 8 nóvember, á brúðkaupsafmæli okkar hjóna. Tengdó eiga brúðkaupsafmæli 2 dögum eftir. Nóvember er venjulega alveg hundleiðinlegur mánuður með skítaveðri svo að það verður ekkert smá ljúft að komast í vorhitann í Suður Afríku þegar allt er kallt og dimmt heima. Þessar myndir eru frá bænum sem við búum í.




Svo þegar þessi ferð er búin er planið að koma til Íslands um jólin. Erum samt ekki alveg komin með það á hreint, fer smá eftir flugmiðaverði. Sumarbústaðurinn tekur smá í budduna þessa dagana eins og við mátti búast. Fengum nett sjokk þegar rafmagnsreikingurinn fyrir vetur-vor kom svo að við sjáum okkur ekki annað fært en að kaupa nýja ofna í allt húsið. Þessir gömlu eyða ruglaðslega miklum pening. Eins og sjá má á næstu mynd þarf maður samt ekki að fara til S-Afríku til að fá sól. Var algjör Mallorca blíða síðustu helgi upp í bústað svo að yours truly var úti að vinna á bikiní. Og gúmmístígvélum!!! Og heimasætan sólaði sig eins og sjá má.

Jæja er rokin á íþróttamót með heimasætunni. Sundmót í kvöld og 100m og 400m hlaup á morgun. Svo er bara rétt rúm vika í að einkasonurinn kemur til Íslands. Fyrsta skifti einn í flugi:-s

Lag vikunar er um S-Afríku og ástandið eins og það var undir Apartheit. Sem betur fer er það liðin tíð en þetta er nú samt gott lag þrátt fyrir það og fyrst ég er í smá Afríkuskapi svo fannst mér þetta lag viðeigandi.



Gleðilega helgi.

25.5.12

Kvikmyndagagnrýni!

Ef þú hefur ekki séð kvikmyndirnar Country Strong med Gwyneth Paltrow, eða Buried með Ryan Reinolds og þér langar rosa að sjá þessar myndir EKKI lesa meira.

Um daginn sá ég mynd sem heitir Country Strong. Hún fjallar um fræga kántrí söngkonu sem er í meðferð - í x. skifti. Kallinn hennar nær í hana viku of snemma úr meðferð, hún öll voða brothætt en samt sem áður fara þau í stóra comeback tónleikaferð þar sem henni mistekst aftur og aftur að halda tónleika. Fyrir utan þetta fylgjumst við með ungu fólki sem er að byrja sinn kántríferil og sjáum hvernig þau verða ástfangin. Voða kjút. Myndinni líkur með að frægu stjörnunni tekst að klára síðustu tónleikana í ferðinni með glans og svo fer hún inn í búningsklefa og fremur sjálfsmorð !!!

HALLÓ, afhverju býr maður til mynd sem er bara eymd og volæði frá byrjun til enda. Engin von, bara dauði og pína. Sorrý en ég skil ekki svona. Afherju gat hún ekki bara klárað þessa tónleika svo the end. Svo að maður hefði kannski haldið að hún gæti rétt sig við og fundið sig sjálfa upp á nýtt. Og það fólk sem er bölsýnt að eðlisfari myndi þá komast að þeirri niðurstöðu að hún myndi drepa sig í lokin. Miklu betra fyrir sálartetrið.Gef myndinni 3 stjörnur af 6 mögulegum. Mest fyrir sæta kábbojann sem sem fær ástina sína í lokin.

Svo sá ég aðra mynd. Buried. Hún fjallar um mann sem er rænt af einhverjum hryðjuverkamönnum. Þeir grafa hann niður í jörðina í kistu. Hann er ofan í þessari kistu alla myndina, alveg að kafna. Jörð fer að sígast inn í kistuna og hann er alveg að drepast úr innilokunarkennd og ótta. Svo upphefst rosa kapphlaup milli vondu kallana og góðu kallana í von um að góðu kallarnir finni hann áður en hann kafnar og deyr. Og viti menn, haldið ekki að kappin kafni og deyji áður en þeir finni hann.

HALLÓ AFTUR! Eyddi ég í alvörunni 95 mínútum af mínu lífi með innilokunarkennd allan tíman bara til að sjá aðalhetjuna deyja. Disappointed!. Gef þessari myndi mínus 2 stjörnur af 6 mögulegum!

Ég verð að viðurkenna geri þær kröfur til enskra kvikmynda að í þeim sé alltaf snefill að sósíal realisma(fyrir utan Monty Python myndir að vísu). Ég geri EKKI sömu kröfur til amerískra kvikmynda - nema þær séu í brúntónum. Ef eru glaðir og bjartir litir í amerískum myndum verð ég voða vonsvikin ef aðalsögupersónan deyr. Eru myndirnar í brúntónum sætti ég mig miklu betur við að aðalsögupersónan drepist í miðjum klíðum. Lógískt, finnst mér.

