29.4.08

Og allstaðar er fólk

Hvar í veröldinni, hvar í heimi hér
ei mannlaus staður, allstaðar er fólk

Já svona söng han "Skverrir Skormsker" (eða hvað hann nú heitir) þarna um árið. Svei mér þá ef hann ekki var að syngja um fólkið í Róm.Þar var nú meiri fólksmergðin en sem betur fer var nú stór hluti af þessu fólki ítalir, og það er nú ekkert ljótt fólk. Svona gasalega vel til höfð öll sömul og fín. Tók samt eftir að það var ekki mikið um börn en svona ykkur til gamans eru ítalir það fólk í Evrópu sem eignast hvað fæst börn.

Róm.Hvað er hægt að segja.Það er svo mikið að sjá að maður nær ekki nema smá á einni helgi.Svo mikið af fallegum byggingum, styttum og gosbrunnum og mannvirkjum. Og maturinn og vínin - ekkert um það að segja nema GÓÐ GÓÐ OG GÓÐ.

Helgin. Jú takk alveg ljómandi. Alveg til í aðra eins næstu helgi.Við byrjuðum laugardaginn á smá göngutúr sem byrjaði kl 10 um morguninn og endaði eftir miðnætti. Með pásum þó. Smá hádegisstopp kl 12 á Piazza Navone þar sem við drukkum smá vino og virtum fyrir okkur mannlífið og sleiktum sólina. Nokkrum tímum seinna önnur pása þar sem hádegisverður var snæddur.Fylltur ætisþistill í forrétt og Gnocchi með gorgonsola og perum í aðal. Dejlig.

Kvöldið, bara eitt orð til að lýsa því. TROÐIÐ! Ákváðum að borða í hverfi sem heitir Trastevere og höfðum ekki pantað borð. Troðningurinn byrjaði á strætóstöðinni þar sem mannfjöldi mikill safnaðist saman og allir að fara í strætó H. Ég varð nú létt stressuð, hvernig í ósköpunum færi allt þetta fólk að komast inn í einn strætó. Strætóinn kom, var alveg tómur. Áður en ég gat sagt alibaba var strætóinn orðinn fullur,fólk tróðst inn um þær 3 dyr sem voru á honum og ég bara flaut með.Flaut svo aftur út þegar allir fóru út og við tókum þá ákvörðun að við hlytum þá að vera á réttum stað. Mikið rétt.En ekkert borð að fá neinstaðar, allstaðar var fólk en við fengum svo loksins borð kl 22. Ljómandi matur en var nú orðin ansi lúin enda komin með hælsæri og blöðru á eina tánna.Reyndum þetta með strætó aftur heim en þá var enn meira fólk og við búin að bíða í ´30 mín eftir strætó en enginn kom svo við örkuðum af stað og náðum loksins í leigó. Gvuð hvað ég var ánægð að komast upp á hótel og sofa smá.

Sunnudagurinn var nú svipaður. Húsbandið 40 ára og við búin að ákveða að skoða vatíkanið. Well, vegna lélegrar skipulagningar af okkar hálfu var komið svo geðveikt mikið af fólki að við hreinlega guggnuðum. Péturskirkjan opnaði ekki fyrr en kl 13 því páfinn var að predika þar. Sá hann á stórum skjá fyrir framan vatíkanið. Ekki er ég nú góð í ítölsku en ég get svo svarið að hann sagðist biðja að heilsa öllum þeim sem lesa þetta blogg og ég varð nátturulega ánægð með það. Dagurinn fór svo í langa göngutúra og mikið af góðum mat, maturinn það kvöldið er nóg í heilt blogg og ég ætla að segja frá því seinna. Smá sjopping svona í endann enda sá afmælisbarnið garðslöngu forláta sem hann ákvað að gefa sjálfum sér í afmælisgjöf(ekki spyrja).

Þegar heim var komið og við búin að dást að pallinum sem er í byggingu heima var brunað á MCDonalds til að halda almennilega upp á afmælið. Börnin okkar alveg alsæl enda geta ekki hugsað sér meira gormet matsölustað. Skil hvað þau meina!!!!!!!!!

En þar sem við ekki náðum að skoða Péturskirkjuna, Vatikanið eða Colosseum almennilega verðum við víst að fara aftur til Rómar - sem fyrst. Goddem!

25.4.08

When in Rome...

