25.9.09

Nú er ég farin

og búin að vera.

Fékk að vita að það væri búið að breyta staðnum og tímanum sem Dissimils átti að hittast á áður en við legðum í ferðalagið. Eitthvað hafði það farið fram hjá mér og ég varð að láta leigubíl ná í Sögu til að hitta mig á öðrum stað. Þegar ég kom þangað sá ég að hún hafði tekið Ídu með sér en hún er ekki með í þessari ferð. Ég fór að vesenast við að hringja í skólann og láta vita hvar hún væri og á meðan náði Saga sér í rakvél og rakaði vinstri helminginn af höfðinu á Ídu(hún er brún og með voða mikið hrokkið hár) ég varð að hringja í rútu til að láta keyra okkur en varð að byrja á því að skila Ídu í skólann og reyndi að útskýra fyrir kennaranum að það væri í tísku að vera með skalla bletti öðru megin. Svo var lagt af stað til að finna hvar Dissimils hópurin ætlaði að hittast. Bílstjórinn neitaði að lækka í tónlistinni svo ég heyrði ekki hvað var verið að segja í símann um staðsetninguna og bað viðkomandi bara um að senda mér sms sem hún svo gerði en þá vantaði helminginn á skilaboðin. Á endanum fékk ég svo adressuna og rútubílstjórinn vissi ekkert hvar þetta var og það endaði með að ég henti honum út og keyrði sjálf inn í Osló. Ekki fór það betur en svo að ég keyrði rútunni inn í tískuvöruverslun og komst aldrei af stað.

Merkilegur andskoti hvað ég sef alltaf illa og dreymi mikið rugl áður en ég er að fara í ferðalög.

Eitt gamalt og gott íslenskt með einum besta söngvara okkar fyrr og síðar. Skrýtið vídeo!!! Allir syngja með.Góða helgi og haustfrí!

18.9.09

Ein vika

Já það er ekki nema ein vika í fyrirhugaða Íslandsför. Núna er maður farin að finna fyrir spenningi og smá kvíða. Málið er með svona hóp eins og Dissimilis að maður veit aldrei hvernir sýningarnar ganga. Yfirleitt ganga þær vel en stundum fer einhver þáttakandinn í baklás og þá ganga hlutirnir ekki eins og planlagt. Fyrst er verið að bjóða okkur þessa ferð með sýningu frá þessari norrænu nefnd og menntamálaráðuneytinu(eða kannski var það eitthvað annað!) þá vill maður að sjálfsögðu að liðið "value for money" eins og það heitir á fínni ensku.

Dagskráin er komin og verður byrjað á smá heimsókn í Bláa lónið, daginn eftir verður farið á Gullfoss, Geysi og Þingvelli og á sunnudeginum förum við í heimsókn á Sólheima í Grímsnesi. Þar verður okkur sýndur staðurinn og svo verðum við með workshop. Mánudagurinn er frír fram til kl 3 og eftir þann tíma fáum við aðgang að Borgaleikhúsinu þar sem verður general prufa en ég fer aftur á móti á ráðstefnuna sem er haldin í tengslum við þetta. Þar verður meðal annars fjallað um sýnileika og kynningu fatlaðra í fjölmiðlum og menningu í norrænum löndum. Stofnandi Dissimilis verður með innlegg í þessa umræðu og ég fer með sem túlkur. Þriðjudaginn fékk ég svo að skipuleggja og valdi ég "shopping" sem aðal tema :-D Semsagt frír dagur en ég ætla að skella mér á eina lopapeysu sem ég sá í sumar og svo verður að sjálfsögðu farið eitthvað í sund. Semsagt rosa prógramm.

Annars er þetta fína haustveður hér og búið að vera í 10 daga. Haustin eru oft fín hérna. Ég fór með krakkana á hitting hjá Þroskahjálp(þeirri norsku) sem var haldin í seli uppi í það sem er kallað Vestmarka. Það var 2 km ganga þangað upp frá bílastæðinu. Baltasar var á hjóli og í bakaleiðinni sem var niður í mót hjólaði hann á fullu niður að bílastæði og Saga gerði sér lítið fyrir og hljóp eftir honum alla leiðina. Ég reyndi að spretta úr spori líka og aðrar eins harðsperrur hef ég varla verið með. Var að vísu með bakpoka og fullt fang af fötum og drasli en sama. Saga blés varla úr nös og ekki hef ég heyrt um neinar harðsperrur þar. Þarf alveg greinilega að koma mér í betra form(ekki að það séu nein ný tíðindi).

