30.10.07

Skipulag!

Búin að skipuleggja mikið síðustu vikunar. Sem kona, eiginkona og móðir er ekkert eins mikilvægt. Ég er aðalskipuleggjarinn á þessu heimili, maðurinn minn kemst ekki með tærnar þar sem ég hef hælana þegar kemur að skipulagningarhæfileikum.

Fyrst þurfti að skipuleggja 2 afmælisveislur. Þá fyrri á McDonalds og ég sem var búin að lofa því að aldrei halda upp á barnaafmæli á þeim staðnum. Stundum grípa örlöginn inn og breyta öllu (eða dóttir manns). Svo þurfti ég að skipuleggja hina sem var fyrir fjölsk og vini, venjuleg veisla með hornum sem maðurinn minn bakar svo snilldarlega (en ég skipulagði vandlega að sjálfsögðu). Herbergið hennar Sögu var gert fínt fyrir þann daginn og það þurfti nátturulega að skipuleggja og kaupa nýtt rúm og lampa og setja upp fínu ljósaseríurnar frá ömmu(mömmu minni semsagt).

Og svo var það langtímaverkefni og aðal skipulagið sem var eldhúsið. Þegar við fluttum henti ég öllu inn í skápa af handahófi og ég var hreinlega að ganga af göflunum á endanum. Algjört kaos í skúffunum, hnetur, kökukefli,pennar, skæri og hleðsl utæki í einni. Viskustykki og skólaverkefni í annari og ég gæti haldiðendalaust áfram en ætla ekki að gera það. EITTHHVAÐ VARÐ AÐ GERA! Svo síðustu helgi byrjaði ég á þessu skipulagi. Komst að því að fyrrverandi íbúar hér hafa verið með eindæmum lítið skipulögð og ekkert spáð í hversu margar hillur eru í skápunum. Þær eru einfaldlega of fáar svo ég er með tómarúm efst í hverjum skáp. Illa farið með gott pláss segi ég nú bara.

Svo þarf maður nátturulega að fara að skipuleggja garðframkvæmdir(það verður samt fyrst í vor), og svo fataskápana en þeir eru í vondum málum og svo jólin. Ég held hreinlega að þetta heimili myndi bara líða undir lok ef ég væri ekki svona skipulögð.

Hef ekki tíma í meiri skrif núna því ég þarf að fara að skipuleggja!

p.s einhver heyrt um andlits og hrukkukremið Allatoin(hægt að kaupa það á TV shop) sem er framleitt frá slími frá sniglum. Einhver húsmóðirin hefur örugglega þurft að skipuleggja ALLT sem hefur komið nálægt hennar heimili. Aumingja sniglarnir!

24.10.07

Vikulok

Þá er enn ein vikan liðin og helgin blasir við. Síðasta vika hefur einkennst af afmælum. Saga hélt upp á afmælið sitt síðasl. föstudag á McDonalds. Ég sem hafði lofað mér að aldrei halda upp á afmæli þar en stundum grípa örlöginn inn(eða dóttir manns)og breyta öllu. Henni fannst þetta æði!!!! Laugardag var svo fjölskyldan samankomin í áframhaldandi afmæli. Sunnudag var Sögu svo boðið í enn eitt afmælið en á leiðinni þangað lenti bíllinn sem keyrði henni þangað í árekstri. Hún slasaðist ekkert eða hlaut neina áverka sem betur fer, en mitt litla hjarta hlaut áverka.Maður verður nú smá stressaður þegar svona gerist.

Fyrir utan afmælisstand hafa veikindi verið að hrjá okkur hjónin. Hálsbólga með hósti, harki og ræskingjum hafa tekið yfirhöndinni. Haustið er svo greinilega komið bæði úti og inni.

Saga var að dansa á miðvikudkvöld með Dissimilis fyrir hásetta stjórnmálamenn. Securitas gæsla og læti. Hún fer að þurfa á lífverði að halda!