En... nú þurfið þið allavegna ekki að sjá þessar kvikmyndir! Sleppið við þá pínu:-D

Hvað er meira viðeigandi en að spila smá melankólíu á þessum fína degi. Þessi diskur er í miklu uppáhaldi þessa dagana.



Góða helgi. Er farin upp í bústað fram á mánudag í þessari sumarblíðu sem við erum svo heppin að njóta þessa dagana.

11.5.12

Eldhúsið mitt



Ég var víst búin að lofa þegar við skiftum um eldhús að sýna ykkur hvernig nýja eldhúsið lítur út. Held að ég hafi gleymt því svo gjörið svo vel. Ég kynni nýja eldhúsið mitt sem er ekki alveg búið! Vantar yfir vaskinn og smá finish svo að það náðist ekki á mynd!

Annars bara allt ok hér í fréttum. Var að taka niður jólakransinn af útidyrahurðinni. Nú fer maður að verða tilbúin í sumarið. Erum að henda okkur í garðvinnuna. Er vongóð þrátt fyrir að vorið sé eitthvað lengi að komast í gang. Það hlýtur að vera á leiðinni og þá er mikilvægt að blessuð blómin séu komin á sinn stað, hrein og fín eins og börn á aðfangadagskvöldi. Ég er búin að taka þá ákvörðun að læra aðeins meira um garðrækt því ég get því miður ekki státað af mikilli kunnáttu í þeim geiranum þrátt fyrir að ég sé með smá garð. Held að það borgi sig líka uppi í bústað því lóðin þar er risa stór og í algjörri órækt. Jæja ætla að fara að grilla hamborgarara í rigningunni. MMMMMM.


Hér er eitt eldgamalt og gott og laaaangt.



Glóða helgi.

4.5.12

Minning

Það er að koma ár frá því að amma mín dó. Ótrúlegt hvað maður venst hlutunum, en á sama tíma þá getur maður gleymt sér í eitt augnablik. Það var bara síðast í gær þegar ég var að tala við pabba minn um hina ömmu mína sem er að fara að flytja í þjónustuíbúð að ég, eina örsekúndu, gleymdi að amma væri dáin og hugsaði að svona íbúð væri góð fyrir hana. En svo mundi ég.

En það er svo margt annað sorglegt sem maður er minntur á hér í Noregi þessa dagana að ég er bara þakklát að hafa átt ömmu og það svona lengi. Sorgin yfir að missa hana er eðlileg. Sorgin í Noregi núna er ekki eðlileg því hún er svo mikil og svo stór blönduð svo mörgum öðrum tilfinningum. Ég fann það þegar þessi réttarhöld byrjuðu að ég er ekki manneskja til að fylgjast náið með þeim. Les eina og eina grein en reyni annars að láta þetta fara fram hjá mér. Vill ekki gera þessu ómenni það til geðs að lesa um hann daglega. Hef lesið þó nokkrar frásagnir þeirra sem voru á Utøya og það er svo hryllilegt að maður skilur bara ekki hvernig fólk kemst í gegn um svona. Og allir foreldrarnir sem misstu börnin sín. Þetta er svo sárt. Stundum dettur maður í umræður um ómennið, það eru skiftar skoðanir um hvort hann sé geðveikur eða bara vondur. Þegar hann var lítill var barnaverndarnefnd fengin til að fylgjast með fjölskyldu hans því það voru áhyggjur um að hann væri ekki að fá þá umönnun sem hann ætti að fá en ekkert gerðist meira í því málinu. Og hann hélt áfram að alast upp hjá sömu fjölskyldu. Kannski að eitthvað hafi vantað í hanns uppeldi sem gerði það að verkum að hann er svona eins og hann er. Maður veit það ekki og það skiftir ekki máli í þessu samhengi. Finnst bara sorglegra en orð fá lýst að ungur maður, uppalin í Noregi og á að hafa haft það eins og blóm í eggi miða við svo marga aðra í heiminum hafi framið svona voðaverk. Bara út af hatri.

Þetta varð nú drungalegra en ég hafði ætlað mér svo að nú drífum við okkur í léttari sálma. Ekki annað hægt á föstudegi eftir svona stutta viku. Föstudagslagið þessa vikuna er í minningu ömmu minnar sem var borgarbarn mikið. Held að þetta sé hann Raggi okkar allra Bjarna! Syngja með, maður verður svo vorglaður af að syngja þetta lag.



Góða og gleðilega helgi.

27.4.12

44 ára

Húsbandið á afmæli í dag. Til hamingju með það gamli minn:-D Vegna anna hef ég ekki náð að baka handa honum svo að við verðum að finna upp á einhverju skemmtilegu á morgun. Verðum komin til Sverige þá svo að eitthvað ætt hljótum við að finna. Sá að það var komið nýtt kaffihús í Karlstad sem seldi heimagerðan ís, þeir hljóta að vera með kökur líka. Erum bæði búin að taka okkur frí á mánudaginn svo að við komum ekki heim fyrr en á þriðjudagskvöld. Semsagt löng helgi úti á landi í útlandinu. Verður næs. Klárum að mála ganginn og svo höldum við að sjálfsögðu áfram höggormaleitinni.

