19.12.08

19.Desember

Kæru vinir og hinir. Síðasta blogg ársins. Nú er ég nefninlega farin. Farin heim í Hornafjörðinn að halda jól og slappa af. Þetta er orðið gott í bili,kem spræk á nýju ári með föstudagsgleðina mína og kannski eitthvað meira.

Það er lítið eftir að segja nema þetta: næ ekki að senda jólakort í ár vegna mikilla anna í vinnu og utan.Hef aldrei verið svona sein að neinu og því eru það aðeins gamlar frænkur og frændar sem fá kort frá mér í ár!(og ég sem ætlaði að vera ægilega dugleg í ár)En nú er bara að segja við ykkur sem eruð hér

Bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár. Skjáumst fljótlega á því nýja.


Fannst þetta lag hæfa í ár þar sem við keyrum austur á mánudaginn.



Góða helgi og gleðilegan síðasta í aðventu.

18.12.08

18.Desember

Jóladagatal þarf ekkert endilega að fjalla um jólin er það nokkuð? Mér finnst mikilvægara að jóladagatalið mitt gleðji fólk og ég er viss um að allavegna konur á mínum aldri muna eftir þessum lögum. Fann þetta á youtube þegar ég var að reyna að finna íslenskt jólalag - ekki það auðveldasta í heimi. Þessi lög eru frá 79 að mig minnir. Ég bjó allavegna í Sigtúninu í RVK þegar þessi plata kom út og ég og vinkona mín lékum að við værum Katla María og Rut Reginalds og að þær væru alltaf að rífast! Já ekki vantaði hugmyndaflugið á þeim árunum. En þetta eru allavegna 2 lög með sjálfustu Kötlu Maríu frá 1979 og seinna lagið var það sem var mest vinsælt. Það eru nokkrir krakkar þarna í rauðum fötum svo hver veit nema þetta hafi verið í Stundinni okkar í desember þetta árið.



Hasta la vista

17.12.08

17. Desember


Mér finnst að fólk ætti að vera jólalegra en það er í dag. Mikið væri nú gaman ef allir væru alltaf í jólafötum allann desember eins og þetta fólk og settu alltaf orðið "jóla" fremst í orð þegar það talaði.

Þá jólamyndi jólafólk jólatala jólasvona. JólaVæri það jólaekki jólafyndið og jólagaman og jólasmá jólakrydd í jólatilveruna?

Það jólaheld jólaég jólasvei jólamér jólaþá að jólaég jólaætli að jólagera það jólasem jólaeftir er af jólaþessum jóladegi.


Jólíjólí jól!'

p.s Jólaaðeins 2 jóladagar í jólafrí.

16.12.08

16. desember

Hefur einhver séð jólaköttinn í ár? Hann er svo sannalega búin að breyta um útlit enda verður hann að gera það á þessum síðustu og verstu tímum. Útlitið skiftir fólk meira og meira máli. Það er þessvegna að það finnast ekki 55 ára hrukkóttar konur í Hollywood. En blessaður kötturinn getur samt ekki alveg falið sinn innri mann. Ég sé sko alveg hvað hann er fúll á móti á þessari mynd þrátt fyrir hreinan og hvítan pels(strípur held ég að þetta séu) og svo hefur hann puntað sig í jólaföt prakkarinn. Eins gott að jólasveinninn gefur börnunum mínum peysu í skóinn um helgina. "Hvernig veit hún það" ertu að hugsa núna, hvernig getur hún vitað hvað jólasveinninn gefur í skóinn. Það er leyndó skal ég þér segja.Bara milli mín og jóla.



Jól on! Mjá.

15.12.08

15. Desember

Ef einhverntíma hefur verið þörf á smá léttmeti í skammdeginu þá er það á þessum hundfúla mánudegi. Rigning og slabb og alveg farin að telja mínúturnar í jólafrí. Og hver segir að ekki megi gera grín að jólalögum eða hryðjuverkamönnum. Mikilvægt að finna húmor í sem flestu. Þá verður allt svo miklu skemmtilegra.



Happy monday!

12.12.08

12. Desember

Nú er loksins komin helgi. Jólafrokost hjá mér í kvöld og ég með þetta litla hælsæri. Á morgun eru svo tónleikar með Dissimilis þar sem Saga á að dansa með grúppunni sinni. Á eftir að vera á æfingum með henni allann daginn á morgun svo ég fer nú snemma heim úr þessu jólaskralli.Rúm vika í íslands ferð. Hlakka mikið til. Hef ekkert meira að segja í dag.

Lag vikunnar er jólarokklag. Alveg dásamlega halló gæjar en skemmtilegt lag engu að síður.


Góða helgi

11.12.08

11.Desember

Ekta jólagleði(kannski sumir vilji ná í vasaklútin fyrst).

10.12.08

10. desember

Þegar ég var lítil söng ég nú ekki öll lög rétt og það er nú þannig að þótt maður sé orðin fullorðin og kunni réttan texta er samt erfitt að breyta og syngja rétt.

Þetta skemmtilega jólalag misskildi ég aðeins.

"Aðfangadagskvöld", Helga Möller
"Allt varð undarlegt kringum þau.
Ný stjarn´á himni brann
og smám saman myrkrið fór
en þá birtist englakór
sem knébraut barnin´ungu. "

Þetta átti semsagt að vera knékraup en ég man að mér fannst skrýtið að englakórinn hafi verið að fótbrjóta barnið en spáði nú ekkert meira í því.

Svo var ég nú orðin ansi fullorðin þegar ég lærði réttan texta á þessu lagi.
Adam elskaði alla þá
og allir elskuðu Adam.
Hann sá þig, hann sá þig,
hann klappaði saman lófunum

Þetta lærði ég nú rétt fyrir tilviljun. Ég hafði aldrei sett spurningarmerki við að Adam hafi séð þig og svo klappað lófunum á eftir. Fannst það bara alveg meika sens.

Þetta fann ég svo á netinu.

"Aðfangadagskvöld", Helga Möller
Vitlaus texti: "Það var aðfangadagskvöld, fyrsta aðfangadagskvöld, og eldvarnarhátíðin mest!"
Réttur texti: "Það var aðfangadagskvöld, fyrsta aðfangadagskvöld, og ungbarnahátíðin mest!"

OG þetta er ekki jólatengt bara fyndið.
"Alelda", Ný Dönsk
(Frábær þessi ...)
Vitlaus texti: "Alelda ... sólbrenndur bjáni ...."
Réttur texti: "Alelda .. sáldrandi prjáli..."

Önnur úr sama lagi .. enda auðvelt að misheyra "sáldrandi prjáli" (hver samdi þetta??)

"Alelda", Ný Dönsk
Vitlaus texti: "Að elda .. sjálfan sig bjáni""
Réttur texti: "Alelda .. sáldrandi prjáli..."

"Fram fram fylking"
Vitlaus texti:"...forðum okkur hættu frá því ræningja-hross vilja ráðast á" (Mjög illskeytt og hættuleg hross) Réttur texti:"...forðum okkur hættu frá því ræningjar oss vilja ráðast á"

Og svo smá útlenska.

"Final Countdown", Europe
Vitlaus texti:"It´s a fire downtown .."
Réttur texti:"It´s the final countdown..."
Grunar að það hafi verið vinkona bróðir míns sem sagði þetta síðasta.

"Freak out", Chic
Vitlaus texti:"Aaaaaaafrica!! (Snilld ..)
Réttur texti:"Ahhhh Freak out!!"
Þetta síðasta var vinkona mín.

Njóttu dagsins.

9.12.08

9. Desember

Rúsínukökur handa ykkur rúsínurnar mínar.

Bakaði þessar í fyrra og þær voru alveg geggjaðar. Bakaði þær aftur núna og smakkast jafn vel. I fyrra voru þær samt seigari, veit ekki afhverju en eru samt jafn bragðgóðar,seigar eða ekki seigar.

2 bollar haframjöl
2 1/2 bolli hveiti
2 bollar sykur
1 bolli smjörlíki
1 tesk. natron
1/2 tesk. salt
1 bolli saxaðar rúsínur
2 egg

Hveitinu og natróni sáldrað, þar í blandað haframjöli og salti. Smjörlíki mulið í og rúsínur settar út í, vætt í með eggjunum. Hnoðað þar til deigið er jafnt. Rúllað í lengjur, sem skornar eru í jafna bita, sem rúllaðir eru í kúlur og pressaðar flatar milli handanna. Settar á plötu og bakaðar ljósbrúnar.

Enjoy!

8.12.08

8. desember

Afhverju hafa þessir þættir aldrei verið endursýndir? Varð nú bara að deila þessu gamla klassíska videoi með ykkur. Svínka og Dýri eru mín uppáhöld í þessu lagi og svo var nú hann John heitinn Denver alltaf krútt. Æi ég kemst í svo gott skap af þessu lagi.



Happy monday!

5.12.08

5. Desember

Jæja þá er maður orðin degi eldri. Finn alveg hvað ég er orðin þroskaðri og vitrari á þessum sólarhring. Annars byrjaði dagurinn á frekar pirrandi fréttum,stuðningsfulltrúin hennar Sögu í skólanum er ólétt og hættir eftir jól.Hún er níundi stuðningurinn sem Saga og Ida eru með á 3 og hálfu ári. Fulltrúin nr. 5 að verða ólétt á stuttum tíma. Sorry en ég er orðin svo leið á þessu því í hvertskifti sem þetta gerist verður Saga óróleg og maður þarf að byrja upp á nýtt með nýju fólki og það tekur alltaf nokkra mánuði að komast á rétt ról.Jæja nóg um það.