Baltasar lifir nú ekki jafn spennandi lífi og systir hans að þessu leiti en hann er svo ánægður yfir að hafa loksins flutt á stað þar sem eru krakkar að leika við að við sjáum hann eiginlega aldrei. Hann er alltaf úti. Búin að eignast nýjan besta vin sem býr í húsinu við hliðina. Pókamonir og fótbolltakort tröllríða öllu þessa dagana og ég skil ekki afhverju skólarnir geta ekki bannað þetta. Strákar í dag leika sér ekki lengur í frímínútum, þeir sitja á rassinum og bítta kortum og fígúrum. Engin furða krakkar í dag séu feitari en fyrr. Sem betur fer er Baltasar mest fyrir að hlaupa og ærslast í frímó svo hann er nú alltaf á fullu en hefur samt mikin áhuga á þessu drasli. Búin að týna pókamon möppunni sinni með öllum kortunum og öllum körlunum! Fær ekki nýja fyrr en hann lærir að passa upp á hlutina sína (búin að týna jakka, fleiri peysum og fullt af dóti síðan í lok ág). Kannski er ég svona vond mamma en mér finnst að ef hann getur ekki passað upp á hlutina sína verði hann að sýna að hann geti það áður en við förum að eyða aftur fortjún í að kaupa allt nýtt. Búin að gera það einu sinni því ég þvoði um 100 kort rétt fyrir skólabyrjun og það varð að sjálfsögðu að bæta drengnum það!


Lag vikunar er stuðlag, alveg rosa fínt að hlusta á þegar maður er að þrífa, það verður svo léttara fyrir vikið. Maður verður nefninlega alltaf að dansa smá. En því miður enginn Hlíðartúnsfílingur hér - ekki alveg eitís!Góða helgi og góða skemmtun.

19.10.07

It`s Friday again and again!

Þá er komið að því sem allir hafa beðið eftir - Lagi vikunnar.
Lag vikunar er gamalt en ég er búin að komast að því að mér finnast gömul lög skemmtilegri því ég kann textana og mér finnst fátt skemmtilegra en að geta sungið með. Helst með hárbursta fyrir framan spegilinn - fer oft í Idol leik!(nei grín)En þessvegna er lítið um nýmeti hjá mér. Svo eru þessu gömlu video líka alveg skemmtilega lummó og koma manni þessvegna alltaf í gott skap.p.s eins gott að gæinn hafi ekki verið andfúll.

Over and out og góða helgi.

17.10.07

Þá er bara að snýta sér og snúa sér að brauðbakstri!

Ja hér hef aldrei fengið svona mörg komment áður.Takk fyrir það. Gaman að vita að svona margir hafi komi við og grátið:-) Bætir fyrir að geta ekki haldið afmæli með fjölsk og vinum. Sumt venst illa í útlöndum, viss um að ameríkufararnir séu sammála því. Fannst ég þurfa að gera þetta video því ég er nýbúin að læra að gera svona. Allavegna var Saga voða ánægð með þetta en henni finnst svo gaman að skoða myndir af sjálfri sér.

jæja nú er loksins komið að því að ég leggi út nýja uppskrift. Bakaði þetta ljómandi góða brauð um daginn. Nei ekki hætta að lesa - hei komdu aftur. Bíddu og lestu meira. Þetta brauð þarf ekki að hnoða neitt það eina sem krefst er að skipuleggja vel og svo verður maður að eiga pott sem má fara í ofn. Ég notaði steypujárnspott en hægt að nota eldfast mót með loki.

Ég eyddi í allt ca 15 mín. í vinnu. Restin af tímanum fer í að bíða eftir að deigið hefist(um 20 tímar). Þessi uppskrift er búin að fara út um allann bloggheim eins og eldur í sinu og þessvegna ætla ég bara að setja út video og link og svo mynd af mínu brauði(þarna fyrir ofan). Geri ráð fyrir að allir kunni ensku.