Hitti bústaðanágrannan minn síðusu helgi og hún var að koma úr höggormafóbíu námskeiði. Ég held að ég hafi trúlega gengið alveg frá henni þegar ég sagði henni þetta með höggormana, hún var svo brjálæðislega hrædd við þá. Núna segir hún að hún sé læknuð!! Sjáum til með það! Svo fann ég líka músaskít inni í eldhússkáp. Svo að við erum búin að ákveða að fá okkur meindýratryggingu. Þá koma þeir og leggja gildrur og fjarlægja mýsnar. Sem svo eru matur höggormana svo að þeir vonandi pakka saman og finna sér annan stað í lífinu þegar verður orðið músatómt hjá okkur. Mér er svo sem sama um mýsnar, en ekki um ormana. Broddgelltir og höggormar þrífast illa saman svo að ég ætla hér með að auglýsa eftir broddgaltar fjölskyldu sem ég vill taka að mér. Anyone?? Má þessvegna vera einstæður broddgöltur.

Ef þú varst búin að gleyma laginu frá síðust viku varstu pottþétt búin að gleyma þessu. Við hjónin horfðum á einhverja BBC sjónvarpsmynd um daginn sem fjallaði um hvernig Culture Club varð til. Áhugaverð mynd á margan hátt, sérstaklega gaman að sjá hversu gaman hefur verið í London í byrjun eitís tímabilsins. Og hversu mikil vinna það hefur verið þar að vera "cool". Ekkert smá meik og stæling á liðinu. Svo ef þér finnst strákar verða pempíur í dag ættirðu að horfa á þessa mynd. Ó boy- george!



Góðar stundir.

20.4.12

Það er svo geggjað að geta hneeeeggjaað!

Hendi þessu inn þér og þínum til skemmtunar og upplífgunar á þessum síðustu og verstu tímum.












Og ekki má gleyma laginu sem þú varst löngu búin að gleyma.




Góða helgi.


p.s. Talandi um Old Spice. Átti 28 ára fermingarafmæli í gær.




13.4.12

Morn´

  • Páskarnir búnir.
  • Erfitt að vakna á morgnana.
  • Huggulegt uppi í bústað.
  • Bryggjan rifin - pabbi og húsbandið þar að verki.
  • Engir höggormar dauðir enn.
  • Förum aftur næstu helgi til að mála og hitta höggorma.
  • Saga missti tönn í gær. Jaxl.
  • Vorið að koma.
  • Voða gaman.
  • Varstu búin að gleyma þessu lagi? Ég líka.
  • Er einhver hérna??????




  • Góða helgi

30.3.12

Ormasteik

Er farin upp í bústað að veiða höggorma. Kannski maður bara grilli þá og éti! Aldrei að vita. Ætla bara að vera stuttorð í dag og óska þér og þínum góðra páska.

Hér er eitt páskalag sem ég valdi sérstaklega. Verður að hlusta á ALLT lagið. Það kemur manni í svo mikið páskastuð. Skrýtið að það séu ekki búin til fleiri svona páskalög!



Og ekki má gleyma helginni.Góða helgi.

23.3.12

Dullarfulla lyklahvarfið - framhald

Húsbandið og einkasonurinn fóru upp í bústað síðustu helgi. Mission kjallarahurð var efst á dagskrá. Kjallarahurðin var brotin upp með stæl og komst húsbandið inn til að gera það sem hann þurfti þar að gera. Seinna sama dag var hann eitthvað að væflast oní kommóðu og viti menn - fann lykillinn. Í þessari kommóðu þar sem engir lyklar eiga að vera! Svo að þetta dulafulla lyklahvarf var ekki dulafyllra en svo að húsbandið hafði sett lykilinn þar frostadaginn mikla í febrúar og geymt þá minningu í gleymskudagbókinni.

Og ekki er nú allt búið enn. Hefur að vísu ekkert með lykla að gera. Haldið þið ekki að það sé höggormabú í lóðinni hjá okkur. Þeink jú verí möts. Fullt af eitruðum ormum sem búa í hlaðna veggnum sem heldur litla grasbalanum í réttri stöðu. Og eins og það væri ekki nóg eru þessi kvikindi friðuð í svíaríki. Húsbandið var að spá í að gera eins og pabbi sinn sem drap og fláði höggorma og notaði skinnið í belti. Ég benti húsbandinu á að hann er ekki haldin sömu veiðigleði og karl faðir hans. Og ég sé hann í anda flá þessi kvikindi. Nei húsbandið er meiri borgarbarn en hann vill viðurkenna. En núna þurfum við semsagt að reyna að losna við þessi kvikindi fyrir sumarið. Annars verð ég bar inni í sumar og það er ekkert gaman. Ef það er ekki lyklar þá eru það snákar. Það er alltaf eitthvað.