Annars fór afmælisdagurinn í að klára að kaupa jólagjafir sem mér tókst. Svo kom Saga heim með gjöf handa mér, rautt hjarta sem hún hafði saumað handa mömmu sinni og kort sem hún gerði og skrifaði sjálf.Ægilega fallegt og vel gert og hún var svo stolt. Baltasar greyið hafði ekki tíma að föndra neitt í skólanum útaf skólaleikritinu sem hann er með í en núna eru stanslausar æfingar. Við fórum svo út að borða öll í gærkvöldi og fórum svo heim og horfðum á Kong fu Panda. Er hægt að biðja um betri afmælisdag. Jú og svo fékk ég helling af kveðjum bæði hér og á facebook. Takk kærlega fyrir það, yljaði mér um hjartarætur á annars köldum degi(allt í snjó hér).

Annars verð ég nú að segja litla sögu um Sögu mína. Jón er strákur sem er með DS og hefur verið dansfélagi hennar í Dissimilis í nokkur ár núna. Saga er búin að segja við hann að þau ætli að giftast og hann hefur sagt við mömmu sína að hann vilji það alveg en fyrst þegar hann verður stór. Saga er svo alltaf að kyssa hann en hann greyið er ekki góður í að segja nei og þrátt fyrir að við reynum að segja henni að hann vilji ekki svona kossaflens þykist hún ekki heyra það. Hann hefur sagt við mömmu sína að hann vilji alveg kyssa Sögu en fyrst þegar þau verða fullorðin. Hann er svo skynsamur drengurinn- verður góður tengdasonur! Svo var það hér í síðustu viku að þau voru á æfingu og Saga gengur inn um dyrnar, sér Jón, smellir kossi á kinn hans og segir "Du vet at jeg elsker deg" og gekk svo í burtu. Haldið þið að það sé ást!

Svo var Baltasar að segja upp sinni kærustu en hún er tvíburi og fyrst var hann kærasti með einni og svo hinni!! Svo sagði hann hinni upp í fyrradag og sá svo eftir því í gær! Mér finnst börn byrja ansi snemma á þessu í dag.

Lag vikunnar er ekki beint jólalag en það er úr mynd sem gerist um jól og ég ákvað að þetta gæti alveg verið jólalag(það er allavegna jólatré í videoinu). Mig langar alltaf svo að kunna að syngja þegar ég horfi á þetta video. Þetta lag er að finna í kvikmyndinni Peter's friends sem er frá 1992.Úrvals leikarar í úrvals mynd.




Fannst þér ekki þetta lag fallegt? Skjáumst á mánudaginn.Góða helgi og annan í aðventu.

4.12.08

4. desember


Ég á afmæli í dag

Ég á afmæli í dag

Ég á afmæli sjá-álf

Ég á afmæli í dag



Ég er 29 ára í dag

Ég er 29 ára í dag

Ég er 29 ára ég sjá-álf

Ég er 29 ára í dag



Hei- aftur!! En hvað það var skrýtið.

3.12.08

3. desember

Gleymdirðu að kaupa í jóladagatal handa eiginmanninum/sambýlismanninum eða loverboy og hann er í fílu þessa dagana. Ekki örvænta, hér er lausnin.Finndu fram þinn innri föndrara og föndraðu þetta bráðsniðuga jólabjórdagatal, einfalt og alveg örugglega vinsælt. Það eina sem þú þarft er fullur bjórkassi og smá pappi. Gerist ekki einfaldara



Hev a næs föndurday!

p.s hver á afmæli á morgun???

2.12.08

2. des


Ég er nú ekki hrifin af rauðvíni en í desember fæ ég mér stundum glögg því mér finnst það svo jólalegt. Þarf svo sem ekkert að vera áfeng en hér er samt uppskrift af jólaglögg með áfengi því ég er nú svo mikill auli að óafengu glöggina kaupi ég nú bara í kartoni!

Jólaglögg
  • Áfeng 1 flaska rauðvín

  • 1 appelsína

  • 15 - 20 negulnaglar

  • 1/2 vanillustöng

  • 1 dl sykur
  • Hellið víninu í pott. Stingið negulnöglunum í appelsínuna og leggið í pottinn og látið malla um stund. Bragðbætið með vanillu og sykri. Glöggin er best rjúkandi heit. Mér finnst gott að setja möndlur og rúsínur útí og svo er ómissandi að gæða sér á piparkökum með.Mest afþví það er svo jólalegt.

    Skjáumst á morgun.

1.12.08

1. Desember

Finnst þér að fólk eigi allt og það sé erfitt að finna góðar og nytsamlegar jólagjafir hvert ár? Örvæntu ekki því hér er jólagjafahugmyndir ársins. Vertu viss um að fólk á ekki þessa hluti og vissi ekki einu sinni að þeim vantað þá heldur. Þú getur líka glatt sjálfa(n) þig á þessum nytsamlegu gjöfum.


Hvernær hefurðu ekki verið að borða súpu og kex og hugsað með þér hvað væri nú gott að spara uppvaskið því það er nú mikið að vaska upp bæði skál og disk! Já nú er hægt að borða súpu og kex og bara skíta út eina skál.Er hægt að óska sér meira en það? Þetta er tilvalin gjöf handa húsmóðurinni.

Hvenær hefurðu ekki verið að hreinsa út úr eyranu og hugsað með þér að það væri nú aldeilis gaman að geta séð mergin inn í eyranu og skoðað svo eftir á hvað eyrað er orðið hreint. Nú er þetta hægt með þessum sniðuga spegli. Er þetta ekki alveg tilvalið handa afa gamla.



Hvenær hefurðu ekki verið nýbúin að lakka á þér neglurnar og verið leið yfir því að enginn sjái það því þú notar sokka daglega. Núna geturðu bæði verið í sokkkum og sýnt fólki hvað þú ert með flottar tær og á sama tíma fengið flott millibil milli tánna. Held nú að heimasætan yrði ánægð með þessa gjöf.


Hversu oft hefurðu verið að pirra þig á því hversu oft þarf að ryksuga á þínu heimili. Núna geturðu bara hent ryksugunni og keypt moppuinniskóna handa allri fjölskyldunni. Garantera að því fleiri börn sem þú átt því hreinna verður gólfið. Og þú færð þessa rykhanska í kaupbæti, núna verða aldrei lengur fingarför á sjónvarpinu. Þetta er gjöf handa öllum í fjölskyldunni.


Hvenær hefurðu ekki horft á sjálfan þig í spegli fyrir ársártíðir og aðrar mikilvægar skemmtanir og óskað að þú ættir sparitennur. Núna geturðu verið eins fín(n)og þig langar með þessum glæsilega tanngarði sem passar í alla góma! Held að pabbinn á heimilinu kynni að meta þessar tennur!


Og að lokum - jólagjöf ársins - Sjálfvirki teljandi sparibaukurinn. Kaupirðu þetta handa vinum og kunningjum sleppur fólk alveg við að nota banka til að geyma peningana sína! Hér færðu nákvæma stöðu yfir þín fjármál og sleppur á sama tíma að eiga viðskifti við bankana um áraraðir. Þetta er klárt jólagjöfin í ár, hentar öllum í fjölskyldunni og það besta er að baukarnir fyllast fljótt og þá er bara að kaupa nýjan næstu jól!


Þetta var mitt framlag til jólagjafa hugmynda fyrir bloggvini mína.

28.11.08

Meira frá Köben

Svanfríður vildi endilega vita meira svo hér kemur smá meira.
Eins og sjá mátti í síðusu færslu var ég frekar umkomulaus fyrstu mánuðina í Danmörku. Ég var nánast mállaus en skildi aðeins meira en ég gat talað, nánast ekkert sem sagt var í tímum en ég gat hlustað á einfaldar samræður ef fólk talaði hægt á drottningardönsku.

Fyrsta mánuðinn í skólanum var einskonar kynningarmánuður þar sem bara var djammað og djúsað og hygget sig. Ég mætti alltaf galvösk á allt enda hafði ég lítið annað að gera og var að jafnan sú sem kom fyrst og fór seinust. Gleymi seint fyrstu veislunni. Það var búið að dekka á langborð á ganginum í skólanum en hann var frekar þröngur. Ég hafði fengið sæti fyrir miðju borði og nánast ómuglegt að komast á klósettið svo ég endaði á að klifra út og inn um gluggann í kennslustofunni sem var fyrir aftan mig. Mér fannst nefninlega svo erfitt að labba framhjá hálfum bekknum(en við vorum 70) því allir vildu endilega spjalla við útlendinginn svo mér fannst þetta skárri kostur. Þegar danir halda svona veislur eru þeir endalaust að skála. Drukkið var bjór í þessari veislunni og reykingar voru leyfðar inni en ekki var mikið um öskubakka og því voru tómar bjórflöskur notaðar til í staðin. Í eitt skiftið þegar átti að skála greip ég næstu flösku sem ég sá að ekki var tóm og svo kom skå- å- å- ål og svo áttu allir að drekka sem ég og gerði. Betri blöndu af bjór og ösku hef ég sjaldan smakkað! Og þarna vandaðist nú valið, hvað gerir maður til að halda haus? Jú ég tók þá skynsamlegu ákvörðun að láta sem ekkert væri og kyngja fjandanum enda vildi maður ekki gera sig að fífli svona mállaus og allt. Skå- å- å- ål alle sammen. Smil og fuck.....

