18.12.09

Bráðum koma blessuð jólin

og börnin farin að hlakka til og ég líka. Baltasar fann bækling sem heitir Gadget Bibelen og í honum var óskalisti þar sem hægt er að lista upp 22 hluti sem maður óskar sér í jólagjöf. Við hjónin hljóum okkur máttlaus þegar við lásum listann hans og hér er smá samantekt yfir það sem drengurinn óskar sér.

nr 1.

Sturtu"munnstykke" sem mælir hitastigið og sýnir með ljósi hvaða hiti er á vatninu (skil ekki að við höfum ekki reddað okkur svona fyrr).

nr.2

Serpentin spray - say no more!


nr.3
Ice Invaders - hægt að búa til klaka sem eru í laginu eins og gamla tölvuspilið sem var alltaf á Shell hér í den.

nr. 4

Tómatsósu og Sinnepsvopn. Skil það nú ekki því hann borðar hvorugt.

nr.5

Klósettljós. Praktískur getur hann líka verið þessi elska.


nr.6
Upplásinn ölkrús. Vill minna á að hann er að aðeins 8 ára og þetta veldur mér þó nokkrum áhyggjum.


nr.8.

Sprengju hátalarar. Mjög svo skiljanlegt, maður getur aldrei haft of hátt heima hjá sér.


nr.8

Þarfnast engra útskýringa ég meina hvaða 8 ára strák þætti ekki æði grilla pulsu með þessu tæki!

Það var fullt meira á þessum lista og allt alveg jafn brúklegt. Við ætlum að athuga hvort við fáum ekki eitthvað af þessum lista sem hann svo fær frá jólasveininum. Verður samt ekki uppblásna ölkrúsin eða grillpinninn. Þegar ég spurði Sögu hvað hún vildi um jólin svaraði hún "jólamat" svo að ég verð víst að vera aðeins nákvæmari næst þegar ég spyr. En jólamat fær hún þessi elska.

Annað um Baltasar. Hann er frekar upptekin af hvernig hann lítur út og fylgist náið með hvernig stóru strákarnir klæða sig og apar svo eftir og einn morguninn sagði hann allt í einu að hann óskaði sér vetrargalla, svona heilgalla. Þar sem hann á bæði skíðaúlpu og buxur og eitt sett auka fór ég nú ekki að eltast við þessa ósk hans og kaupa alveg nýjan galla svo að ég skellti mér í búð hér í nágrenninu sem selur notuð föt. Hef oft keypt regnföt þar þegar krakkarnir voru í leikskóla og þurftu að eiga tvennt af öllu. Allavegna, þá fann ég þennan forláta heilgalla, skær gulan með svörtu á ermunum og ákvað að taka sjensinn. Keypti gallan og varð minn maður bara svona rosalega ánægður með gallann. Hugsaði með mér ef einhver kemst upp með að ganga í svona galla og vera kúl í honum þá er það sonur minn því honum er nokk sama hvað fólki finnst um hann og ber höfuðið hátt þegar hann er öðruvísi en allir hinir. Bekkjafélagarnir eiga trúlega eftir að halda að þetta sé nýasta tíska þegar Baltasar verður búin að sýna þeim gallann og eitt er víst að ég á alltaf eftir að vita hvar sonur minn er þegar hann er klæddur þessari flík.

Annars bara fínt. Byrjuð í sjúkraþjálfun með bakið á mér og vona að það fari að hjálpa. Er búin að senda öll jólakort og kaupa gjafirnar og ætla að hella mér í konfektgerð um helgina. Búin að baka 3 sortir og læt mömmu baka eina þegar hún kemur en hún er betri bakari í þeirri sortinni. Semsagt er tilbúin fyrir jólin.

Þetta verður síðasta blogg fyrir jól og vill ég bara á endanum óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi bloggári. Verð að vinna milli jóla og nýárs og blogga trúlega smá svona til að segja ykkur leyndarmálið.

Lag vikunar er íslenskt jólalag með afburðar góðu myndbandi. Hef bara sjaldan séð eins flottar tæknibrellur og vildi deila því með ykkur, því maður á að deila með öðrum um jólin. Og svo verða allir að syngja með Bo og Ruth! Og getur einhver sagt mér hvern þetta barn er að hitta við þetta fangelsi. Gera börn svona?



Góða helgi og allt það.

11.12.09

Kæri jóli

Voða lítið að segja núna. Vinn alla daga og jólast þess á milli. Búin að kaupa flestar jólagjafirnar, vantar að kaupa handa Sögu. Held að hún fái gönguskíði og föt. Baltasar fær snowboard og skó í stíl. Svo erum við með smá leyndó í gangi sem ekki verður sagt frá fyrir eftir aðfangadag og nei ég er ekki ólétt.

Er alveg ægilega tilbúin í smá jólafrí núna.

Held mig í jólafílingnum þessa vikuna.


Gróða helgi.

4.12.09

nei sko!

Hver á afmæli í dag?? Það var ég :-D eða kannski er það ekki neitt til að brosa yfir. Síðasti afmælisdagurinn sem 30 og eitthvað og ég sit langt úti í rassi í hinum endanum á Olsó á hundlélegu námskeiði. Svo lélegu að ég á eftir að biðja um afslátt ásamt hinum 2 þáttakendunum sem eru jafn óhress með gæðin og ég. Skítt með það.

Annars bara lítið. Byrjuð svo smátt að jólast. Seríurnar verða hengdar upp á morgun, gleymdum að kaupa hefti til að hefta þær upp. Ætlum að skreyta piparkökuhús og baka piparkökur um helgina og fara á jólamarkað. Fyrir utan þetta er Baltasar að fara í prufutöku fyrir einhverja kvikmynd. Var eitthvað fólk í skólanum í síðustu viku með svona odisjon og hann spurði mig hvort hann mætti vera með. Hann sagði að þetta væri fyrir auglýsingar sem eru sýndar á undan trailer í bíó, það eru bara ljósmyndir með tekstum. Svona auglýsingar fyrir lokalbúðir og álíka. Jú ég hélt að það væri bara gaman fyrir hann. Svo var hringt í gær frá einhverri umboðsskrifstofu og sagði að hann hefði komist áfram. Það voru 800 strákar sem voru prófaðir og 7 sem komust áfram!! Eitthvað hefur sonur minn misskilið þessa prufu í síðustu viku í skólanum enda er hann ekki alltaf með höfðuðið með sér en allavegna þá langaði honum að fara í þessa prufutöku og við ákváðum að leyfa honum það. Gaman fyrir hann að prófa eitthvað nýtt.

Er í flýti hér að finna lag fyrir vikuna. Held að ég hendi mér í smá föstudags chilli með góðum gæjum.



Meira næst.
Góða helgi.

27.11.09

La la la la la ævintýri enn gerast

Síðustu helgi fórum við Saga í hytteferð með Aldísi og hennar dætrum. Þetta kallast eiginlega ekki hytte heldur seter sem er það sama sem sel en sel þetta er langt uppi í fjalli, um 30 mín akstur frá næsta þorpi og í gamla daga flutti fólk þangað á sumrin með dýrin sín sem fengu þar gott og vænt gras. Þetta er allt mjög svo upprunalegt, finnast munir frá 1923 í húsinu, gömul og flott húsgögn og flott staðsetning, hvorki rafmagn né rennandi vatn og útiklósett. Bara eins og í gamla daga.

Ferðin upp í fjall var ekkert voðalega skemmtileg enda er ég bílhrædd og það var niðamyrkur og glerhállt en upp komumst við og höfðum það gott föstudag og framan af á laugardeginum. Seinnipart laugardags þegar við vorum búnar að borða, var vaskað upp og Saga vildi hjálpa til. Hún þurkaði diska og átti svo að setja þá á sinn stað og átti einn þeirra að fara inn í stofu. Ekki gekk betur en svo við að setja diskinn á sinn stað en að hún datt um aðra stelpuna hennar Aldísar og skar sig á diskinum. Þeir sem hafa verið í bústað án rafmagns vita að þegar dimmt er úti er ekkert voða bjart inni þrátt fyrir kerti og luktir en ég færði hana í meiri birtu og sá þá að hún var með skurð við úlnliðinn á hægri hendi og svo gat undir olnboganum á vinsti handlegg. Ég sá strax að það yrði að sauma þetta en sem betur fer blæddi ekki neitt voða mikið og sárið á úlnliðinum var ekki alveg við púlsinn en var samt ekki gott að segja hversu nálægt það var. Við ákváðum að keyra niður eftir en þar sem maturinn var búin og við búnar að fá okkur rauðvínsglas með matnum vorum við smá stressaðar en lögðum íann samt. Við hringdum til að athuga hvar næsti læknir væri og það var í Lillehammer en það er um 55 km frá þorpinu undir fjallinu. Aldís hafði í öllu stressinu gleymt gleraugunum sínum og ég var ekki í stuði til að keyra enda afleytur bílstjóri og hefði endað mað taugaáfall áður en ég kæmist hálfa leið. Svo niður keyrði Aldís hálfblind með eitt rauðvínsglas í maganum. Á endanum ákvað ég að hringja í 113 því við vorum ekki alveg vissar hvernig það gengi að keyra til Lillehammer og það var ákveðið að senda sjúkrabíl til að keyra okkur til Lillehammer ef sjúkrafólkið í bílnum héldi að það yrði að sauma.

Við vorum heila eilífð niður fjallið því nú var komin niða þoka ofan í alla hálkuna. Svo þétt að maður sá varla húddið á bílnum. Sjúkrabíllinn hringdi oftar en einu sinni til að athuga hvað væri orðið af okkur en við keyrðum á snigla hraða til að tryggja að við kæmumst öruggar niður. Loksins komumst við að sjúkrabílnum og það var ljóst að það þyrfti að sauma og vorum við Saga keyrðar til Lillehammer- í niða þoku. Fyrst þegar Saga var deyfð byrjaði hún að gráta, hafði ekkert grátið síðan hún datt- ótrúlega dugleg. Hún var saumuð báðu meginn en læknirinn deyfði ekki vinstri hendina því það þurfti bara eitt spor til að loka en duglega stelpan mín lét sig hafa það. Fékk svo bara lási hring í verðlaun sem var allt of lítill, hefði hann passað hefði þetta verið topp verðlaun.

