12.10.12

Unglingsmóðir

Litla stóra stelpan mín á afmæli um helgina. Hún verður 13 ára. Hún er þá formlega orðin unglingur og ég formlega orðin unglingsmóðir. Há tæm flæs. Í kvöld verður veisla með vinunum og kærastanum. Það er eitthvað óljóst hvort hann veit að þau eru kærustupar en það böggar ekki Sögu neitt. Hún er kærastan hans sama hvað! Núna er ég að fara út í búð og kaupa það síðasta sem vantar fyrir bökun og skreytingu. Svo ætla ég að kaupa handa henni maskara. Hún er búin að bíða lengi og ég var búin að lofa að þegar hún væri orðin unglingur fengi hún að nota maskara þegar hún væri að fara í partý. Og hér verður sko partý svo að maður verður að standa við það sem maður lofar.

Síðustu 13 ár hafa verið auðveld á margan hátt, allavegna auðveldari en ég hélt þegar hún var pínu ponsa og allir sögðu okkur hvað það væri hræðilega erfitt að eiga fatlað barn. Ég ætla ekkert að ljúga og segja að það hafi verið rosa auðvelt þegar hún var yngri og stakk af hverja sekúndu og við urðum að læsa og fela lykilinn alltaf þegar við vorum heima og við hlupum út í eitt og gátum aldrei lokið setningum eða klárað að ræða málin. Nei það var svo sem ekkert auðvelt við það en ég hélt mér grannri og dóttir mín varð sterk af öllum þessum hlaupum. Eftir að hún varð 8 ára fór hún að róast og núna er hún bara hin rólegasta og er alveg einstaklega meðfærileg í ferðalögum. En hún fæddist ekki með hjartagalla eða neitt annað alvarlegt. Hefur eiginlega aldrei verið veik. Fengið í eyrun 1 sinni á æfinni og varla flensu eða neitt. Alltaf verið já barn, ekkert mál að fá hana til að prófa eitthvað nýtt eða gera eitthvað sem henni finnst leiðinlegt. Svo að það verður að viðurkennast að Saga er alveg einstaklega velheppnað eintak. Ekki má gleyma hvað henni gengur vel faglega og svo er hún dugleg að hjálpa til heima. Tæmir uppþvottavélina annan hvern dag, leggur á borð á hverju kvöldi, smyr nestið sitt hvern dag(2 nestispakka), ryksugar þegar hún er beðin um það, tekur til í herberginu sínu og passar alltaf sjálf upp á að vera í hreinum nærfötum og sokkum. Þvær á sér síða hárið og greiðir og vill alltaf vera fín og snyrtilega Geri aðrir betur segi ég nú bara.

Svo er hún á fullu í tómstundum, fer á sundæfingar 2x í viku, fimleika og æfir píanó. Hún er svo köld að hún hoppar af 5 metra brettinu og getur stungið sér af minnst brettinu og gerir allskonar flikkflakk dót af brettinu(mest þegar mamma er ekki að horfa). Engin efi í mínu hjarta að hún eigi eftir að spjara sig seinna.
En hún er semsagt orðin unglingur og það er ekki "bara bara" eins og þeir segja í Noregi. Ó nei. Hormónarnir eru stundum alveg að fara með góða skapið, augun hringhvolfast þegar ég er eitthvað að skifta mér of mikið af og hurðum skellt með stæl. Allt eins og það á að vera. Situr inni í herbergi og æfir sig að mála sig, kemur svo út úr herberginu svo kasmáluð að það hálfa væri nóg og er með dúkku í fanginu. Jamm, unglingur með Downs er ekki alveg venjulegur unglingur. Spennandi tímar framundan.

Hér eru nokkrar myndir af heimasætunni frá í ár.Næstum aftur búin að gleyma laginu en því MÁ ALDREI GLEYMA! Held að ég hafi haft þetta lag hér áður en þetta er eitt af uppáhaldslögunum hennar Sögu svo að það passar vel núna. Leyfilegt að vera væmin á afmælum.Góðar stundir.

13 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með Sögu og velkomin í heim unglinsmæðra :)
kv Ólöf

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með Sögu :) Alltaf svo skemmtilegt að lesa bloggið þitt. Bestu kveðjur frá Egilsstöðum, Helga Dögg

Nafnlaus sagði...

til hamingju með þína einstaklega frábæru dóttur, kveðjur frá Höfn Guðný Sv.

Nafnlaus sagði...

Yndisleg hún Saga í alla staði. Sammála þér um að hún er sko gott eintak!
Heyrumst á afmælisdaginn :)
Íris

Nafnlaus sagði...

Til hamingju med flottu Söguna ykkar :)

//Ellen

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með þessa yndislegu stúlku sem er alger sólargeisli.
Við erum svo stolt af henni.

Mútta

Nafnlaus sagði...

Innilega til Hamingju með Sögu Helga mín og family, hún er stórglæsileg og rosa dugleg í alla staði. Og já bara spennandi tímar framundan :-) bestu kveðjur frá okkur
Guðbjörg og co.

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með flottu unglingsprinsessuna þína, hún er yndisleg :)Knús á ykkur. Berglind

Íris sagði...

Innilega til hamingju með fallegu og duglegu stelpuna þína. Já mér finnst hún rosa dugleg, ekki allir sem eiga að heita alveg "normal" sem nenna að smyrja nestispakka eða ryksuga þegar þeir eru beðnir :) Og velkomin í unglingamömmuhópin, það er stundum hunderfitt en oftast gaman :)

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með Sögu !

Bestu kveðjur - GSigfinns

Nafnlaus sagði...

Þetta var skemmtileg og holl lesning, hjartanlega til hamingju með dömuna og ykkur öll. Fötluð hvað??!! með kærri frá okkur Bróa

Frú Sigurbjörg sagði...

Falleg, stúlkan þín.

Frú Sigurbjörg sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.