Svo var farið í skólaferðalag og tekið var fram að allir yrðu að taka með sér 2 lök sem ég og gerði - teygjulök. Ég skildi nú ekkert afhverju ég ætti að taka með mér 2 lök en var ekkert að spyrja neitt nánar út í það því ég var ekki viss hvort ég myndi skilja svarið. Um kvöldið var svo sagt að nú ætti allir að fara í svefnálmuna og klæða sig fyrir veisluna en það átti að vera "togafest" og allir ættu að vera í lakinu sínu og engu innan undir. (Ef þú ekki veist hvað togafest er þá er það veisla þar sem allir eru klæddir eins og Grikkir til forna, í lökum sem er sveiflað yfir axlirnar.) Hvað gerir maður þegar maður er bara með teygjulak með sér afþví maður hefur aldrei heyrt um togafest? Einhver sá aumur á útlendingnum og lánaði mér lak og svo mætti ég í veislu. Mæ god hvað mér leið illa, til að kóróna þetta allt voru mér útvegaðir 2 ungir menn sem áttu að þjóna mér á tá og fingri allt kvöldið. Sátu alveg klesstir við mig og ég sem var nánast nakin. Nei þetta var nú ekki gaman en þar sem ég var sannur íslendingur hellti ég í mig nokkra bjóra því eitthvað var maður að gera til að halda þetta út og svo varð ég líka miklu betri í dönsku þegar ég var komin á fjórða bjór. Hef ALDREI farið í svona veislu síðan og myndi ekki fara þótt mér yrði borgað fyrir það.

Nei það var ekki tekið út með sældinni að vera útlendingur í Danmörku á þessum fyrstu mánuðum. Var eiginlega voða lítið gaman en aldrei hvarflaði að mér að fara heim og eftir á var þetta bara bráðfyndið allt saman.

Lag vikunnar var vinsælt á þessum tíma. Ekki beint léttmeti en gott engu að síður. Síðasti sjens fyrir svona lög á þessu ári því núna eru bara jólalögin eftir og þau eru nú flest jollí. Og svo vill ég bara segja að mér finnst hann Eddie Vedder sem var söngvari í þessari hljómsveit ansi myndó.


Ekki gleyma svo að kíkja hér við daglega í desember. Jólablogg á sínum stað eins og í fyrra. Alveg með sama sniði sem þýðir að ég blogga bara á virkum dögum. Lofa að koma þér í jólaskap fyrir 24 desember.

Gleðilega helgi og fyrsta sunnudag í aðventu.

21.11.08

Ennþá brennur mér i muna..

Í ágúst voru 14 ár frá ég flutti frá Íslandi. Það var nú svolítið fyndið hvernig það bar undir. Það var þannig að ég hafði sótt um 3 skóla í Danmörku veturinn 92. Stuttu á eftir keyptu foreldrar mínir íbúð í vesturbæ Reykjavíkur sem var rétt hjá Háskóla Íslands og var hugsað að ég myndi búa þar enda hafði ég í millitíðinni hætt við að fara til Danmerkur. Verslunarmannaföstudaginn þetta sumar fékk ég svo 3 bréf frá Danmörku þar sem mér var tjáð að ég hefði fengið inn í 2 af 3 skólum og ég yrði að gefa svar eftir helgina. Ég var nátturulega hætt við en ákvað nú samt að hugsa málið næstu daga. Við fórum á Foss þessa helgina og var farið á fjöru þar sem ég var að týna flöskur. Á þessum fjörum eru mjög mikið af flöskum og öðru sem rekið hefur á fjöru og í öllu þessu drasli fann ég flösku sem var hálf grafin ofan í sandin sem reyndist vera flöskubréf - frá Danmmörku! Það var semsagt búið að taka ákvörðun fyrir mig og ég var ekkert að efast um að sú ákvörðun væri röng.

Ég hafði aðeins 3 vikur að pakka og redda mér húsnæði nálægt háskólanum í Roskilde en hann er aðeins fyrir utan Roskilde. Ég reddaði mér herbergi á bóndabæ með aðgang að eldhúsi og baði sem var aðeins 20 mín frá skólanum. Eigandinn náði í mig á lestarstöðina daginn sem ég kom og tjáði mér að öll útihúsin hefðu brunnið til kaldra kola vikuna áður og þegar ég kom á áfangastað fékk ég nett sjokk. Langt úti í rassgati var þetta hús með brunarústum allt í kring og helvítis hundkvikindi sem gelti við minnstu stunu. Ekkert var þvottahúsið og 6 km í næsta bæ með þvottahúsi og strætó hætti að ganga kl 17 á daginn!! Glæsilegt. Herbergið var hræðilegt, hafði hvorki útvarp né sjónvarp og ekki með síma. Brúnt gólfteppi, 1 rúm, skrifborð einn skápur, brúnleitir veggir og allt undir súð. Sama kvöld ákvað ég að ganga í skólann svo ég vissi hvað það tæki ca langann tíma. Mikið rétt, rétt rúmar 20 mínutur tók þessi ganga á sveitavegi þar sem ekkert var að sjá nema beljur og hesta. Verð nú að viðurkenna að þarna brotnaði ég alveg. Þarna var ég langt úti í sveit, þekkti enga, langt frá öllum mannabyggðum og hræðileg húsakynni. Ég hugsaði með mér að þetta yrði stutt stopp í útlöndum!

Í þessum döpru húsakynnum bjó ég í heilann mánuð, hef aldrei á æfinni verið eins einmanna og umkomulaus en svona útá við lét ég sem ekkert var. Hugsaði með mér að þetta yrði nú varla verra og gæti þessvegna bara batnað. Ég vildi nátturulega ekki búa þarna lengi og reddaði mér herbergi mánuði seinna inni í KBH, á Amager hjá einstæðri konu þar sem ég hafði ágætt herbergi með sjónvarpi og útvarpi. Enn þekkti ég enga svo að helgarnar hjá mér fóru í að á föstudögum þegar ég kom heim settist ég með sjónvarpsdagskránna í fangið og skrifaði niður allt sem ég gæti séð í sjónvarpinu þá helgina og það var nú ekki lítið því ég var með kabal. Svo horfði ég á sjónvarpið og borðaði take away því aðra hverja helgi mátti ég ekki nota eldhúsið frá 17 á kvöldin því þá var elskhugi konunnar í heimsókn! Rétt fyrir fyrstu jólin mín kynntist ég svo fyrstu íslendingunum, fékk herbergi á Öresundskolleginu og líf mitt tók stökkbreytingum og frábær ár fylgdu með miklum glaum og gleði. Hér er ég enn, að vísu ekki enn í Köben en enn í útlöndum og lítur ekkert út fyrir að vera neitt á leiðinni heim. Þetta stopp varð lengra en ég bjóst við í byrjun dvalarinnar.

Ætlaði nú eiginlega að vera með danskt lag en svo fann ég þetta líka ljúfa lag sem ég hélt upp á hér i den og mér finnst það bara eldast alveg þrælvel. Erþaggi?



Hamingjusama helgi.

14.11.08

Jólasveinn

Ég gleymdi alltaf að segja frá þessu. Í sumar þegar við vorum í portugal vorum við að keyra á hraðbrautinni frá flugvellinum og þar er 120 km hraðbraut svo að við keyrðum á fljúgandi hraða. Allt í einu kviknaði ljós inni í bílnum og ég skildi ekki neitt, spurði hvað væri að gerast og allt í einu segir Baltasar að hurðin hans væri opin. Drengurinn hafði opnað hurðina í einhverju óráðskasti. Ég kastaði mér aftur í eins langt og ég komst en ég var enn í belti og reyndi að halda hurðinni á meðan JC keyrði bílinn út í kant svo hægt væri að loka almennilega. Ég ætlaði nátturulega að segja frá þessari æsispennandi en óskemmtilegu reynslu strax eftir sumarfríið en gleymdi því að sjálfsögðu.

Annars heyrði ég fyrsta jólalagið í dag "jólasveinn taktu í húfuna á mér jólasveinn..". Þessir tónar hljómuðu úr herberginu hennar Sögu í morgun. Hún spyr daglega núna hvort jólin séu að koma. Hún er alveg tilbúin. Verður gaman að fara til Íslands um jólin þrátt fyrir kreppu og allt það. Svo keypti ég eina jólagjöf í gær svo að þetta er allt að koma. Æi ég hlakka til að komast í jólaskap, borða leverpostej med sveppum og beikoni, drekka glögg og bara jólast. Notarlegt að sitja í stofunni með kveikt á arninum og borða smákökur og maltesín en ég á 2 malt sem ég er búin að vera að spara til að eiga í desember. Við erum samt búin að ákveða að ekki taka með okkur jólagjafir til Íslands. Við erum boðin til systur JC þann 20 des í fjölskyldujólaboð og ætlum bara að opna norsku jólagjafirnar hjá þeim. Ekkert vit í að vera að fara með gjafir með sér til íslands sem maður fer aftur með heim til sín. (Akkurat núna labbaði lítill hundur undir skrifborðið mitt en nágranni minn hér í vinnunni tekur oft með sér tíkina sína sem heitir Lille Pernille! - smá úturdúr) Já svo er spurningin hvort ég ætti að nenna að vera með jóladagatalsblogg í ár eins og í fyrra.

Lag vikunnar er bæði sætt og skemmtilegt. Er alveg eldgamalt svo ég er ekki viss um hvort ég hafi verið fædd þegar þetta var tekið upp. Er ekki youtube alveg frábært. Mér finnst það. Þetta lag er flutt af manninum sem mér fannst svo skrýtið þegar ég var lítil að gæti sungið svona vel og verið blindur á sama tíma. Guess who!