Maður notar:
3 bolla hveiti + aðeins meira til að strá yfir deigið
1/4 tsk ger
1 1/4 tsk salt
1 1/2 bollar vatn
(bolli er um 2 1/2 dl svona ca)

Restina sjáið þið á videoinu og linkinum hér fyrir neðanLinkur á blogg.


Hefði aldrei trúað því að þetta væri hægt ef ég hefði ekki prófað þetta sjálf. Alveg eins og brauð maður fær á ítölskum veitingarstað. Holótt og mjúkt að innan og stökkt að utan. Endilega prófa.

Sjáumst á morgun

14.10.07

Svo var það fyrir átta árum

að Saga mín fæddist. Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Finnst eins og hún hafi fæðst í gær. Man daginn allavegna jafn vel. Var heima hjá Ásdísi ásamt fleiri stelpum og hafði fengið að vita í hádeginu að ég væri 4 cm opinn en ætti ekkert að vera að stressa mig því þetta gæti tekið marga daga. Allavegna þá sendi Ásdís mig heim því ég var búin að vera með einhverja smá krampa allann daginn og þegar ég fór heim voru bara 15 mín á milli og hún var alveg viss um að ég væri að fara að eiga. Þegar heim var komin fór ég að pissa og fannst eitthvað skrýtið hvað ég var lengi að þessu en áttaði mig svo á að þetta hlyti að vera vatnið að fara. Reif mig á fætur og hringdi í sjokki í Steinu sem kom til mín og hringdi á sjúkrabíl. Ég hringdi svo í JC og sagðist vera á leiðinni upp á spítala. Þegar ég var komin upp á fæðingastofu bólaði ekkert á JC og hann kom ekki fyrr en eftir dúk og disk. Minn maður hafði tekið strætó-lest-strætó upp á spítala!! Hann hélt að þetta ætti eftir að taka marga daga. Ekkert spáð meira í það!

Saga kom í heiminn 2 1/2 tímum eftir að ég fór frá Ásdísi.Fyrsta sem ég spurði þegar hún var komin i heiminn var hvort hún væri með Downs heilkenni. Ljósmóðirinn var nú ekkert á því en tjekkaði samt eftir þessum venjulegu einkennum sem svo vantaði á Sögu. Ég var samt alveg viss. Var ekkert smá erfitt að hringja í foreldra okkar og segja þeim þessar fréttir.

Dagurinn eftir var ömurlegasti dagur ævi minnar. Byrjaði á að hringja í Ásdísi og hún varð nátturulega smá sjokkuð og allt það en spurði mig svo hvort Saga væri samt ekki alveg yndisleg. Ég hélt ég yrði ekki eldri.Hvernig er hægt að vera yndisleg og með Downs heilkenni. Svo hringdi ég í Steinu og hún sagði það sama. Skildi ekkert í þeim, var þetta eitthvað samsæri eða hvað. Komst seinna að því að báðar eiga vinkonur með downs börn svo að þetta var ekkert svo hræðilegt eins og mörgum fannst. Allavegna þá var ég í ömurlegu formi, búin að missa næstum líter af blóð og öll í tætlum eftir fæðinguna. Hélt að lífið gæti ekki orðið verra en svo hitti ég barnalækninn og komst á aðra skoðun. Hún byrjaði á að fræða mig á því að flestir foreldrar barna med Ds myndu skilja, við ættum að eignast 2 börn í viðbót ef við ætluðum að eiga fleiri því þá hefðu þau hvort annað. Við kæmum nefninlega til að vanrækja þau svo út af Sögu. Hún endaði á að segja mér að ég ætti nú aldrei eftir að vera í neinni almennilegri vinnu því það væri svo erfitt þegar maður ætti svona barn. HEIMUR MINN HRUNDI! Allir framtíða draumar hurfu á nokkrum mínutum. Var ekki alveg eins gott bara að ganga í sjóinn med det samme!


