22.6.12

:´-(

Barnaskólinn var kvaddur í gær. Ég keyrði Söguna mína grátandi heim og hún hélt áfram að gráta þegar hún kom heim. Lokahófið fyrir 7. bekk var á miðvikudagskvöldið. Fín veisla með góðum mat og mikið af ræðum. Ein af stelpunum hélt ræðu, hún grét svo mikið að allir í veislunni voru farnir að gráta. Börn og fullorðnir. Múggrátur hreinlega. Í gær var svo sameiginlegur hádegisverður fyrir allan 7. bekk og þeim veisluhöldunum lauk með að 6. bekkur færði 7. bekk blöðrur sem var sleppt og þar með var barnaskólagöngunni lokið. Mikill grátur fylgdi þar á eftir, svona hjá stelpunum aðalega. Það er alltaf erfitt að kveðja. En svona er lífið. Einum kafla lokið og nýr hefst með nýjum tækifærum. Okkur er búin að líða vel í þessum skóla, mér sem foreldri og Sögu sem nema og ég er alveg viss um að nýji skólinn verður okkur líka góður.

Og ekki getum við grátið liðna tíð lengi því nú er komið að því. SUMARFRÍIÐ ER BYRJAÐ. JIBBÍ. Fer til Íslands á sunnudaginn og Hafnar á Þriðjudaginn. Tvær vikur á gamla landinu og svo 3 vikur uppi í bústað. Fimm heilar vikur þangað til ég fer aftur að vinna. Det er bare dejlig.

Í tilefni til að það er komið sumarfrí valdi ég þessi stuðlög fyrir ykkur að dansa inn í nóttina með. Fer alltaf í sumarskap þegar ég heyri þau.


Gott sumar. Heyrumst kannski eftir sumarið.

8.6.12

Gaggó vest...

eða kannski verður það gaggó best? Saga er að klára barnaskóla núna í sumar. Við höfum alltaf verið rosa ánægð með skólann hennar en sjáum að núna er tíminn komin til að hún skifti um skóla. Komin tími til að hún fari í skóla þar sem allir eru eins og hún. Pínu öðruvísi. Unglingsárin eru ekki tíminn til að finna fyrir hvað maður er öðruvísi. Og það gildir alla, ekki bara þá sem eru með þroskafrávik.

Saga er búin að læra rosalega mikið á því að ganga í venjulegum skóla og ég hef aldrei séð eftir þeirri ákvörðun. Verð alveg að viðurkenna að mér kvíður fyrir því að hún sé alfarin inn í sérskólann. Saga er ekkert sérstaklega krítísk, hún hermir eftir öllum sem henni finnast fyndnir, kúl eða eitthvað annað. Að ganga í venjlegum skóla hefur kennt henni að viss hegðun er ekki æskileg og við höfum alltaf gert þært kröfur til hennar að hún hagi sér vel. Ekki það að hún geri það alltaf en við búumst heldur ekki við því. En okkur finnst mikilvægt að hún fá ekki neinn frímiða á hegðun bara af því hún er með Downs. Núna er ég smá hrædd um að hegðun hennar eigi eftir að breytast. Sé það þegar ég er uppi á Haug, sem er sérskólinn að þau sem vinna þar eru stundum frekar slök á að aga börnin. Ég er þeirra skoðunnar að það eigi að gera kröfur um góða hegðu hjá öllum, eftir getu og skilningi að sjálfsögu. Allt of oft sé ég börn sem eru sko ekkert vitlaus en haga sér eins og þau séu það. Kannski afþví að foreldrarnir vorkenna barninu og vilja vera góð við það og leyfa allt. Mér finnst persónulega að það sé ekki að vera góður við barnið sitt. Öll börn verða fullorðin einn góðan veðurdag og þá er pínu seint að fara að hugsa um að barnið hafi tamið sér hegðun sem ekki er æskileg í okkar samfélagi. Vinkona Sögu, líka með DS er alltaf að setjast í fangið hjá fólki. Bæði fólki sem hún þekkir og fólki sem hún hefur aldrei séð áður. Hún talar lítið og illa og því erfitt fyrir fólk að skilja hana. Fæstir segja nei við hana eða benda henni á að svona geri maður ekki. Foreldrarnir gera það aldrei, þau yppa bara öxlum og brosa. Sorrý, ekki fyndið að sjá 13 ára stelpu gera svona. Hún er bæði læs og skrifandi og ég veit fullvel að hún getur lært svo að það er engin ástæða fyri því að ekki kenna henni að þessi hegðun er ekki æskileg. Hún og öll okkar börn eiga eftir að lifa í venjulegu samfélagi líka sem fullorðið fólk. Sum hegðun fylgir fötlun og svoleiðis er það bara en sum hegðun er agaleysi. Og það finnst mér ekki gaman að sjá.