Eitt nýtt lag er ekki verra á þessum hlýja marsdegi. Vill upplýsa að það var 16 stiga hiti og sól hjá mér í gær og það var bara lovlí.



Gleðilega helgi.

16.3.12

Lítið að gerast

Nema náttúrulega það að snjórinn er að mestu farin. Lovlí. Nú er maður farin að finna fyrir vorinu en hér í Noregi er samt engin ástæða til að fagna of snemma. Getur dælt niður snjó alveg fram í maí.Vona að það verði ekki raunin í ár.

Síðustu helgi var brunað í bústaðinn að gera við rafmagn. Planið var að skifta um öll öryggi í rafmagnstöflunni sem er staðsett í kjallaranum. Komum á staðin og fundum ekki lykilinn að kjallaranum. Er enn týndur!! Svo að plan B er að brjóta upp hurðina á kjallaranum til að komast inn. Alltaf eitthvað hægt að finna að eyða peningunum sínum í. En rafmagnið er samt komið í lag. Álpaðist inn til nágrannans og fór eitthvað að tala um þetta og minn maður bara rafvikri dreif sig á staðinn, fann rafmagnstöflu á tré úti í lóð og reddaði málunum á nóinu.

Dóttir mín spurði mig í gær hvort pylsur væru hollar. Nei svaraði ég, en þær eru matur! Er ekki alveg viss um hvað mér finnst um það svar. Maður ætti kannski bara að sleppa að borða þennan fjanda.

Jæja núna er ég bara komin með nóg af íslenskum lögum svo að ég er hætt í þeirri deild í bili.Hér er eitt flott.


Góða helgi.

9.3.12

Ljósmyndarinn

í gær var ansi gaman í vinnunni. Svo er mál með vexti að fyrir nokkrum vikum var ég að vinna við auglýsingarherferð. Það var söngvakeppni þar sem fólk söng inn lagið Don't You Worry 'Bout A Thing en það lag hefur verið notað í allar If auglýsingar síðustu árin. Þetta var gert í gegnum netsíðu sem við gerðum og tók um 60 manns þátt með söng og myndbandi. Fyrir utan að gera flestar auglýsingarnar í herferðinni var ég líka ein af þeim sem sat í dómnefnd. Eftir þá reynslu verð ég að viðurkenna að dómarar í Idol eiga samúð mína alla. Þvílík reynsla!! Allavegna, þá völdum við út fjögur ungmenni sem unnu keppnina. Verðlaunin voru styling (hár og andlit), hádegisverður og svo klukkustund pr sigurvegara í studio með upptöku á sama lagi. Allir fá svo sendan geisladisk með laginu sínu og flottu CD coveri hönnuðu af yours truly þegar hljóðverið verður búin að mixa upptökurnar. Svo að í allan gærdag vann ég sem ljósmyndari þar sem ég tók myndir af öllu þessu fallega og hæfileikaríka unga fólki. Sumum gekk betur en öðrum eins og gengur og gerist en öllum fannst þetta æðislega gaman og fóru heim alveg í skýjunum. Ég var að samferða einni á leið heim sem tók þátt og aðeins er 16 ára og hún var með stjörnur í augunum. Gaman að sjá þetta unga fólk leggja svona mikið á sig á stuttum tíma til að fá það mesta úr deginum. Og gaman að gera eitthvað allt annað en að sitja á skrifstofunni eins og ég alltaf geri. Bara deilig.

Er annars að fara upp í bústað á morgun með húsbandinu og reyna að laga rafmagnið þar. Jebb er líka orðin rafvirki. Er svo gasalega fjölhæf. Við förum barnslaus þar sem við vitum ekki hvað er kallt í bústaðnum. Vitum allavegna að ofninn inni í okkar herbergi virkar og þá verðum allavegna hægt að sofa í hita.

Nóg í bili. Held að mars verði síðasti mánuðurinn með íslenskri tónlist. Þetta er orðið ágætt í íslensku deildinni.



Góða helgi.

2.3.12

stutt styttra styðst!

Ég er góð í að: skera lauk.

Ég er léleg í að: pakka inn gjöfum.

Hana nú þá veistu það!




Góðar stundir.

24.2.12

Humarsumur - þegar alltaf var sól

Í síðustu viku minntist ég á humarsumar. Verð að viðurkenna að orðið humarsumar var næstum gleymt en eftir síðustu skrif fór ýmislegt af rifjast upp frá þeim sumrum. Mér finnst ég hafa verið óendanlega heppin að alast upp á Höfn á þessum tíma, þegar bærinn fylltist af nýju fólki við hverja vertíð. Alltaf jafn spennandi að sjá hverjir kæmu á sumarvertíð, hverjir kæmu á síldarvertíð og hvort kunn andlit kæmu aftur um veturinn eða sumarið eftir og ekki minnst hvort kæmu einhverjir sætir strákar. Man þegar humarvertíðin byrjaði og frystihúsið fylltist af unglingum. Þau sem voru nógu gömul bjuggu í Ásgarði, Grænu Höllinni og einni verðbúð í viðbót sem ég er búin að gleyma hvað hét en hún var á Hafnarbrautinni. Hin bjuggu hjá öfum og ömmum og öðru skyldfólki. Mörg þeirra komu ár eftir ár svo að maður hélt sambandi við nokkur þeirra í mörg ár á eftir. En allavegna fylltist bærinn og frystihúsið af fólki á sumrin og allir höfðu það gaman. Ekki var það endilega sjálf vinnan sem við unnum var neitt sérstaklega skemmtileg en það var samt alltaf gaman í vinnuni.

