22.2.13

!!

Nei hún er það ekki. Hversvegna skrifa ég þá svona bull? Jú það er nefninlega svoleiðis að í vinnunni erum við með Facebook síðu og við höfum verið að ræða hverskonar fyrirsagnir vekja mesta athygli og gerir það að verkum að fólk smellir á linkinn sem fylgir. Svo að nú er ég að gera hávísindalega könnun um hvað vekur athygli. En ég get séð hversu margir koma inn á bloggið mitt eftir þessa fyrirsögn. Koma fleiri inn á bloggið eftir svona ýkta fyrirsögn en venjulega vegna forvitni á hvolpinum mínum eða jafn fáir? Kemur í ljós. Maður verður að hafa eitthvað skemmtilegt að gera á þessum síðustu og verstu tímum.

En svona til að ræða aðeins orðið kynvilltur. Hvaða orð er það eiginlega? Var nú alveg búin að gleyma því og ætla að vona að það sé ekki í notkun í dag. Samkvæmt Alfræðibókar Menningarsjóðs frá 1978 er orðið kynvilla skilgreint sem "Kynvilla, homosexualitas, nefnist það ástand, þegar kynhvötin beinist að einstaklingi sama kyns". Þannig að ef þú er kynvilltur ert þú semsagt einstaklingur sem stanslaust villist á kynjum þegar þú finnur þér maka! "Ó, sorrý ég hélt þú værir kona, er greinilega eitthvað að villast hér. Ætti að fá mér kynjakort svo að ég rati betur". Sexually lost semsagt. Ég myndi eiginlega út frá meiningu orðsins halda að það væri einstaklingur í vitlausum líkama, kynskiftingur. Það að kynlitningarnir og það í okkur sem ákvarðar hvaða kyn við erum hafi eitthvað villst þegar einstaklingurinn var í mótun í móðurkviði. Held ekki að þær lesbíur sem ég þekki finnist þær vera eitthvað að villast! Þær vilja vera með öðrum konum, kannski voru ekkert ægilega ánægðar í byrjun en þær voru samt ekki Lost! Þær eru ekki endalaust að leita að hinum eina rétta karlmanni til að vera með.

Jæja þetta voru bara smá pælingar um týnda fólkið.

Endilega láttu vita af þér ef þú poppar hér inn.

Ein besta rödd íslands hér á ferð.


Gróða helgi.

8.2.13

Bella the beauty - eða brjálaða!

Hún er smá klofin persónuleiki. Eina stundina þæg eins og lamb og hina alveg ga ga. Kannski að hvolpar eru bara svona, vita ekki alveg hverjir þeir eru og ekki enn búin að finna sitt rétta sjálf. Hver veit? Hér eru myndir, aðalega fyrir ykkur sem ekki eru á facebook.



Ekkert meira að segja. Bjó til mitt fyrsta heimagerða majónes áðan, með lime og chili. Voða gott. Ég voða dugleg:D

Til hamingju með föstudaginn.

Glóða helgi.

1.2.13

hundalíf part tú.

Haldið ekki að ég hafi farið á þessa gasalega skemmtilegu tónleika síðustu helgi med Nýdönsk. Þeir voru alveg brilljand og spiluðu allt það besta, nema lagið um hana Hólmfríði. Varð nú frekar skúffuð yfir því en hristi það skúffelsið fljótt af mér enda engin tími fyrir svoleiðis þegar maður á hvolp. Beint út að pissa og kúka þegar heim var komið, hvolpurinn semsagt ekki ég. Um miðja nótt, ekkert verið að djamma fram á nótt á þessu heimilinu. Já hér er allt á kafi í hundi. Verið að læra að pissa og kúka úti núna loksins þegar fór að hlýna. Er líka farin að vera ein heima hluta úr degi. Pínu erfitt fyrir alla en svona er að vera hundur í nútímasamfélagi þar sem allir eru í vinnu. En Baltasar kemur heim um 2 leitið á daginn og er svona ægilega duglegur að sinna henni. Gefur henni að borða, fer með hana út og leikur við hana. Heimalærdómurinn gengur frekar hægt á meðan hann er með hana eins og er en hann verður bara að komast í rútínu með það. Setja hana inn í búrið með bein þegar hann þarf að fara að læra heima. Hann er smá tregur við það núna í byrjun. Ég er ísköld, ef hún er vakandi og spídó þegar við borðum fer hún inn í búrið á meðan og fær eitthvað að tyggja sér til skemmtunar á meðan. Annars erum við hlaupandi útum allt að passa upp á litla skrýmslið sem lætur sjá sig þegar hún er í bananastuði. Maður fitnar allavegna ekki á meðan:S