Jæja pæja best að fara að vinna. Lag vikunar er gamall og góður diskóslagari frá mínum yngri árum. Maður verður nú að dilla sér smá þegar þetta lag er spilað.Frábæra helgi.

11.9.09

Ilmurinn

Ég er með alveg hræðilega þróað lyktarskyn og ég meina hræðilega. Ég finn lyktir sem nánast ekkert annað fólk finnur. Ég tek strætó í vinnuna á hverjum morgni og þegar ég kem inn í bílinn byrja ég á því að skanna svæðið til að finna það fólk sem er líklegast til að lykta lítið. Ilmvötn þoli ég sértaklega illa, fæ mikinn hausverk og þar af leiðandi forðast ég að setjast hjá konum sem líta út fyrir að misnota ilmvötn. Sest helst ekki hjá konum en stundum neyðist ég til þess og það hefur leitt til þess að ég hef orðið að flytja mig og jafnvel standa ef er of mikil lykt af viðkomandi. Var að kaupa mér nýja sæng um daginn og kodda og það er svo mikil lykt af því að ég verð að viðra vel og lengi og sofa með opinn glugga. Húsbandið finnur ekki þessi lykt nema sem smá keim sem kemur af áklæðinu þar sem það er nýtt og enn smá stíft. Sama með ný föt. Plastlykt, fúalykt og ég tala nú ekki um svitalykt eða vonda ískápalykt. það er sko ekki tekið út með sældinni að vera með svona háþróað nef.

Núna er kóngulóatíminn hafinn. Þegar fer að hausta flykkjast þessi viðbjóðslegu dýr inn í hús. Ég veit ekkert afhverju. Sat og horfði á sjónvarpið eitt kvöldið og sá útundan mér kónguló á stærð við meðal mús skríða yfir gólfið. Það var gólað á húsbandið sem myrti kvikindið. Í morgun var ég svo að klæða mig í leggings og þegar ég fann einhvern hnúð á lærinu. Ég stakk hendinni niður í buxurnar til að athuga hvað þetta gæti verið og fingurinn varð hálf blautur og ég dró upp dauða kramda kónguló. Næs!

Annars allt við það sama. Mikið að gera í vinnunni en fer að róast um miðja næstu viku og það er ágætt. Veðrið í fínu skapi og búið að vera milli 17 og 20 stiga hiti og sól og ekki ætla ég að kvarta yfir því. Kveð að sinni.

Alltaf jafn gaman að velja lag vikunar. Vel eitt í rólegri kanntinum. Held ekki að ég hafi haft það áður.Glóða helgi.

4.9.09

Plómur

Já nú eru plómurnar farnar að þroskast og ekkert smá magn af þessu núna. Ég á eftir að henda fleiri tugum kílóa í ár eins og í fyrra. Við þurfum að fara að saga af greinar núna því þetta er ekki fyndið. Og það versta við plómur er að þær þroskast allar á sama tíma. Svo hér verður sultað og búið til chutney trúlega næstu helgi í stórum stíl. Ég er stundum svo agalega myndó húsmóðir. En bara stundum.

Erum að fara okkar aðra ferð í Svíaríki að skoða bústað. Erum í startholunum í bústaðarleit og ætlum að skoða voða lítið hús á morgun sem liggur við fallegt vatn. Á nú alls ekki von á að við kaupum þennan en maður verður að skoða til að finna. Svona álíka eins og að kyssa marga froska áður en maður finnur prinsinn.

Ætlaði að skrifa fullt en það er svo brjálað að gera í vinnunni að ég næ ekki meiru í dag. Á að skila af mér stórri auglýsingarherferð fyrir hádegi. Stress bless.

Gleymi samt aldrei lagi vikunnar. Svona meðal gamallt lag með texta á spænsku fyrir ykkur sem vilja æfa ykkur.Gróðahelgi.