Góða helgi

10.11.08

Stundum

leiðist mér í vinnunni eins og í dag.Ég er að bíða eftir að þeir sem ég er að vinna með skili mér því sem ég þarf til að geta haldið áfram með mitt verkefni. Þeir eru bara ekkert að gera það. Síðasta fundi sem ég hélt með þeim komu þeir 40 mínutum of seint og svo vilja þeir að allt sé tilbúið fyrir jól. Ég er ekki töframaður.Vildi bara koma því frá mér á móðurmálinu því ég nenni ekki að tuða lengur í þeim. Annars er búin að vera ægilega gaman og mikið að gera um helgina. Gama að hafa M og P og gaman að vera í Óperunni. Allar sýningar gengu vel og núna er þetta búið í bili. Skrýtið og gott á sama tíma. Nokkrar myndir á facebook. Legg út meira seinna.

Verður bara næs að geta slappað af næstu helgi og farið í búðir og keypt jólagjafir(afþví það er svo afslappandi!!). Ég er búin að lofa sjálfri mér því að vera búin að kaupa allar jólagjafir 1 desember. Mér finnst ekkert leiðinlegra en að fara í búðir í desember. Verð alveg hræðilega geðvond og fúl í búðartroðningi. Og sveitt, ekki gleyma því. Og mér finnst ekkert gaman að svitna nema þegar ég er í spinning. Er hálfnuð i þessum kaupum nú þegar. Þarf svo líka að kaupa jólaföt á börnin - fyrir 1. des. Baltasar ætlaði að fara í sparifötin að sjá systur sína í óperunni en greyið leit út eins og fimmtugur karl í fermingarfötunum sínum. Það sem hann hefur stækkað drengurinn.

Æi já, er annars bara að blogga þetta til að hafa eitthvað að gera annað en að bíða og láta mér leiðast. Hvernig væri að horfa á eitthvað skemmtilegt?


later

7.11.08

Annar í Óperu




Jæja það kom að því. Frumsýning á óperunni "Jenny - en anderledes opera" og það gekk alveg ljómandi vel. Á þriðjudaginn hefði ég veðjað á að þetta myndi engann veginn ganga en það er svo merkilegt með þennan hóp að æfingarnar geta gengið hörmulega en þegar alvara lífsins tekur við klikka þau ekki. Ég var bak við senuna, hjálpaði prímadonnunni að skifta um búinga og grét þegar við átti en þetta er dramatísk ópera eins og þær að vanda eru sem endar með dauðsfalli í lokin. Á eftir var rosa veisla með ræðuhöldum frá menningarráðherranum, Oslo ordförer og öðru merku fólki. Það voru veittar peningargjafir og fékk Dissimilis í allt um 500 þús norskar, ekki slæmt það. Svo voru borðaðar pulsur og kökur og drukkið djús með sólhlífarpunti, horft á galdramenn og spilað og sungið. Glæsilegt og gaman að þetta skuli hafa verið gert fyrir hópinn. Öll voru þau stolt yfir þessu afreki en þetta er í fyrsta skifti í norskri sögu að svona hópur setur upp óperu. Mikið var gaman að hafa verið með í þessu. Skrýtið að á sunnudaginn er þetta búið. Það ferli sem hófst fyrir 14 mánuðum er allt í einu að ljúka, allavegna í bili. Förum á suðurlandið í mars svo æfingar hefjast eftir áramót að nýju. Set inn nokkrar myndir af dömunni. Hún var nátturulega sætust eins og alltaf.

Guðrún Sigfinns á þetta lag vikunnar. Hún sendi mér link á youtube sem ekki virkaði en ég fann lagið engu að síður. Góða skemmtun Guðrún sem er hjá þýsku þjóðverjunum.



Í kvöld ætla ég í óperuna að sjá dóttur mína, þá verður stuðningsfulltrúinn hennar Sögu með henni. Hlakka voða til. Góða helgi.

3.11.08

And the winner is....



Enginn önnur en hún Guðrún Sigfinnsdóttir. Til hamingjum með það! Nú er bara að velja lag. Gaman að sjá að flestir kunnu þetta enda á hvert mannsbarn á Íslandi að hafa lesið þessa bók í grunnskóla. Stebbi hafði nú gaman að þessari bók og grunar að hann var nú smá skotin í henni Snæju pæju.
later!

31.10.08

Ég var að ljúka við að lesa 980 síðna bók, byrjaði á henni í sumar, tók pásu og byrjaði svo aftur í haust. Í bókinni er kynntar um 5 persónur sem maður fylgist vel með og nokkrar aðrar sem maður fylgist einnig með bara ekki eins náið. Hvernig endar svo bókin, jú allar nema tvær persónur drepast. Hvað er þetta eiginlega. Hvað er verið að láta mann lesa svona helv.. langa bók og svo drepast allir. Algjör bömmer. En þegar þessi var búin varð ég að finna nýja bók og þar sem ég er í íslenska fílingnum þessa dagana valdi ég íslenskt, að sjálfsögðu. Og nú er spurningin, hvaða bók er ég að lesa? Hún hefst á þessa leið."Sú var tíð, segir í bókum, að íslenska þjóðin átti aðeins eina sameign sem metin varð til fjár. Það var klukka. þessi klukka hékk fyrir gafli Lögréttuhússins á Þingvöllum við Öxará, fest við bjálka uppí kverkinni" Sá fyrsti til að svara þessu fær vegleg verðlaun. Þau eru að viðkomandi fær að velja lag vikunnar í næstu viku. Hversu frábært er það! Eina skilyrðið er að lagið verður að finnast á Youtube. Væri samt gaman ef allir myndu geta á bókinni því þetta á hvert mannsbarn að þekkja.

Tæp vika í frumsýninguna hjá Dissimilis í Óperunni. M og P koma á miðvikudaginn og það verður voða gaman og svo förum við öll að sjá sýninguna eftir viku. Verð þá búin að sjá hana nokkru sinnum en aldrei alla í einu. Verð nú að viðurkenna að ég er smá stressuð fyrir þeirra hönd.

Annars er ég öll í sárum vinstra megin í munninum, var hjá tanna í gær en það hafði brotnað upp úr jaxli og hann deyfði mig svo einstaklega vel að ég var allann daginn í gær að bíta smá stykki úr innri kinn. Voða næs. En engar holur. Gat ekki verið betra en ég HATA tannlækna af ástríðu og skil ekki að einhverjum heilvita einstaklingum geti langað að vinna við þetta.

Jæja lag vikunnar bíða allir eftir. Rólegt og jollý fíling og allt það. Er í rólegu skapi þessa dagana.



Góða helgi allir sem einn.

p.s ég slökkti á Bylgunni í dag, get bara ekki meira.

24.10.08

Vatnið komið

sem betur fer. Var einu sinna að vinna á leikskóla í RVK og þar var ákveðið að hafa þemadag - dag án rennandi vatns! Ekkert jafnast á við að vinna í leikskóla með 50+ börnum og slatta fullorðnum og geta ekki sturtað niður. Áhugaverður dagur sem seint gleymist en ég ætla ekkert að fara neitt nánar út í það.

Annars er ég orðin einstaklega þjóðleg. Eftir að hafa alið mannin erlendis síðan ég var rétt rúmlega tvítug hef ég orðið meira og meira "skandínavísk". Oft langt í íslendinginn í mér enda gift útlendingi og á útlensk börn og útlenskt líf. Hef svo sem haldið í ýmsa siði eins og hangikjöt á jólunum og maltesín og svo fengu börnin mín bara að hlusta á íslenska tónlist í mörg mörg ár en annars ekkert verið voða íslensk fyrir utan það. Nema núna. Eftir að allt fór í skrall á Íslandi er ég orðin miklu meiri íslendingur. Var í búð um daginn þar sem ég heyrið mann og konu tala saman um ástandið og hvort það væri komin vöruskortur á Íslandi og ég sem annars aldrei tala við ókunnugt fólk endaði í miklum samræðum við þetta fólk en maðurinn var á leiðinni til Íslands.Er yfirleitt ekkert að skifta mér af svona venjulega þótt ég heyri bláókunnugt fólk tala um ísland. Ég er búin að fara oft í lopavestið mitt góða sem ég keypti í sumar og Saga líka verið í sínu síðustu vikurnar. Svo hlustum við bara á íslenska tónlist í bílnum, aðalega þó þegar Saga er með. Við syngjum hástöfum "Ég er á leiðinni", "Vertu ekki að plata mig" og "Þitt fyrsta bros". Krökkunum finnst þetta æði. Ég drakk maltesín í gær og það er búið að bjóða mér í laufabrauðabakstur(first ever)í lok næsta mánaðar og ég ætla að mæta.Svo hlusta ég bara á íslenskt útvarp í vinnunni og horfði slatta á RUV þessa dagana. Þetta þýðir samt ekki að ég sé byrjuð að pakka og ætli að flytja til Íslands. Nei ekki freistandi þessa dagana en ég er samt með ykkur í anda og á Bylgjunni á hverjum degi.

Norðmenn eru uppteknir af því sem er að gerast og ég heyri nánast hvar sem ég er einhvern tala um ástandið á Íslandi, það hafa meira að segja verið fleiri lesendabréf í norsku blöðunum þar sem viðkomandi hafa viljað að norska ríkisstjórnin hjálpi Íslendingum svo við ekki þurfum að fá lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðinum. Svo það eru ekki allir útlendingar sem hata íslendinga. Verð nú samt að segja að kannski hefðu íslendingar átt að temja sér hófsemi norðmanna í gegnum árin í staðinn fyrir að vera að krítisera þá eins og ég hef oft upplifað. Kannski væri ástandið ekki alveg jafns slæmt hjá mörgum.Veit ekki!

