24.6.11

Gleymt blogg

Varð ekkert úr bloggi í síðustu viku og kannski bara allt í lagi. Grunar að það komi ekki margir hér inn lengur enda hef ég ekki skrifað neitt skemmtilegt lengi. Fínt með smá bloggpásu núna. Kannski kem ég sterkari til baka og kemst í gamla formið. Er hálf andlaus þessa dagana og það ekki afþví ég hef ekki frá neinu að segja því það er meira en nóg að gera hjá mér. Held bara að maður fái smá leiða eftir svona langann tíma. Svo að þetta verður síðasta blogg fyrir frí, er tilbaka í endan júlí eða byrjun ágúst. Fer eftir bloggforminu.

Fór annars til Bornholm síðustu helgi með vinnunni. Það var nú mikið húlllumhæ. Fór með sem ljósmyndari með sölufólkinu. Allir sem hafa unnið söluherferðirnar síðasta hálfa ár fara í svona ferð 2x á ári svo að við vorum 150 sem fórum í þessa ferð. Svo mörg að fyrirtækið leigir eigin flugvél fyrir okkur. Beint flug til Bornholm, ekki oft það gerist frá Osló. Allavegna þá var þetta ægilegt stuð, fórum á Miðaldarsenter og borðuðum og drukkum, á hestahlaup, á vínbú í vínsmökkun, bjórsmökkun í bruggverksmiðju og svo galadinner. Semsagt nóg drukkið og djammað. Sem ljósmyndarinn í ferðinni varð ég að halda mér góðri svo að ég var frekar hógvær en ekki hægt að segja það sama um samferðafolk mitt. Lentum á hádegi á sunnudeginum og á vellinum biðu JC og Saga eftir mér. Við vorum að fara til Svíþjóðar að skoða bústað. Enduðum á að rammvillast inn í myrkustu skógum Svíaríkis, Saga ældi sig og allan bílinn út og það varð að klæða hana úr öllu en sem betur fer var ég með farangur svo að hún fékk lánaðar buxur hjá mömmu sinni. Enduðum á að koma of seint að skoða bústaðinn sem okkur leist ágætlega á. En það var þreytt Helga sem kom heim þetta kvöldið.

Erum að fara til Íslands í næstu viku(ef það verður ekki verkfall) að ná í einkasoninn. Hann er búin að vera í góðu yfirlæti hjá afa og ömmu og skemmt sér vel. Eftir þá ferð verður stefnan tekin á Algarve þar sem ég hef hugsað mér að verða brún. Gerist víst ekki hér þar sem það rignir hvern einasta helv... dag.

Jæja er þetta bara ekki nóg í bili.Vona að allir sem ramba hér inn fái gott sumarfrí og svo sjáumst við bara síðar.



Glóðahelgi.

10.6.11

Blessuð börnin

Las um daginn grein sem mig grunar var í Eystrahorni og fjallaði um að fótbolta leikmennirnir í Sindra eyddu heillöngum tíma fyrir framan spegilinn áður en þeir ffæru á völlin að spila leik. Man svo sem ekki hvaða aldurshópur þetta var en grunar að hér hafi verið um unglinga að ræða. Það er svo sem ekkert óeðlilegt, maður var yfir meðallagi upptekin af útlitinu á þeim aldrinum en man samt ekki að ég hafi verið neitt sérstaklega stressuð yfir að ekki líta vel út í íþróttum. Og þetta væri svo sem í lagi ef þessi útlitsdýrkun væri einskorðuð við þennan aldurshóp en það er bara ekki svo. Var að tala við kollega minn í Svíþjóð í gær og hann á son sem er 11 ára. Alveg sama saga, drengirnir eyða nánast lengri tíma fyrir framan spegilinn áður en þeir fara á völlin en að tala við þjálfarann og hvorn annan og peppa sig upp fyrir leikinn. Peppið er greinilega það að öll hárstrá þurfa að vera á sínum stað, ekkert kjaftæði þar. Sé sama tendens hjá syni mínum sem er 10 ára, ekki alltaf vilji fyrir hendi að nota hjólahjálm því það eyðileggur hárið!!! Ó MÆ GOD hvað er að þessu liði.