Einkasonurinn er farin í sína fystu snjóbrettahelgarferð án foreldra. Þeir voru 3 vinir á sama aldri sem tóku lestina einir frá Osló til Lillehammer, tæplega 3 tíma ferð. Búa svo á hóteli og verða í brekkunni alla helgina ásamt fleiri ungmennum á bretti og skíðum. Það eru leiðbeinendur og starfsfólk á staðnum sem aðstoða þá og passa upp á að allt fari vel fram. Maður verður að gefa þessu unga fólki smá frelsi svo að það verði að sjálfstæðu fólki.

Heimasætan er í bowlingafmæli as ví spík, með maskara og gloss og gasa gelgja.

Þangað til næst.

20.1.13

Hundalíf

hélstu að þú værir laus við mig. Nei ekki aldeilis. Síðan síðast er ég búin að vera:

1. Veik öll jólin. Jebb, rosa fjör. Hár hiti og illt í öllum líkamanum og veikari en ég hef verið í mörg ár. Var með heimsókn frá Íslandi og allt. Frekar ömurleg jól. Engin ástæða að blogga þá.

2. Búin að vera geðveikt bissí hundamamma síðustu 2 vikur. Jésus minn góður hvað ég hef verið þreytt þessar síðustu vikurnar. Var nátturulega ekki alveg komin með batteríin fullhlaðin eftir veikindinn áður en ég þurfti að ná í Bellu the Beauty sem er nú búin að búa hjá okkur í 2 vikur. Piss og kúkur þrifið oft á dag, matur 4x á dag, sofa oft á dag, leika oft á dag líka, borðar plöntur og múrsteinsarininn minn oft á dag þar að auki, bítur í buxurnar mínar reglulega, vælir við matarborðið og horfir á mig sárum augum, stingur af, borðar steina, þefar af kúknum sínum, borðar rykhnoðra, prumpar, má ekki fara út í svona kulda svo að allt piss gerist inni enn sem komið er,  vill sitja í fanginu allann daginn ef hún fengi það. En þegar allt þetta er sagt þá sefur hún enn sem komið er eins og draumur á nóttunni(vaknar 1x eða ekki), pissar og kúkar(oftast) á pissupappír við útidyrahurðina og er búin að læra að sitja og er á góðri leið með að vilja ganga með ól og hún er bara 11 vikna. Mikið hlakka ég til að það fari að vora og við getum verið meira úti. 

Svo að núna er ég semsagt komin með hund í hús. Tók mig mörg ár að taka þá ákvörðun og enn koma stundir þar sem ég efast að þetta hafi verið rétt val en allir aðrir í fjölskyldunni eru 100% viss um að þetta hafi verið rétt svo að ég verð bara að stóla á þau. Ég er alltaf frekar efins þegar á að breyta einhverju! Við erum allavegna búin að fá hundapass fyrir sumarfríið en það, kona sem hefur farið með Sögu í sumarbúðir sem er hreinlega búin að taka frá 2 vikur af sínu sumarfríi til að passa hundinn minn og hana hlakkar mikið til. Hefur átt hund sjálf en getur ekki verið með hund í dag þar sem hún býr svo að hún ætlar að vera heima hjá okkur og passa. Algjör lúxus.

Fyrir utan þetta þá er ég komin með nýja(hálfa) stöðu í vinnunni og það kom alveg óvart og ekki á besta tíma þar sem þessi hvolpatími er smá spes en hef ekkert val. Finnst frábært að vera komin með þessa hálfu stöðu sem verkefnastjóri. Vinn hinn helminginn sem hönnuður áfram.  Svo að ég held að ég verði pínu þreytt næstu mánuði en ég get sofið þegar ég verð gömul.