Þegar allt var búið var okkur boðið að taka leigubíl tilbaka sem hefði þýtt um hálftíma akstur frá Lillehammer að þorpinu í þoku og svo annan hálftíma í þoku og hálku upp fjallið og vera þar yfir nóttina og keyra heim morgunin eftir. Læknirinn hafði sagt að ég yrði að fylgjast með henni um nóttina og ég gat ekki hugsað mér að fara til baka. Fyrir það fyrsta var sjálf ferðin ekki skemmtileg og svo tilhugsunin ef hún hefði orðið eitthvað slæm um nóttina ekki skemmtileg. Fara út á klósett í hálku og niðadimmu osfr. Ég tók þá ákvörðun að fara á hótel sem við og gerðum og við höfðum það ægilega gott þar. Borðuðu snakk og horfðum á sjónvarpið. Saga var alltaf að vakna alla nóttina og gráta og átti erfitt svo að ég vissi að ég hefði tekið rétta ákvörðun. Morgunin eftir kom svo Aldís og náði í okkur en hún hafði á endanum fengið tengdapabba sinn til að keyra sér upp í fjall því færðin var svo erfið en það var annað ævintýri sem hún getur sagt frá.

Saga er í fínu formi núna en getur ekki notað hægri hendina svo þessa vikuna hef ég þurft að klæða hana í föt og skeina og allt sem hún annars getur sjálf. Hefur verið mjög sár og bólgin en gat lokað lófanum í gær svo þetta fer allt að koma. Saumarnir verða teknir um miðja næstu viku.

Þetta var semsagt það helsta. Er að fara út að borða með húsbandinu í kvöld, halda upp á síðbúin brúðkaupsdag og svo afmælið mitt sem verður eftir viku. Síðasti afmælisdagurinn minn sem 30 og eitthvað. Djí hvað ég er orðin gömul. Svo fer ég bara að jólast. Held svei mér þá að ég taki upp jóladiskana á sunnudaginn og spili smá jólalög meðan ég hendi saman aðventukransinum. Í ár verður ekki neitt jóladagatal hér á blogginu. Hef hreinlega ekki tíma.

Held mig við nútímann þessa vikuna. Smá rokk frá Noregi.



Glóða helgi.

20.11.09

Stundum fer ég ægilega í taugarnar á húsbandinu. Það er oftast þegar ég er að ganga frá. Ég fæ svona köst. Dæmi: húsbandið fær sér vatn í glas og klárar það og leggur það frá sér. Ég geng fram hjá, tek glasið og set það í uppþvottavélina. Hann leitar út um allt að glasinu sem hann var að nota en viti menn það finnst hvergi. Hann spyr mig hvort ég hafi tekið glasið hans og ég kannast ekkert við það. Hann finnur það í uppþvottavélinni og ég skil ekkert í neinu. Þetta eru nefninlega alveg ósjálfráð viðbrögð. Var að steikja kótelettur í vikunni. Tók gaffal til að flytja kjötið frá pakkningu yfir á bretti og setti gaffalinn í uppþvottavélina. Barði svo kjötið og ætlaði að færa það yfir á pönnuna og fann ekki gaffalinn, skildi ekki neitt í neinu og náði í nýjan. Ég notaði 3 gaffla í þessari steikingu. Veit ekki hvað kemur yfir mig stundum. þetta er eins og að vera flogaveik. Kemur einstöku sinnum og ég man ekkert eftir að hafa gert þetta en ég hef tekið eftir því að þetta gerist yfirleitt þegar er óvenju fínt og hreint heima hjá mér. Greinilega einhver desperat þörf fyrir að halda fínu smá lengur. Tekur yfirleitt ekki nema 3 tíma frá við komum heim í hreint hús þegar ræstitæknirinn hefur verið að verki þangað til að allt er við það sama. Sorglegt en satt. Drasl á það til að koma af sjálfu sér.

Er að fara í hytteferð með Aldísi og dætrum. Stelpu-fyrir-aðventu-ferð. Ég varð smá stressuð því ég misskildi Aldísi og hélt að hún ætlaði að föndra fullt í þessari ferð. Ég er algjör sveppur þegar kemur að föndri. Hverju ættum við mægður að finna upp á. Sem betur fer var þetta misskilningur svo að hún ætlar bara að skrifa á jólakort og ég ætla bara að slappa af og lesa blöð eða eitthvað. Jólakortin hjá mér eru í vinnslu og svei mér þá ef þau verða ekki send fyrr en síðar.

Þarf ekkert að kynna lag vikunar. Gamalt og gott.



Góða helgi.

13.11.09

Matargat

Var að panta mér nýja uppskriftarbók frá Amazon. Rakst á hana fyrir tilviljun þegar ég var að kaupa jólagjöf þar og þar sem ekki færri en 67 einstaklingar gáfu þessari bók toppeinkun varð félagsveran ég, nátturulega að vera eins og allir hinir og kaupa bókina. Mikið hlakka ég til að fá hana heim. Hef bara sjaldnast hlakkað eins mikið til að fá neina bók eins og þessa. Alveg er ég handviss um að líf mitt eigi eftir að taka stakkaskiftum við lestur þessarar bókar. Ég er búin að vera svo andlaus í eldamennskunni í allt sumar og haust og ég þarf á innblæstri að halda og ég trúi því ekki að allt þetta fólk sé að plata mig.

Ótrúlegt hvað matur skiftir miklu máli. Stundum verð ég svo matleið að ég finn ekki upp á neinu og stundum er ég svo frjó að ég enda á að fá valkvíða sem endar með að ég finn ekki upp á neinu! Núna vill ég elda eitthvað annað og nýtt. Annars man ég eftir þegar ég hef borðað þetta og hitt í fyrsta sinn. Man þegar ég fékk Taco í fyrsta skifti. Það var mín fyrsta mat-upplifun sem breytti lífi mínu smá. Aldrei hafði ég smakkað neitt eins og þetta og fannst það æði og lærði meira segja að elda það (Vá hvað ég er leið á því í dag). Og svo man ég þegar ég bragðaði á Thai mat í fyrsta skifti. Það var hrein opinberun. Var á ferlaga sjöbbí veitingarstað í Köben og bjóst nú við flestu öðru en góðum mat, þjónarnir voru í eigin fötum eins og smekkbuxum, diskarnir pössuðu ekki saman og voru sumir úr plasti, veggirnir voru læm grænir með glimmermyndum og maður fékk vatn á fernu. En mikið fjandi kunni þetta fólk að elda. Ég næstum grét. Og ég man eftir spagettí sem ég borðaði á Rimini þegar ég var 13 ára, það var svo gott að ég man hvar staðurinn var. Ég man líka þegar ég smakkaði Ostrur í fyrsta skifti. Það var einnig það síðasta. Og svo fékk ég ægilega góðan forrétt í Róm í hittifyrra sem samanstóð af kartöflum, trufflutapenade og osti. Geðveikt. Og ekki má gleyma upplifun ársins og ef ekki áratugarins sem er ísinn sem ég borðaði í París í vor. Hvítan súkkulaðiís með Wasabi sósu. Ég næstum dó. Og hvað var svo í matinn hjá mér í gærkvöldi. Jú pizza úr búðinni og brauð með spægipylsu. Ef það er ekki gormei svo veit ég ekki hvað.

Er annars að fara á mömmu downs kvöld í kvöld og allir eiga að taka með smá rétt. Ég ákvað að búa til eigið artichok tapenade. Sjáum hvort það verði einhver upplifun.

Lag vikunar er rólegt. Með einni af mínum uppáhalds söngkonum. Ég fer alltaf næstum því að gráta þegar ég heyri það. Svo krúttlegt.



Góða helgi og eitt að lokum. Hlustar einhver á lag vikunar? SVARA!

6.11.09

Góð lykt

Baltasar er að vonast til að fá að ganga í skóla á Höfn í lok skólaársins. Það fer samt eftir námsárangri hjá honum hvort hann fær að fara, hann er ekkert ægilega áhugasamur um nám og árangur eftir því. Ef hann tekur sig á og lærir að lesa á íslensku í vetur fær hann að fara. Honum langar rosalega. Við vorum að labba í skólann um daginn og þá fór hann að tala um hvað hann saknar vina sinna á Höfn en hann hefur verið mikið með frændum sínum, Hafsteini(Gugga og Steini) og Axel (Eva og Frissi) og svo nágrannastrák sem heitir Andri. Svo saknar hann afa og ömmu og restinni af fjölskyldunni og svo saknar hann lyktarinnar á Höfn. Hún er svo góð!! "Ha" sagði ég, finnst þér góð lykt á Höfn. Já það er svo góð lykt þar sagði hann og svo er svo notalegt hvað er langt á milli húsana þar. Og svo er svo notalegt hvað er stutt til allra vina minna þegar ég er þar. Ég myndi segja að sonur minn sé Hornfirðingur í hjarta, en hann hefur verið þar undanfarin sumur og á vonandi eftir að dvelja þar hvert sumar þangað til afi hans og amma segja að þau vilji ekki fá hann lengur. Ég vona að hann eigi eftir að fá að vinna á Höfn á sumrin. Það var alltaf svo ægilega gaman á Höfn á þeim árstíma eða nei, það var kannski of mikið stuð til að ég þori að senda hann þangað sem ungling!

Fékk svínabóluna í gær og enn sem komið er finn ég ekki fyrir svo miklu nema mér er hundillt í handleggnum þar sem ég var sprautuð. Vaknaði oftar en einu sinni í nótt til að skifta um stellingu og hagræða handleggnum. Vona að þetta verði það eina sem ég finn fyrir af aukaverkunum.

Jú og svo eigum við hjónakornin brúðkaupsafmæli á sunnudaginn. Verð nú að viðurkenna að við munum ekkert alltaf þennan dag og Jc man hann yfirleitt betur en ég. Ég er voða léleg í afmælum og svoleiðis. Hef meira að segja gleymt sjálfri mér hálfan dag, mundi það eftir hádegi að ég ætti afmæli. Maður er ekki alltaf í lagi!


Lag vikunar er norskt og mér finnst það gott og flott video.



Goða helgi.

30.10.09

Hvað ætlarðu að verða þegar þú verður stór?

Það var að koma út bók hér í Noregi sem heitir "Facebook kynslóðin". Hún fjallar um kynslóð ungs fólks í dag sem er alið upp með farsíma í annari hendi og tölvu í hinni, alltaf loggað inn á Facebook eða Twitter og vill frekar sjást en sjá aðra og aldrei missa af neinu. Eiga 1200 vini á facebook en engan til að drekka kaffi með. Sá sem skrifar bókina segir að fólk af þessari kynslóð óski sér frægðar og frama. Enginn vill verða hjúkrunarkona eða lögga lengur. Allir vilja vera söngvarar eða sjónvarpsstjörnur án þess að þurfa að hafa fyrir því og að yfirborðsmennskan sé áberandi. Ég veit svo sem ekkert hvort þetta sé satt eða ekki en mig grunar að þetta sé ekki bara tómt bull.