Þegar ég fór að rifja upp þenna tíma mundi ég allt í einu eftir þegar maður sat í pásu og skrifaði og teiknaði á vinnubuxurnar sínar og bakhliðina á svuntunni. Man að ÁTVR var sérstaklega vinsælt að hafa á buxunum, love og ýmis hljómsveitarnöfn og svo humarsumar 84 eða hvaða ár nú var. Stelpurnar sátu öðru meginn í pásusalnum og strákarnir hinu meginn. Maður reyndi alltaf að sitja á réttum stað miða við strákinn sem maður var skotin í þá vikuna. Sama gilti í mötuneytinu. Maður vildi helst geta séð sætu nýju strákana í von um að þeir tækju eftir manni. Föstudagarnir voru alltaf bestu dagarnir. Þá komu launin. Við stilltum okkur upp í röð í humarsalnum og svo fékk maður umslag með launaseðli og péníngum. Það var ekkert verið að leggja inn á mann á þessum tíma, kom að vísu seinna. En á föstudögum fór maður aldrei heim í mat. Þá var stefnan tekin í Hafnarbúðina, löbbuðum frá frystihúsinu yfir í Hafnarbúð í bláa sloppnum og stundum með netið á höfðinu. Hreinlætið í fyrirrúmi! Svo var borðað eitthvað hollt og svo fóru allir í bankann til að leggja inn launin. Þetta var fastur liður öll sumrin sem ég vann í humri.

Þegar fór að líða á vertíðina var oft minna að gera. Ef maður var ekki lánaður út í rækju eða eitthvað annað voru pásurnar oft langar. Þá sátum við vinkonurnar uppi í sturtuklefa og fórum í andaglas. Óskar bróðir sá fyrir ekki svo löngu síðan krot á vegg uppi í búingsklefa þar sem stóð Helga Dís og Hjödda bestar. Örugglega skrifað meðan beðið var eftir anda, oftast Stapadraug. Já maður var ekki alveg heill.

Á kvöldin var alltaf fullt af liði uppi í Hafnarbúð og svo var Hafnarbrautin vinsæll staður líka. Hún var gengin fram og til baka. Ekki skrýtið að unglingar á þessum tíma voru grannir. En við vorum alltaf úti, aldrei inni að horfa á sjónvarpið - ekki þegar var humarsumar allavegna.

Og ekki má gleyma helgunum. Það var ball nánast á hverjum laugardegi , annaðhvort í Sindrabæ, Mánagarði eða Hrollaugsstöðum. Vinsælar hljómsveitir úr "nágrenninu" eins og Súellen og strákarnir úr Vík sem ég man ekki hvað heita fylltu húsin. Og svo að sjálfsögðu allar vinsælu hljómsveitirnar eins og Mannakorn, Bítlavinafélagið, Stjórnin og hvað nú allar þessar hljómsveitir hétu. Man meira að segja eftir að hafa farið á ball á Hofi í Öræfum og í Vík. Það var sko mikið lagt á sig til að hafa það gaman! Ekki komst ég nú inn á böllin sumrin í humri en það var sko ekkert síðra að hanga fyrir utan. Ég var líka óþreytandi að láta smygla mér inn á böllin og ég var góð í þeirri list. Gat verið þar heilt kvöld án þess að það kæmist upp um mig. Ef maður hélt sér á miðju dansgólfi án þess að fara á klóið heilt kvöld tókst þetta.

Svo voru náttúrulega fastir liðir eins og venjulega, hestamannaböllin og Lónsballið. Fór á mitt fyrsta hestamannaball fyrsta sumarið mitt í humri. Var 13 ára, held að allar mínar vinkonur muni eins vel eftir þessu kvöldi og ég. Þá kynntist maður nýjum heimi. Man að ég var nú svona smá óörugg yfir þessu öllu saman en það eltist fljótt af mér! Lónsballið var hápunktur sumarsins og maður sá til þess að vera heima þá helgi. Glætan að maður færi með foreldrum sínum í eitthvað ferðalag þá helgi, sem mig minnir hafi verið um miðjan júlí. Svona í dag man ég svo sem ekkert hvað var svona skemmtilegt við þessi böll en kannski af því þetta var útiball gerði Lónball miklu skemmtilegra en flest önnur böll.

