28.11.08

Meira frá Köben

Svanfríður vildi endilega vita meira svo hér kemur smá meira.
Eins og sjá mátti í síðusu færslu var ég frekar umkomulaus fyrstu mánuðina í Danmörku. Ég var nánast mállaus en skildi aðeins meira en ég gat talað, nánast ekkert sem sagt var í tímum en ég gat hlustað á einfaldar samræður ef fólk talaði hægt á drottningardönsku.

Fyrsta mánuðinn í skólanum var einskonar kynningarmánuður þar sem bara var djammað og djúsað og hygget sig. Ég mætti alltaf galvösk á allt enda hafði ég lítið annað að gera og var að jafnan sú sem kom fyrst og fór seinust. Gleymi seint fyrstu veislunni. Það var búið að dekka á langborð á ganginum í skólanum en hann var frekar þröngur. Ég hafði fengið sæti fyrir miðju borði og nánast ómuglegt að komast á klósettið svo ég endaði á að klifra út og inn um gluggann í kennslustofunni sem var fyrir aftan mig. Mér fannst nefninlega svo erfitt að labba framhjá hálfum bekknum(en við vorum 70) því allir vildu endilega spjalla við útlendinginn svo mér fannst þetta skárri kostur. Þegar danir halda svona veislur eru þeir endalaust að skála. Drukkið var bjór í þessari veislunni og reykingar voru leyfðar inni en ekki var mikið um öskubakka og því voru tómar bjórflöskur notaðar til í staðin. Í eitt skiftið þegar átti að skála greip ég næstu flösku sem ég sá að ekki var tóm og svo kom skå- å- å- ål og svo áttu allir að drekka sem ég og gerði. Betri blöndu af bjór og ösku hef ég sjaldan smakkað! Og þarna vandaðist nú valið, hvað gerir maður til að halda haus? Jú ég tók þá skynsamlegu ákvörðun að láta sem ekkert væri og kyngja fjandanum enda vildi maður ekki gera sig að fífli svona mállaus og allt. Skå- å- å- ål alle sammen. Smil og fuck.....

Svo var farið í skólaferðalag og tekið var fram að allir yrðu að taka með sér 2 lök sem ég og gerði - teygjulök. Ég skildi nú ekkert afhverju ég ætti að taka með mér 2 lök en var ekkert að spyrja neitt nánar út í það því ég var ekki viss hvort ég myndi skilja svarið. Um kvöldið var svo sagt að nú ætti allir að fara í svefnálmuna og klæða sig fyrir veisluna en það átti að vera "togafest" og allir ættu að vera í lakinu sínu og engu innan undir. (Ef þú ekki veist hvað togafest er þá er það veisla þar sem allir eru klæddir eins og Grikkir til forna, í lökum sem er sveiflað yfir axlirnar.) Hvað gerir maður þegar maður er bara með teygjulak með sér afþví maður hefur aldrei heyrt um togafest? Einhver sá aumur á útlendingnum og lánaði mér lak og svo mætti ég í veislu. Mæ god hvað mér leið illa, til að kóróna þetta allt voru mér útvegaðir 2 ungir menn sem áttu að þjóna mér á tá og fingri allt kvöldið. Sátu alveg klesstir við mig og ég sem var nánast nakin. Nei þetta var nú ekki gaman en þar sem ég var sannur íslendingur hellti ég í mig nokkra bjóra því eitthvað var maður að gera til að halda þetta út og svo varð ég líka miklu betri í dönsku þegar ég var komin á fjórða bjór. Hef ALDREI farið í svona veislu síðan og myndi ekki fara þótt mér yrði borgað fyrir það.

Nei það var ekki tekið út með sældinni að vera útlendingur í Danmörku á þessum fyrstu mánuðum. Var eiginlega voða lítið gaman en aldrei hvarflaði að mér að fara heim og eftir á var þetta bara bráðfyndið allt saman.

Lag vikunnar var vinsælt á þessum tíma. Ekki beint léttmeti en gott engu að síður. Síðasti sjens fyrir svona lög á þessu ári því núna eru bara jólalögin eftir og þau eru nú flest jollí. Og svo vill ég bara segja að mér finnst hann Eddie Vedder sem var söngvari í þessari hljómsveit ansi myndó.


Ekki gleyma svo að kíkja hér við daglega í desember. Jólablogg á sínum stað eins og í fyrra. Alveg með sama sniði sem þýðir að ég blogga bara á virkum dögum. Lofa að koma þér í jólaskap fyrir 24 desember.

Gleðilega helgi og fyrsta sunnudag í aðventu.

21.11.08

Ennþá brennur mér i muna..

Í ágúst voru 14 ár frá ég flutti frá Íslandi. Það var nú svolítið fyndið hvernig það bar undir. Það var þannig að ég hafði sótt um 3 skóla í Danmörku veturinn 92. Stuttu á eftir keyptu foreldrar mínir íbúð í vesturbæ Reykjavíkur sem var rétt hjá Háskóla Íslands og var hugsað að ég myndi búa þar enda hafði ég í millitíðinni hætt við að fara til Danmerkur. Verslunarmannaföstudaginn þetta sumar fékk ég svo 3 bréf frá Danmörku þar sem mér var tjáð að ég hefði fengið inn í 2 af 3 skólum og ég yrði að gefa svar eftir helgina. Ég var nátturulega hætt við en ákvað nú samt að hugsa málið næstu daga. Við fórum á Foss þessa helgina og var farið á fjöru þar sem ég var að týna flöskur. Á þessum fjörum eru mjög mikið af flöskum og öðru sem rekið hefur á fjöru og í öllu þessu drasli fann ég flösku sem var hálf grafin ofan í sandin sem reyndist vera flöskubréf - frá Danmmörku! Það var semsagt búið að taka ákvörðun fyrir mig og ég var ekkert að efast um að sú ákvörðun væri röng.