Ég spurði Baltasar um daginn hvað hann vill verða þegar hann verður stór. Hann vill annað hvort verða frægur fótbolltaspilari eða frægur söngvari! Þegar ég var 8 ára vildi ég vera flugfreyja en það breyttist svo í arkitekt nokkrum árum seinna. Flestar af mínum vinkonum vildu vera búðarkonur eða hjúkkur. Meira að segja Saga ætlar sér að verða súperstjarna þegar hún verður fullorðin, hvorki meira né minna. Ég spurði Baltasar hvort hann gerði sér grein fyrir hvernig maður yrði frábær fótbolltaspilari. Jú hann þurfti að æfa mikið en hann var nú svo góður fyrir að hann þyrfti kannski ekki að æfa svo mikið!! Hann er bara 8 ára svo að það er skiljanlegt að þetta með að æfa og að þurfa að vinna fyrir hlutunum sé ekki eitthvað sem hann fattar núna. En mig grunar bara að það sé fullt af fólki sem er miklu eldra sem heldur það sama. Ekki eðlilegt hversu margir taka þátt í Idol og X-factor hérna úti án þess að geta sungið einn hreinan tón. Þetta er greinilega Facebook kynslóðin sem vill vera fræg og hellst vinna sem minnst fyrir frægðinni. Eða á þetta unga fólk svo vonda foreldra sem hefur tekist að telja börnunum sínum trú um að þau geti sungið. Veit það ekki eiginlega. Ætla allavegna að horfa á sænska Idol í kvöld með Sögu. Hún hefur svo gaman af svona þáttum. Í gær sagði hún mér að hana hafi dreymt svo fínan draum(og þetta var sagt á íslensku). Hana dreymdi að hún var að syngja og dansa í júróvisjon fyrir börn. Gott að hana dreymir þetta því litla skinnið á aldrei eftir að syngja á sviði því hún er alveg vita laglaus, er ég ekkert að ýkja þar.

Annars lítið að frétta frá okkur hér í Noregi. Saga fékk svínasprautu í gær, varð ekkert slöpp eða neitt. Sást ekki einu sinni á handleggnum að hún hafi fengið sprautu. Hún er voða hraust. Annars er ég enn að bíða eftir minni. Orðið tómt hjá lækninum svo að ég verð að bíða eitthvað. Baltasar fékk tilboð um bólusetningu í skólanum og við ætlum að taka því. Fleiri í bekknum hans búin að vera veik og hér í Noregi hafa 14 mannsl látist úr þessari flensu. Noregur toppar evrópulistan yfir dauðsföll og mér finnst það hund stressandi og þessvegna förum við öll í sprautu. Ætla að reka JC líka.

Svo er líka orðið kallt úti. Frost á nóttunni og ég dró fram dúnúlpuna í morgun og lúffurnar. Nú er ekki aftur snúið. En sem betur fer koma jólin til að gleðja mína lund. Er byrjuð að kaupa jólagjafir og hugsa hvað ég ætla að baka og búa til af konfekti því ég ætla að prófa það í ár. Ekki mikið - bara pínu. Jæja nú er ég alveg komin á útopnu. Best að fara að vinna.

Æi best að skella sér í smá diskó.



Góða Halloween helgi.

23.10.09

Jú ég er hérna, bara smá sein.

Var að koma úr vinnuferð frá suðurlandinu. Nánar tiltekið Lyngör.
Veðrið var ekki upp á sitt besta, stormur og rigning en samt gaman að komast í burtu.

Svínaflensan að fara með norðmenn, Saga og ég erum að fara í sprautu. Hún á fimmtudaginn eftir viku og ég þegar ég fæ tíma. Vona að við höldum okkur frískum þangað til. Besti vinur Baltasar sem hann situr við hliðina á í skólanum er komin með þennan andskota og ég er skíthrædd um að Baltasar hafi smitast. Það kemur trúlega í ljós um helgina en sem betur fer er Saga að heiman svo að maður vonar að þetta sleppi allt.

Annars lítið og hef lítinn tíma núna. Er að fara að keyra heimasætunni til stuðningsfjölskyldunnar hennar það sem verður stjanað við hana heila helgi. Yndislegt fólk og henni hlakkar alltaf svo til að fara þangað.

Nýtt lag þessa vikuna aldrei þessu vant. Fatta ekki alveg videoið en kannski er ekkert að fatta. OG bæ ðei vei þá er alltaf verið að spila íslenska júróvisjonlagið frá í ár í norska útvarpinu.



Verð að þjóta. Góða helgi

16.10.09

Ég fylgist ágætlega með íslenskum fjölmiðlum og bloggum og umræðunni um kreppuna sem íslendingar eru að upplifa núna og þakka fyrir að ég aldrei flutti heim. Ástandið á Íslandi er alveg ferlegt og dapurt þegar fólk á erfitt með að ná endum saman og neyðist til að flýja land til að fá mannsæmandi líf. Ég las á einu blogginu að börn á Íslandi í dag eiga erfitt með að skilja að foreldrarnir þurfi að spara og þau ekki lengur fái merkjagallabuxur eða nýjan iPod og álíka. Ég hef oft síðustu ár tekið eftir því hvað börn og unglingar í dag eru farin að gera miklar kröfur. Auðvitað er það slæmt ef börn fái ekki mannsæmandi föt, skólabækur og hluti aðra nauðsynjavöru en merkjaföt og leikjatölvur flokkast ekki undir nauðsynjavörur hjá mér. Kannski það góða sem kemur úr þessari kreppu er kynslóð sem lærir nægjusemi og góða nýtingu. Finnst við lifa í allt of miklu "henda á haugana" samfélagi. Þetta gildir alls ekki bara um íslendinga og íslensk börn. Sama vandamál hér. Aldrei verið hent eins miklu af heimilistækjum, fötum osfr sem ekkert er að. Sjónvörp t.d eru orðin svona henda á haugana vara. Baltasar er hundfúll afþví hann fær ekki sjónvarp inn í herbergið sitt. Mér dettur ekki til hugar að kaupa sjónvarp handa 8 ára gömlum strák þegar við erum með 2 sjónvörp á heimilinu sem bæði virka ennþá. Hann vill líka tölvu. Fær hana þegar við kaupum okkur nýja tölvu, þá getur hann fengið okkar gömlu ef hún lifir svo lengi annars verður hann að bíða fram að fermingu. Ég kem úr fjölskyldu sem nýtti hlutina í botn og þá meina ég það í bókstaflegri merkingu. Við vorum eflaust sú fjölskylda á öllum norðurlöndunum sem fengu síðast litasjónvarp. Man ekki hvað ég var orðin gömul en ég var orðin unglingur, mæli kannski ekki endilega með svona mikilli nýtingu. Hægt að fara milliveginn.

Mágkona mín á unglingsstrák sem gengur aldrei í fötum frá H & M. Þetta er mál sem við erum orðnar sammála um að ekkert þýðir að ræða okkar á milli því ég fatta ekki svona snobb en henni finnst það alveg sjálfsagt að hann gangi í rándýrum fötum og við erum gjörsamlega ósammála í þessu máli. Fatta ekki svona. Flestir krakkar í dag eiga meira en nóg og það gildir líka um mín börn. Veit aldei hverju ég á að svara þegar fólk spyr hvað það eigi að gefa þeim í jóla og afmælisgjafir. Mér finnst þeim ekki vanta neitt, auðvitað koma tímabil þar sem þarf að kaupa nyja skauta og skíði og annað sem þau eru vaxin upp úr en leikföng eiga þau nóg af. Finns mér. Ekki viss um að þau séu sammála.

Mér finnst erfitt að kynna hugtök eins og þakklæti og nægjusemi þegar við lifum í samfélagi sem margir eiga mikið og sumir lítið en samt meira en fólk í svo mörgum öðrum löndum. Held að krakkar í dag haldi að það sé alveg sjálfsagt að þau eigi sem mest og fái sem mest. Ég er þakklát fyrir að hafa alist upp á tíma þar sem kröfurnar voru minni og samfélagið einfaldara á margan hátt. Er það bara ég sem hugsa svona?

Jæja best að hætta þessu röfli. Vinnuvikan alveg að verða búin. Var með stelpuafmæli í gær og prinsessan ægilega ánægð með veisluna. Verður fjölskylduveisla á sunnudaginn með hornunum hennar mömmu og heimsins bestu eplaköku.Hætt í bili.


Best að halda sig í gömlu deildinni um stund.



Glóða helgi.

14.10.09

Hún á afmæli í dag.

Heimasætan á afmæli í dag, 10 ára. Hversu tíminn líður fljótt. Eftir nokkur ár verður hún orðin unglingur. Er farin að æfa sig í því og gengur vel. Hún verður trúlega afburðar unglingur í einu og öllu. Hún lætur varla sjá sig í skólanum nema með bleikan gloss svo að ég bíð spennt eftir hvernig þetta pjatt á eftir að þróast. Ekki var ég svona pjöttuð á hennar aldri. Allavegna þá verður smá veisla í dag, ein aftur á morgun og svo á sunnudaginn. Til hamingju með daginn sætust.




















9.10.09

Himinn eða helvíti!

Mikið andskoti hefur maður djöfulli lítið að segja suma fjandans daga. Þessi helvítis dagur er einn af þeim, gerist andskotans ekki rassgat í mínu lífi þessa djöfulsins dagana nema að ég er fjandans veik en sem betur helvítis fer er ég að hressast en er samt heima frá fjandans vinnu. Djöfulli leiðis mér að vera veik, er ekki nógu andskoti veik til að liggja í rúminu og ekki nógu fjandans hress til að vera í vinnunni. Er eins helvíti erfitt að lesa þennan djöfulsins texta eins og er erfitt að djöflast við að skrifa hann?? Það er ekki tekið út með helvítis sældinni að bölva í öðru hverju fjandans orði. Það er eiginlega algjört helvítis fokking fokk og ég nenni því fjandan ekki lengur og hana nú.

Já eins og ég segi þá er lítið að gerast hér þessa dagana og ætla ekkert að vera að pína ykkur að lesa um ekki neitt og þar af leiðandi ætla ekki að skrifa meira. Verð með smá afmæliskveðju hér á miðvikudaginn. Endilega kíkja við.

Til að bæta upp skrifleysið býð ég upp á tvö lög þessa vikuna. Það fyrsta er brilljant á margan hátt. Munið eftir finnska diskódansaranum? Þetta eru frændsystkini hans. Ég veit eiginlega ekki hvort ég á að hlæja eða gráta. Seinna lagið er til að róa aðeins niður eftir allt þetta diskó. Gamalt að vanda.