Erfiðasta spurning dagsins (fyrir utan hvort ég ætti að fara í gammósíur eða ekki sem ég svo gerði en vissi ekki að það var 13 stiga hiti úti kl 8 og er að kafna!!!) er hvaða lag á ég að velja. Var að spá í að velja íslenskt að sjálfsögðu, eins og allir ættu að gera í dag en það er ekki svo auðvelt því það eru svo fá ísl. lög á Youtube og ekkert af mínum uppáhalds. Svo ég ákvað að velja þetta lag - alveg út úr kú miða við færslu dagsins.Ein uppáhalds hljómsveitin mín og svo var þetta líka uppáhalds söngvarinn hennar Hönnu Siggu vinkonu, henni fannst hann svo sætur(ha ha ha).Fór á tónleika með þeim í Köben - var ein og skemmti mér geðveikt vel. ELSKA síðustu mínúturnar.Enjoy.



Gleðilega helgi.

22.10.08

Piss piss og pelamál

púðursykur og króna
ef að mér er mikið mál
þá pissa ég bara í skóna.

Já svona er ástandið hjá mér í dag en þegar ég kom í vinnuna í dag var mér og öllum hér tilkynnt að það væri vatnslaust í allan dag svo nú er eins gott að sleppa að drekka í dag. Og ég sem var búin að kaupa mér smá kók og ætlaði aldeilis að "hugga" mér í hádeginu. Best að sleppa því. Hefði betur unnið heima í dag hefði ég vitað þetta.

17.10.08

Ekki meira krepputal

Kreppa - nei takk.
Kvikmyndir - já takk.
Mér finnst voða gaman að horfa á kvikmyndir en fer nú samt sjaldan í bíó. Veit ekki afhverju. Ég er búin að komast að því að þrátt fyrir að vera komin á þennan virðulega aldur er ég með voða lítið þróaða húmor- eiginlega hálf barnaleg. Ég hlæ að ALLTAF yfir friends og Frasier. Og ég hef nú hlegið mikið yfir The Pink Panther, hann er nú bara alltaf fyndin. En stundum kem ég sjálfri mér á óvert eins og með mynd eina sem ég var alveg handviss um að ég ætti ALDREI eftir að hlægja að og ég man þegar ég sá brot úr henni hristi ég bara hausinn og tilkynnti hátt og snjallt að þessa mynd ætti ég ekki eftir að sjá því hún væri vitlaust, heimskulegog lítið fyndin. Ég fór þar af leiðandi ekki að sjá hana í bíó og leigði hana aldrei á video. Nokkrum árum eftir að hún kom út var hún svo sýnd í sjónvarpinu og ég fór eitthvað að horfa á hana og viti menn - ég hló eins og hálviti yfir nánast allri myndinni. Hálfpartinn skammaðist mín fyrir að þykja þessi myndi fyndin en hún fer svo yfir öll velsæmdarsmörk og vitlaus að það hálfa væri nóg. Hvaða mynd var svo þetta? Hver önnur en "Borat: Cultural Learnings of America for Make Benefit Glorious Nation of Kazakhstan ". Mér fannst hún eiginlega bara sprenghlægileg. Svei mér þá.

Annars er ég orðin svona fílgúd kvikmyndaáhorfandi. Nenni ekki að horfa á einhverjar ægilega dramatískar myndir með dauða og sorg og melankólíu. Mér finnst eiginlega nóg af því í fréttunum. Vill horfa á myndir sem fá mér til að líða vel eða farast úr spenningi, þær þurfa ekkert endlega að skilja mikið eftir sig annað en það. Ég viðurkenni alveg fúslega að mér finnst enn gaman að sjá "A four weddings and a funeral" , "Love acctually" og álíka myndir með reglulegu millibili. Hlæ alltaf yfir þeim þrátt fyrir að ég viti hvað eigi eftir að gerast. Og svei mér þá ef maður er ekki búin að sjá myndir eins og Grease billjón sinnum og meira að segja Mamma Mia tvisvar sinnum og útiloka ekki að ég eigi eftir að sjá hana aftur. Ef það var ekki fílgúd þá veit ég ekki hvað.
Jú og svo er ég ægilega hrifin af Jane Austen myndum og þáttum. Líka svona fílgúd með húmor og ást og flott föt(en á þessum tíma voru konur í voða fínum kjólum). Já það finnast nú margar fínar myndir sem hægt er að horfa á og gleðjast yfir á þessum síðustu og verstu tímum. Er nokkuð betra en að hlægja yfir mynd á föstudagskvöldi og gefa skít í kreppuna? Hvet alla til að horfa á eina góða mynd um helgina.

En þá er komið að því sem þú ert búin að bíða í ofvæni eftir alla vikuna. Lagi vikunar!!! Var að spá í svona fílgúd lagi fyrir þessa helgina.Very very old song(berist fram með inverskum hreim) !



Hljóða helgi!!!!!

14.10.08

Saga 9 ára

Litla stelpan mín er að verða stór. Er 9 ára í dag. Til hamingju með það.

Fann þetta og finnst það passa svo vel við Sögu: "I've learned that people will forget what you said, people will forget what you did, but people will never forget how you made them feel." Það verður nú að segjast að jákvæðari einstakling er erfitt að finna. Er geðgóð og tekur öllur á jákvæðann hátt - nema þegar hún er með fyrirtíðar unglingarveiki! Þá rúllar hún augunum í hringi og segir "herregud mamma" en baráttan um sjálfstæðið er farið að gera vart við sig suma daga og ekkert nema gott um það að segja.

Á eftir verður afmæli með 12 stelpum og það verður voða stuð. Sögu er búið að hlakka til í marga mánuði. Hún var voða sæl með afmælisgjöfina frá okkur en við gáfum henni Playmo hús með fjölskyldu og alles og Baltasar hafði keypt handa henni Disney púsl og Disney bók með öllum helstu sögunum. Hún hefur enn voða gaman að því en þessi bók er með nógu stórum stöfum til að Saga geti lesið sjálf(svo dugleg er hún orðin).

Hér er mynd af Sögu á Dissimilisæfingu í einum af búningnum hún á að vera í. Hún tók andköf þegar hún sá þennan fína kjól.


Góða skemmtun í kvöld í Latarbæjarafmælinu þínu Saga sæta. Hipp Hipp Húrra.

10.10.08

Det er da eddermame noget LORT !

Afsakið orðbragðiði en það er nú lítið annað hægt að segja um ástandið í dag.

Sonur minn kom inn á mánudaginn um sexleitið og sagði við mig "mamma hvað er eiginlega að þér, geturðu ekki passað upp á dóttur þína ?". Ég kom af fjöllum, vissi ekki betur en hún væri heima í góðu yfirlæti. Nobb, hún hafði stungið af. Saga hafði skotist út til nágrannana berfætt í hvítum sumarkjól frá Aldísi og farið að hoppa á trambolíninu. Sem betur fer var Baltasar að leika sér þar og var nú ástæðan fyrir þessum flótta hennar en hún hefur séð sér færi að láta sig hverfa þegar hún sá að mamma hennar var upptekin við annað. Hvað var ég svo að gera. Jú,ég var að horfa á íslenska forsetisráðherran hiksta í beinni útsendingu á netinu. Sat sem negld en það var ekki svo auðvelt að skilja þetta hikst hans en það var hræðilegt samband svo allt sem hann sagði var slitrótt en ég náði nú samt því helsta. Mér leið eins og þriðja heimstyrjöld væri að hefjast þvílík var alvaran. Alla vikuna hef ég hlustað, horft og lesið íslenska netfjölmiðla og bara búin að vera á nálum. Mikið lifandi skelfing er ég fegin að við fluttum peninginn okkar frá Kaupþing síðustu helgi. Er að lesa um fólk hér í Noregi sem er búin að "týna" peningnum sínum. Hafði yfirfært frá Kaupþing og fengið kvittun um að peningurinn væri sendur af stað en kom svo aldrei á áfangastað og enginn veit neitt. Hræðilegt ástand allstaðar. Ekkert hægt að segja meira um það.

Annars smá kvart - svona hversdagskvart eiginlega. Ekki neitt eins mikilvægt og ógnvænlegt eins og fjármálaheimurinn. Bara pirrandi að strengur á flestum kvenngallabuxum í dag eru svona á miðjum mjöðmum og flestir hlýrabolir ná rétt niður fyrir miðjar mjaðmir. Þetta þýðir að ef maður ætlar að girða bolinn oní buxurnar og maður sest fer bolurinn upp úr buxunum og maður endar á því að vera ber á milli laga. PIRRANDI!

Ekki er samt hægt að sleppa lagi vikunnar. Mikill bjartsýnissöngur og hægt að dansa við hann líka. Tekstinn passar bara vel við það sem er að gerast núna. En ef þetta er ekki rétti tíminn til að bregða undir sig betri fætinum og taka smá snúning til að létta á sér lundina þá veit ég ekki hvað.




Góða helgi og ekki gleyma að kíkja við á þriðjudaginn því þá eiga sumir afmæli.

3.10.08

Vetur á Íslandi

Sá á Mogganum áðan að það hefur snjóað í höfuðborginni(þeirri íslensku). Ekki var það nú á bætandi, svona ofan í allt sem á hefur gengið síðustu viku. Er búin að hlusta á Bylgjuna alla morgna þessa vikuna og það hefur ekki beint verið uppörvandi. Nú er komin vetur á Íslandi. Eina huggunin er að íslendingar eru jú harðgerð þjóð sem hefur upplifað tímana tvenna og maður bara vonar að þessi harðindi eigi ekki eftir að vera langlíf. Það er á tæru að á Íslandi sem hér í Noregi verður fólk að fara að lifa sparlegra en áður og því miður eru kannski margir sem eiga eftir að missa mikið. Það er nú bara svoleiðis að það sem fer upp kemur alltaf niður aftur .

