16.12.11

Gleðileg jól!

Þá er bara rúm vika í jól og allar kökur komnar í dalla. Vill láta vita af því að það er sko ekkert það sama að nota smjör eða smjörlíki í smákökur. Alveg allt önnur Ella og mæli ekki með að skifta smjörinu út með líkinu. Fór í algjöran bömmer yfir súkkulaðibitakökunum en ákvað að dríta í það eins og maður segir á góðri norsku og sleppa að baka nýjar kökur. Ét þetta og held kjafti og man það bara næst.

En þú getur spurt þig hvað varð um allt smjörið sem Jóla var búin að kaupa. Var náttúrulega búin að gleyma að það er smjörkrem á hunangskökunni góðu. Keypti semsagt of lítið smjör!

Var að lesa um barn sem fékk iPod í skóinn og allt varð vitlaust í skóla barnsins. Æi ég veit eiginlega ekki hvað þessum skóla kemur við hvað nemendurnir fá í skóinn en finnst svona persónulega að iPod sé kannski smá mikið fyrir barn í 3. bekk. Ég meina, hvað fær krakkin eiginlega í jólagjöf? Gullstöng?

Finnst slæmt að heyra um börnin í 5. bekk í barnaskólanum í Drammen hér í Noregi sem ekki fengu að koma með jólasveinahúfu á jólaslúttið í skólanum. Jólaslúttinu var breytt í vetrarslútt til þess að hlífa þeim örfáu börnum í bekknum sem ekki halda jól, og þá var ekki verið að meina múslimabörnunum sem ekki halda jól heldur norsku börnunum sem eru í einhverjum sértrúarsöfnuðum og ekki halda jól. Halló, hvað er eiginlega í gangi. Við búum landi sem heldur jól. Á líka að hætta að tala um afmælisveislur í þessum skóla því þessi sértrúarsöfnuður trúir ekki á afmæli heldur. Nei svona gerir mig pirraða. GRRRRR!

Annars sér maður mikin mun á börnum og gleði. Jóli var svo góður að gefa börnunum mínum tannkrem og tannbursta í skóinn í fyrradag. Sonurinn slengdi þessu inn á bað án þess að brosa hið minnsta meðan dóttirin gekk um með tannburstann sinn allan morguninn og þegar hún kom heim úr skólanum, alsæl með þennan fína bursta. En Jóli varð bara að vera viss um að börnin ættu góðan bursta núna þegar helgin er gengin í garð og skórinn á eftir að fyllast af sælgæti.

Jæja ég læt þetta gott heita. Óska ykkur Gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Kannski við sjáumst við þá.


9.12.11

Jóla fær smjör.

Haldið þið ekki að Jóla sé komin með smjör í hús svo að á morgun hefst jólabaksturinn af fullum krafti. Maður gæti nú haldið að Jóla ætlaði að baka margar sortir en nei eiginlega ekki. En þær sem verða bakaðar eru fastir liðir og engin jól án þeirra. Ætla að baka Hákonarkökurnar sem er að finna hérna og svo þessar venjulegu. Þið vitið, súkkulaðibitakökurnar. Svo ætla Jóla að baka danska hungangsköku - Christiansfeld honningkage sem er ægilega góð.Hún lítur svona út:Kannski verður bakað meira. Fer eftir jólaskapinu. Og veðri. Húsbandið keypti piparkökudeig þrátt fyrir að ég var búin að segja í fyrra að svoleiðis bakstri nennti ég ekki lengur. Voða lítið gaman að baka með krökkunum. Þeim finnst það gaman í svona 5 piparkökur og svo vilja þau helst fara að gera eitthvað annað. Hef ekkert gaman af að hygge mig með fúlum krökkum sem finnst leiðinlegt að baka piparkökur. Vill frekar gera eitthvað með þeim sem þeim finnst skemmtilegt. Eins og að borða piparkökur!! Svo að nú ætlar semsagt húsbandið að baka piparkökur, og þau fá að borða þær og ég horfi á alsæl. Góður díll.

Annars jólatónleikar með Dissimilis þessa helgina. Við eigum að taka með okkur jésúbarnið, sem í ár eins og í fyrra er ber baby born dúkka í koddaveri! Það átti líka að vera nemendasýning í dansinum hjá Baltasar en hann vildi frekar fara í hytteferð á skíði með vini sínum og við ákváðum að leifa honum að ráða því. Búin að bíða svo lengi eftir snjónum og ætlar ekki að halda áfram í dansi eftir jól, vill gera tíma fyrir skíðaiðkun.

Og haldið þið ekki að Jóla hafi búið til jólakort í gær. Gerði heil 5 jólakort sem eru bara svona ægilega fín. Hendi kannski inn myndum af þeim næst. Vissi ekki að það fyndist svona margt sniðugt föndurdót og föndurvélar. Það er sko ekki málið að gera eitthvað fínt þegar maður á vinkonu sem á svona mikið af fínu föndur hinu og þessu.

Held áfram þessu jólastússi með þessu jólalagi sem mér finnst skemmtilegt.Jól on.

p.s ef það vefst fyrir einhverjum hver þessi Jóla eiginlega er þá er það ég;-D

2.12.11

Jólagóðan jóladaginn!

Nú er maður farin að jólast af krafti. Er nánast búin með jólagjafirnar(að vísu eru það nokkrir mánuðir síðan). Svo erum við að fara á jólasundmót með Sögu á morgun. Svo verður farið út að jólaborða með húsbandinu í tilefni jólaafmælisdagsins míns á sunnudaginn.

Eins og þú væntanlega hefur tekið eftir er ég hrokkin í jólagírinn og nota jólaorðið eins oft og ég get. Mér finnst það lyfta jólastemningunni um heilan jólahelming. Mér finnst fólk nota jólaorðið of sjaldan, og finnst að maður ætti að taka upp þennan jólasið um páskana líka. En að sjálfsögðu nota páskaorðið í staðin fyrir jóla.

Það er að vísu frekar alvarlegt jólavandamál sem ég og fleiri eiga við að glíma hér í jólaNoregi og það er að það er alvarlegur skortur á jólasmjöri. Allar jólahillur galtómar. Ég læt tengdó kaupa jólasmjör fyrir mig í jólaSvíþjóð og senda með mágkonu minni svo að fjölskyldan fái jólasmákökur. Algjört hneyksli. Og afhverju vantar jólasmjör?? Jú afþví að hellingur að hálfvitum í lavkarbo jólamegrun eru búin að hamstra (og svo minni framleiðslu en það er leiðinlegra að segja frá því!). Núna er hægt að kaupa jólasmjör á Finn.no fyrir 600 krónur jólakílóið. Algjört jólarugl semsagt.

Jæja er þetta ekki orðið jólagott í bili. Kannski að jólalesendur mínir verði smá jólaringlaðir af allri þessari jólastemningu hjá mér núna.

Smá jólajólalag handa ykkur öllum.

>

Jólagóða helgi.