Stuðhelgi.

2.10.09

óllah

Þá er vel heppnaðri og skemmtilegri ferð lokið. Allir þáttakendur voru mjög ánægð með dvölina á Íslandi og sýningin gekk vonum framar. Held ekki að allir áhorfendur hafi átt von á þess konar sýningu en mig grunar að það finnist ekki hópar af þessari gerð á Íslandi þar sem svona margir á mismunandi aldri taki þátt í sömu sýningu. Ekki er verra heldur að Dissimilis eru góð í að hanna og sauma búninga. Var á ráðstefnu á mánudaginn og þar var einmitt verið að tala um hversu mikilvægt er að hafa góða umgjörð fyrir hópa af þessu tagi en Dissimilis eru alltaf góð í því. Annars var stíft prógram hjá okkur og svo mér. Náði smá vinkonu hittingi og fjölskyldu hittingi en var annars á fullu. Er eiginlega enn hálf þreytt eftir þessa ferð því að vakna kl 4:15 og fara í flug gerir mann þreyttan og ekki talandi um ef maður hefur svo ekki komið sér í bælið á almennilegum tíma frá ég kom heim. Keypti mér nýlega bók eftir Arnald Indriðason og fór að lesa hana og þá er bara ekki sofið. Svoleiðis er það.

Húsbandið er að fara á sitt fyrsta skytterí um helgina. Er að fara til þrándheims á rjúpu. Kannski bara að hann veiði eitthvað. Maður kannski lærir að elda rjúpu. Svo er tengdó með stórt land í svíþjóð þar sem hægt er að veiða elg og fleira en húsbandið þykist ekki vilja veiða svona stór dýr. Kjaftæði segi ég við hann, "vertu nú svolítið matsjó og veiddu einn elg fyrir konuna þína!". Eða hann getur líka veitt héra og skógardúfur þar. Vildi samt hels að hann færi á gæs. Veit ekki hvar maður veiðir svoleiðis hér í þessu landi, sendi hann bara á Höfn á gæs með Óskari bróður næsta haust. Hef mikil plön um að læra að elda villibráð.

Annars ekkert, þreytt og syfjuð núna kl 7 23 á föstudagsmorgni. Það er orðið svo dimmt og kallt á morgnana og það var hrím á bílnum í morgun. Verð að horfast í augu við þá dapurlegu staðreynd að það er að koma vetur. Ég er meiri svona haust, vor og sumarmanneskja. Veturinn í Köben var alveg við mitt hæfi. Rigning og rok.

Er ekki við hæfi á þessum kalda föstudegi að velja eitt gamallt og gott.



Góða helgi.

25.9.09

Nú er ég farin

og búin að vera.

Fékk að vita að það væri búið að breyta staðnum og tímanum sem Dissimils átti að hittast á áður en við legðum í ferðalagið. Eitthvað hafði það farið fram hjá mér og ég varð að láta leigubíl ná í Sögu til að hitta mig á öðrum stað. Þegar ég kom þangað sá ég að hún hafði tekið Ídu með sér en hún er ekki með í þessari ferð. Ég fór að vesenast við að hringja í skólann og láta vita hvar hún væri og á meðan náði Saga sér í rakvél og rakaði vinstri helminginn af höfðinu á Ídu(hún er brún og með voða mikið hrokkið hár) ég varð að hringja í rútu til að láta keyra okkur en varð að byrja á því að skila Ídu í skólann og reyndi að útskýra fyrir kennaranum að það væri í tísku að vera með skalla bletti öðru megin. Svo var lagt af stað til að finna hvar Dissimils hópurin ætlaði að hittast. Bílstjórinn neitaði að lækka í tónlistinni svo ég heyrði ekki hvað var verið að segja í símann um staðsetninguna og bað viðkomandi bara um að senda mér sms sem hún svo gerði en þá vantaði helminginn á skilaboðin. Á endanum fékk ég svo adressuna og rútubílstjórinn vissi ekkert hvar þetta var og það endaði með að ég henti honum út og keyrði sjálf inn í Osló. Ekki fór það betur en svo að ég keyrði rútunni inn í tískuvöruverslun og komst aldrei af stað.

Merkilegur andskoti hvað ég sef alltaf illa og dreymi mikið rugl áður en ég er að fara í ferðalög.

Eitt gamalt og gott íslenskt með einum besta söngvara okkar fyrr og síðar. Skrýtið vídeo!!! Allir syngja með.



Góða helgi og haustfrí!

18.9.09

Ein vika

Já það er ekki nema ein vika í fyrirhugaða Íslandsför. Núna er maður farin að finna fyrir spenningi og smá kvíða. Málið er með svona hóp eins og Dissimilis að maður veit aldrei hvernir sýningarnar ganga. Yfirleitt ganga þær vel en stundum fer einhver þáttakandinn í baklás og þá ganga hlutirnir ekki eins og planlagt. Fyrst er verið að bjóða okkur þessa ferð með sýningu frá þessari norrænu nefnd og menntamálaráðuneytinu(eða kannski var það eitthvað annað!) þá vill maður að sjálfsögðu að liðið "value for money" eins og það heitir á fínni ensku.

Dagskráin er komin og verður byrjað á smá heimsókn í Bláa lónið, daginn eftir verður farið á Gullfoss, Geysi og Þingvelli og á sunnudeginum förum við í heimsókn á Sólheima í Grímsnesi. Þar verður okkur sýndur staðurinn og svo verðum við með workshop. Mánudagurinn er frír fram til kl 3 og eftir þann tíma fáum við aðgang að Borgaleikhúsinu þar sem verður general prufa en ég fer aftur á móti á ráðstefnuna sem er haldin í tengslum við þetta. Þar verður meðal annars fjallað um sýnileika og kynningu fatlaðra í fjölmiðlum og menningu í norrænum löndum. Stofnandi Dissimilis verður með innlegg í þessa umræðu og ég fer með sem túlkur. Þriðjudaginn fékk ég svo að skipuleggja og valdi ég "shopping" sem aðal tema :-D Semsagt frír dagur en ég ætla að skella mér á eina lopapeysu sem ég sá í sumar og svo verður að sjálfsögðu farið eitthvað í sund. Semsagt rosa prógramm.

Annars er þetta fína haustveður hér og búið að vera í 10 daga. Haustin eru oft fín hérna. Ég fór með krakkana á hitting hjá Þroskahjálp(þeirri norsku) sem var haldin í seli uppi í það sem er kallað Vestmarka. Það var 2 km ganga þangað upp frá bílastæðinu. Baltasar var á hjóli og í bakaleiðinni sem var niður í mót hjólaði hann á fullu niður að bílastæði og Saga gerði sér lítið fyrir og hljóp eftir honum alla leiðina. Ég reyndi að spretta úr spori líka og aðrar eins harðsperrur hef ég varla verið með. Var að vísu með bakpoka og fullt fang af fötum og drasli en sama. Saga blés varla úr nös og ekki hef ég heyrt um neinar harðsperrur þar. Þarf alveg greinilega að koma mér í betra form(ekki að það séu nein ný tíðindi).

Jæja pæja best að fara að vinna. Lag vikunar er gamall og góður diskóslagari frá mínum yngri árum. Maður verður nú að dilla sér smá þegar þetta lag er spilað.



Frábæra helgi.

11.9.09

Ilmurinn

Ég er með alveg hræðilega þróað lyktarskyn og ég meina hræðilega. Ég finn lyktir sem nánast ekkert annað fólk finnur. Ég tek strætó í vinnuna á hverjum morgni og þegar ég kem inn í bílinn byrja ég á því að skanna svæðið til að finna það fólk sem er líklegast til að lykta lítið. Ilmvötn þoli ég sértaklega illa, fæ mikinn hausverk og þar af leiðandi forðast ég að setjast hjá konum sem líta út fyrir að misnota ilmvötn. Sest helst ekki hjá konum en stundum neyðist ég til þess og það hefur leitt til þess að ég hef orðið að flytja mig og jafnvel standa ef er of mikil lykt af viðkomandi. Var að kaupa mér nýja sæng um daginn og kodda og það er svo mikil lykt af því að ég verð að viðra vel og lengi og sofa með opinn glugga. Húsbandið finnur ekki þessi lykt nema sem smá keim sem kemur af áklæðinu þar sem það er nýtt og enn smá stíft. Sama með ný föt. Plastlykt, fúalykt og ég tala nú ekki um svitalykt eða vonda ískápalykt. það er sko ekki tekið út með sældinni að vera með svona háþróað nef.

Núna er kóngulóatíminn hafinn. Þegar fer að hausta flykkjast þessi viðbjóðslegu dýr inn í hús. Ég veit ekkert afhverju. Sat og horfði á sjónvarpið eitt kvöldið og sá útundan mér kónguló á stærð við meðal mús skríða yfir gólfið. Það var gólað á húsbandið sem myrti kvikindið. Í morgun var ég svo að klæða mig í leggings og þegar ég fann einhvern hnúð á lærinu. Ég stakk hendinni niður í buxurnar til að athuga hvað þetta gæti verið og fingurinn varð hálf blautur og ég dró upp dauða kramda kónguló. Næs!

Annars allt við það sama. Mikið að gera í vinnunni en fer að róast um miðja næstu viku og það er ágætt. Veðrið í fínu skapi og búið að vera milli 17 og 20 stiga hiti og sól og ekki ætla ég að kvarta yfir því. Kveð að sinni.

Alltaf jafn gaman að velja lag vikunar. Vel eitt í rólegri kanntinum. Held ekki að ég hafi haft það áður.



Glóða helgi.

4.9.09

Plómur

Já nú eru plómurnar farnar að þroskast og ekkert smá magn af þessu núna. Ég á eftir að henda fleiri tugum kílóa í ár eins og í fyrra. Við þurfum að fara að saga af greinar núna því þetta er ekki fyndið. Og það versta við plómur er að þær þroskast allar á sama tíma. Svo hér verður sultað og búið til chutney trúlega næstu helgi í stórum stíl. Ég er stundum svo agalega myndó húsmóðir. En bara stundum.

Erum að fara okkar aðra ferð í Svíaríki að skoða bústað. Erum í startholunum í bústaðarleit og ætlum að skoða voða lítið hús á morgun sem liggur við fallegt vatn. Á nú alls ekki von á að við kaupum þennan en maður verður að skoða til að finna. Svona álíka eins og að kyssa marga froska áður en maður finnur prinsinn.

