30.1.09

Uten hemninger





Nú er verið að sýna þættina "Uten hemninger" sem teknir voru upp á æfingum fyrir óperuna Jenný sem Saga tók þátt í. Í þáttunum er sýnt frá æfingum á óperunni og fram að frumsýningu og tekin viðtöl við nokkra af þeim sem stóðu að sýningunni en mest þó við þáttakendur. Ég verð að viðurkenna að ég var nú smá stressuð yfir hvernig þáttakendur yrðu sýndir í þessum þætti en ég hafði áhyggjur að óþörfu. Sem betur fer hefur kvikmyndafólkið unnið sína vinnu á mjög svo fagmannlegann hátt og ég er mjög ánægð með útkomuna. Það sem kom mér mest á óvart er hversu vel hefur tekist að sýna fullorðnu einstaklingana(sem eru með mismunandi þroskahamlanir) fyrst og fremst sem fullorðið fólk með eigin skoðanir á hlutunum. Það sést mjög vel að þau taka afstöðu til eigin lífs og aðstæðna og eru ekki bara einhverjir bjánar sem sitja og glápa út í loftið daginn inn og út. Mig grunar að það séu margir sem halda að það að vera þroskaheftur þýði að maður hafi hvorki skoðanir né tilfinningar og að maður lifi í einhverju tómarúmi þar sem ekkert gerist, sem er hinn mesti misskilningur.

Í þættinu eru líka sýndir einstaklingar sem eiga erfitt með að skilja milli veruleika og ímyndunnar og eiga erfitt með að skilja milli eigin persónu og þeirrar persónu sem þau leika í sýningunni sem gerir það enn stórkostlegra að þau geti tekið þátt í svona viðamikilli uppsetningu. Mikilvægt að sýna báðar hliðar.
Einnig sést mjög vel í þáttunum hvað þau öll tóku hlutverkum sínum alvarlega, voru dugleg að æfa og hvað þau voru fagmanleg í öllu því sem þau tóku sér fyrir hendur.Í einum þættinum er sýnd stund þar sem nokkrir einstaklingar eru að tala um það einelti sem þau hafa lent í á sinni lífsleið. Annaðhvort sem börn, fullorðin eða bæði. Það er sárt fyrir alla að lenda í einelti en ég held samt að fyrir fólk með þroskafrávik og aðrar fatlanir sé það enn sárara því þau eru svo meðvituð um hvað þau eru öðruvísi.Þau gera sér alveg grein fyrir fötlun sinni og það er mikilvægt að fólk viti það. Það sem svo kemur mest á óvart er hvernig þau hafa valið að takast á við þessa vondu lífsreynslu og að þau hafa valið að nota hana til að túlka þau hlutverk sem þau hafa í sýningunni. Maður þarf nú að vera ansi klár í kollinum til þess að geta gert það.

Litlu krakkarnir eru svo sýnd milli atriða og þau eru nátturulega sætust. Á síðasta mánudag var sýnt þegar Saga var að kyssa "kærasta" sinn og hann greyið alltaf að þurka sér um munnin og hún voða sæl með hann. Alveg bráðfyndið. Einnig var sýnt þegar einn af blindu þáttakendunum stökk fallhlífarstökk. Hvern hefði grunað fyrir 30árum að blindir ættu eftir að gera svoleiðis. Þrælgóðir þættir sem ætti að fá fólk bæði til að hugsa og hlægja - því það má alveg líka.

Og á sama tíma og mín fatlaða dóttir sem býr í Noregi fær tækifæri á að sýna í hvað henni býr heyri maður stundum sorgarsögur eins og þessa hér frá Íslandi. Lítill snáði með Downs heilkenni býr úti á landi og gengur þar í tónlistarskóla. Hann var eina barnið sem ekki fékk að taka þátt í jólatónleikunum. Þegar mamma han spurði afhverju sagði kennarinn:"þetta eru svona fínir tónleikar, allir mæta í sparifötum og svoleiðis svo hann ekki tilbúinn að spila á svoleiðis tónleikum, en hann má koma og horfa á" Á HVAÐA HELVÍTIS MIÐÖLDUM LIFIR ÞESSI MANNFÝLA Á EIGINLEGA? Ég get sko grátið þegar ég heyri svona.

