23.4.09

Je Voyage à Paris aujourd'hui.

Síðustu getraun vann hún Álfheiður frænka mín á Egilstöðum. Flytjandi var að vísu hann Bjöggi okkar allra. Verðlaun vikunar eru þau sömu og í síðustu viku, val að eigin vali í næsta föstudagsblogg. Bara kommentera hér hvaða lag þú vilt.

Annars er ég bara á leiðinni til Parísar, á eftir og þessvegna valdi ég að blogga í dag. Veðurspáin fyrir helgina er nú svona og svona en þar sem engin veðurfrétt á netinu er með sömu spána ætla ég að vera við öllu viðbúin(nema snjó).Hlakka svo til.. ligga ligga lá.

Ferðin til Kristiandsand með Dissimilis var með eindæmum ánægjuleg og forvitnileg í alla staði. Hitti fullt af áhugaverðu fólki sem hefur gert mikið og gott fyrir fatlaða. Komst að því að þrátt fyrir að vera samtök sem vinna fyrir lífsgæðum fatlaðra er mikil valdabarátta í gangi og það gekk ýmislegt á þessa helgina. Komst að ýmsum leyndarmálum sem viðkoma fólkinu sem situr í stjórn þessara samtaka sem við foreldrar sjaldan heyrum um. Svo hitti ég alveg ægilega skemmtilega konu sem kunni smá íslensku. Þrátt fyrir að vera þroskahömluð kann hún fleiri tungumál, gat talað fullt spænsku, smá rússnesku og pólsku, ensku að sjálfsögðu og svo gat hún sagt smá á íslensku.Hún er í hljómsveit sem skemmti á laugardagskvöldinu og þvílíkt stuð á liðinu. Þau voru svona þrælgóð að allur salurinn var á iði. Mikið væri nú gaman ef fólk gæti farið að horfa á þennan samfélagshóp með opnari augum og sjá hvað munurinn á okkur er lítill. Þetta voru ósviknir skemmtikraftar og fólk fékk ekkert minna út úr að skemmta sér með þessari hljómsveit eins og að skemmta sér með hljómsveit með ófötluðum. Á heimleiðinni var svo haldin fundur og núna er búið að panta miða fyrir Dissimils hóp 25 september og förum aftur heim 30 september svo að nú verða allir að taka frá Mánudagskvöldið 28 sept og koma á sýningu í Borgarleikhúsinu og sjá þau. Ég vona að sem flestir komi.

Var að horfa á æðislega þætti frá BBC sem voru nú sýndir hér í fyrra en ég missti af þeim þar og keypti þá á diski. Jane Eyre eftir Charlotte Brontë, mikið fannst mér gaman að sjá þessa þætti. Elska enskar myndir sem gerast á þessum tíma, ætla að lesa bókina líka. Hef ekki lagt í hana því ég hélt að hún væri jafn niðurdrepandi og "Fýkur yfir hægðir" sem ein af hinum Brontë systrunum skrifaði en hún er það ekki. Þetta var rómantík eins og hún gerist best á svo ægilega fallegri gamaldags ensku með alveg ægilega fallegum karlmanni í aðalhlutverkinu. Bara ljúft.

Þetta var svona bland í poka eins og venjulega. Ekki búin að heyra neitt hvaða lag Ellen vill svo að ég verð að velja lag sjálf. Byrja á eitís poppi sem ætti að koma öllum í stuð. Fannst þetta svo ægilega skemmtilegt þegar ég var með bólur og spangir. Takið eftir axlapúðunum.



Bon week-end les amis!

p.s ekki getraun þessa vikuna vegna anna!

17.4.09

Hugsar hver um sig, þú sagðir bless við mig.

Síðustu getraun vann hún Ellen hálffrænka mín í Svíþjóð en hún er svo heppin að vera 2 timum á undan þeim sem eru á Íslandi (en svona ykkur til fróðleiks á hún líka stelpu sem heitir Saga)!! Að sjálfsögðu fær hún vegleg verðlaun en þau eru að velja fyrsta stuðlag ársins sem verður lag vikunnar í næstu viku!! Hversu heppin er hægt að vera ?

Annars bara allt í ljómarjóma hér í landinu sem snjórinn er loksins að kveðja. Páskarnir voru haldnir í Svíþjóð og þar var þetta fína veður og maður hreinlega þyngdist um 15 kíló á 3 dögum - eða svoleiðis. Krakkarnir úti að leika sér og við örkuðum milli fjalls og fjöru daglega. Fórum í smá shopping til Karlstad og keyptum vín og mat og húsbandið keypti sér Miami Vice jakka í H&M og boli í stíl og var með þriggja daga brodda. what a stud! Ég hinsvegar keypti mér ekkert þar sem ég hafði verslað mér smá vikuna á undan. Rautt veski takk fyrir. Vissi ekki að ég hefði þetta í mér, ég sem bara á svört föt og svört og brún veski! Hárautt takk fyrir. Maður er farin að verða glannalegur svona á efri árum.