Já Höfn var skemmtilegur bær að búa í á þessum tíma. Auðvitað sem fullorðin sé ég að ýmislegt hefði mátt vera öðruvísi. Unglingar á Höfn fóru flest að drekka snemma og sum reykja en sem betur fer höfum við nú öll spjarað okkur bara þokkalega þrátt fyrir það. Kannski afþví að það voru aldrei nein eiturlyf í umferð á þessum tíma sem minn aldurshópur hafði aðgengi að eða áhuga á.

Það var alltaf sól þessi sumur. Skrýtið hvað veðráttan hefur breyst!

Þetta var nú langt blogg en ég fór bara að muna svo mikið sem var alveg gleymt. Hollt að hræra aðeins í heilagumsinu öðru hverju. Hér er eitt lag frá þessum tíma. Varstu búin að gleyma þessu lagi? Ég líka - en það rifjaðist upp við þessi skrif. Talandi um að muna texta!



Góða helgi.

18.2.12

Ótengd!

Vaknaði í gærmorgun og komst að því að internetið, sjónvarpið og síminn virkuðu ekki. Hringdi fyrirtækið sem við kaupum þessa þjónustu af. Strengurinn í sundur og vissu ekki hvenær það yrði komið í lag. Ég var eitthvað slöpp í gær og var heima frá vinnu og var semsagt hérna heima allann daginn án þessara þörfu þjóna. Ég fór að hugsa með mér hvað við eiginlega gerðum hérna í den áður en við fengum allt þetta. Það er nú ekki svo langt síðan að það var bara sjónvarp á kvöldin, og það er nú heldur ekki ýkja langt síðan að maður fékk internet. Þegar við fengum okkar fyrsta modem þá borgaði maður fyrir þann tíma sem maður notaði svo að maður var ekki beint að hanga á netinu enda fátækur námsmaður. Núna er maður alltaf tengdur, kemst á netið með símanum og líka sjónvarpinu. Maður er orðin alveg fáránlega háður því að vera tengdur. Maður er líka orðin háður því að þurfa að hugsa minna en áður. Man þegar maður sat og horfði á eitthvað í sjónvarpinu og sagði "hvar hef ég séð þennan leikara áður, í hverju hefur hann aftur leikið" svo þurfti maður að hugsa og spá og spekúlera þangað til maður mundi það. Stundum gátu liðið nokkrir dagar. Núna googlar maður bara allt. Þarf ekkert að reyna að muna neitt, það er bara googlað. En semsagt þá lifi ég af heilan dag heima hjá mér ótengd. Ekkert mál í sumarbústað en heima þá verður maður eitthvað svo órórlegur yfir þessu. Og það er ekki eins og ég hangi og glápi á sjónvarpið alla daga eða hangi í tölvunni sem ég geri að vísu meira en yfir sjónvarpi. Það er að ekki hafa möguleikan á að geta þetta sem alveg fór með mig. Og mikil ósköp ég náði að gera heima í staðinn, tók til í tveim kommóðum og þvoði baðið. Seinni partinn þegar heilsan var farin að batna fór ég meira að segja í lítinn túr á gönguskíðunum. Kom semsagt miklu meira í verk en hefði ég haft netið og sjónvarpið.

Annars er vetrarfríið hér byrjað og mamma er að koma á eftir. Verður í viku, ég verð að vísu ekki í fríi allann tímann en tek nokkra daga. Verður gaman hjá okkur að fá hana.

Þetta lag minnir mig um humarsumar,partý og stuð á Höfn þegar verbúðirnar voru fullar af fólki. Það var svo gaman á Höfn á þessum tíma. Fullt af unglingum úti á kvöldinn. Humarsalurinn fullur af unglingum bæði heimamönnum og utanbæjar. Kiddi að skammast í manni þegar maður var óþekkur (sem ég stundum var). Eignaðist marga góða vini sem bjuggu hér og þar á landinu. Á meira segja eina vinkonu í dag frá þeim tíma. Hana Björk sem er núna gift Geir á Reyðará. Ljúfir tímar.



Góða helgi.

10.2.12

Vonderfúl.

Ókeypis uppskrift handa vinum mínum í blogginu!

Vonderfúl kjúklingaspjót með salthnetum

Kjúklingabringur í strimlum, ekki hafa þá allt of þunna því þá verða þeir þurrir.

Marinering/sósa:
Ca 3 dl olía
1 dl sæt soyasósa
1 ss karrý
Engifer rifið, eftir smekk.
saft af 1 lime
1 stórt hakkað chili
1 hvítlauksrif
1 stór poki salthnetur

Kvöldið fyrir át eða snemma sama morgun:

Hneturnar blendaðar í blender svo að sumar séu nánast heilar og hinar ekki eins heilar. Restinni blandað við og látið standa yfir nótt eða marga tíma.

3 tímum fyrir át: Kjúklingurinn settur í marineringuna og látin liggja í henni.