Hér úti eru margir sem blogga, vinsælt fyrirbæri er svokallaðir bleikir bloggarar sem eru ungar stelpur(13-18) sem bara blogga um föt, útlit,tísku og annað jafn mikilvægt. Þetta les svo stór hópur 10 ára krakka sem eru EKKI orðnir unglingar en greinilega eru í miklum flýti að verða það og taka svo eftir þessu og allt í einu er útlit orðið það mikilvægasta í heiminum. Ég geri mér fullkomna grein fyrir að útlit hefur alltaf verið mikilvægt hjá unglingum en núna er þetta bara farið að færast svo langt niður í aldur að mér finnst það hálf skerí. Krakkar um 9-10 ára sem eru hætt að leika sér með dót því það er svo barnalegt og eyða tímanum í staðinn í tölvuleikjum eins og moviestarplanet og topmodel. Og foreldrar sem kaupa unglingaföt handa stelpunum sínum þó þær séu bara 8 ára. Ég veit ekki alveg hvað maður á að gera til að reyna að sporna við þessu, grunar að það sé frekar erfitt. Ekki er hægt að senda öll börn til Indlands og sjá hvernig hinn helmingurin lifir.

Hér eru líka alveg dæmalaust heimskir sjónvarpsþættir þar sem útlitsdýrkun og heimska er í fyrirrúmi. Hið svokallaða reality TV þar sem hópur af ungu fólki fer í eitthvað stórt einbýlishús með sundlaug og svo drekka þau sig full,ganga um í sundfötum alla daginn brún og glansandi, ríða og láta eins og hálvitar og svo verða þau fræg. Það er nefninlegla nýjasta atvinnugreinin - frægð. Stór hópur barna í dag svarar að þau ætli að verða fræg þegar maður spyr hvað þau ætla að verða þegar þau verða stór. Og það versta við þetta allt að það er frekar auðvelt að verða frægur, allavegna í stutta stund. Bara koma þér inn á einhvern reality þátt, láta eins og fordekraður hálfviti með flott hár og hvítar tennur og vupsi þá er maður orðin frægur. Martröð allra mæðra í Noregi er að börnin þeirra sæki um þáttöku í svona þætti þegar þau eru orðin 18 ára. Myndi hreinlega ganga í sjóinn. Þetta unga fólk sem er mest upptekið af útliti frá barnsaldri á eftir að erfa jörðina einn góðan veðurdag. Hversu skerí er það. Vona að foreldrar reyni að sjá til þess að þessi blessuð börn fái með sér einhver gildi sem eru mikilvægara en hár og föt svo að maður þurfi ekki að kaupa sér geimferð á gamalsaldri til að sleppa við að lifa í samfélagi þar sem fólk kannski verður skotið ef það er með ljótt hár eða gular tennur. Nei segi bara svona!! Jæja þetta var tuð dagsins.

Einkasonurinn komin til Íslands. Og það var nú ekki svo auðvelt. Það er orðið alveg hræðilegt að fljúga til gamla landsins orðir, annaðhvort eru seinkanir vegna ösku eða verkfalls. Vélin héðan var næstum 3 tíma eftir áætlun svo að plönin um að keyra alla leiðina austur var breytt og gistu þeir feðgar á Eddu hótelinu í Vík. Afsláttur og allt!

Hver man ekki eftir þessu?



Góða helgi

3.6.11

Og þá kom sumarið


Eftir frekar napran maí kom loksins sumarið í gær, vona að það staldri við sem lengst. Í því tilefni fór fjölskyldan í langtan hjólatúr. Erum búin að kaupa hjólafesti á bílinn svo að við brunuðum niður á Fornebu(þar sem flugvöllurinn var einu sinni) og hjóluðum um svæðið þar.Rosalega fínt hjólasvæði, allt flatt og hjólastígar útum allt. Þetta var bara eins og að vera í Danmörku. Er ekki vön svona flötu hér þar sem við búum, hér eru bara brekkur og flestar upp í mót! Eftir að hafa hjólað góða stund stoppuðum við á baðströnd þar sem krakkarnir kældu sig í sjónum. Og það verður að segjast að þau urðu ansi vel kæld. En mikið var það uppliftandi að fá svona fínan dag. Spáð áfram góðu svo að ég ætla að ráðast í göngutúra um helgina og svo garðinn.

Ætla að hafa þetta stutt í dag. Ekki það að ég hafi neitt að segja, það er bara svo geðveikt að gera í vinnunni þar sem ég er að fara til Stockholm í næstu viku að ég má ekki vera að þessu. Hefði átt að skrifa í gær!



Góða helgi.