Ætlaði að skrifa fullt en það er svo brjálað að gera í vinnunni að ég næ ekki meiru í dag. Á að skila af mér stórri auglýsingarherferð fyrir hádegi. Stress bless.

Gleymi samt aldrei lagi vikunnar. Svona meðal gamallt lag með texta á spænsku fyrir ykkur sem vilja æfa ykkur.



Gróðahelgi.

28.8.09

Jelló!

Þegar ég var í 9. bekk var ég með svona týpíska eitís greiðslu. Sítt að aftan, topp og restin stóð stífbein út í allar áttir. Hef oft verið að velta því fyrir mér hvernig mér tókst eiginlega að fá hárið á mér til að standa svona út en var minnt á það í sumar að við blésum á okkur hárið um leið og við spreyjuðum hárspreyi í lítratali á makkann. Ég hef greinilega verið í afneitun fyrst ég man ekkert eftir þessu, kannski afþví ég hlýt að hafa eytt ansi miklum peningum í hársprey á þessum árum. En eitt man ég og það er að ég var aldrei neinn morgunhani á þessum árum. Hægt að kalla mig flest annað en það. Og hvað gerir maður þegar maður er með svona krafstóra klippingu. Jú, ég átti stóran fjólubláann trefill sem ég hreinlega batt utan um hausinn á mér á morgnana. Maður bara reddaði sér, ekkert vesen enda mikill kostur fyrir mig að ekki vera meiri pempía en ég var. Svo man ég nú ekki hvort ég greiddi mér í hádeginu eða beið bara fram á kvöld því það var nú einhvernvegin þannig að það var mikilvægara að vera vel tilhöfð á kvöldin. Ég verð nú bara alveg að viðurkenna að ég vildi stundum óska að ég gæti mætt í vinnuna með trefil vafðann um höfuðiði til að sleppa að blása og greiða á morgnana. Annars er frekar hár beib faktor hér í á deildinni. Hinar tvær sem vinna með mér eru alltaf með geðveikt mikið af stórum skartgripum og svo tipla þær um á hælum á meðan ég er meira fyrir þessa lágbotna. Nenni ekki að vera dettandi út um allt. En ég er með smartari klippingu en þær!

Annars bara allt við það sama. Mikið að gera í vinnunni og utan. Um helgina er fótbolltamót hjá einkasyninum, bæjarhátíð og svo erum við Saga að fara í sjónræningja-dagsferð á sunnudaginn ásamt 58 öðrum sjóræningum. Með og án Downs heilkenna. Ef ekki er stuð í þessum árlegu sjóræningjaferðum þá veit ég ekki hvað. Alveg makalaust hvað einstaklingar með Downs eru miklir sjóræningjar í hjarta. Veit um eina sem bað um sjóræningjabúining á 24 ára afmælinu sínu. Sjippoghoj.

Lag vikunnar er í rólegri kantinum. Sá yndislega mynd um daginn(Once) þar sem þetta lag var flutt. Komst að því svo að það vann Óskar fyrir besta lag í kvikmynd árið 2007. Held barasta að ég hafi aldrei verið með verðlaunalag hér á blogginu fyrr en í dag. Sko mína!



Farið vel með ykkur og ekki gleyma að bursta. Góða helgi.

21.8.09

Morning!

Í Aftenposten í dag stendur að hér í Noregi eru 227 konur sem eru yfir 100 ára og aðeins 45 menn. Í sama blaði stendur að stúlkubörn séu sérstaklega óvinsæl í Indlandi og sé þeim oft eytt í móðurkviði ef komist er að því að kona gangi með stelpu eða þær ættleiddar eftir fæðingu. Þetta viðgengst í öllum stéttum samfélagsins. Þetta er farið að valda ójafnvægi í samfélaginu og er orðin hörgull á konum á giftingaraldri á einhverjum svæðum þar. Ég get ekki annað en velt fyrir mér að eftir um það bil 80 ár verði kannski ekki til neitt gamalt fólk í Indlandi fyrst karlar lifa svona miklu styttra en konur og konur verði nánast útdauðar eftir svo mörg ár eftir kynjahreinsun.

Annars bara allt fínt. Mikið að gera í vinnunni og að komast í rútínu eftir sumarleyfi. Krakkarnir byrjaðir á heimalærdómi á hverjum degi og bara fínt að komast í rútínu. Á okkar heimili gengur all svo miklu betur ef eru fastir liðir eins og venjulega á hverjum degi. Sparar grát og gnístran tanna oft á tíðum en tekur smá tíma að venjast þeim aftur. Mamma, pabbi og Dagmar að fara í dag eftir að hafa verið hér í rúma viku. Verð nú að viðurkenna að það er skemmtilegra að hafa gesti þegar maður ekki er að vinna fulla vinnu. Þá er hægt að gera eitthvað með gestunum annað en að elda og borða og henda sér dauðþreyttur fyrir framan imbann á kvöldinn. Sakna stundum að vera í 80% starfi eins og ég var hér áður fyrr.

Hef því miður ekki tíma til að skrifa meira í þetta skifti en ég á að skila verkefni í dag og þarf á hverri mínútu að halda. Túrílú.

Ekki svík ég um föstudagslag þrátt fyrir tímaþröng. Algjört gúmmífjés þessi.Aldrei séð hann áður og svo sem ekkert saknað þess.



Góða helgi.

14.8.09

fjórtándi ágúst tvöþúsund og níu



Er eitthvað betra en að borða úti í góðu veðri, ég bara spyr. Þessi mynd var tekin síðustu helgi þegar við hjónakornin gæddum okkur á tapas og Sancerre og við nutum þess i botn. Sérstaklega afþví það hefur ekki verið svo oft síðustu 6 vikurnar að veðrið hafi boðið upp á svona lúxus. Það er búið að rigna slatta síðan í byrjun júlí og það eru þrumur og eldingar nánast á hverjum degi. Eina nóttina var svo mikið óveður að við vöknuðum öll við eldinguna sem lýsti upp herbergið og þegar fyrsta þruman kom hljómaði það eins og væri verið að sprengja upp húsið við hliðina. Þessar brjáluðu þrumur og eldingar voru beint yfir okkur, maður heyrði það greinilega og þetta varði í 10 mínútur. Eldingu sló svo niður í næsta hverfi og var hún svo öflug að húsveggurinn beygðist inn á við eftir ósköpin. Mér finnst einhvernvegin eins og sumarveðrið sé búið að breytast fullt á nokkrum árum. Svo las ég að vegna veðurfarsbreytinga má fólk búast við meiri ókyrrð í lofti. Mér finnst nú bara að það sé búin að vera grunsamlega mörg flugslys á síðustu mánuðum. Manni er nú eiginlega meira farið að gruna geimverur!!

Allavegna þá er maður komin á fullt í hversdagsleikan. Sonurinn var endurheimtur þessa vikuna og það 2 tönnum léttari og var það mikil gleði. Gaman að sjá kauða :-D Það var haldið upp á afmælið hans í gær, strákaafmæli og það var mikil gleði að hitta vinina aftur. Mamma og pabbi og Dagmar hans Óskars eru hjá okkur núna og það er alltaf gaman. Annars er ég búin að vinna í að verða 3 vikur og nóg að gera. Finn samt að ég er smá ryðguð á morgnana. Um daginn ákvað ég svona alveg á síðustu stundu, áður en ég fór í vinnuna að ég vildi vera með ilmvatn svo ég fór aftur inn á bað og tók flösku úr skápnum og spreyjaði á hálsinn á mér. Svo leit ég á flöskuna - gleraugnahreinsirinn hennar Sögu !!!

Er annars að fara í 2x40 afmæli hjá þeim hjónum Aldísi og Vidar á morgun og það verður ágætt að sletta aðeins úr klaufunum. Langt síðan maður hefur farið í almennilegt partý og svo verður haldið annað afmæli á sunnudaginn.

Lag vikunnar er skemmtilegt að vanda því ég er með svo ansi góðan tónlistarsmekk. Eitt gamalt uppáhalds.Var eiginlega í vanda að velja lag með þeim því ég alltaf verið veik fyrir gæludýrastrákunum. Held samt að þetta sé það besta.



Góða helgi

7.8.09

I´ts back!

Er nú alltaf að hugsa um að hætta þessu bloggi en alltaf þegar ég er að verða búin að ákveða það man ég afhverju ég blogga. Það er til að viðhalda móðurmálinu á sæmilegu plani en ég finn þegar ég er ekki búin að skrifa á íslensku lengi svo að ég held að ég eigi ekkert eftir að hætta neitt á næstuni en finnst þó að ég skrif mín séu ansi mis áhugaverð. Ætla að reyna að bæta mig. Nóg um það.

Fínu sumarfríi er nú lokið. Það hefur ekki verið nein Mallorca stemning á veðrinu en fengum engu að síður fínt frí. Fyrst var farið í viku í bústað á jótlandi, við Odder nánar tiltekið og það var bara rosalega notalegt og bissí á sama tíma. Á þessari viku fórum við í Randers regnskog, Givskud Zoo, Himmelbjerget,Legoland, Aqualand, Aarhus bymuseum, heimsóttum Kristínu frænku til Aarhus og Hlíf vinkonu á vesturströndinni. Semsagt bara nóg að gera. Veðrið var svona og svona svo að það var ekkert varið í að hanga við bústaðinn og fundum okkur þar af leiðandi nóg að gera. Svo var farið í 3 daga til Samsö og það var bara ljúft. Komum svo heim og ég pakkaði sumarfötunum upp og haustfötunum niður og fórum til íslands. Það er nú bara svoleiðis að góða veðrið sem er alltaf í RVK greinilega á sumrin lætur sig hverfa þegar ég kem svo að flís og regnjakki er það sem ég tek með mér til íslands. Fórum beint austur og lét klippa mig stutt, já er orðin stutthærð loksins og ánægð með það. Kúldraðist á Höfn í viku ásamt börnum, ömmu og Viggó sem komu frá RVK til að vera með okkur og öllum hinum sem búa þar. Tók 3 daga í bænum í smá shopping og svo var farið heim að vinna. Búin að vinna núna í 14 daga að verða og lífið að komast í fastar skorður. Baltasar kemur heim á miðvikudaginn og það verður gaman. Sakna litla stráksins míns en mikið ósköp hefur hann samt gott af þessari árlegu dvöl sinni á Íslandi.Hann er að spá í að fara í skóla á Höfn næsta vor. Sjáum hvað setur.

Vanda þarf valið þegar er verið að velja fyrsta lag eftir frí. Það setur tóninn fyrir haustið og verður þarf að leiðandi að vera skemmtilegt. Hvað er betra en smá diskó til að dilla sér við á föstudegi.



kveðja frá wet wet wet norway!