Finnst alltof mikil neysla í þjóðfélaginu í dag og þá ekki bara á Íslandi. Bara neysla í kringum börn er alveg hræðileg. Hversvegna þarf eiginlega 6 ára krakki sem notar fötin sín kannsi í 3-6 mánuði að eiga merkjaföt eiginlega. Og afhverju er svona mikilvægt að allt þurfi að vera nýtt. Hef ekki ennþá keypt ný hjól handa börnunum mínum. Kaupi notað eða þau erfa hjól frá öðrum krökkum. Vorum einmitt í Lier hjá Aldísi en hún gaf Sögu hjól og fullt af fötum frá dætrum sínum. Frábært alveg. Baltasar erfir föt frá frænda sínum og syni vinafólks okkar. Auðvitað kaupum við nýtt líka en flest þessi föt eru eins og ný því þau hafa verið notuð svo stutt. Honum finnst ekkert að því að ganga í fötum frá öðrum strákum,hefur fengið föt frá vinum sínum líka og finnst það bara kúl.Við gefum svo vinafólki okkar föt af Baltasar og þá oft því sem hann hefur erft og þá eru 3-4 krakkar sem nota sömu fötin. Mér finnst það hið besta mál. Spariföt, t.d notar hann kannski 5 x á ári. Sér ekki á þeim. Saga noar sín föt í tætlur en þar sem hún vex frekar hægt notar hún flest þangað til að það er hreinlega orðið gamalt og tætt. Mér finnt mikilvægt að nýta það sem maður getur hvort sem það eru föt eða annað. Spara þar sem það er hægt. Og ekki það að við ekki tökum þátt í þessari neyslu, auðvitað gerum við það en að öllu jöfnu held ég samt að við séum frekar nægjusöm enda höfum við aldrei tekið lán fyrir neinu nema húsinu og svo námslánin góðu.

Annars lítið að frétta frá Noregi. Rigning og aftur rigning þessa vikuna. Annars allt við það sama. Boring!

Lag vikunnar er gamalt eins og svo oft áður- eldgamalt. Frá einni af mínum uppáhaldsplötum allra tíma. Hef haldið upp á þennan mann frá ég var mjög ung og hlusta alltaf þennan disk reglulega. Og ekki er verri að horfa á hann syngja því hann er nú bara alveg fjallmyndalegur á svona Jésúlegan hátt. Leiðinlegra þykir mér að hann er búin að skifta um nafn.



Góða helgi folkens.!

30.9.08

Húsmæður sem ekki..

..hafa nóg að gera dunda sér að útbúa svona nesti fyrir börnin sín. Því miður er ég ekki ein af þeim. Hvað er skemmtilegra en að fá surprise í nestinu sínu daglega.





26.9.08

Hæverskan ein!

Þið sem lesið þetta blogg, hafið þið hugsað um hvað þið eruð stálheppin að fá smá sáluhjálp í boði "yours truly" með aðstoð fráYoutube.com á hverjum föstudegi? Hvað er betra en að byrja helgina með góðri tónlist fyrir framan tölvuna. Takið andan djúpt og lokið augunum og íhugið í nokkrar mínútur hvað ég er með góðan tónlistarsmekk.Ég er bara bestust enda varla hægt að búast við öðru frá eins hæfileikraríkri mannseskju eins og mér!! OMG hvað ég er frábær(og fyndin)! Blink blink - nú er þetta andartak fortíð ein og við snúum okkur að allt öðru.

Ísland í dag. Ég horfi oft á Kompás á netinu og hlusta á Bylgjuna daglega og ég verð að viðurkenna að mér stendur nú bara ekki á sama um ástandið í RVK þessa dagana. Vá hvað er mikið vont í gangi í höfuðborg landsins. Er það þessvegna að utanbæjarfólk kallar Reykjavík "Borg óttans"? Ég skil að fólk sé svartsýnt í dag, fólk er það líka hér en kannski í minna mæli en það er enginn afsökun fyrir svona ömurlegheitum eins og eru í gangi.Eins og fréttin með þennan handrukkara sem ekki var handtekin eftir að hafa ráðist í skrokk á þessum Ragnari því löggunni fannst þetta ekkert alvarleg árás. Hvað er eiginlega í gangi. Er klíkuskapurinn alveg að fara með landann. Sá einhverstaðar skrifað að miðborg Reykjavíkur væri orðin alveg morandi af dópi.Get svo sem alveg ímyndað mér það. Las blogg móður sem á 18 ára stelpu sem er sprautudópisti og mamman er búin að vera í 4 ár að reyna að fá hana úr dópinu. 4 ár, spáið í því. Ég get ekki annað en ímyndað mér að foreldrar unglinga á höfðuborgarsvæðinu séu stressaðir að hleypa unglingunum sínum út um helgar. Ógnvægleg þróun.

Annars allt í fína hér. Krakkarnir í góðum gír. Vorum á foreldrarfundi í skólanum henanr Sögu í vikunni og það er voða gaman að fara á svona fundi þar sem allt er jákvætt. Kennarinn hennar á ekki orð yfir hvað henni hefur farið fram á stuttum tíma. Gaman að því.

Lag vikunnar er rólegt. Er með einum af mínum uppáhalds söngkonum, Cæcile Nordby en hún er dönsk jass söngkona og þetta lag er eitt af mínum uppáhalds lögum ever. Var hringtónninn á símanum mínum þangað til ég í einhverju tiltektaræði henti því út og kom því ekki inn aftur. Elska að hlusta á hana, verð eitthvað svo salí.



Góða og skemmtilega helgi

23.9.08

Smá hlæ hlæ á þriðjudegi

Finnst þetta alltaf jafn fyndið.



Og þetta er nú ansi frumlegt.



Hlæja nú alle sammen.

19.9.08

Pælingar á föstudegi

Ég er búin að búa erlendis í 16 ár. Hef alltaf saknað fjölskyldu og vina. Það er nú bara svoleiðis með flesta sem búa erlendis. Sakna svo sem ekkert Íslands sem lands þar sem ég kem reglulega heim í frí.Ég hef frétt frá þeim sem ég er í sambandi við á Íslandi með fötluð börn og hef lesið á ýmsum moggabloggum að nánast allt sem viðkemur fötluðum börnum og þeirra fjölskyldum sé ansi ábótavant miða við hvað við erum vön hér. Sakna þess semsagt ekki. Sakna ekki íslensku krónunnar! Ég er ósköp þakklát fyrir blogg,msn og facebook og er í reglulegu sambandi við vinkonur og kunningja í gegnum það og það færir mig nær þessu fólki. Ég sakna ekki íslensku veðráttunnar, sérstaklega ekki þeirri Hornfirsku. En eitt er sem ég sakna og hef alltaf saknað og það eru óveður. Jamm! Það er eitthvað sérstakt við óveður, eitthvað svo kósí og öruggt að sitja inni og hlusta og horfa á brjálað veður. Ekki það að það sé endilega öruggt eða gaman að fá trambólínið innum stofugluggann. Upplifði óveður tvisvar sinnum meðan ég bjó í Köben. Seinna skiftið var Saga nýfædd og við nýflutt í alveg nýtt hverfi með byggingardóti útum allt. Ég var ein heima með Sögu, sambýlismaðurinn(eiginmaður í dag) á skralli á julefrokost. Ég setti dýnur fyrir gluggana á svefnherberginu svo byggingardraslið fyki ekki inn og þar svo lágum við mæðgur, horfðum á fréttir um óveðrið og höfðum það notalegt og var líka pínu hrædd (aðalega kannski um fulla jólagleðimanninn sem þurfti að komast heim þá nóttina). Aldrei er óveður hér á Óslóar svæðinu(jú einu sinni kannski en ekki svona almennilegt samt). Yfirleitt bara logn hér. Og það er fínt, myndi bara kannski vilja svona eins og einn almennilegan storm á ári. Er það frekja af mér? Er ég skrýtin? Er eðlilegt að vera svona? Já stórt er spurt og kannski lítið um svör. Fór bara að hugsa um þetta um daginn þegar óveðrið var á Íslandi. Og ekki miskilja mig, hef ekki áhuga á einhverjum fellibyljum eða neitt. Bara pínu aksjón.

Jæja hætt um veðrið. Er á leið til tengdó í svíþjóð. Vona eftir góðu veðri þar því við ætlum út að róa og reyna að veiða eitthvað í soðið.

Já og hvernig er þetta eiginlega með þessar ítölsku fegurðardísir. Afhverju voru þær svona léttklæddar. Rakst á þetta á visi.is og bara skil ekki alveg afhverju þær voru ekki í kjólum!Já og hér í landi var frétt um að konur sem væru 7 í útliti á skala 1-10 ættu auðveldast með að fá vinnu. Einhver skrifaði víst bók um þetta. Hvernig veit maður hvort maður sé 7 eða 6 eða hvað? Mér er spurn!

Já þetta var svona bland í poka eins og mér einni er lagið.