Eftir 3 tíma. Ofninn settur á 200 og spjótinn inn þegar hann er heitur. Snúðið eftir ca 10 mín. Látið vera í ofninun ca 20-25 mín. Restin av sósunni helt yfir síðustu 5 mínúturnar.

Étið með gleði og ánægju. Bon apetit!

Farin til Svíþjóðar í hytta mí.

Vá hvað er langt síðan ég heyrði þetta lag.



Gæða helgi.

p.s Hvað finnst þér um nýja bloggið mitt?

3.2.12

Drullukuldi

Maður er svo fljótur að gleyma. Í fyrravetur var 20 stiga frost daglegt brauð. Í vetur er búið að vera svo hlýtt(svona miða við) að í dag þegar var 19 stiga frost hélt ég hreinlega að ég myndi farast úr kulda. Horið hreinlega fraus. Það er skíðadagur hjá báðum börnunum í dag. BRRRR. Fegin að ég vinn inni.

Verð nú bara að minnast á hvað hann sonur minn er duglegur að redda sér. Venjulega hafa þeir vinirnir farið í brekkuna saman en síðasta föstudag voru allir uppteknir og hann ákvað að fara bara einn á snowboard(ég veit að það heitir snjóbretti eða brett en engin segir það!). Hann dreif sig einn út og var í brekkunni í fleiri tíma. Kynntist þar strák og daginn eftir ákváðu þeir að fara saman. Aldrei hist áður. Í gær dreif hann sig aftur einn í brekkuna. Mér finnst það frábært að hann sé svona opin og finnist lítið mál að gera hluti einn.

Er að fara í partý í kvöld. Maður er bara alltaf á djamminu. Eða þannig. En ég hefði nú viljað vera á Íslandi þessa helgi og fagna henni Guggu vinkonu minni en það er ekki allt hægt. Djamma með henni í anda annað kvöld.

Við höldum okkur áfram í íslensku deildinni. Man einhver eftir þessu. Ekki búin að heyra þetta lag í fleiri áratugi - sem betur fer. En er ekki alveg magnað að maður man texta fram í rauðan dauðann. Góða skemmtun.



Gæða helgi.

27.1.12

Núna er vika 4, ég ruglaðist!

Já svona getur verið snúið að telja vikur fyrir íslending. Norðmenn og danir eru þræl vanir í vikutalningu. Man eftir því þegar ég flutti til Köben og fólk var að bjóða mér eitthvað. Ég var spurð hvort ég gæti komið í partý í viku 48!! Ha sagði ég bara, hvað meinarðu. Þá var maður kannski í viku 38, Fannst það nú heldur mikið að planleggja fleiri mánuði fram í tímann. Og það partý! Ég var meira svona týpan að ákveða mig hér og nú og láta verða af því án þess að spekúlera í hvaða vika væri. Í dag eftir 20 ára búsetu í þessum löndum er ég farin að planleggja langt fram í tímann, sjaldan þó í vikum nema í viku 8 og viku 40 því þá eru skólafrí. Annars veit ég aldrei hvaða vika er eins og sjá má.

Annars er háannatími hjá okkur hjónum í leigubílaleiknum. Hann gengur út að að keyra börnunum okkar út og suður. Baltasar er í fótbollta og fer á snowboard nánast daglega, Saga er í sundi, fimleikum, skíðanámskeiði og píanótímum. Og það þarf að keyra þeim í allt þetta. Skiftumst að vísu á með strákakeyrslu því þeir eru svo margir í bekknum hjá Baltasar sem iðka skíði en því miður ekki hægt með Sögu. En ætla ekkert að kvarta, er rétt yfir háveturinn sem er svona mikið að gera. Og ekki hanga þau fyrir framan tölvu eða sjónvarp á meðan.

Annars verð ég nú að monta mig af henni dóttur minni. Hún syndir 700 metra hvern mánudag og 300 metra hvern fimmtudag. Það er bara heill kílómetri sem hún syndir í hverri viku. Finnst það nú bara alveg ágætt. Svo byrjaði hún í píanótímum í síðustu viku. Búin að læra að spila eitt lag. Hún bara situr og æfir daglega og hefur gaman af. Mamma mér finnst svo gaman að læra sagði hún í dag. Já það verður að viðurkennast að henni finnst það, hún hefur alltaf verið rosalega dugleg í að æfa sig í því sem hún er ekki góð í og svo verður hún nátturulega góð í því. Vildi óska að bróðir hennar hefði þetta sama viðhorf. Hann er meiri svona þetta reddast týpan. Greinilega íslendingurinn í honum. En ég segi það sem ekki alveg, því ef hann hefur nægan áhuga svona eins og að verða góður á snowboard æfir hann og æfir. Er orðin ansi góður drengurinn. Mér finnst þetta vera hálf hættulegt svo að ég er með hjartað í buksunum þegar ég horfi á hann gera einhver hopp. Slapp af mamma segir drengurinn þá. Honum finnst ég vera skræfa(sem ég er).

Ég er að fara í konupartý í kvöld og fann þetta stuðlag í því tilefni. Hver var ekki búin að gleyma þessu lagi?