Það helsta í fréttum af okkur er að Saga er byrjuð á skíðaæfingum. Baltasar heldur áfram í bandy og er líka í íshokki í skólanum og það er bara snjór og vetur hér þessa dagana og kallt.

Held mig á norrænum slóðum í dag. Eitt rólegt frá Svíþjóð. Vissu þið að rolig á sænsku þýðir skemmtilegt!



Góða og blessaða vetrarhelgi.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Yndislegar myndir um yndislega sýningu, og pistillinn þinn var góður að vanda. Ef satt reynist með ísl. tólistarskólakennarann þá vildi ég óska að hann væri kominn í annað starf. Hann er blettur á mannfólkinu yfirleitt og hana nú. Kær kveðja. Gulla Hestnes

Iris Heidur sagði...

Sammála henni Gullu í einu og öllu sem og þér. Vona að þú takir þættina upp svo við getum fengið að horfa á þá við tækifæri.
Kveðja úr daglegu roki, frekar vildi ég nú hafa almennilegan vetur með helling af snjó. Hvað varð um veturinn!

Nafnlaus sagði...

Ohh...vona að þeir sýni þessa þætti hérna heima.
Sammála Gullu að tónlistakennarinn sé ljótur blettur, en verra finnst mér að bæjarfélagið hafi ekki mótmælt þessari framkomu við drenginn. Við eigum að vera orðin meðvituð um svona hluti og láta í okkur heyra þegar brotið er á fólki:(
Sé enþá eftir því að hafa ekki látið heyra í mér þegar ónafngreind prestfrú sem stjórnaði barnakór sem dóttir mín var í, lét eina stelpuna sitja hjá í nokkrum lögum. Skýringin sem móðirin fékk var að hún syngi ekki nógu vel!! þetta var barnakór!
Sem betur fer myndi ég ekki sitja þegjandi yfir svona hlutum í dag...þökk sé visku og þroska sem ég hef öðlast í gegnum tíðina:)
Nú og en spyr ég mig afhverju heilt bæjarfélag lét það líðast að drengur í 10 bekk var skilin einn eftir í Færeyjum í skólaferðalagi og þurfti sjálfur að redda sér heim??
Flott blogg sem fyrr hjá þér Helga mín.
Ólöf

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Glæsilegt blogg-það er ekki oft sem ég hlæ og græt yfir sömu bloggfærslunni en það gerðist nú. takk fyrir. Mikið væri ég til í að sjá þessa þætti. Til hamingju með stelpuna þína og til hamingju Saga.
Ljót sagan sem þú sagðir frá og er ég sammála mömmu í því sem hún segir.
Hafið það gott, Svanfríður.

Nafnlaus sagði...

Mikid vaeri gaman ad sjá thessa thaetti, their sýndu thaetti (dokumentär)sem heita "En annan del av Köping" hérna hjá okkur fyrir nokkrum árum sídan sem vöktu mikla og góda athygli. Hafdu thad sem best!
Kvedja frá Sverige!

Iris Heidur sagði...

Við Óskar rákumst á mjög góðan þátt á DR fyrir 2 kvöldum síðan eða svo. Oft góðir þættir þar. Í þeim þætti var fylgst með nokkrum fullorðnum einstaklingum með ólíkar fatlanir, m.a. downs,og rætt við þá um lífið, ástina, hjónabandið, barneignir og fleira. Þetta var virkilega áhugaverð umfjöllun og þau hafa auðvitað "alvöru" tilfinningar eins og allir aðrir. Mér fannst þau mjög klár og skynsöm!
Varð hugsað til krakkanna "minna" í Öskjuhlíðarskóla...sakna þeirra.

Nafnlaus sagði...

Þetta var gott og gagnlegt að lesa. Mamman og pabbinn á bænum eiga nú líka skilið hrós er það ekki ? Því í gegnum línurnar les ég að Saga er heppin stelpa að eiga svona virka foreldra.

Bestu kveðjur frá Deutschland-Guðrún