Gamallt uppáhalds.



Góðar stundir þangað til næst.

21.12.12

smá jólastress

Sumir dagar eru erfiðari en aðrir. Gærdagurinn var einn slíkur. Byrjaði á að ég átti tíma hjá kírópraktor klukkan 9. Ég mætti á réttum tíma því ég er með eindæmum stundvís kona, þegar ég var búin að sitja þar í 25 mínútur og klukkan að verða hálf 10 fór ég í móttökuna og spurði þar hvort hann væri ekki örugglega mættur til vinnu. Jú hann var nú það en voða seinn. Ég varð því miður að sleppa tímanum því ég átti að fara til læknis klukkan 10 og þurfti að koma við heima fyrst.

Ég var mætt til læknisins á réttum tíma og spurði hvort það væru seinkanir, nei nei ég var fyrsti sjúklingurinn. Eftir að hafa setið þar í að verða hálftíma fór ég í móttökuna og spurði hvort læknirinn væri ekki örugglega mættur í vinnu. Konan í móttökunni hringdi í lækninn sem var þá rétt að renna í bílastæðið. Kommon. Maður mætir ekki í vinnuna hálftíma eftir að fyrsti sjúklingurinn á að vera inni. Ég ákvað að segja eins og væri að þetta þætti mér bara alls ekki í lagi að koma svona seint og allt það og þetta var stutt heimsókn. Fékk allavegna lyfseðil og dreif mig í apótekið. Þar inni var um 20 manns og allt ellilífeyrisþegar, ekki þessir ungu og spræku en þessir sem eru um áttrætt og yfir.

Ég var orðin svo sein í vinnuna að ég ákvað að fara í annað apótek. Fór þangað, smá spölur að ganga, fyrst í gegnum verslunarmiðstöð og svo smá spotti úti. Ég hljóp þangað, klædd eins og eskimói í pelskápu og ull innst sem yst svo að ég var létt heit þegar ég kom þangað. Það apótek átti ekki þetta lyf!! Ég var búin að fylla innkaupakörfu með vítamínum og plástrum og jólagjöfum og varð nú pínu uppgefin en brosti eins og mér einni er lagið og sagði ok hvenær get ég náð í þetta? Á morgun var svarið og fyrst þú tekur þessu svona vel þá færðu allt sem þú ætlar að kaupa á 50 % afslætti. Mikið gladdi það mitt jólahjarta að fá svona gjöf svo ég þakkaði pent fyrir mig og sagði að ég næði í lyfið á morgun. Svo hljóp ég tilbaka að bílnum mínum og í því að ég var að hendast inn í bílinn hringir síminn. Apótekið. Ég hafði gleymt visakortinu mínu þar. Ég hljóp tilbaka náði í kortið og hljóp aftur tilbaka að bílnum. Orðin frekar sveitt og ég sem var að fara út eftir vinnu að hitta vinkonur og borða og hafa það gaman og sveitt delux. En klukkan orðin rúmlega hálf 12 og ég ekki enn komin í vinnuna, ákvað að keyra hraðbrautina þangað (sem ég helst ekki geri því mér leiðist að keyra hratt) og haldið þið að það hafi ekki verið bílaröð helvítis alla leiðina í vinnuna. Mjakaðist ekki fjanda á 20 mínútum.

Mætti í vinnuna AAAAlt of sein og að sjálfsögðu var serverinn niðri nánast allan daginn og ekkert hægt að gera og jólin að koma og auglýsingar þurftu að komast í prent og læti. Frábær vinnudagur, stress dauðans.