Lag vikunnar er alveg hreint eldgamalt. Var þvílíkt uppáhaldslag að þetta lag minnir mig á mig! Ég elskaði það svo mikið að ég tók það upp á kasettu - báðu meginn og það sagði nú ekki lítið. Afhverju var þetta lag svona í miklu uppáhaldi. Beats me! En vildi samt deila því með ykkur. Hafði nefninlega aldrei séð þetta videó áður fyrr en núna. Svo þetta lag fellur ekki undir uppáhaldslögin mín í dag. Er meira algjör nostalgía.Kannski er ég eina manneskjan frá Íslandi sem man eftir þessu lagi. Manst þú eftir því? (svara nú)



Góða helgi.

16.9.08

Dundur.

Ákvað að leyfa ykkur að berja augum sumt það sem ég hef verið að dunda mér við í photoshop á rólegum dögum. Logoin eru að vísu í notkun. Hitt er bara dundur.







12.9.08

Hversdagsleikinn tekinn við af fullum krafti

Ojá,sumarfríið í ár orðið hluti af fortíðinni og maður komin á fullt í fasta liði eins og venjulega. Fínt að mörgu leiti en stundum leiðist mér svo óstjórnlega á virkum dögum. Vakna, borða, vinna, elda, borða,sofa, vakna..... Jú jú svosem gerir maður eitthvað þarna á milli.En sem betur fer þarf ekki meira til að gleðja mig en að gera eitthvað aðeins öðruvísi eins og í gær þegar JC vann heima og ég átti minn frídag og við náðum saman í Sögu í skólann og fórum í smá verslunnarleiðangur með henni. Haustskór voru á dagskránni og hjól handa mér. Það var eitthvað svo gaman að gera eitthvað nýtt á virkum degi.Ekki oft sem við hjónakornin gerum eitthvað saman á venjulegum fimmtudegi.

Viggó frændi búin að vera í heimsókn og það var náttúrulega bara gaman og næs. Hann er nú alltaf svo skemmtilegur. Hann gaf Baltasar allt Emil safnið og ég las þetta fyrir krakkana og Viggó og hver hló mest? Jú Viggó. Svo söng hann með Sögu í singstar og fór með okkur á Junior Grand prix(barnajúrovision)og fannst svo gaman. Hann er góður gestur.

Smá mont.Einkasonurinn byrjaði í Breakedance í síðustu viku. Átti að vera á námskeiði fyrir stráka 6-8 ára en við komum of seint og hann fékk að vera með í hópnum fyrir stráka 8-10 ára svona fyrst við vorum komin á staðinn en átti svo að byrja í hinum hópnum næst. Í lok tímans kom þjálfarinn til mín og sagði að hann vildi að Baltasar héldi áfram í þessum hóp því hann væri of góður fyrir hinn hópinn og myndi ekki læra eins mikið þar. O hvað minn maður var stoltur á sjálfum sér og við að sjálfsögðu líka. Hann á semsagt eftir að æfa með strákum á aldrinum 8-11 ára því sá elsti er svo gamall og það verður gott fyrir hann að æfa með strákum sem eru aðeins æfðari í að einbeita sér. Á eftir að þroskast við það.

Lag vikunnar. Munið þið eftir þessu? Ég var allavegna alveg búin að gleyma því þangað til ég rakst á það á Youtube. Algjört flashback frá hljómsveit sem maður aldrei heyrði meira frá.




Helgi!

p.s Ekki gleyma að skoða myndirnar af börnunum mínum sem eru hér fyrir neðan. Óborganlegar alveg.

10.9.08

Gamlar myndir

Fann þessar krúttlegu myndir af krökkunum og bara varð að sýna þær. Þau voru alveg jafn miklir prakkarar eins og þau litu út fyrir að vera.Þetta er kannski ekki bestu myndirnar af þeim en með þeim fyndnari.








5.9.08

Hitt og hetta

Einu sinni mundi ég fullt af skondnum sögum af fólki sem ég bæði þekki og þekki ekki en einhverra hluta vegna er ég að gleyma þessu smám saman svo að ég ákvað að hreinlega fara að safna saman fyndnum sögum og skrá þær hér á bloggið. Endilega hjálpa mér og senda mér fleiri.

Nokkrar sögur frá Köben:

Á Öresundskolleginu var bannað að bora í veggina eftir kl 20 á kvöldin. Ein íslensk ný flutt smábarnamóðir varð eitthvað pirruð útí nágranna sinn sem var að bora of seint og hélt vöku fyrir börnum hennar. Hún skveraði sér til nágrannans og sagði þegar hann opnaði hurðina "Are you boring?"
HAHAHAHAHAA

Vinkona mín ein var farin að deita Dana og hún var ekkert alltof sleip í dönskunni enda nýflutt. Hún sagði þessa frægu setningu: "Da jeg var lille spillet jeg i et luderband!" HAHAHAHAHAHAH

*Luder á dönsku er semsagt hóra! Og band er hljómsveit !!

Þegar ég var í Roskilde universitet i samfélagsfræði(amm hef líka gert það) átti ég að halda fyrirlestur um bændasamfélag í félagsfræði fyrir sam-nema mína. Ég hélt heilan fyrirlestur ekki um bændur - um baunir!!Ég meina hvað er munurinn á bønder og bønner!!

Og hafi þið heyrt um fiðlulitinn!! Violin eða violett ekki alltaf auðvelt að skilja þar á milli.

Ein vinkona mín á Roskilde Festival var að ræða um gæludýrin sín við Svía nokkurn og talaði þar af leiðandi ensku. Hún sagði þessa frægu setningu: "I had a pussy once called Snúður!" Ég dó úr hlátri og hann lét sig hverfa!

Sögur frá Hornafirði:

Einu sinni voru unglingar að rúnta eins og gengur og gerist á Hornafirði. Þau keyrðu fram hjá konu sem var að geispa þetta rosalega svo það sást nánast oní kok og einn strákurinn segir "já ég sé að hún hefur verið að borða kótilettur" þá gellur í einni dömunni í bílnum"já ég verð einmitt alltaf svo syfjuð þegar ég borða kótilettur" !!

Sú sama var dóttir skipstjóra og var einu sinni spurð hvað pabbi hennar veiddi. "Jú, Þorsk, Ýsu, Saltfisk....."

Man ekki fleiri. Endilega hjálpa með fleiri sögur.Það er svo gaman að hlæja - finnst mér allavegna.

Jæja vikulok, Viggó frændi bróðir hennar mömmu í heimsókn. Erum að fara á Norsk Grand prix junior(barnajúróvision) í dag með krakkana. Okkur var boðið að vera áhorfendur í keppninni. Þeim hlakkar bara geðveikt til. Viggó líka.

Lag vikunnar er að þessu sinni stuðlag. Afgamalt og bara kemur manni í stuð.Takið eftir hárinu.



Flotta hausthelgi.

29.8.08

Stórafmæli á föstudegi

Mamma á 60 ára afmæli í dag. Hipp hipp húrra. Hér er mynd af henni með Sögu í lítilli byggð í Hardangerfirðinum.


Allavegna þá vil ég bara óska henni til hamingju með daginn og vona að hann verði ánægjulegur í alla staði. Á ekki eftir að heyra í henni fyrr en í kvöld.

Er annars ein í kotinu með krakkana þessa helgina. Húsbandið að fara í hjólakeppnina sína(hægt að sjá leiðina hér). Það er ætlunin að hjóla 91 km og það mest upp í mót. Ekkert smá stressuð en hann er ekki neinn ægilegur hjólagarpur svo ég bara vona að hann slasi sig ekki á þessi brölti.

Baltasar að fara að keppa í sínu fyrsta fótbolltamóti um helgina og krakkarnir að fara í sitthvora afmælisveisluna svo ég veit allavegna hvað ég verð að gera um helgina. Fyrsti leikurinn hjá Baltasar er að vísu ekki fyrr en 16:40 á laugardaginn svo við ætlum að fara á bæjarhátíð og spóka okkur þar fyrripartinn en það verður brjálað um að vera í bænum og um að gera að nýta sér það. Seinni leikurinn þann daginn er svo ekki fyrr en kl 19 svo þetta verður langur dagur.

Vill annars segja í beinu framhaldi af síðustu færslu að þrátt fyrir að Saga hafi alltaf farið snemma á fætur þá svaf hún nú yfirleitt vel á nóttunni. Það var bróðir hennar sem var vargurinn þar en hann vaknaði allt frá á klukkustundar fresti til 6x á nóttu alveg þangað til hann var þriggja og hálfsárs. Það var mjög óskemmtilegt. Sefur eins og steinn núna. Svo vel meira að segja að hann rumskaði ekki á aðfaranótt mánudags þegar glerljós sem hékk í ganginum við hliðina á þar sem hann sefur datt í gólfið beint á flísarnar og fór í milljón mola. Við hjónin vöknuðum bæði við þessi læti. Bara algjör heppni að enginn var í ganginum þegar að þetta gerðist því það voru glerbrot út um allt nánast - í duftformi. Það er ekkert eins skemmtilegt og að ryksuga klukkan fjögur á nóttu, maður vaknar allavegna vel!

Ákvað að velja lag þessa vikuna sem afmælisbarn dagsins á eftir að líka við. Rólegt og erkinorskt en mjög fallegt. Þetta er eiginlega hálfgerð þjóðlagatónlist eða svoleiðis.Er ekki í stuði fyrir stuðlag núna - ekki alveg komin í stuðgírinn svona fyrir kl 8 á morgnana.


Góða og blessaða helgi.

22.8.08

aldskjfoaeiøu nlkdfsjaoi

Já stundum veit maður ekki alveg hvaða fyrirsögn maður á að nota.

