25.5.12

Kvikmyndagagnrýni!

Ef þú hefur ekki séð kvikmyndirnar Country Strong med Gwyneth Paltrow, eða Buried með Ryan Reinolds og þér langar rosa að sjá þessar myndir EKKI lesa meira.

Um daginn sá ég mynd sem heitir Country Strong. Hún fjallar um fræga kántrí söngkonu sem er í meðferð - í x. skifti. Kallinn hennar nær í hana viku of snemma úr meðferð, hún öll voða brothætt en samt sem áður fara þau í stóra comeback tónleikaferð þar sem henni mistekst aftur og aftur að halda tónleika. Fyrir utan þetta fylgjumst við með ungu fólki sem er að byrja sinn kántríferil og sjáum hvernig þau verða ástfangin. Voða kjút. Myndinni líkur með að frægu stjörnunni tekst að klára síðustu tónleikana í ferðinni með glans og svo fer hún inn í búningsklefa og fremur sjálfsmorð !!!

HALLÓ, afhverju býr maður til mynd sem er bara eymd og volæði frá byrjun til enda. Engin von, bara dauði og pína. Sorrý en ég skil ekki svona. Afherju gat hún ekki bara klárað þessa tónleika svo the end. Svo að maður hefði kannski haldið að hún gæti rétt sig við og fundið sig sjálfa upp á nýtt. Og það fólk sem er bölsýnt að eðlisfari myndi þá komast að þeirri niðurstöðu að hún myndi drepa sig í lokin. Miklu betra fyrir sálartetrið.Gef myndinni 3 stjörnur af 6 mögulegum. Mest fyrir sæta kábbojann sem sem fær ástina sína í lokin.

Svo sá ég aðra mynd. Buried. Hún fjallar um mann sem er rænt af einhverjum hryðjuverkamönnum. Þeir grafa hann niður í jörðina í kistu. Hann er ofan í þessari kistu alla myndina, alveg að kafna. Jörð fer að sígast inn í kistuna og hann er alveg að drepast úr innilokunarkennd og ótta. Svo upphefst rosa kapphlaup milli vondu kallana og góðu kallana í von um að góðu kallarnir finni hann áður en hann kafnar og deyr. Og viti menn, haldið ekki að kappin kafni og deyji áður en þeir finni hann.

HALLÓ AFTUR! Eyddi ég í alvörunni 95 mínútum af mínu lífi með innilokunarkennd allan tíman bara til að sjá aðalhetjuna deyja. Disappointed!. Gef þessari myndi mínus 2 stjörnur af 6 mögulegum!

Ég verð að viðurkenna geri þær kröfur til enskra kvikmynda að í þeim sé alltaf snefill að sósíal realisma(fyrir utan Monty Python myndir að vísu). Ég geri EKKI sömu kröfur til amerískra kvikmynda - nema þær séu í brúntónum. Ef eru glaðir og bjartir litir í amerískum myndum verð ég voða vonsvikin ef aðalsögupersónan deyr. Eru myndirnar í brúntónum sætti ég mig miklu betur við að aðalsögupersónan drepist í miðjum klíðum. Lógískt, finnst mér.

En... nú þurfið þið allavegna ekki að sjá þessar kvikmyndir! Sleppið við þá pínu:-D

Hvað er meira viðeigandi en að spila smá melankólíu á þessum fína degi. Þessi diskur er í miklu uppáhaldi þessa dagana.



Góða helgi. Er farin upp í bústað fram á mánudag í þessari sumarblíðu sem við erum svo heppin að njóta þessa dagana.

11.5.12

Eldhúsið mitt



Ég var víst búin að lofa þegar við skiftum um eldhús að sýna ykkur hvernig nýja eldhúsið lítur út. Held að ég hafi gleymt því svo gjörið svo vel. Ég kynni nýja eldhúsið mitt sem er ekki alveg búið! Vantar yfir vaskinn og smá finish svo að það náðist ekki á mynd!

Annars bara allt ok hér í fréttum. Var að taka niður jólakransinn af útidyrahurðinni. Nú fer maður að verða tilbúin í sumarið. Erum að henda okkur í garðvinnuna. Er vongóð þrátt fyrir að vorið sé eitthvað lengi að komast í gang. Það hlýtur að vera á leiðinni og þá er mikilvægt að blessuð blómin séu komin á sinn stað, hrein og fín eins og börn á aðfangadagskvöldi. Ég er búin að taka þá ákvörðun að læra aðeins meira um garðrækt því ég get því miður ekki státað af mikilli kunnáttu í þeim geiranum þrátt fyrir að ég sé með smá garð. Held að það borgi sig líka uppi í bústað því lóðin þar er risa stór og í algjörri órækt. Jæja ætla að fara að grilla hamborgarara í rigningunni. MMMMMM.


Hér er eitt eldgamalt og gott og laaaangt.



Glóða helgi.

4.5.12

Minning

Það er að koma ár frá því að amma mín dó. Ótrúlegt hvað maður venst hlutunum, en á sama tíma þá getur maður gleymt sér í eitt augnablik. Það var bara síðast í gær þegar ég var að tala við pabba minn um hina ömmu mína sem er að fara að flytja í þjónustuíbúð að ég, eina örsekúndu, gleymdi að amma væri dáin og hugsaði að svona íbúð væri góð fyrir hana. En svo mundi ég.

En það er svo margt annað sorglegt sem maður er minntur á hér í Noregi þessa dagana að ég er bara þakklát að hafa átt ömmu og það svona lengi. Sorgin yfir að missa hana er eðlileg. Sorgin í Noregi núna er ekki eðlileg því hún er svo mikil og svo stór blönduð svo mörgum öðrum tilfinningum. Ég fann það þegar þessi réttarhöld byrjuðu að ég er ekki manneskja til að fylgjast náið með þeim. Les eina og eina grein en reyni annars að láta þetta fara fram hjá mér. Vill ekki gera þessu ómenni það til geðs að lesa um hann daglega. Hef lesið þó nokkrar frásagnir þeirra sem voru á Utøya og það er svo hryllilegt að maður skilur bara ekki hvernig fólk kemst í gegn um svona. Og allir foreldrarnir sem misstu börnin sín. Þetta er svo sárt. Stundum dettur maður í umræður um ómennið, það eru skiftar skoðanir um hvort hann sé geðveikur eða bara vondur. Þegar hann var lítill var barnaverndarnefnd fengin til að fylgjast með fjölskyldu hans því það voru áhyggjur um að hann væri ekki að fá þá umönnun sem hann ætti að fá en ekkert gerðist meira í því málinu. Og hann hélt áfram að alast upp hjá sömu fjölskyldu. Kannski að eitthvað hafi vantað í hanns uppeldi sem gerði það að verkum að hann er svona eins og hann er. Maður veit það ekki og það skiftir ekki máli í þessu samhengi. Finnst bara sorglegra en orð fá lýst að ungur maður, uppalin í Noregi og á að hafa haft það eins og blóm í eggi miða við svo marga aðra í heiminum hafi framið svona voðaverk. Bara út af hatri.

Þetta varð nú drungalegra en ég hafði ætlað mér svo að nú drífum við okkur í léttari sálma. Ekki annað hægt á föstudegi eftir svona stutta viku. Föstudagslagið þessa vikuna er í minningu ömmu minnar sem var borgarbarn mikið. Held að þetta sé hann Raggi okkar allra Bjarna! Syngja með, maður verður svo vorglaður af að syngja þetta lag.



Góða og gleðilega helgi.