Komum heim frá Svíþjóð með eitt stykki hljómborð í farangrinum. Svo ódýrt að versla á netinu og láta senda þangað og sleppa að borga tolla og skatta og álíka sem maður gerir hér. Á sunnudagskvöldið sátum við Baltasar fyrir framan eldgömul nótnabækurnar mínar og ég kenndi honum fyrstu tvær nóturnar og svei mér þá, á augabragði breyttist ég í alla "leiðinlegu" píanókennarana sem ég hafði sem barn og alltaf voru að tönglast á fingrasetningu. Þarna sat ég og skipaði Baltasar að nota rétta fingur(miklu betra að læra það strax sagði ég) og ekki láta fingurnar hanga svona og réttu úr bakinu , upp með olnbogana og jadajadajada. Ég var eins og bergmál úr fortíðinni og það er nú alveg á tæru að þetta tuð í þessum "leiðinlegu" kennurum hefur síast inn með tíð og tíma fyrst ég kann þetta svona vel þrátt fyrir að ekki hafa spilað nótu síðan ég var 14 ára. En núna ég ætla að fjárfesta í nokkrum nótnaheftum og fara að rifja upp smá sjálf. Fínir kennarar annars(svona fyrir utan þetta tuð)! Gulla að sjálfsögðu,Egill hét einn,búin að gleyma einni en man aðra en það var hún skyggna Erla sem sér álfa. Man hvað hún var með stórar hendur og vá hvað ég er fegin að ég ekki vissi að hún væri skyggn á þeim tíma. Þegar ég var að vinna í ísbúðinni við Hagaskóla mörgum árum seinna kom hún oft þangað og þarna vissi ég semsagt að hún væri skyggn og ég fór alltaf alveg í pat þegar hún kom inn því ég var svo hrædd um að hún sæi fullt af dánu fólki og álfa og huldufólk hjá mér. Gat aldrei horft í augun á henni. Stress dauðans!

Lag vikunnar,síðasta mjög rólega lagið á þessu misseri. Frá einum uppáhalds diski og er eitt af mínum uppáhalds lögum ever.Tær snilld.



Gleðilega helgi.

Getraun:
Hver veit úr hvaða lagi þessi titill er og hver er flytjandinn. Til að gera það auðvelt má hafa í huga að ég hef ekki búið á íslandi síðan 1992 svo að líkurnar á að ég velji teksta úr nýju lagi eru ansi litlar.

14.4.09

Ertu tilbúin fyrir grillvertíðina?

Það fer að styttast í grillvertíðina hér í landi en svei mér þá ef var ekki sól og 15stiga hiti í svíþjóðinni um helgina og þá fór ég að hlakka til að borða sumarmat með grilli og alles.Og hvernig er hægt annað en að grilla fyrirtaksmáltíð þegar þú hefur öll þessi tæki og tól til að hjálpa þér?

Þetta snilldaráhald gerir kjötið mört og safaríkt.


Nú sleppirðu við að grilla hamborgara af mismunandi stærðum, hvað er betra en að vera nákvæmur!


Hver nennir að hella úr flösku þegar þetta er líka hægt. Ekki ég allavegna!



Gleraugu fyrir laukaskerarann á heimilinu.



Ef þú nennir ekki að naga maísstöngulinn og átt ekki maís í dós geturðu bara búið til þinn eigin maís í dós með þessu frábæra tæki.



Eiginmaðurinn og trúlega aðal grillarinn á heimilin ætti nú að fá að hafa svona wiskey skammtara við grillið. Allt verður svo miklu skemmtilegra fyrir vikið - fyrir hann allavegna!

3.4.09

Það er víst best geymt sem tengt er sorg eða trega!

Var að lesa blogg um daginn og þar var bloggarinn að lýsa stefnumóti sem hún hafði verið á og hafði verið með eindæmum mislukkað. Ég hló mig máttlausa bæði því það var drepfyndið og því að það minnti mig á deit ég fór á á mínum yngri árum en ég hef farið á ansi sérstök deit þegar ég var ung og einhleyp sem er frekar skrýtið því ég fór aldrei á svo mörg - þau voru bara þess undarlegri.