Einn morguninn þessa vikuna þegar ég var að keyra niður að lestarstöð kl 6:50 sá ég konu með barnavagn og í honum sat lítil stelpa ca. ársgömul. Mamman var ansi ferskleg og vakandi að sjá. Mig grunaði að hún væri búin að vera vakandi ansi lengi og mér varð ósjálfrátt hugsað tilbaka þegar Saga var lítil. Þegar hún fæddist fengum við bækling um Downs heilkenni.I honum var m.a frásögn föðurs sem var að leika í lego við son sinn kl 6 um morgunn. Ég man eftir hvað ég var hneyksluð á þessum pabba að hafa vakið barnið sitt svona snemma til að geta leikið við hann áður en hann færi í vinnuna. Hvarflaði ekki að mér að barnið hafi vaknað og pabbinn þurft að fara svona snemma á fætur. Svona lítið vissi ég um börn! Nokkrum mánuðum seinna kom í ljós að dóttir mín var alveg einstök A manneskja og vaknaði í síðasta lagi 5:30 og svona eldhress í þokkabót. Maður gat alveg gleymt að kúra aðeins lengur með henni. Nobb, á fætur varð maður að fara.

Fyrsta sumarið hennar fórum við til Íslands þar sem er tveggja tíma munur miða við DK. Þetta þýddi að fyrstu vikuna áður en hún var kominn inn í íslenskan tíma vaknaði hún 3:30 á nóttunni.Við vorum í íbúð á Laugarveginum ásamt pabba og mömmu og þau sváfu í stofunni. Saga vaknaði kl 3:30 sharp fyrstu helgina. Þetta var lítil íbúð og þegar klukkan var um hálf fimm ákváðum við bara að fara í göngutúr því Saga var orðin eitthvað leið á að hanga inni í herbergi. Ákváðum að athuga hvort við fyndum bakarí sem væri að fara að opna(bjartsýn!). Svo við skelltum dömunni á bakið á pabba sínum í hásætið sitt og svo var arkað af stað niður laugarveginn - á laugardagsnóttu! Ekki veit ég hvað fólk hefur haldið þegar það sá okkur. Kannski haldið að við værum svo samheldin fjölskylda að við gerðum ALLT saman, til og með djamma! Veit ekki en allavegna fundum við ekkert opið bakarí , bara fullt af fullu fólki á leiðinni heim af djamminu. Dóttir okkar var samt hæstánægð með þetta ferðalag. Mikið er ég fegin að hún sefur til 6:30 í dag og stundum til 7.

Annars lítið að frétta.Skólinn byrjaður hjá krökkunum og þau hæstánægð með það. Ég er spennt að sjá hvernig veturinn hjá Sögu verður núna þegar hún er farin að lesa. Vonum að einkasonurinn taki systur sína sér til fyrirmyndar og læri það líka. Erum svo að fara í brúðkaup á morgun hjá henni Aldísi og Vidar. það verður ekki leiðinlegt.

Brjálað veður í gær. Geðveikar þrumur og eldingar og hagl. Og það var ekkert smá hagl,ekki svona venjulegt hvítt eins og er á veturnar heldur stórir ísmolar. Húsbandiði var úti að hjóla á meðan óveðrinu stóð - úti í skógi! Ekki sniðugt. Hjólakeppnin hans er svo næstu helgi. God hvað ég verð stressuð held ég.

Jæja hendi inn einu lagi. Girlpower.



Gróðahelgi.

p.s orðin stutthærð.

15.8.08

Grillaðir sniglar

Jéremías hvað ég er leið á rigningu og skýum og leiðinlegu veðri. Sumarið á Islandi var nú ekkert til að hrópa húrra fyrir, portugal svona sæmó,3 dagar hér góðir og svo ekki söguna meir. Rigning rigning og þrumur og eldingar. Sló niður einni hér í fyrradag snemma um morgunin. Krakkarnir voru að horfa á morgunsjónvarp og ég að klára að setja á mig andlit og allt í einu heyrist geisihár kvellur og svo fór rafmagnið. Þetta var eins og það væri verið að sprengja hér við hliðina. Hverfið varð meira og minna rafmagnslaust. Sem betur fer eyðilagðist ekki sjónvarpið eins og ég var hrædd um en afruglarinn er ónýtur og allar ljósaperur sem voru á þennan morguninn. Litlu síðar þurfti ég að keyra um gatnamótin hér og umferðarljósin voru að sjálfsögðu úr leik. Ég hreinlega lokaði augunum og vonaði það besta þegar ég keyrði yfir gatnamótin með umferð á báðar hliðar og engin ljós. Það slapp í þetta skiftið!

Annars HATA ég Íberíuskógarsnigilinn af ákvefð og á hverju kvöldi set ég upp gúmmíhanska og fer út í sniglaleit. Set þá svo í poka og salta og vupsi þeir hreinlega bráðna á nóinu. Húsbandið spurði um daginn hvort ég héldi að sniglar hefðu sársaukaskyn !! Hú givs a shjit svaraði ég og henti sniglapokanum í ruslatunnuna.MÉR GÆTI EKKI VERIÐ MEIRA SAMA HVORT ÞEIR FINNA TIL. Þeir eyðileggja allar plönturnar mínar og drepa önnur dýr.Mig grunar að einhverjir hafi grillast þarna um morguninn.

Saga var að hoppa á trambólíninu um daginn en henni finnst rosa gaman að sippa á því og mér fannst hún eitthvað óvenju hljóð svo ég fór út að tjekka hvað hún væri að gera. Þá var mín búin að binda saman á sér fæturnar og var að hoppa. Gat ekki haft læti því hana hefur grunað að þetta væri bannað. Hún var að leika Wendy í Pétur Pan eftir að Kaptein Krook var búin að binda hana.

Annars ELSKA ég pokakökur fyrir 7 ára afmæli. Gerði eina slíka með grænum kókos og fótbolltakölllum. Mikið er lífið léttara fyrir okkur heimabakarana eftir þessa miklu uppgötvun sem pokakökur eru.Auðvitað eru "ekta" kökur betri en 7 ára krökkum er alveg sama svo lengi kakan er sæt.

Jahér hvað ég get stundum skrifað samhengislaust!

Lag vikunar rólegt þennan föstudaginn. Það er með 16 ára drengsem vann í hæfileikakeppni hér á landi í vor. Hann er þokkalega góður að syngja.Þetta var live, sá það í tv en það er ekki alveg nógu góð gæði á videoinu á youtube og þessvegna ekki alveg samræmi milli myndar og hljóðs. En ekkert mikið samt.En það er allavegna alveg á tæru að þessi emo snáði getur sungið.





Góða helgi

8.8.08

Af frægu fólki og fleira

Síðustu helgi dreymdi mig að ég var að taka viðtal við Tammy Wynett á búgarðinum hennar. Hún var að spá í að selja hann. Sömu nótt í öðrum draumi var ég að taka viðtal við Elísabeth Taylor!!! Ekki furða að maður sé stundum alveg uppgefin þegar maður vaknar.

Annars dreymir mig sjaldan illa nú orðið. En þegar ég geri það dreymir mig nánast alltaf sama drauminn.

Mig dreymir að ég sé í skóla, stundum hönnunarnámi og stundum kerfisfræðinámi. Ég er að fara að útskrifast og er að fara í stærðfræðipróf og kemst að því að ég er ekki aðeins búin að gleyma að ég sé að fara í lokapróf í þessu fagi heldur hef alveg gleymt að læra heima allann tímann og stundum meira að segja gleymt að kaupa námsefnið og svo fer ég í einhverju panik að rembast við að læra heima og skil akkúrat ekki bofs - alveg tóm. Fer alveg í panik og vakna alveg miður mín.

Þegar ég var í kerfisfræðinni fór ég í lokapróf í einu faginu þar sem við fengum uppgefin 19 efni sem við ættum að undirbúa þar sem maður kæmi upp í einu af þeim. Ég undirbjó mig í 18, sleppti einu þar sem ég skildi ekki boru í því og hugsaði með mér að það væri lítill sjens(1:19) að koma upp í því en það var einhver rafmagnsfræði!!! Viti menn - kom upp í rafmagnsfræðinni, að sjálfsögðu og fór alveg í tóma þvælu og panikk í prófinu.Aldrei á ævinni ruglað eins herfilega, aumingja prófdómarinn hélt að ég væri að sturlast. Hef greinilega hlotið varanleg mein á sálinni eftir þessa upplifun fyrst ég er að dreyma þetta á nokkra ára fresti.Verið að minna mig á að alltaf vera samviskusöm eða eitthvað.

Fór annars að sjá Mamma Mia í gær. Rosa fjör og ég verð að segja að ég var alveg hæstánægð með hana Meryl. Hefur venjulega þótt vera frekar lítið fútt í henni en fannst hún alveg brilljant í myndinni. Og svo finnst mér hún líka fríkka með aldrinum, finnst hún flott að hún lítur út fyrir að vera á þeim aldri sem hún er. Glæsileg alveg hreint. Frábært að sjá í kvikmynd að konur komnar á vissan aldur geti enn skemmt sér og fíflast því mér finnst ég ekki sjá það nógu oft í amerískum myndum. Og svo fannst mér hárið á dótturinni þegar hún er að fara að gifta sig alveg æðislegt og mig langar að læra að gera svona í hárið á Sögu. En ég verð nú að viðurkenna að mér fannst hálf pínlegt að sjá sjálfasta James Bond brjótast út í söng!

Já svona er nú það. Fann þetta gamla og góða lag frá Kaupmannarhafnarárunum. Er að vona að það smiti út frá sér og veðrið hér fari aftur að komast í gott skap.Níd som jamækan fíning man!



Hipp hipp hipp barbabrella.