14.10.11

Hún á afmæli í dag hún á afmæli í dag


Saga litla stóra stelpan mín á afmæli í dag. Ótrúlegt hvað tíminn líður. 12 góð ár með ups and downs eins og gengur og gerist. Ætla ekki að halda því neitt fram að það sé einhver dans á rósum að eiga fatlað barn. Það tekur oft á sálartetrið og hjartað blæðir stundum kröfuglega líka. En miða við svo marga aðra sem eiga fötluð börn þá ætla ég sko ekki að fara að kvarta. Eins og barnalæknirinn hennar sagði "Saga er alveg sérstaklega vel heppnað eintak"!! Hann er vitur maður. Verð að viðurkenna að vísu að núna finnst mér þetta farið að vera pínu erfitt. Hún er að breytast úr barni í ungling og við foreldrar með börn með sérþarfir fáum litla sem enga hjálp í hvernig við eigum að takast á við þær breytingar. Bæði sem foreldrar og sem leiðbeinendur fyrir barnið sjálft á þessum oft erfiðu tímum. Tilfinningarnar eru að byrja að sjóða, meðvitund um að vera öðruvísi er orðin meira áberandi og líkaminn fer að breytast.
Saga er alveg gasalega upptekin af þessu öllu. Talar um að vera með Downs, spyr hvað það þýðir. Planleggur framtíðina með börnum og buru. Er á útopnu með að eignast kærasta, upptekin af því hverjum líkar við hana og hverjum ekki og afhverju þeim líkar ekki við hana. Hún hefur allar sömu tilfinningar og spurningar og aðrir krakkar á hennar aldri, munurinn er bara sá að það er svo erfitt að svara þeim nógu einfaldlega svo að hún skilji svörin. Hún getur komið heim einn daginn í uppnámi og stunið hátt og sagt " Mamma ég er svo öfundsjúk!". Ég spyr þá út í hvern og hversvegna. Þá svara hún "mamma, hvað þýðir öfundsjúk?". Hmm, þá er um að gera að vera fljótur að svara áður en hún dembir sér í aðrar hugsanir.

Gasalega upptekin af blæðingum. Hvernig og hvenær og hversu lengi, hættulegt, getur maður dáið, allar konur og afhverju ekki karlar og hvað verður um eggið. Getur maður séð það í nærbuxunum..... Alveg nóg af spurningum. Erfiðasta spurningin er samt "Hvenær eignast ég börn". Það er sárt umræðuefni fyrir foreldra fatlaðra barna og maður stendur svolítið á gati með hvernig maður svarar því. Við höfum verið á því að segja sannleikan(hagræddum að vísu) svo að við svörum að það sé erfitt oft að eiga börn og hún eigi kannski ekki eftir að eignast börn sjálf en ekki allir þurfa að eignast börn og að það sé allt í lagi. Hún stoppar yfirleitt þar því þá er umræðan orðin það löng að hún er búin að missa áhugann. Einn góðan veðurdag þurfum við að ræða þetta en sem betur fer eru nokkur ár þangað til.

Hef líka smá áhyggjur af þessu kærastaveseni á henni. Ef það er ekki einn þá er það annar. Er alltaf ástfangin og grætur með tilþrifum ef sá útvaldi þann daginn sýnir henni ekki nægan áhuga. Geri mér grein fyrir að þetta er leikur, hún er að leika það sem hún sér á þeirri mætu sjónvarpstöð Disney Chanel. En það er erfitt fyrir hana að læra hvar mörkin eru svo að nú er hún komin í kossabindindi þangað til að hún verður 14 ára!! Ekki það að hún sér í einhverju ægilegu keleríi en eitt er að vera að leik-kyssa þegar maður er 10 ára, annað þegar maður er að verða unglingur og strákurinn líka. Þá þarf maður að hugsa aðeins öðruvísi. Já mikið að gerast þessa dagana hjá þessum kvennskörungi,henni dóttur minni.

En til að forðast allan misskilning að unglingahræðslan sé bara bundin við Sögu þá vill ég taka fram að ég kvíði alveg stjarnfræðilega fyrir því þegar Baltasar verður unglingur. Svo margar hættur þarna úti fyrir unglinga í dag. Og ég man svo sannalega hvað ég var yndisleg sjálf á þessum aldri!! Svo að ég verð á sama stað eftir 2-3 ár með hann líka. Jeii!!

Við ætlum að halda upp á herlegheitin hennar með bleiku afmæli,12 stelpur í 12 ára afmæli og allar eiga að koma í bleiku. Verð með bleik cupcakes, bleik kerti, servéttur og bleik marsmellos(!). Já það má með sanni segja að dóttir mín sé mikið fyrir bleikt. Stundum held ég að hún hljóti að vera ættleidd!

þetta er eitt af uppáhaldslögunum hennar(er ekki gaman þegar að börnin manns fara að fíla tónlist maður sjálfur nennir að hlusta á!).




Gleðilega helgi.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Innilegar hamingjuóskir með hana Sögu og góða skemmtun í bleika afmælinu :) Knúsaðu hana frá okkur!
Mánabrautargengið

Nafnlaus sagði...

Elsku Helga og co.
Til hamingju með prinsessuna bleiku. Frábært að fá að lesa aðeins um hvað er á sveimi í kollinum á þér Helga mín þessa dagana. Þú manst bara hvað við vorum mikið til "fyrirmyndar" þegar að við vorum unglingar og allt hefur þetta blessast. Knúsaðu stelpuna frá mér.
Kv. Bóla

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Til hamingju með hana Sögu ykkar. Þetta var góður pistill hjá þér. Takk fyrir hann.

Nafnlaus sagði...

Helga mín.
Saga er og verður sætust og best eins og ég sagði alltaf við hana þegar hún var lítil. Þessi 12 ár hafa verið alltof fljót að líða - sérstaklega fyrir ömmu sem er alltof langt í burtu. Hún hefur auðgað líf mitt alveg ótrúlega með því bara að vera eins og hún er.
Mútta

Íris sagði...

Takk fyrir góðan pistil. Get sko sagt þér að það er ekki auðvelt að eiga ungling og gæti ég valið hefði ég þegið að ganga eitt ár í viðbót um gólf með hana dóttur mína, stundum báðar hágrátandi, í stað þess að díla við þessi blessuðu unglingsár sem tóku á okkur báðar. Hefur verið aðeins rólegra í kringum unglingspiltinn minn. Ég trúi að það sé flókið að takast á við unglingsárin með henni Sögu, allar þessar pælingar eru flóknar. Ég skil svo sannarlega hvað þú meinar með öllum hættunum þarna úti, ég held að þær hafi margfaldast síðan við vorum upp á okkar best eða eru allavega öðruvísi og kannski hættulegri, en kannski finnst öllum foreldrum þetta. Innilega til hamingju með fallegu stelpuna þína. Kærar kveðjur úr rigningunni á Sotra

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með fallegu skemmtilegu snúlluna þína Helga mín. Vonandi átti hún yndislegan bleikan afmælisdag :) Knús Berglind