18.3.11

Vinkonur

Er að fara til Íslands í næstu viku. Er að fara að hitta gamla gengið frá Höfn. Skemmtilegustu samkomur sem ég fer á er með þessum gömlu góðu vinkonum. Þó svo að ég eigi nýja vini sem ég get hlegið og skemmt mér með hlæ ég samt alltaf mest með þeim gömlu. Kannski afþví að við hittumst svo sjaldan eða kannski afþví þær eru bara svo skemmtilegar allar sem ein. Mér finnst einhvernvegin svo þægilegt að eiga vini sem hafa þekkt mig alltaf . Held að vinir sem maður á þegar maður er í mótun séu mikilvægustu vinirnir á margan hátt. Kannski líka fyrir mig sem hef byrjað upp á nýtt tvisvar sinnum í nýjum löndum eftir að ég varð fullorðin. Allavegna hlakka til að hitta þær og spjalla og hlægja og heyra hvað er að gerast í þeirra lífi.

Er líka að fara að hitta vinkonur úr Kvennó. Það er líka mikið hlæ hlæ á þeim samkundum. Höfðum ekki samband í mörg ár, þegar allir voru að koma sér fyrir. En fyrir nokkrum árum tókum við upp þráðin að nýju og það var eins og við höfðum allar hist í gær. Ekki málið.

Er líka að fara út með vinkonu á morgun. Aldís er að bjóða okkur í tónlistar og dinnerdag. Búin að redda barnapössun og pússa spariskóna. Hún er sú vinkona hér í landi sem hefur þekkt mig lengst enda var hálfur Hornfirðingur um tíma.

Skál fyrir gömlum og góðum vinkonum. Nei tek það aftur, held ekki að það sé vel séð í alþjóðlegu tryggingarfyrirtæki að maður sé að staupa sig svona snemma á morgnana! Í kvöld ætla ég að skála fyrir gömlum vinkonum og hlakka til endurfundana.

Tileinkað öllum sterku konunum í mínu lífi sem er staðsettar hér og þar um heiminn.Gleðilega helgi.

11.3.11

Stiklað á stóru

-Enn sjór upp að hnjám og snjóaði allan daginn í gær. Taugaáfallið rétt handan við hornið.
-Var á námskeiði í gær um hvernig maður talar við barnið sitt um eigin fötlun. Áhugavert.
- Saga er að fara á "stefnumót" á sunnudaginn með Emil sínum. Bíó og út að borða á eftir. Ég verð fylgdarmær og sé til að allt fari vel fram.
-Ræddi blæðingar og dömubindi við Sögu á miðvikudaginn. Grunar að við þurfum að ræða þetta nokkru sinnum á komandi árum áður en þetta síast inn. Þema: Blæðingar eru ekki hættulegar og maður getur ekki dáið af þeim!
-Búin að kaupa miða til íslands í sumar, voða stutt stopp til að ná í einkasoninn sem ætlar að vera á Hornafirði í júní. Næ þó hátíðinni og vonandi einni fæðingu eða svo.
-Brjálað að gera í vinnunni,ekki tími í meiri skrif. Bless og góða helgi.

Eitt rólegt og gott í vikulok. Gæsahúð.

4.3.11

Síður rass..

Held þar af leiðandi áfram rassæfingum þessa helgina en svo er þetta orðið gott. Verð þá bara að vera með lafandi rass. Það getur nú verið smá smart líka. Eftir viku ætla ég opinberlega að hætta þessu brölti og fara að huga að vorinu. Verð að viðurkenna að þar sem við erum með snjó upp að gluggakörmum verður það kannski ekki svo auðvelt en ég ætla að gera mitt besta. Er allavegna búin að panta mér sumarskóna, með hælum! Gúdbæ vinter og skíði.

Annars er það helsta í fréttum að dóttir mín er að verða unglingur eftir örskamma stund svo að nú eru allir í kringum hana farnir að undirbúa það af kappi. Hverja viku í skólanum fær Saga svokölluð øverord, eða æfingaorð (í beinni) þar sem hún skrifar mörgum sinnum sömu völdu orðin í bók á hverjum degi. Í lok vikunnar tekur hún svo réttritunarpróf þar sem þessi orð eru tekin fyrir. Hvað haldið þið svo að séu orð vikunnar? Blæðingar, túr, unglingur,ástfangin, tilfinningar, brjóst og klof. Halló Fjóla! Ungamama fékk pínu nett sjokk fyrst en þessi elska er svo ánægð með að vera að læra um þetta að maður verður bara að kasta sér útí þetta með sömu gleði og áhuga og hún. Hún er svo áhugasöm um líkamann að maður stendur stundum alveg á gati.

Verðandi unglingurinn: "Mamma ég er með bólu, hvað er inni í bólunni?"
Mamman: Svona ullabjakk :-o
Verðandi unglingurinn: Hvað er inni í ullabjakkinu?
Mamman: Jesúsminnbarn, hrútspungarnir eru að brenna við, verð að hlaupa. Segi þér það seinna.
Ja kannski ekki alveg það sem ég sagði en hugsaði það allavegna. Stundum þurfa mömmur smá tíma til að finna rétta svarið.

Annars erum við bara í sama gamla góða gírnum hér í Noregi. Heimsmeistarakeppnin í skíðum og allt það. Allir í stuði, sjónvarpið á allann daginn í vinnunni. Ég verð bara að viðurkenna fyrir guð og mönnum að ég hef alveg ægilega takmarkaðan áhuga á íþróttum í sjónvarpi. Finnst ég ekki vera neitt verri mannseskja fyrir það.

Þá er það tónlistin. Þetta lag var mikið spilað í Köben á sínum tíma. Ekki alveg það sem ég hlusta á þessa dagana en minnir á góða og mjög svo skemmtilega tíma.Frábæra helgi.