Fór svo út eftir vinnu og hafði það gaman.  Þegar ég ætlaði heim tókst mér að fara inn í vitlausa lest, lest sem keyrir bara einu sinni á klukkutíma og fer í þveröfuga átt við þar sem ég bý. Það voru einhver ónot í mér þegar ég henti mér inn í lestina en hafði ekki tíma að sinna þeim ónotum því þeir voru alveg að fara að loka dyrunum (kemur svona píphljóð). Á síðasta pípinu rann það upp fyrir mér hvaða ónot þetta voru og það rann upp fyrir mér hvað  eiginlega stóð á lestinni og náði að henda mér út rétt áður en hurðirnar lokuðust. Ég semsagt hljóp inn í lestina, inn í vagninn og í gegnum allan vagninng og út um næstu dyr. Tók nanósekúndu fyrir mig að hlaupa þetta! Hefði ég farið með þessari lest hefði það getað tekið mig fleiri tíma að koma mér heim aftur. Átti að taka Kongsberg lestina en var í Kongsvingerlestinni. Smá líkt en samt ekki!

Ogs svo eru piparkökurnar í ár hjá mér svartar! Lovlí.

Jæja þetta var jólastress saga ársins. Versegúð.

Jólalagið er norskt. Fallegt.



Næsta blogg á trúlega eftir að fjalla um fjölgun í fjölskyldunni okkar og pælingar um það.

Gleðileg jól og farsælt komandi ár.

7.12.12

Bestustu jólagjafirnar í ár.

Haldið þið að ég hafi ekki gengið inn um útganginn í Ikea í gær. Manni er stundum ekki viðbjargandi! En nóg um það, best að demba sér í jólin.

Ef það hefur farið fram hjá þér þá eru jólin að koma.  Það er alltaf sama sagan á hverju ári að það situr fólk út um allt land og ef ekki heim og veltir fyrir sér hvað það á að gefa vinum og ættingjum í jólagjöf. Kannski eru sumir svo skipulagðir að þeir gera jólagjafalista sem er geymdur svo að maður getur fylgst með hvað maður hefur gefið fólki í gegnum árin og passar þannig upp á að maður gefi ekki það sama ár eftir ár. Hef lent í því sjálf, sama manneskjan fékk ilmkerti mörg jól í röð. Ekki sjarmerandi! Og afþví mér er svo annt um annað fólk vill ég hér með þessu bloggi hjálpa þeim sem eru enn ekki búnir að kaupa jólagjafirnar og gefa ykkur góðar hugmyndir að frumlegum og nýtilegum gjöfum sem fólk trúlega ekki á fyrir.

 1. Handa eiginmanninum.
Er eitthvað skemmtilegra fyrir eiginmannin en að  spranga um í þessum náttslopp á jóladagsmorgun og segja "may the force be with you" ? Þessi sloppur er uppspretta endalausrar barnslegrar gleði fyrir fullorðna mannin sem alltaf langaði að vera einn af Jediunum og vera í klíkunni hans Obi-Wan Kenobi. Og svo er hægt að nota sloppin sem baðkápu á sumrin og fara á ströndina og láta hina mennina verða öfundsjúka yfir stælnum á húsbandinu. Eðalgjöf finnst mér.

2. Unglingssonurinn
Hvað er betra í kuldanum en að vera heitt. Allstaðar. Þetta fína skegg/flískragi kemur í mismunandi litum en án gleraugna svo að maður þarf ekki að stunda skíðaíþróttir til að geta notað þetta skegg. Þetta er sérlega hentugt fyrir unglinginn með lítin eða engan skeggvöxt. Bústar sjálfsmyndina og heldur þér heitum á sama tíma. Þetta ætla ég klárlega að gefa syni mínum í ár.

3. Fyrir húsmóðurina


Hvað er betra en að geta verið hrein hvert sem þú ferð og ekki minnst hvenær sem er? Að geta skroppið í þína eigin sturtu þar sem engin er að berja á baðherbergishurðina afþví einhver krakkarass þarf að kúka. Óþolandi pirrandi. En nú er málið leyst. Þín eign ferðasturta. Er kannski best utandyra en mér finnst ekki málið að redda sér buslulaug sem hægt er að blása upp og rúmar smá slatta af vatni sem hægt er að standa í  þegar maður sturtar sig innandyra. Svona langar mér allavegna í!

4. Heimasætan


Svefnpoki og útigalli í sömu flík. Er því miður uppseld í bleiku í ár en kemur fyrir næstu jól í bæði bleiku og fjólubláu. Hér er ekkert vesen. Er dóttirin að fara að gista hjá vinkonunni en fyrst ætla þær að fara á skíði eða að renna sér? Nú þarf hún ekki að drösla með sér tösku. Stingur bara tannburstanum í vasan og svo er hún tilbúin fyrir helgina. Sneðugt.