Þá verður maður að fara oft út að borða, og drekka góð vín og slappa af. Kannski að skoða eitthvað menningarlegt og jú svo verður maður að kíkja aðeins í búðir. Smá föt en aðalega delikatessebúðir. Ó je beibí ég er á leiðinni til Rómar - á eftir. Húsbandið verður 40 ára gamall á sunnudaginn. Hólí mólí hvað við erum að eldast. Vonast eftir góðu veðri. Verð lítið fúl ef rignir í Róm. Búin að pakka og alles klar, húsbandið er að bíða eftir þvottavélaviðgerðarmanninum. Fín vika fyrir þvottavélina að bilast.

Annars allir í góðum gír. Baltasar verður hjá Marianne systur JC en honum er búið að hlakka til lengi enda á hún hund. Saga verður hjá Line, stuðningsfjölsk hennar en þar fer hún með þeim í afmæli og mikið um að vera.Það sem er svo fínt með svona stuðningsfjölskyldur fram yfir skammtímavistanir er að Saga er bara ein af fjölskyldunni.Fer með í afmæli, minningarstund í kirkju hefur hún farið í og fullt af Bandy keppnum.Maður er ekki að hafa áhyggjur af henni þegar hún er í svona góðum hóp.

Lag vikunnar er í anda helgarinnar, á ítölsku. Besta júróvisjon lag fyrr og síðar. Mig langar alltaf svo að kunna ítölsku þegar ég heyri það. Þegar ég var 16 og þetta var í keppninni fannst mér han Raf(þessi mjói)sætastur, ef ég þyrfti að velja á milli þeirra í dag myndi ég velja Umberto þann rauðhærða því hinn er aðeins of mjór fyrir min smekk. En þegar ég var 16 ára vissi ég ekkert verra en rauðhærða stráka. Í dag er mér nokk sama hvaða háralit þeir hafa svo lengi sem þeir eru ekki með hárræmur greidda yfir skallan(afturábak og fram semsagt)í von um að fela skallann. Hef séð fullt af rauðhærðum sætum strákum síðan ég var 16 en engann sætann með hárræmuna yfir skallanum. Það er bara ósexý.Hey - takið eftir hvað þeir eru í flottum mittisjökkum.


Arrivederci amici.

21.4.08

Helvítið hann Prince

hann er greinilega með fólk í vinnu við að fjarlægja lögin hans á youtube. Bömmer.
Sendi ykkur í sárabót þennan voða sæta unga sem er að leita að bróður sínum. Litli anginn.

18.4.08

Sól sól skín á mig

Kunningjakonan mín er að skilja. Hún er búin að vera með manninum sínum frá hún var 19 ára og hún er ca. 45 ára(kann ekki við að spyrja!). Þau eiga 3 stráka, einn sem er greindur með athyglisbrest.Það hefur gengið á ýmsu hjá þeim síðustu árin.Maðurinn hennar missti vinnuna og úr frá því misstu þau húsið sitt.Þar sem hann er forstjóratýpan vildi hann alls ekki taka neinni vinnu nema forstjóravinnu og var þar af leiðandi atvinnulaus allt of lengi. Kunningjakona mín vann fyrir heimilinu. Allan þennan tíma hefur hún staðið við hlið manns síns og hugsaði með sér að þetta ætti allt eftir að lagast, tæki bara tíma. Jú alveg rétt, hann fékk vinnu og þau fengu fína íbúð í skólahverfi strákana og hún lét draum sinn rætast og stofnaði eigið fyrirtæki. Hvað gerði minn maður. Jú hélt fram hjá henni með einni hrukkulausri.Eftir allt sem hafði á gengið launaði hann konunni sinni á þennan hátt. Ég verð bara svo reið þegar ég heyri um svona. Ekki það að auðvitað ætti hún að vera fegin að vera laus við kauða en þvílík eigingirni og sjálfselska að ég bara á ekki orð.Hún alveg í klessu greyið og er í startholunum við að skapa sér nýtt líf.Hvað getur maður gert til að gleðja hana? Ég var að spá í að gefa henni myndina "First wifes club". Held að sú mynd gæti peppað hana upp. Ef það virkar ekki ætla ég að gefa henni 24 ára spænskann aupair strák, þið vitið þessa sem ryksuga á skýlunni - eða pungbindi ef maður óskar þess! Of mikið?