Sem betur fer gekk ég nú ekki í sjóinn og núna 8 árum seinna horfi ég á dóttur mína sem er alveg rosalega dugleg. Hún búin að afsanna allt sem búið var að spá hún kæmi aldrei til að læra og geta. Hún er að læra að lesa, farin að reikna, kann að skrifa, kann að skíða, skauta og hjóla og er svo klár. En hún er ekkert sérstaklega músíkölsk, eiginlega alveg hræðilega laglaus - eins og var oft búið að segja mér að svona börn væru svo rosalega músíkölsk. Svindl!

Mikið er ég fegin að hafa fengið að upplifa þessa Sögu, hefði ekki viljað neina aðra.

Til hamingju með daginn prinsessa.Hipp hipp húrra.Sem mamma hef ég þann rétt að vera væmin á svona dögum og þetta video er alveg pottþétt í þeim geiranum.

10.10.07

Alt er nú til!

Verð að segja mig sammála því, skil ekki hver hefur nennt að búa til þessa inniskó eða hversvegna en eins og ég hef svo oft áður sagt þá hefur sumt fólk bara ekki nóg að gera!

Enn ein helgin að dúndra af stað. Ég er að fara í "hytte" ferð upp í fjöll með vinkonu minni sem er að halda upp á 40 ára afmælið sitt. Hún ákvað að bjóða með sér 7 góðum vinkonum í afslappaða helgi í norskum fjallheimi. Ekki amarlegt það.

Svona í tilefni þessa ferðalags valdi ég þetta gamla og góða stelpulag. Maður hættir ekki að vera stelpa þrátt fyrir að vera farin að nálgast fertugt.Njótið vel og góða helgi.

p.s. kíkja við á sunnudagskvöldið - Saga á afmæli þá.

8.10.07

5.10.07

Föstudagsallatafþaðsamadageftirdag!

Amm, þá er ein vikan enn liðin og ekkert markvert gerst nema kannski að það er búið að vera mikið fjaðrafok í kring um norsku prinsipissuna hana Mörthu því hún heldur því fram að konur og karlar í Noregi fái sömu laun fyrir sömu vinnu! Hún er eitthvað veruleikafirrt greyið. Og svo er búið að taka börnin af Britney. Var í öllum netblöðum hér og þótti greinilega mikilvæg frétt. Annars allt við það sama, stríð, flóð, óeirðir,hungursneið, morð,nauðganir og annað sem maður er því miður orðin löngu vanur.

Annars gekk nú alveg fram af mér í byrjun viku, þá var sú frétt í norsku blöðunum að einhver vinstri sinnaður flokkur vilja gefa djúpt sokknum heróínistum ókeypis heróín til að létta þeim lífið. Hvaða ansk.. rugl er þetta, afhverju ekki bara gefa liðinu ókeypis sprautu með overdoses med det samme! Sparar ríkinu fullt af peningum með að láta liðið bara drepa sig strax. Ekki var talað neitt um að stofna frekar fleiri meðferðarpláss eða neitt svoleiðis. Nobb, bara ókeypis dóp handa dópistunum. Á eftir þessu mundi svo fylgja ókeypis brennivín handa ölkunum og hvað veit maður. Skil ekki svona. Jæja nóg um það, fannst þetta bara svo fáranlegt.


Lag vikunar - ta ta tam. Uppáhalds kántrílagið mitt( þekki bara 3 önnur- ekki alveg í kántríinu)Ekki neitt rosa stuðlag en samt hægt að syngja með í viðlaginu. Og svo var nú Dollý alltaf svo krúttleg með þessa geðveiku heysátu á hausnum, mega búbís og talar eins og Ripp Rapp og Rupp. Hún er eiginlega eins og teiknimyndafígúra.Góða heilsu og helgi.