Vona að þið hafið fengið smá innblástur hér og að þessar ljómandi fínu gjafir verði undir ykkar tré í ár.

Jólatónlist alltaf vinsæl í desember. Því þjóðlegri því betra.



Góðar aðventustundir frá henni sem átti afmæli í vikunni og varð eldri!

23.11.12

Lítil ferðasaga frá annari heimsálfu

Sorrý að ég hef ekki skrifað svo mikið undanfarið. Hefur einhvernvegin gleymst eða svo hef ég ekki verið heima. Var nefninlega í henni Afríkunni.Suðurhlutanum til að vera nákvæm. Og það get ég svarið að var ein besta ferð sem ég hef farið í. Það er svo ótrúlega fallegt þarna að maður á varla orð.Og yndislegt fólk, fyrir utan glæpamennina að sjálfsögðu en ég hitti enga sem betur fer.



Við fórum 16 saman, foreldrar JC, systur, þeirra makar og börn. Við komum til S-Afríku á föstudagsmorgni eftir næstum sólarhrings ferðalag. Við gistum á stað sem heitir Gordons Bay og er lítill baðstrandarbær ca 45 mín frá Cape Town. Við bjuggum á guesthouse þar sem við vorum nánast einu gestirnir. Eitt þýskt par var þar líka og ekki öfundaði ég þau því við tókum smá pláss. Á laugardagsmorgun var okkur stelpunum á öllum aldri keyrt á eitthvað lúxushótel þar sem við eyddum deginum við sundlaugina og létum snyrta hendur og fætur. Algjört dekur. Um kvöldið var stórveilsa í tilefni gullbrúðkaups tengdó. Veislan var haldin á veitingarstað sem er á stórum winefarm! Fengum rosa góðan mat og allt var mjög grand.



Sunnudagurinn var tekin rólega. Mánudagsmorgun kl 7 lögðum við af stað í Safarípark sem er ca 200 km frá gistiheimilinu. Þetta var rúmlega 3. tíma ferð og ég verð að viðurkenna að mér kveið smá fyrir að keyra svona ein langt inn í land en þær áhyggjur reyndust vera óþarfar. Rosa góðir vegir, breiðar hraðbrautir og vel merkt allt saman. Það var rosalega gaman að keyra þetta því það var svo mikið fallegt að sjá. Síðasti hálftíminn var á malarvegi án símasambands svo að við vorum fegin að bílinn veiktist ekki á þeim kaflanum. Safarígarðurinn var rosa fínn, keyrðum á opnum jeppum um risa svæði þar sem stóru dýrin búa. Safarípark er einskonar dýragarður bara miklu stærri. Dýrin veiða sér ekki til matar sjálf en eru samt það villt að þau eru ekkert að hanga þar sem fólk er svo að við keyrðum í 2 og 1/2 tíma og skoðuðum öll dýrin í garðinum fyrir utan nashyrninginn. Þeir földu sig og vel. Á heimleiðinni stoppuðum við á fleiri vínekrum og smökkuðum vín og keyptum til að taka með okkur heim.



Hinum dögunum eyddum við í að skoða svæðið. Keyrðum meðfram ströndinni og fundum rosalega fallegan stað með sjólaug við ströndina. Það er ekki hægt að synda í sjónum þarna svo að það eru byggðar sjólaugar sem eru miklu öryggari. Fórum til Simonstown sem er ein elsta byggð í S-A þar sem mörgæsir búa á ströndinni. Fórum líka til Capepoint sem er ysti punkturinn þarna og er rosalega flott rokrassgat þar sem hægt er að rekast á bavíana. Við gerðum það að vísu ekki.

Svo eyddum við 3 dögum í Cape town þar sem við túristuðumst fullt, borðuðum góðan mat og höfðum það gott. Verðlagið þar kom mér á óvart. Ódýrt miða við Noreg en dýrt miða við laun í S-A.