2.7.09

LOKSINS !!

Vá hvað síðustu vikurnar fyrir sumarfrí eru lengi að líða. Þessi bið er verri en jólabiðin. Og sérstaklega núna í miðjarðarhafsveðri. Búið að vera milli 26-30 gráður í að nálgast 2 vikur og maður komin í þokkalegt sumarfrísskap. Því miður er spáin ekkert sérsök fyrir DK næstu vikuna en ég keypti mér stígvéli í gær svona til að ég og veðrið pössum saman. Eldrauð. Jamm, maður er orðin svo glannalegur á efri árum. Og feit! Bikinísísonginu er aflýst í ár. Prófa aftur næsta ár.

Ákvað að skella inn nokkrum myndum af vatna verkinu sem húsbandið bjó til all by him self.



Síðasta lag fyrir frí er mjög svo ekki ég en finnst það samt kúl og minnir mig á það sem maður var að gera fyrir rúmum 10 árum á heitum föstudagskvöldum. Nefninlega dansa og djamma í hitanum. Núna læt ég mér nægja hvítvínsglas og grill í garðinum og hlusta á börnin mín rífast. Ekkert meira föstudagslegt en það. Að vísu er fimmtudagskvöld núna en á morgun verð ég á fjölskyldubingó á danska bátnum. Íha!



Sjáumst kannski á Íslandi eftir 2 vikur !

26.6.09

Minning um mann

Ég verð einhvernveginn alltaf jafn hissa þegar frægt fólk deyr, ég veit ekki afhverju því ég geri mér grein fyrir að þetta fólk er dauðlegt eins og við hin venjulegu svo að mér brá við að lesa að Michael Jackson væri dáin. Það var hægt að segja ýmislegt um hann en það var ekki hægt að taka frá honum að hann var stórmenni innan poppheimsins. Já karl greyið, hann hefur trúlega ekki átt svo auðvelt líf þrátt fyrir frægð og frama. Frekar skrúaður. Annars man ég þegar Elvis dó og John Lennon og svo auðvitað Freddy Mercury. Rás 2 spilaði ekkert nema Queen lög í 2 heila daga en ég man það því ég var að vinna í síld og var með heyrnatól með útvarpi í og mér var komin með Queen ofan í kok. Heyrði 3 lög með Michael J í morgun svo að honum verður minnst í útvarpi og sjónvarpi og blöðum næstu daga. Að sjálfsögðu.


En núna skín sólin. LOKSINS. Búin að vera bongóblíða allal vikuna. Sat á miðvikudaginn í garðinum hjá yfirmanni mínum og borðaði krabba,bláskel og annað góðgæti úr hafinu og drakk kampavín. Stundum er lífið svo ljúft. Höfum setið úti á hverju kvöldi í nánast engu enda mjög heitt. Það var 29 stiga hiti þegar ég kom heim úr vinnunni í gær. Engin ástæða til að kvarta yfir neinu þá. I kvöld er það grill með nágrönnum, Mojito og chill og svo ströndin á morgun. Um að gera að safna smá b vítamínforða í sólinni.

Lag vikunnar ætti ekki að koma á óvart eftir atburði næturinnar. Hef aldrei valið lag með Michael á föstudögum, ekki af neinni sérstakri ástæðu. Hef bara ekki komist í það enn en geri það í dag til að minnast hans. Þetta lag var alltaf uppáhaldið. Ég var stödd á skólaballi í Nesjaskóla þegar ég heyrði það í fyrsta skifti. Man það svo vel því mér fannst það æði.



Góða sumarhelgi.

19.6.09

Gleðilegt sumar

Hef lítið að segja og sýnist að fáir komi hér við þessa dagana. Vorum með skemmtilega heimsókn frá íslandi síðustu helgi og það var bara frábært. Sýningin Jenný sem Saga hefur verið að taka þátt í var sett upp í síðasta sinn og gekk mjög vel og núna er þetta búið sem betur fer. Byrjum á æfingum fyrir íslandsförina hefjast núna um helgina. Já gott að hafa nóg að gera. Var í bátsferð með vinnunni á þriðjudaginn, sigldum um Oslóarfjörðin og fundum okkur smá sker(og það eru engar ýkjur þetta var sker) þar sem við fórum í land og borðuðum rækjur og drukkum hvítvín. Bara næs en veðrið er nú samt ekkert að sýna á sér betri hliðina þetta sumarið. Vonandi verður þetta ekki eitt af "sumrinu sem aldrei kom". Búið að vera nóg að þeim síðustu árin.

Óskar bróðir vann síðustu getraun sumarsins og bað ekki um lag svo að ég vel það bara fyrir hann.Lag vikunnar hefði hann trúlega aldri valið sjálfur. Algjör sumarlaydbakcfílngur á þessu lagi. Lítið meira að segja um það nema að videoið er frábært. Hækka í hátölurunum og grúv on.



góða helgi.

12.6.09

Heimtaði með þjósti peningana og bankastjórann hneppti í bönd.

Laugardagur:Fótbolltamót. Í matinn: kanelbollur
Sunnudagur: Dissimilsæfing frá kl 12-17. Í matinn: spagettí.
Mánudagur: Saga eyrnalæknir kl 16 og kl 17 gjafakaup handa kennurum. Í matinn: afgangar
Þriðjudagur:18-21 Opin skóli hjá Sögu með skólaslútti á eftir. Í matinn: kaldur fiskur(ekki sushi)
Miðvikudagur: Pabbi og Steinunn komu, Skólaslútt hjá Baltasar. Í matinn:salat
Fimmtudagur: Fara í matarboð. Í matinn: hlaðborð.
Föstudagur: 8 manns í mat og þau fá súpu.
Laugardagur: Generalprufa kl 16 á óperunni Jenný á Oscarsborg sem er eyja langt út í hafgapi, kl 19 sýning á óperunni Jenný. Heimferð með bát ca 2130-22 og klst keyrsla eftir það heim. Í matinn: verður sleppt þennan daginn.
Sunnudagur: Slappa af og skemmta Viggó. Í matinn: Grill(afþví að ég er búin að panta sól).

Næsta vika - alveg eins.

Vá hvað ég er farin að hlakka til að fara í sumarfrí. Búið að vera geðveikt að gera síðan um miðjan maí en eftir næstu viku fer þetta að róast. Sem betur fer. Skil ekki þetta æði að hafa sumarslútt á öllu mögulegu. Brjálað að gera í nýju vinnunni líka. Gaman gaman.

En sumarið er samt ekki alveg að standa sig svona veðurfarslega séð. Hey og húsbandið búin með vatnalistaverkið í garðinum. Erum búin að kaupa vatnaliljur og aðrar ónefndar vatnaplöntur. Svei mér þá ef ég hendi ekki inn mynd af þessu við tækifæri. Ekki allar konur sem eiga menn sem steypa vatnaverk í feng shui stíl. Núna þegar ég sit í garðinum mínum og þá heyri ég dálítin lækjarnið (svona á milli umferðarhávaða,slátturvéladrunum og fótbolltaöskrum drengjana í nágrenninu) og finn hvað ég er orðin meira Zen en áður!!!

Lag vikunar er óskalag frá henni Írisi og vildi hún heyra eitthvað með undrabarninu blinda. Hún sagði samt ekki hvaða lag hún vildi heyra svo ég valdi fyrir hana. Lucky girl! Annars verður þetta síðasta getraun sumarsins.




Goða helgi.

5.6.09

Leitar, engu er nær heyr heyr, myrkvið það hlær

Já það er föstudagur eina ferðina enn. Var í Stocholm þriðjudag og miðvikudag svo að þessi vinnuvika hefur verið frekar stutt. Góða veðrið sem var hér síðustu helgi er að öllu horfið. Hitastigið hefur farið frá 28 gráðum á sunnudaginn niður í 7 gráður í gær. Er þetta hægt!! Annars bara galtóm. Hef ekki boru að segja núna. Vorum að vísu að fá nýja stuðningsfjölskyldu handa Sögu. Fyrsta skifti að við ákveðum að prófa fólk sem við þekkjum ekki neitt, en þau eru voða indæl. Hafa að vísu enga reynslu af fötluðum börnum og ég finn að ég á eftir að vera smá stressuð en við eigum eftir að taka langann tíma í að leyfa henni að kynnast þeim áður en hún fer að gista. Sú sem hefur verið með Sögu frá hún var 4 ára er að fara að eignast sitta annað barn á 2 árum svo að nú tekur hún árs frí.

Annars er ég að fara í bíó í kvöld. Í annað skifti á þessu ári og það telur til tíðinda að ég fari tvisvar sinnum í fullorðins bíó á stuttum tíma. Við hjúin ætlum líka út að borða en við hliðina á kvikmyndahúsinu hér í bæ er þessi fíni og ódýri thai-sushi staður. Ég ætla að fá mér sushi. Eins gott að gera eitthvað fullorðinslegt í dag því helgin fer í fótbolltamót með Baltasar og Dissimilsæfingu með Sögu. Baltasar á að vísu ekki að spila sinn fyrsta leik fyrr en kl 1820 á laugardagskvöldið. En sem betur fer eitthvað fyrr á sunnudaginn en því miður missi ég af þeim degi því þá verð ég með Sögu á æfingu.

Jæja hef svo sem lítið að segja annars. Er hálf þreytt eftir þetta ferðalag en það var lítið um svefn tvær nætur í röð og ég finn alveg fyrir því.

Ellen í Göteborg vann síðustu getraun og bað um eitthvað með Rod Stewart. Hann er einn af þeim sem hafa fjarlægt nánast öll sín video af youtube svo að það finnast bara life video með honum í ansi mismunandi hljóðgæðum. Fann þó þetta, athyglisvert hvað hann var vel málaður.



Frábæra helgi.