Gleðilega helgi.

20.1.12

Vika 4.

Hér eru nokkrar myndir teknar uppi í bústað síðustu helgi. Við hjónakornin fórum í göngutúr um nágrennið og hittum 2 dádýr og svo sænsk hjón sem við spjölluðum við. Hjónin það er að segja. Fann þetta ægilega sæta rauða hús og varð bara að taka mynd af því (ekki það að það var svo erfitt að finna það - lá við veginn). Og þessi fíni viðarstafli blasti við mér líka við veginn. Það kennir greinilega ýmissa grasa við þennan veg verð ég að segja. HMM!!

Við skruppum líka til Karlstad sem er höfuðborgin í Värmland og sjoppuðum smá. Náðum svo að þvo veggina á ganginum sem voru með 40 ár skít á sér og hreinni vegg hef ég bara ekki séð lengi. Húsbandið málaði eina umferð grunn og svo höldum við áfram næst. Ætla líka að fara að henda einhverju upp á veggina í stofunni. Fer að verða svo kosí. Hlakka svo til að eyða sumarfríinu þar. En ekki örvænta, við komum líka til Íslands. Búin að panta og fékk þennan spotprís hjá Norwegian. Þeir byrja að fljúa 3x í viku í sumar. Baltasar kemur fyrst einn, flýgur meira að segja einn í fyrsta skifti. Svo komum við Saga 2 vikum seinna og verðum í 2 vikur. Í ár verð ég í 5 vikna samfleyttu sumarfríi. Verður bara geðveikt. Vinn af mér eina viku á næstu 6 mánuðum svo að ég þarf ekki einu sinni að eyða mínum 5 vikum í þetta frí. Á eina til góða fyrir jólafríið. Það verður sko ekki einleikið hvað ég verð afslöppuð og slök eftir þessar 5 vikurnar.






Og svo var það lag vikunar. Yndislegt bara.



Gæða helgi.

13.1.12

Gleðilegt ár


Búin að vera að velta því fyrir mér hvort ég ætti að leggja niður þetta blogg. Grunar að ekki svo margir komi við hér lengur. En svo komst ég að þeirri niðurstöðu að þetta blogg er mín íslensku æfing og ætla því að halda áfram í einhverja stund. Svo verð ég nú að viðurkenna að mér finnst alltaf smá gaman að finna föstudagslagið.

Allavegna þá er komið nýtt ár og ég og mín fjölskylda áttum ósköp róleg og notaleg jól og áramót hér heima. Ekker stuð á okkur, fór meira að segja að sofa 0030 á gamlárs!! Ég þurfti bara á því að halda að slappa af. Fór nú svo að ég át á mig gat yfir jólin og sem betur fer fékk ég ælupest í vikunni svo að eitthvað af aukakílóunum er farið;-)

Án gríns þá var síðasta helgi með þeim óskemmtilegri lengi. Byrjaði á því að Saga vaknaði aðfara nótt laugardags með tæming úr öllum götum. Sem betur fer fékk ég að sofa en tók við um morgunin þegar húsbandið keyrði bústaðar-stofuhúsgögnin í sumarbústaðinn. Ég þreif og skeindi og skolaði og sturtaði og skúraði og skifti og meira til allann laugardaginn. Grunaði strax þá að ég yrði líka veik. Sunnudags seinnipart kom sonurinn heim grátandi úr afmæli búin að æla 2 sinnum þar. Hann var ekki sendur tilbaka þangað. Hann hélt áfram út á nótt og um það bil sem hann var hættur byrjaði ég. Sama morgun húsbandið svo að mánudaginn vorum við öll saman heima. Með hita líka og beinverki og bara ömurlegheit. Ég segi það satt að svona veikindi ættu að vera bönnuð fullorðnu fólki. Kræst hvað maður er bara ekki að þola svona lengur.

En núna eru allir orðnir meira eða minna frískir og við hjónin erum á leið upp í bústað til að setja stofuhúsgögnin á sinn stað og byrja á undirbúningi fyrir málningarvinnu í ganginum. Þið vitið gangurinn með rauða gólfinu. Verð að gera eitthvað við þetta gólf, gangurinn á eftir að líta út eins og jólasleikjó þegar veggirnir verða orðnir hvítir!

Jæja var þetta bara ekki betra en ekkert?? Endilega kvitta hjá mér núna svo að ég viti hvort einhver komi hingað inn.

Er búin að taka ákvörðun um að fyrstu mánuði ársins ætla ég að gerast þjóðleg og bara finna íslensk gömul lög. Lög sem maður var búin að gleyma. Lög sem kannski eru betur gleymd en geymd og svo þessi góðu sem maður verður að hlusta á öðru hverju. Er það ekki gaman? Það er að vísu frekar lítið til að almennilegum videoum á þessum gömlu lögum en það verður bara að hafa það.

Hér er eitt alveg klassískt. Lovit.



Góða helgi.