Það eina sem mér fannst erfitt í þessari ferð var að keyra framhjá svokölluðum township sem eru fátækrarhverfin. Risa stór svæði með kofum þar sem flestir íbúar eru svartir. Sumstaðar er ekki rafmagn eða vatn. Maður sá útiklósett standa í röðum við göturnar. Það var bændaverkfall þegar við vorum þar en bændur þéna 55 krónur norskar á dag! Og mjólkin í S-A er ekki svo mikið ódýrari en mjólkin í Svíþjóð. Munurinn milli ríkra og fátækra er stærri en maður er vanur hér í la la land sem norðurlöndin eru miða við Afríkulönd og mörg önnur lönd í heiminum. Sonur minn var orðin frekar leiður á mömmu sinni sem fannst mikilvægt að hann horfði á þetta fólk sem býr þarna og á sama tíma finndi fyrir þakklæti að eiga svo mikið og hafa það svo gott. Náði ekki alveg eins mikið í gegn og ég vildi. Sé eiginlega eftir að ekki hafa heimsótt township en það er boðið upp á ferðir þangað þar sem maður á möguleika á að hjálpa til. Vorum bara aðeins og stutt og vorum aðeins of mörg til að þetta var hægt í þessari ferð.

En allavegna þá var þetta mikil upplifun og get mælt með að fara þangað.

Hvað er meira við hæfi?



Góða helgi.

26.10.12

Ættjarðarljóð

Þó þú langförull legðir sérhvert land undir fót,
bera hugur og hjarta samt þíns heimalands mót,
frænka eldfjalls og íshafs sifji árfoss og hvers
dóttir langholts og lyngmós sonur landvers og skers

Yfir heim eða himin hvort sem hugar þín önd,
skreyta fossar og fjallshlíð öll þín framtíðar lönd
Fjarst í eilífðar útsæ vakir eylendan þín
nóttlaus voraldar veröld, þar sem víðsýnið skín.

Það er óskaland íslenskt, sem að yfir þú býr,
aðeins blómgróin björgin, sérhver baldjökull hlýr,
frænka eldfjalls og íshafs sifji árfoss og hvers
dóttir langholts og lyngmós sonur landvers og skers

Eitt af mínum uppáhaldsljóðum, er svo asskoti fallega skrifað. Íslensk tunga getur verið ansi falleg þegar fólk vandar sig. Þetta ljóð má finna í bláu bókinni sem öll börn á Íslandi hafa komist í kynni við.

Bara 2 vikur í Suður Afríku ferðina. Farin að hlakka slatta til.

Hér er annað uppáhaldsljóð úr sömu bláu bókinni. Fallegt og sorglegt.



Later!

12.10.12

Unglingsmóðir

Litla stóra stelpan mín á afmæli um helgina. Hún verður 13 ára. Hún er þá formlega orðin unglingur og ég formlega orðin unglingsmóðir. Há tæm flæs. Í kvöld verður veisla með vinunum og kærastanum. Það er eitthvað óljóst hvort hann veit að þau eru kærustupar en það böggar ekki Sögu neitt. Hún er kærastan hans sama hvað! Núna er ég að fara út í búð og kaupa það síðasta sem vantar fyrir bökun og skreytingu. Svo ætla ég að kaupa handa henni maskara. Hún er búin að bíða lengi og ég var búin að lofa að þegar hún væri orðin unglingur fengi hún að nota maskara þegar hún væri að fara í partý. Og hér verður sko partý svo að maður verður að standa við það sem maður lofar.