29.5.09

Mikið var að vökvar mínir vættu þessa sál

Kennarinn hennar Sögu hringdi í mig í vikunni og sagði að nú færi að koma tími á að hafa samband við barnasálfræðinginn í skólanum því Saga er orðin tilbúin að fræðast meira um sjálfa sig og fá hjálp við að setja orð á þær tilfinningar sem eru að brjótast um í henni. Ég varð nú hálf stressuð verð ég að viðurkenna því þetta er tímabil sem flestum foreldrum fatlaðra barna kvíðir fyrir. Ég hef alltaf vitað að þessi dagur kæmi en var að vona að það væri aðeins seinna en málið er að hún er að vera meira og meira meðvituð um það að vera öðruvísi. Hún upplifir það ekkert rosa sterkt með sjálfa sig en er farin að spyrja um þau börn sem ekki eru eins klár og hún, afhverju Ída vinkona hennar kann ekki að tala og afhverju Thea önnur vinkonan sé svona og hinseginn. Hún hefur líka nefnt að hún sjálf tali skrýtið og spurt hvort augun á henni séu skrýtin svo að hún er farin að skilja og taka til sín það sem önnur börn finna upp á að segja við hana. Þessvegna er komin tími til að hún fræðist um sína fötlun. við höfum svo sem aldrei falið það neitt heima og tölum opinskátt og hátt um downs syndrom en hún hefur bara aldrei tekið það til sín og ég vill ekki segja henni það beint og þessvegna verður sálfræðingur látin vinna með henni. Þetta er þónokkuð ferli og ég er spennt að sjá hvað gerist. Við byrjum ekki á þessu fyrr en eftir sumarfríið. Þau verða 3 í skólanum hennar sem byrja á þessu í haust svo að það verður gott, bæði fyrir hana og okkur. En vá hvað mér kvíður fyrir.

Annars bara allt fínt. Er að fara til Stokkhólms á þriðjudaginn í 2. daga ferð með vinnunni. Svo er spáð þessari rjómablíðu um helgina, 28 og sól. Held að maður skelli sér í smá sólbað og svo kannski smá veiðimennsku með börnunum eða eitthvað. Ekki alveg tilbúin í strandlífið því sjórinn er nú frekar mikið kaldur enn, ekki langt síðan síðasti ísinn hvarf úr firðinum. Svo er ég farin að hlakka ægilega til að fara í sumarfrí.Það helsta af mér annars er að ég er að borða brauð með danskri spæjepölse, drekk appelsinujús úr fernu og hlusta á Jamie Cullin. Já þetta var nú eitthvað sem var gott að vita!!

Drífa vann síðustu getraun og valdi meira að segja lag svo að lag vikunnar er úr hennar lagabanka.Veit ekkert um það og hef aldrei heyrt það áður svo að ég get því miður ekki komið með neina gullmola um það.



bæó og góða helgi frá sunny Norway!

22.5.09

Þú gafst mér skýin og fjöllin og Guð, til að styrkja mig

Venjulega gengur lífið sinn vanagang og maður er ekkert að spá í neinu, dagarnir bara þjóta framhjá og maður eldist og árin líða. Endrum og sinnum stoppar maður upp og spyr sig "hvernig endaði ég hér". Ekki miskilja mig, ég er ekkert óánægð með líf mitt, bara undra mig á því öðru hverju hvernig ég hef endað hér, í þessu húsi, með þessum manni í þessu landi og þessari vinnu. Aldrei hefði mig grunað á okkar Jans Chr. fyrstu mánuðum tilhugalífsins og jafnvel ári að við myndum enda saman, gifta okkur og flytja til Noregs með tvö börn, annað fatlað, eignast hús og bíl og allt það. Hefði einhver sagt mér það í byrjun okkar sambands hefði ég hlegið mig máttlausa en ég má þakka Jenný vinkonu minni fyrir karlinn því hún nánast bauð mér á fyrsta stefnumótið okkar, eða allavegna sá til þess að mér yrði boðið.En svona til að vera hreinskilin gaf ég ekki okkar sambandi langt líf því fyrsta árið var bölvað streð,annað aðeins skárra en fór batnandi og hér erum við 15 árum seinna. Enn saman og bara ánægð enn. Auðvitað gætum við verið meira rómó og allt það. En svona í hnotskurn held ég að við höfum það bara fínt miða við svo marga aðra, rífumst ekki oft, ekki alvarlega allavegna og höfum svipaðar skoðanir á því sem skiftir máli. Erum góðir félagar og okkur semur bara þokkalega en höfum eins og flest önnur pör málefni sem við erum ósammála um en erum orðin sammála um að vera ósammála og ræðum það ekkert frekar þar sem það leiðir ekki til neins ( eins og mikilvægi fótbollta í eins lífi!). En allavegna þá verð ég stundum hissa á að ég hafi búið svona lengi erlendis, langt frá fjölskyldu og vinum og hissa á að ég sé ekki löngu flutt heim. Ekki það að Ísland sé beint lokkandi þessa dagana. Veit eiginlega ekki hvað ég vill með þessu en eitt er víst og satt sem John Lennon sagði svo vel á engilsaxneskri tungu "Life is what happens to you while you're busy making other plans". Mikið var það satt hjá honum. Fyrir utan það að ég geri mjög sjaldan áætlanir, ég bara berst með straumnum.

Annars bara fínt, gaman í nýju vinnunni fyrir utan eitt. Fíla ekki þessa unisex klósettastefnu sem maður hefur þar. Mjög svo Ally McBeal en ekki minn stíll at all. Skil ekki svona, gef skít í femínístana ef þetta er eitthvað sem þær hafa haldið að væri eitthvað jafnrétti. Ellers takk segi ég nú bara.

Hefði aldrei spáð íslandi 2. sæti í júró svona við fyrstu hlustun. Fannst þetta lag hálf leiðinlegt en hún söng nú samt eins og engill og jafn falleg líka en eftir að hafa horft á öll hin skildi ég betur að þetta lag komst svo hátt. Svei mér þá ef austur evrópa og þýskaland og Grikkland ættu ekki bara að slá sig saman næsta ár og senda eitt lag með sama flytjanda. Myndi ekki skifta máli, allt sama draslið. Jísus. Ekki orð um það meir.

Lag vikunnar er tileinkað húsbandinu sem hefur endst í 15 ár. Hlustuðum mikið á þetta lag fyrsta sumarið okkar saman. Eitt skemmtilegasta sumar sem ég hef lifað. Grunar að Begga vinkona sé sammála mér þar. Lög gerast ekki sumarlegri en þetta í mínum heimi.



Gísli Eiríkur Helgi.

.p.s Drífa vann aftur en hefur ekki innheimt verðlaun.

15.5.09

Þetta er blús. Svona er lífið. Ég fíla mig í sukkinu en samt ekki grimmt

Einhverjir eru búnir að vera að spyrja um hvaða vinnu ég er komin með. Ég er komin með vinnu hjá If Inhouse sem vefhönnuður. If Inhouse er auglýsingastofa sem er í eigu og rekin af If sem er ein af stærstu tryggingarstofnunum skandinavíu. Í allt vinna um 6 þús manns hjá If, deilt á norðulöndin og Baltikum og eitthvað í rússlandi. Í húsinu sem ég vinn erum 700 manns svo að þetta er risa fyrirtæki. Svo stórt að hér er eigin líkamsrækt með föstum tímum(spinning t. d) sem hægt er að fara í innan vinnutímans,eigin listaklúbbur sem fer í listaferðir erlendis, lítið kaffihús hér í húsinu og ég veit ekki hvað. Er ekki búin að komast að öllu. Ég er að vinna með 5 öðrum, einn vefhönnuður, 3 grafískir hönnuðir og svo teksta og verkefnastjórar. Mjög fínt fólk svona við fyrstu kynni. Flest á milli 35-40 svo að þetta eru ekki bara unglingar. Ég get allavegna sagt að ég er orðin tryggð í bak og fyrir eftir að hafa byrjað hér. Mér finnst eins og ég sé komin í fyrstu fullorðinsvinnuna mína!

Ef það hefur farið fram hjá einhverjum þá er júróvisjon á laugardaginn. þetta verður í fyrsta skifti að krakkarnir fá að horfa, allavegna svona eitthvað fram eftir en við fáum gesti í mat og gláp. Held að í þetta sinn haldi ég með norðmönnum, gerði það að vísu líka í fyrra. Mér finnst íslenska lagið ekkert sérstakt í ár. Var þó skárra í fyrra þótt það sé ekki beint lag sem ég nenni að hlusta á heima hjá mér en mér fannst norska lagið í fyrra mjög fínt.

Annars er þjóðhátíðardagur norðmanna á sunnudaginn. Baltasar verður í bunad í fyrsta skifti(þ.e.a.s ef ég finn bunadssokka!) en það er þjóðbúningur og nánast allir klæðast svoleiðis á þessum degi. Hann fékk einn slíkan frá frænda sínum í arf og núna passar búningurinn. Ég var nú eitthvað efins að hann vildi vera í þessu en honum fannst bara kúl að vera klæddur eins og hobbit! Og spurði svo hvort hann gæti verið á skeitbordinu sínu á þjóðhátíðardaginn. Aldrei séð dreng í þjóðbúning á bretti áður en einhverntíma verður allt fyrst.

Það var mín kæra vinkona Drífa sem vann getraunina þessa vikuna. Að sjálfsögðu þekkir hún Mannakorn. Hún er ekki búin að velja lag en ég valdi eitt handa henni.Hún er ein af þeim á fullt af lögum í mínum huga og þar af leiðandi erfitt að finna eitt lag. Ég veit eiginlega ekki afhverju þetta lag minnir mig á hana, kannski hún man það og kannski kannast hún bara ekkert við þetta lag og ég bara í tómu rugli.



Góða helgi.

p.s Hvaða lag og flytjandi er um að ræða í dag?

7.5.09

Vetur kemur og vetur fer en alltaf vorar í sálinni á mér

Núna ætla ég að vera stuttorð aldrei þessu vant. Byrjaði í nýrri vinnu á mánudaginn og þar af leiðandi mikið að gera. Félagslífið hjá börnunum heldur virkt líka þessa dagana svo að ég geri lítið nema vinna og fara í afmæli og diskótek með dóttur minni. Skrifa meira þegar verður aðeins minna að gera.Er að fara í veislu með vinnunni, 10 ára afmæli fyrirækisins(er að vinna hér).Það hafa um 800 manns skráð sig í veisluna hér í bæ svo að þetta verður áhugavert!Held ekki að ég hafi farið í svona mannmarga veislu áður.

Lag vikunnar er samt ekki hægt að snuða fólk um og er það á léttari nótunum þessa vikuna. Pússaðu dansfótinn og taktu smá föstudagssnúning í tilefni dagsins.



góða helgi.

p.s enginn sigurvegari velur sér nein lög! koma nú.

1.5.09

Og í kvöld líkur vetri sérhvers vinnandi manns

Loksins kom vorið. Sól og blíða í dag og í gær og nokkrar freknur spruttu fram eftir hádegissólbaðið í gær. Grillveisla hjá vinum í kvöld. Túlípanarnir í fullum blóma fyrir framan húsið og það er ótrúlegt allt í einu að hugsa til þess að fyrir 8 dögum síðan var enn snjór í garðinum hjá mér. Maður er svo fljótur að gleyma. Og talandi um að gleyma, ég er tvisvar sinnum á 2 vikum búin að koma heilum klukkutíma of seint á fundi sem ég átt að sitja. Ég þessi stundvísa manneskja. Maður er nátturulega alveg í molum!

