17.6.08

Eitt stk ættjarðarljóð

svona í tilefni dagsins. Ef maður getur ekki verið ljóðrænn með snert af þjóðerniskennd og á svona dögum þá veit ég ekki hvað!

Þótt þú langförull legðir
sérhvert land undir fót
bera hugur og hjarta
samt þíns heimalands mót,
frænka eldfjalls og íshafs,
sifji árfoss og hvers,
dóttir langholts og lyngmós,
sonur landvers og skers!

Yfir heim eða himin,
hvort sem hugar þín önd,
skreyta fossar og fjallshlíð
öll þín framtíðar lönd!
Fjarst í eilífðar útsæ
vakir eylendan þín:
nóttlaus voraldar veröld,
þar sem víðsýnið skín.

Það er óskaland íslenskt,
sem að yfir þú býr,
aðeins blómgróin björgin,
sérhver baldjökull hlýr,
frænka eldfjalls og íshafs,
sifji árfoss og hvers,
dóttir langholts og lyngmós,
sonur landvers og skers!

Höfundur:Stephan G. Stephansson

Þetta var uppáhalds ljóðið mitt í bláu bókinni "Skólaljóð" sem margir kannast trúlega við.

Gleðilegan þjóðhátíðardag íslendingar fjær sem nær
- vildi óska að ég hefði eitthvað íslenskt nammi svo ég gæti haldið almennilega upp á daginn. Hipp hipp húrra.

4 ummæli:

Valkyrjan sagði...

Að sjálfsögðu man maður eftir bláu bókinni ... ég á Tópas !

Finnst nýji titillinn minn helst til langur :)

Gleðilegan 17.júní - Guðrún

Álfheiður sagði...

Gleðilegan þjóðhátíðardag sömuleiðis.

Nafnlaus sagði...

Fyrst þú elskar þennan texta munt þú falla fyrir laginu. (ef þú kannt það ekki nú þegar) Kristinn Sigmundsson syngur það yndislega. Er til á diski. Gleðilega hátíð, við Brói sko borðuðum heitt hangiket á beini með grænum og alles! Gulla

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Þú ert með góðan smekk:)