Síðustu 13 ár hafa verið auðveld á margan hátt, allavegna auðveldari en ég hélt þegar hún var pínu ponsa og allir sögðu okkur hvað það væri hræðilega erfitt að eiga fatlað barn. Ég ætla ekkert að ljúga og segja að það hafi verið rosa auðvelt þegar hún var yngri og stakk af hverja sekúndu og við urðum að læsa og fela lykilinn alltaf þegar við vorum heima og við hlupum út í eitt og gátum aldrei lokið setningum eða klárað að ræða málin. Nei það var svo sem ekkert auðvelt við það en ég hélt mér grannri og dóttir mín varð sterk af öllum þessum hlaupum. Eftir að hún varð 8 ára fór hún að róast og núna er hún bara hin rólegasta og er alveg einstaklega meðfærileg í ferðalögum. En hún fæddist ekki með hjartagalla eða neitt annað alvarlegt. Hefur eiginlega aldrei verið veik. Fengið í eyrun 1 sinni á æfinni og varla flensu eða neitt. Alltaf verið já barn, ekkert mál að fá hana til að prófa eitthvað nýtt eða gera eitthvað sem henni finnst leiðinlegt. Svo að það verður að viðurkennast að Saga er alveg einstaklega velheppnað eintak. Ekki má gleyma hvað henni gengur vel faglega og svo er hún dugleg að hjálpa til heima. Tæmir uppþvottavélina annan hvern dag, leggur á borð á hverju kvöldi, smyr nestið sitt hvern dag(2 nestispakka), ryksugar þegar hún er beðin um það, tekur til í herberginu sínu og passar alltaf sjálf upp á að vera í hreinum nærfötum og sokkum. Þvær á sér síða hárið og greiðir og vill alltaf vera fín og snyrtilega Geri aðrir betur segi ég nú bara.

Svo er hún á fullu í tómstundum, fer á sundæfingar 2x í viku, fimleika og æfir píanó. Hún er svo köld að hún hoppar af 5 metra brettinu og getur stungið sér af minnst brettinu og gerir allskonar flikkflakk dót af brettinu(mest þegar mamma er ekki að horfa). Engin efi í mínu hjarta að hún eigi eftir að spjara sig seinna.
En hún er semsagt orðin unglingur og það er ekki "bara bara" eins og þeir segja í Noregi. Ó nei. Hormónarnir eru stundum alveg að fara með góða skapið, augun hringhvolfast þegar ég er eitthvað að skifta mér of mikið af og hurðum skellt með stæl. Allt eins og það á að vera. Situr inni í herbergi og æfir sig að mála sig, kemur svo út úr herberginu svo kasmáluð að það hálfa væri nóg og er með dúkku í fanginu. Jamm, unglingur með Downs er ekki alveg venjulegur unglingur. Spennandi tímar framundan.

Hér eru nokkrar myndir af heimasætunni frá í ár.



Næstum aftur búin að gleyma laginu en því MÁ ALDREI GLEYMA! Held að ég hafi haft þetta lag hér áður en þetta er eitt af uppáhaldslögunum hennar Sögu svo að það passar vel núna. Leyfilegt að vera væmin á afmælum.



Góðar stundir.

5.10.12

Matarmúffur - revisited

Þessa uppskrift var að finna á bloggi mínu fyrir nokkrum árum. Er orðin svo leið á því að þurfa að leita það uppi aftur og aftur og ekki drattast ég til að skrifa þetta niður svo voila, hér er sama uppskriftin aftur! Og viti menn, enn jafngóð.


Kjúklinga og hnettu múffupæ.

1 rif hakkaður Hvítlaukur
1 kjúklingabringa í litlum bitum
salt+pipar

Þetta tvent er steikt saman og látið kólna

1 stór Tómatur.

Skorin í litla bita en þetta fljótandi inní tómatnum er ekki látið með.

3 stór egg
1 1/2 bolli mjólk
3/4 bolli hveiti
1 bolli sterkur ostur að eigin vali

2/3 bolli gróft hakkaðar hnetur af eigin vali(ég hef notað valhnetur eða hesilhnetur)
Ferskar kryddjurtir(það sem þú átt) ég hef notað steinselju.


Egg og mjólk blandað vel saman og hveiti bætt út í og blandað saman vel. Saltað og piprað.Osti bætt út í og svo Tómatnum, kjúllanum, hnetum og kryddjurtum.

Muffinsmót(sjá mynd) eru smurð með olíu og gumsinu hellt út í. Bakað við ca 220 gráður í 25-30 mín. Fer eftur stærð formana.