Annars var París var bara frábær. Þvílíkt flott borg. Við þvældumst um, borðuðum og drukkum vel og höfðum það notalegt. Ég var að vísu hálfgert fatlað fól því ég meiddi mig eitthvað á fæti seinni parts föstudags og haltraði það sem eftir var ferðar og fór ekki jafn fljótt yfir og ég annars hefði gert.Frekar erfitt fyrir mig þar sem ég er vön að labba hratt en ég er mjög svo fylgjandi instant skoðunarferðum. Sjá mikið á stuttum tíma! Það var nú lítið verslað en París er ekki beint ódýr borg. Bara á svipuðu verði og osló. Fór í geggjuðustu búð ever en það var sælkeramatvöruverslun í La Fayette sem er eitt af stórmagasínunum. Svei mér þá það leið nánast yfir mig í þeirri verslun. Annað eins flottheit af mat og kökum, brauði og drykkjum hef ég aldrei áður séð. Verðið svo sem eftir því en það var bara gaman að skoða. Ég væri örgugglega 15 tonn ef ég byggi í þessari mætu borg(yrði að vera rík líka til að hafa efni á þessum sælkeramat).

Byrja í nýrri vinnu á mánudaginn. Gekk út um dyrnar á þeirri gömlu í síðasta sinn á miðvikudag og það voru nú ekki mörg tár sem voru felld. Eiginlega ekki neitt, var alveg köld. Skrýtið eftir að hafa unnið þar þetta lengi.

jæja lítið meira að segja. Vill óska bróður mínum honum Óskari til hamingju með daginn en hann á ammæli í dag hann á ammæli í dag hann á ammæli han óskar hann á ammæliídag.

Lag vikunnar er nú ekki beint stuðlag en það er svona vorlag. Mig langaði svo að hafa það í dag afþví núna er vorið komið og svo er það líka svo afmælislegt!!!!!!



Gleðilegan 1. maí verkamenn og góða vorhelgi.

23.4.09

Je Voyage à Paris aujourd'hui.

Síðustu getraun vann hún Álfheiður frænka mín á Egilstöðum. Flytjandi var að vísu hann Bjöggi okkar allra. Verðlaun vikunar eru þau sömu og í síðustu viku, val að eigin vali í næsta föstudagsblogg. Bara kommentera hér hvaða lag þú vilt.

Annars er ég bara á leiðinni til Parísar, á eftir og þessvegna valdi ég að blogga í dag. Veðurspáin fyrir helgina er nú svona og svona en þar sem engin veðurfrétt á netinu er með sömu spána ætla ég að vera við öllu viðbúin(nema snjó).Hlakka svo til.. ligga ligga lá.

Ferðin til Kristiandsand með Dissimilis var með eindæmum ánægjuleg og forvitnileg í alla staði. Hitti fullt af áhugaverðu fólki sem hefur gert mikið og gott fyrir fatlaða. Komst að því að þrátt fyrir að vera samtök sem vinna fyrir lífsgæðum fatlaðra er mikil valdabarátta í gangi og það gekk ýmislegt á þessa helgina. Komst að ýmsum leyndarmálum sem viðkoma fólkinu sem situr í stjórn þessara samtaka sem við foreldrar sjaldan heyrum um. Svo hitti ég alveg ægilega skemmtilega konu sem kunni smá íslensku. Þrátt fyrir að vera þroskahömluð kann hún fleiri tungumál, gat talað fullt spænsku, smá rússnesku og pólsku, ensku að sjálfsögðu og svo gat hún sagt smá á íslensku.Hún er í hljómsveit sem skemmti á laugardagskvöldinu og þvílíkt stuð á liðinu. Þau voru svona þrælgóð að allur salurinn var á iði. Mikið væri nú gaman ef fólk gæti farið að horfa á þennan samfélagshóp með opnari augum og sjá hvað munurinn á okkur er lítill. Þetta voru ósviknir skemmtikraftar og fólk fékk ekkert minna út úr að skemmta sér með þessari hljómsveit eins og að skemmta sér með hljómsveit með ófötluðum. Á heimleiðinni var svo haldin fundur og núna er búið að panta miða fyrir Dissimils hóp 25 september og förum aftur heim 30 september svo að nú verða allir að taka frá Mánudagskvöldið 28 sept og koma á sýningu í Borgarleikhúsinu og sjá þau. Ég vona að sem flestir komi.

Var að horfa á æðislega þætti frá BBC sem voru nú sýndir hér í fyrra en ég missti af þeim þar og keypti þá á diski. Jane Eyre eftir Charlotte Brontë, mikið fannst mér gaman að sjá þessa þætti. Elska enskar myndir sem gerast á þessum tíma, ætla að lesa bókina líka. Hef ekki lagt í hana því ég hélt að hún væri jafn niðurdrepandi og "Fýkur yfir hægðir" sem ein af hinum Brontë systrunum skrifaði en hún er það ekki. Þetta var rómantík eins og hún gerist best á svo ægilega fallegri gamaldags ensku með alveg ægilega fallegum karlmanni í aðalhlutverkinu. Bara ljúft.

Þetta var svona bland í poka eins og venjulega. Ekki búin að heyra neitt hvaða lag Ellen vill svo að ég verð að velja lag sjálf. Byrja á eitís poppi sem ætti að koma öllum í stuð. Fannst þetta svo ægilega skemmtilegt þegar ég var með bólur og spangir. Takið eftir axlapúðunum.



Bon week-end les amis!

p.s ekki getraun þessa vikuna vegna anna!

17.4.09

Hugsar hver um sig, þú sagðir bless við mig.

Síðustu getraun vann hún Ellen hálffrænka mín í Svíþjóð en hún er svo heppin að vera 2 timum á undan þeim sem eru á Íslandi (en svona ykkur til fróðleiks á hún líka stelpu sem heitir Saga)!! Að sjálfsögðu fær hún vegleg verðlaun en þau eru að velja fyrsta stuðlag ársins sem verður lag vikunnar í næstu viku!! Hversu heppin er hægt að vera ?

Annars bara allt í ljómarjóma hér í landinu sem snjórinn er loksins að kveðja. Páskarnir voru haldnir í Svíþjóð og þar var þetta fína veður og maður hreinlega þyngdist um 15 kíló á 3 dögum - eða svoleiðis. Krakkarnir úti að leika sér og við örkuðum milli fjalls og fjöru daglega. Fórum í smá shopping til Karlstad og keyptum vín og mat og húsbandið keypti sér Miami Vice jakka í H&M og boli í stíl og var með þriggja daga brodda. what a stud! Ég hinsvegar keypti mér ekkert þar sem ég hafði verslað mér smá vikuna á undan. Rautt veski takk fyrir. Vissi ekki að ég hefði þetta í mér, ég sem bara á svört föt og svört og brún veski! Hárautt takk fyrir. Maður er farin að verða glannalegur svona á efri árum.

Komum heim frá Svíþjóð með eitt stykki hljómborð í farangrinum. Svo ódýrt að versla á netinu og láta senda þangað og sleppa að borga tolla og skatta og álíka sem maður gerir hér. Á sunnudagskvöldið sátum við Baltasar fyrir framan eldgömul nótnabækurnar mínar og ég kenndi honum fyrstu tvær nóturnar og svei mér þá, á augabragði breyttist ég í alla "leiðinlegu" píanókennarana sem ég hafði sem barn og alltaf voru að tönglast á fingrasetningu. Þarna sat ég og skipaði Baltasar að nota rétta fingur(miklu betra að læra það strax sagði ég) og ekki láta fingurnar hanga svona og réttu úr bakinu , upp með olnbogana og jadajadajada. Ég var eins og bergmál úr fortíðinni og það er nú alveg á tæru að þetta tuð í þessum "leiðinlegu" kennurum hefur síast inn með tíð og tíma fyrst ég kann þetta svona vel þrátt fyrir að ekki hafa spilað nótu síðan ég var 14 ára. En núna ég ætla að fjárfesta í nokkrum nótnaheftum og fara að rifja upp smá sjálf. Fínir kennarar annars(svona fyrir utan þetta tuð)! Gulla að sjálfsögðu,Egill hét einn,búin að gleyma einni en man aðra en það var hún skyggna Erla sem sér álfa. Man hvað hún var með stórar hendur og vá hvað ég er fegin að ég ekki vissi að hún væri skyggn á þeim tíma. Þegar ég var að vinna í ísbúðinni við Hagaskóla mörgum árum seinna kom hún oft þangað og þarna vissi ég semsagt að hún væri skyggn og ég fór alltaf alveg í pat þegar hún kom inn því ég var svo hrædd um að hún sæi fullt af dánu fólki og álfa og huldufólk hjá mér. Gat aldrei horft í augun á henni. Stress dauðans!

Lag vikunnar,síðasta mjög rólega lagið á þessu misseri. Frá einum uppáhalds diski og er eitt af mínum uppáhalds lögum ever.Tær snilld.



Gleðilega helgi.

Getraun:
Hver veit úr hvaða lagi þessi titill er og hver er flytjandinn. Til að gera það auðvelt má hafa í huga að ég hef ekki búið á íslandi síðan 1992 svo að líkurnar á að ég velji teksta úr nýju lagi eru ansi litlar.

14.4.09

Ertu tilbúin fyrir grillvertíðina?

Það fer að styttast í grillvertíðina hér í landi en svei mér þá ef var ekki sól og 15stiga hiti í svíþjóðinni um helgina og þá fór ég að hlakka til að borða sumarmat með grilli og alles.Og hvernig er hægt annað en að grilla fyrirtaksmáltíð þegar þú hefur öll þessi tæki og tól til að hjálpa þér?

Þetta snilldaráhald gerir kjötið mört og safaríkt.


Nú sleppirðu við að grilla hamborgara af mismunandi stærðum, hvað er betra en að vera nákvæmur!


Hver nennir að hella úr flösku þegar þetta er líka hægt. Ekki ég allavegna!



Gleraugu fyrir laukaskerarann á heimilinu.



Ef þú nennir ekki að naga maísstöngulinn og átt ekki maís í dós geturðu bara búið til þinn eigin maís í dós með þessu frábæra tæki.



Eiginmaðurinn og trúlega aðal grillarinn á heimilin ætti nú að fá að hafa svona wiskey skammtara við grillið. Allt verður svo miklu skemmtilegra fyrir vikið - fyrir hann allavegna!