Umrætt stefnumót var mjög svo eftirminnilegt en þarna er ég 19 ára og hafði verið boðið út að borða af ungum manni sem ég hafði hitt helgina áður. Ungi maðurinn hafði pantað borð handa okkur á Ítalíu og mér finnst mikilvægt að taka fram að þessi ungi maður bjó heima hjá mömmu sinni og var búin að vera að vinna í nokkur ár og átti ekki bíl. Allavegna þá komum við á Ítalíu og fengum matseðil og áður en ég náði að lesa hvað væri á boðstólnum stakk hann upp á að við pöntuðum eina pizzu saman því hann var ekkert sérlega svangur! Álfurinn sem ég var sagði já því ég kunni ekki við að vera ókurteis og segja sannleikann að mig langaði kannski í eitthvað annað og hefði nú alveg getað borðað eina pizzu ein því þær eru ekki svo matmiklar á ítalíu og ég var svöng.

Svo var farið að spjalla, eða það er að segja hann fór að spjalla og þeir sem þekkja mig vita að ég á í engum erfiðleikum með að halda uppi samræðum en þarna var ég kjöftuð í kaf. Og hvað talaði svo Rómeó um. Jú hann talaði um alla staðina hann fékk afslátt á og alla staðina mamma hans fékk afslátt og svo talaði hann um myndalega ríka vin sinn sem eyddi alveg formúgu í þær stúlkur sem hann deitaði.Og svo kórónaði hann allt saman með að enda á því að segja mér frá syni sínum sem hafði fæðst 4 dögum á undan en hann var ekki enn búin að druslast upp á spítala og sjá frumburðinn því það var svo mikið að gera í vinnunni - hann var barþjónn!!! Sjarmör aldarinnar semsagt og skildi maður halda að ég hefði bara droppað kauða á staðnum. Nei ég ákvað að gefa honum annan sjens því vinkonur mínar voru alltaf að tönglast á því hvað ég gerði alltaf miklar kröfur til ungra manna og kannski ætti ég að vera duglegri að gefa strákum sjensa og ég ákvað að gera eins og þær sögðu.

Næsta deit var vikuna eftir og hann kom og náði í mig heim. Hann var með tannbursta með sér og vildi vita hvort hann gæti ekki haft tannburstann hjá mér og einhver föt því það var miklu styttra fyrir hann að fara í vinnuna frá mér þar sem ég bjó í miðbænum og hann var jú að vinna þar. Hann myndi spara hellings pening á að ekki þurfa að borga leigubíla á kvöldin til að komast heim til sín eftir vinnu. Þarna varð mér allri lokið og varð bara að viðurkenna fyrir sjálfri mér að þetta væri alveg dauðadæmt.Ykkur grunar kannski hvernig þetta ástarævintýri fór. Jú mín droppaði kauða og til að fara nú alveg með það fór ég að deita "ríka" vininn - í laumi!! Það var líka stutt gaman því hann var að sjálfsögðu frekar sér á parti sem útskýrði hversvegna hann fór á svona mörg deit en var alltaf jafn einhleypur:-D

Gaman að rifja þetta upp því þetta var bara geðveikt fyndið og maður var nú alveg mátulega kærulaus á þessum árum og tók þessu ekki þungt. Einu sinni fór ég líka á dobbel-deit með læknanema og pabba hans!! Pabbinn var að deita eina jafn gamla mér frá Rússlandi. Á næsta deiti kynntist ég svo mömmu hans og eftir það lét ég mig hverfa.Frekar spes gæi.

Já það var nú gaman að vera ungur og vitlaus en er guðs lifandi fegin að vera orðin gömul og gift og þurfa ekki að vera að þessari stefnumótavitleysu lengur.

Svona í lokin var fyrsta deitið með húsbandinu þannig að hann gleymdi að segja mér að við værum að fara í veislu þar sem allir væru í sparifötum. Mín mætti í slitnum leðurjakka, stuttum bol og mjaðmabuxum, hann var í svörtum jakkafötum!!!En hann var allavegna ekki nískur eða hafði pabba sinn með sér og þessvegna erum við enn saman í dag;-)

Er dottin í rólegu deildina aftur, ekki margar vikur eftir í stuðið. Var búin að lofa stuði með vorinu og stend við það, vorið lætur bara bíða svolítið eftir sér í ár. Þetta lag elskaði ég þegar ég var í menntaskóla.Hef aldrei séð þetta video áður. Sérstök hárgreiðsla á söngvaranum.



ATH!! Getraun vikunnar: Úr hvaða lagi er fyrirsögnin á blogginu - Til að vinna verður þú að vera með bæði lag og flytjanda. Allir vera með, glæsileg verðlaun.


Góða helgi og gleðilegan Pálmasunnudag.