Bara svo að það sé á hreinu þá þarf maður ekkert að nota kjúkling, hægt að nota skinku eða bacon eða bara ekkert kjöt. Og það má alveg skifta tómatnum út með púrru sem er búið að mýkja aðeins í olíu. Og sama með hneturnar, alveg hægt að sleppa þeim og nota kryddjurtir í staðinn. Mér finnst að osturinn sé mikilvægastur, sterkur og góður. Bara hægt að drullumalla þetta alveg eftir eigin lyst og því sem er í ísskápnum.


Góða helgi.

Ó, gleymdi næstum laginu.

28.9.12

Bilað stuð

Heimsókn lokið og allt hlæ hlæið búið í bili. Og það var mikið hlæ hlæ. Mikið var nú gaman að fá þessar brjáluðu konur í heimsókn. Og svo vorum við líka heppnar með veðrið(svona að mestu leiti). Ég komst allavegna að þeirri niðurstöðu eftir þessa heimsókn að H&M fer ekki á hausinn á næstu vikum! Voða finnst mér skrýtið að H&M er ekki á Íslandi. Íslendingar hljóta að vera verslunarglaðasta þjóð heims svo að það ætti ekki að vera neitt mál að opna búð þar. Ef það skildi gerast yrði opnunardagurinn trúlega eins og þjóðhátíð. Yrði svona eins og bjórdagurinn forðum þar sem allavegna við í Kvennó fengum frí fyrstu 2 tímana daginn eftir fyrsta bjórdaginn. Er það nú alveg í lagi ég spyr? En manni fannst þetta nátturulega alveg eðlilegasta mál að menntaskólanemar fengjum frí til að komast yfir verstu þynnkuna. Annars var ég trúlega eina manneskjan í allri stór Reykjavík á bíl þetta kvöldið. Var bílstjórin fyrir Ægi. Drakk ekki bjór og nennti greinilega ekki að vera að drekka neitt annað. Stundum var mér viðbjargandi.

Nú er farið að styttast í Afríkuferðina. Rétt rúmur mánuður og svo verður farið á vit ævintýra í Cape Town. Ég hlakka mest til að komast í hitann því nú verður maður bara að horfast í augu við þá döpru staðreynd að sumarið er búið. Kom kannski aldrei alveg hingað. Við erum búin að panta borð á einum besta veitingarstaðnum í S-Afríku og það verður ekkert smá næs.

Jæja best að fara að vinna. Hlusta á þessa, frábær rödd.



Hev a lovlí helg.

14.9.12

Eftirvænting tilhlökkun og gleði

Eftir 6 daga koma gömlu bestu í heimsókn til mín hingað til Noregs. Þrjár þeirra hafa komið áður en tvær aldrei áður. Vona að Noregur skarti sínu fegursta en það er því miður svoleiðis með veðrið í þessu landi að maður getur aldrei treyst á það. Skil eiginlega ekki afhverju ég ekki bý í Florida eða á öðrum heitum stað. En svona er lífið. Allavegna þá verður gaman að fá þær hingað. Ef það er eitt sem ég get treyst á í þessum heimi þá er það að það er alltaf gaman með þessum stelpukonum. Þær eru bara svoooo skemmtilegar og létt bilaðar eins og vinkonur eiga að vera. Hvernig væri lífið ef maður ætti leiðinlegar vinkonur. Get ekki einu sinni hugsað mér hversu dapur það væri. Nei ég er bara svo fegin að eiga vinkonur sem ég hef þekkt síðan ég var í barnaskóla. Og að þær séu skemmtilegar í þokkabót. Skál fyrir þeim Önnu,Beggu,Ellu,Guggu og Hönnu Siggu.

Var að koma af 3. daga námskeiði í HTML5 og CSS3. Frekar tóm í hausnum eftir þessa daga, ekki lengur vön að forrita svo mikið svo að heilasellurnar fengu algjört áfall yfir því að þurfa að hugsa svona mikið. Ætla að reyna að hugsa sem minnst næstu daga og slaka á. Húsbandið á rjúpu. Hef nú ekki miklar væntingar að fá rjúpu eftir þá ferð því það hefur víst lítið sést til hennar í haust, en hann fór nú samt.

Hvað á betur við núna en ekta girlpower frá liðnum tíma.



Gleðilega helgi