En ég ætlaði nú ekkert að fara að ræða hegðun neitt, það bara kom. Því það er annað sem ég hef smá áhyggjur af líka. Fékk að vita með hvaða krökkum Saga á eftir að vera með í bekk og þar en enginn sem er sterkari faglega eða félagslega en hún. Ein stelpa sem er á svipuðu reki faglega og með betri málþroska en engin fyrir utan það. Við óskuðum eftir bekk þar sem það væri til staðar að það væru fleira en eitt barn sem væri faglegra sterkara en hún en einhverra hluta vegna hafa þau skipað í bekki núna eftir fötlun. Varð pínu fúl en við verðum bara að fylgjast þeim betur með næsta skólaárið. Eitthvað sem við höfum ekki þurft að hafa áhyggjur af í barnaskóla. Saga hefur verið með frábæran kennara allan barnaskólann sem hefur alltaf gert kröfur til hennar og uppskorið árángri eftir því. Í vetur hefur Saga verið 2 daga á Haug og 3 daga í sínum skóla til að undirbúa hana undir skólaskiftin. Eina vikuna í vetur var lestrarvika á Haug(sérskólanum) og þar fékk Saga lítið hefti með einni setningu á hverri blaðsíðu sem hún átti að lesa. Heima var hún að lesa Litli bróðir og Stúfur eftir Ann Cath Vestly! Þetta held ég að sé mjög algengt í skólum. Að kennarar og annað fagfólk haldi að krakkarnir okkar geti ekki lært neitt að ráði því þau eru fötluð og gera þar af leiðandi kröfur eftir því. Algjör misskilningur. Allir geta lært eitthvað og svo lengi maður hefur ekki prófað og séð hvað barnið getur náð langt er maður ekki að reyna í alvörunni.

En svona til að oppsúmmera eins og maður segir á góðri norsku þá held ég að þessi skólaskifti það verði af því góða fyrir Sögu. Þrátt fyrir áhyggjur móður verður fínt fyrir hana að komast í stuðið á Haug, alla vinina, kærastana, ástarsorgirnar og allan félagsskapinn sem skólinn á eftir að upp á að bjóða.

Jæja pæja varð þetta ekki lengra en erfðarsyndin sjálf. Stundum skrúfast fyrir skrif-kranann. það var semsagt í dag.


Varstu búin að gleyma þessu lagi? Mí tú.Have a very nice weekend dear.

1.6.12

Ferðalög

ÉG ER AÐ FARA TIL SUÐUR AFRÍKU Í NOVEMBER!!!

Vikuferð sem er í boði tengdó. Þau eiga gullbrúðkaupsafmæli og bjóða öllum börnum og barnabörnum í aðra heimsálfu í heila viku. Næs segi ég bara. Búum á litlu pensjónati 100 metra frá ströndinni í baðstrandarbæ 30 mínútum frá Cape Town. Ferðin hefst 8 nóvember, á brúðkaupsafmæli okkar hjóna. Tengdó eiga brúðkaupsafmæli 2 dögum eftir. Nóvember er venjulega alveg hundleiðinlegur mánuður með skítaveðri svo að það verður ekkert smá ljúft að komast í vorhitann í Suður Afríku þegar allt er kallt og dimmt heima. Þessar myndir eru frá bænum sem við búum í.
Svo þegar þessi ferð er búin er planið að koma til Íslands um jólin. Erum samt ekki alveg komin með það á hreint, fer smá eftir flugmiðaverði. Sumarbústaðurinn tekur smá í budduna þessa dagana eins og við mátti búast. Fengum nett sjokk þegar rafmagnsreikingurinn fyrir vetur-vor kom svo að við sjáum okkur ekki annað fært en að kaupa nýja ofna í allt húsið. Þessir gömlu eyða ruglaðslega miklum pening. Eins og sjá má á næstu mynd þarf maður samt ekki að fara til S-Afríku til að fá sól. Var algjör Mallorca blíða síðustu helgi upp í bústað svo að yours truly var úti að vinna á bikiní. Og gúmmístígvélum!!! Og heimasætan sólaði sig eins og sjá má.

Jæja er rokin á íþróttamót með heimasætunni. Sundmót í kvöld og 100m og 400m hlaup á morgun. Svo er bara rétt rúm vika í að einkasonurinn kemur til Íslands. Fyrsta skifti einn í flugi:-s

Lag vikunar er um S-Afríku og ástandið eins og það var undir Apartheit. Sem betur fer er það liðin tíð en þetta er nú samt gott lag þrátt fyrir það og fyrst ég er í smá Afríkuskapi svo fannst mér þetta lag viðeigandi.Gleðilega helgi.