Annars allt fínt af okkur. Bara vika í Rómarferð okkar skötuhjúa. Svo er veðrið alveg að taka sig saman og það er hreinlega spáð um 15 stiga hita á sunnudaginn. Ó je. Verð nú samt að viðurkenna að það versta sem ég veit eru fyrstu bikinísdagar sumarsins þar sem maður er alveg neon hvítur og það er nú ekki beint glæsilegur litur fyrir appelsínhúðina. Not næs - nema maður sé Appelsínan í Ávaxtakörfunni en hún segir að appelsínuhúð sé fínasta húð í heimi.Kannski ég bara ákveði að trúa henni.

Lag vikunnar er með einum af mínum uppáhalds tónlistarmönnum ever og alveg án efa af einni uppáhalds plötu frá 8 áratugnum. Þessi litli stubbur sem mælist 157 cm án hæla hefur ekki leyft Youtube að sýna videoin sín og þetta hefur greinilega gleymst svo ég ætla að nota tækifærið meðan það liggur þar. Hann var svo mikið uppáhald að þegar ég var 14 ára dreymdi mig að við byggjum saman á Höfn og hann var að vinna í frystihúsinu(man nú ekki hvort hann var á hælunum þegar hann fór í vinnuna í draumnum). Maður var ekki alveg heill á þessum tíma!


Góða helgi.

11.4.08

Barn að eilífu

Síðastliðið föstudagskvöld komu 10 downs mömmur til mín í kjaftavínogostaát. Þetta voru konur með downs börn frá aldrinum 11 mánaða til 24 ára. Við sátum langt fram eftir nóttu og spjölluðum. Við svona tækifæri fær maður smá nasaþef af því hvað það felur í sér að eiga fatlað fullorðið barn.

Mamma Mari(24 ára) sagði frá því að Mari er flutt að heiman í eigin íbúð í sambýli. Það voru 12 foreldrar fatlaðra unglinga sem tóku sig til og létu byggja hús fyrir börnin sín þar sem þau gætu átt eigin íbúð og líka hefðu aðgang að sameiginlegri aðstöðu. Foreldrarnir keyptu hönnunarhúsgögn í húsið og allt er rosa fínt og núna rekur kommúnan þetta sambýli en íbúarnir eiga sínar íbúðir sjálf. Mari er líka í vinnu. Hún tók ákvörðun sjálf fyrir nokkrum árum að taka sig úr sambandi því hún gerir sér grein fyrir því að hún getur ekki alið upp barn því hún þarf mikla hjálp sjálf í sínu lífi. Já svona er Mari fullorðin. Á 24 ára afmælisdaginn var hennar stærsta ósk að fá sjóræningjarbúining í afmælisgjöf. Já svona er Mari mikið barn líka.

Mamma Poul(20 ára)sagði frá að hann hjólar einn í skólann á hverjum degi þegar ekki er snjór, annars tekur hann strætó einn. Þau eru að byrja að leita eftir íbúð handa honum.Hann á líflegt félagslíf og stendur sig alveg rosa vel. Foreldrar hans og Poul fóru á fjallahótel um páskana. Mamman tók eftir að allir á hennar aldri(50+) voru barnslaus.Hún og hennar maður voru með Poul sem hafði tekið með sér Línu Langsokk mynd til að horfa á yfir helgina.

Það er mjög erfitt að svara þegar fólk spyr hvar Saga er stödd í þroska, er hún eins og 3 ára eða 5 ára eða hvað! Saga er með málþroska á við 2-3 ára barn,uppáhalds myndin hennar er High School Musical og uppáhalds þátturinn í sjónvarpinu Hanna Montana, hún vill helst spila Nintendo eða hlusta á tónlist þegar hún kemur heim úr skólanum. Hún er með mikla fatadellu og vill helst taka með sér bleika glossinn sinn í skólann. Hún elskar að spila Nintendo DS og leika sér í sandkassa. Hún hefur líka gaman af að horfa á Teletubbies ef hún sér það í sjónvarpinu. Faglega séð er hún á við barn í lok 1. bekkjar. Eins og sjá má er hún ekki á einu aldursstigi og á ekki eftir að verða það heldur. Þrátt fyrir að Mari og Poul séu orðin fullorðin eru þau líka börn að eilífu. Það er svolítil skrýtin tilhugsun en maður verður nú bara að hlægja þegar maður heyrir svona sögur. Svona á mitt líf líka eftir að verða og það þýðir að ég ætti kannski að fara að gera "backup" af öllum þeim myndum sem Saga elskar í dag og við getum hugsað okkur að eldast við!

Allavegna þá var þetta alveg frábært kvöld.

Lag vikunnar er aftur í rólegri kantinum. Fjallar um vinkonur og mér fannst það hæfa svona eftir þetta mikla konukvöld.



Góða helgi

8.4.08

Hvaða strumpur ert þú?

Hér gefst þér tækifæri á að finna út hvaða strumpur þú ert. Ég er þessi strumpur.



Strump on everyone!

4.4.08

Helgartuð(eða var það Helgutuð!)

Heyrði lag með Elvis um daginn en það eina sem hljómaði í eyrunum á mér var þessi teksti:

Þrjú tonn af sandi
Andrés fær nóg
mótatimbur
já heilan skóg

já íslendingar hafa löngum verið duglegir að yfirfæra útlensk lög yfir á íslensku. Helt að þetta lag sé botninn. Manni grunar nú að Elvis heitinn hafi bæði tekið flikk flakk og heljarstökk í gröfinni þegar hann heyrðí þetta. En þetta er einmitt svona lag sem maður fær á heilann og ég er að brjálast. En nú út í allt aðra sálma.

Fín vika. Baltasar allt í einu kominn með rosa áhuga á fótbollta, föður sínum til mikillar gleði og nú er hann úti að spila fótbollta hvert kvöld þrátt fyrir að það hafi verið grenjandi rigning flest kvöld þessa vikuna. Hann er nú ekki alveg á jörðinni blessaður og telur sig afburðar fótbolltamann, hann spurði allavegna pabba sinn þegar þeir voru að horfa á leik síðastl. mánudagskvöld hvort leikmenninrnir í Rosenborg væru betri en hann í fótbollta eða hvort hann væri betri en þeir!

Fór út að borða með Kollu Tjörva frá Hornafirði á miðv. og það var rosa kósí. Það kjaftaði á okkur hver tuska - mjög gaman. Takk Kolla fyrir gott kvöld. Alltaf gaman að hitta íslendinga og frábært að hitta Hornfirðinga. Eitt af því sem mér finnst erfitt við að búa í útlöndum er að hér er enginn sem þekkti mann áður fyrr. Eða ólst upp í sama landi og man eftir hinu og þessu. Á þennan skemmtilega safndisk með ísl. lögum frá 7. og smá8. áratugnum sem mér finnst gaman að hlusta á í bílnum í langferðum og þar er lagið "Stál og hnífur". Ég var að segja manninum mínum frá að þetta lag sungum við alltaf á filleríum hér í den. "Afhverju" spurði hann. "Nú þetta er svoleiðis lag, sem er gott að syngja þegar maður er búin að drekka nokkra bjóra" sagði ég. "Afhverju" sagði hann. "GRRRR!" sagði ég. Nei þetta er ekki alltaf auðvelt. Fyrir íslending gefur það auga leið að Stál og hnífur og Minning um mann eru ekta lög til að syngja í glasi en fyrir norðmann er það ekki jafn augljóst.

Í kvöld koma fullt af konum til mín í smá osta og kjafta-samsæti(eiginmaðurinn er í strákaferð í Barcelona, greyið!). Þetta eru allt konur sem eiga börn með Down syndrome og í því tilefni ákvað ég að lag vikunnar væri alveg nýtt. Er á vinsældarlistum hér í landi(já ég hlusta líka á nýja tónlist). Ástæðan fyrir þessari skrýtnu ákvörðun er að okkar börn eru ekki að velta sér upp úr fortíðinni eða kvíða fyrir framtíðinni, þau lifa hér og nú og eru alveg brilljant í því. Gott að minna sig á öðru hverju að lifa fyrir líðandi stund.Gleymist stundum.




Jæja kveð að sinni og vill bara minna á að sumarfríið er eftir 82 daga.

1.4.08

Sumartími hafinn

þetta er fyrir ykkur sem hafa lítið að gera í vinnunni og langar að vita hvernig hægt er að eyða tímanum á nýtilegann hátt.Ég meina hvað er skemmtilegra en að föndra með hádegismatinn sinn!