Ég hafði aðeins 3 vikur að pakka og redda mér húsnæði nálægt háskólanum í Roskilde en hann er aðeins fyrir utan Roskilde. Ég reddaði mér herbergi á bóndabæ með aðgang að eldhúsi og baði sem var aðeins 20 mín frá skólanum. Eigandinn náði í mig á lestarstöðina daginn sem ég kom og tjáði mér að öll útihúsin hefðu brunnið til kaldra kola vikuna áður og þegar ég kom á áfangastað fékk ég nett sjokk. Langt úti í rassgati var þetta hús með brunarústum allt í kring og helvítis hundkvikindi sem gelti við minnstu stunu. Ekkert var þvottahúsið og 6 km í næsta bæ með þvottahúsi og strætó hætti að ganga kl 17 á daginn!! Glæsilegt. Herbergið var hræðilegt, hafði hvorki útvarp né sjónvarp og ekki með síma. Brúnt gólfteppi, 1 rúm, skrifborð einn skápur, brúnleitir veggir og allt undir súð. Sama kvöld ákvað ég að ganga í skólann svo ég vissi hvað það tæki ca langann tíma. Mikið rétt, rétt rúmar 20 mínutur tók þessi ganga á sveitavegi þar sem ekkert var að sjá nema beljur og hesta. Verð nú að viðurkenna að þarna brotnaði ég alveg. Þarna var ég langt úti í sveit, þekkti enga, langt frá öllum mannabyggðum og hræðileg húsakynni. Ég hugsaði með mér að þetta yrði stutt stopp í útlöndum!

Í þessum döpru húsakynnum bjó ég í heilann mánuð, hef aldrei á æfinni verið eins einmanna og umkomulaus en svona útá við lét ég sem ekkert var. Hugsaði með mér að þetta yrði nú varla verra og gæti þessvegna bara batnað. Ég vildi nátturulega ekki búa þarna lengi og reddaði mér herbergi mánuði seinna inni í KBH, á Amager hjá einstæðri konu þar sem ég hafði ágætt herbergi með sjónvarpi og útvarpi. Enn þekkti ég enga svo að helgarnar hjá mér fóru í að á föstudögum þegar ég kom heim settist ég með sjónvarpsdagskránna í fangið og skrifaði niður allt sem ég gæti séð í sjónvarpinu þá helgina og það var nú ekki lítið því ég var með kabal. Svo horfði ég á sjónvarpið og borðaði take away því aðra hverja helgi mátti ég ekki nota eldhúsið frá 17 á kvöldin því þá var elskhugi konunnar í heimsókn! Rétt fyrir fyrstu jólin mín kynntist ég svo fyrstu íslendingunum, fékk herbergi á Öresundskolleginu og líf mitt tók stökkbreytingum og frábær ár fylgdu með miklum glaum og gleði. Hér er ég enn, að vísu ekki enn í Köben en enn í útlöndum og lítur ekkert út fyrir að vera neitt á leiðinni heim. Þetta stopp varð lengra en ég bjóst við í byrjun dvalarinnar.

Ætlaði nú eiginlega að vera með danskt lag en svo fann ég þetta líka ljúfa lag sem ég hélt upp á hér i den og mér finnst það bara eldast alveg þrælvel. Erþaggi?



Hamingjusama helgi.

14.11.08

Jólasveinn

Ég gleymdi alltaf að segja frá þessu. Í sumar þegar við vorum í portugal vorum við að keyra á hraðbrautinni frá flugvellinum og þar er 120 km hraðbraut svo að við keyrðum á fljúgandi hraða. Allt í einu kviknaði ljós inni í bílnum og ég skildi ekki neitt, spurði hvað væri að gerast og allt í einu segir Baltasar að hurðin hans væri opin. Drengurinn hafði opnað hurðina í einhverju óráðskasti. Ég kastaði mér aftur í eins langt og ég komst en ég var enn í belti og reyndi að halda hurðinni á meðan JC keyrði bílinn út í kant svo hægt væri að loka almennilega. Ég ætlaði nátturulega að segja frá þessari æsispennandi en óskemmtilegu reynslu strax eftir sumarfríið en gleymdi því að sjálfsögðu.

Annars heyrði ég fyrsta jólalagið í dag "jólasveinn taktu í húfuna á mér jólasveinn..". Þessir tónar hljómuðu úr herberginu hennar Sögu í morgun. Hún spyr daglega núna hvort jólin séu að koma. Hún er alveg tilbúin. Verður gaman að fara til Íslands um jólin þrátt fyrir kreppu og allt það. Svo keypti ég eina jólagjöf í gær svo að þetta er allt að koma. Æi ég hlakka til að komast í jólaskap, borða leverpostej med sveppum og beikoni, drekka glögg og bara jólast. Notarlegt að sitja í stofunni með kveikt á arninum og borða smákökur og maltesín en ég á 2 malt sem ég er búin að vera að spara til að eiga í desember. Við erum samt búin að ákveða að ekki taka með okkur jólagjafir til Íslands. Við erum boðin til systur JC þann 20 des í fjölskyldujólaboð og ætlum bara að opna norsku jólagjafirnar hjá þeim. Ekkert vit í að vera að fara með gjafir með sér til íslands sem maður fer aftur með heim til sín. (Akkurat núna labbaði lítill hundur undir skrifborðið mitt en nágranni minn hér í vinnunni tekur oft með sér tíkina sína sem heitir Lille Pernille! - smá úturdúr) Já svo er spurningin hvort ég ætti að nenna að vera með jóladagatalsblogg í ár eins og í fyrra.

Lag vikunnar er bæði sætt og skemmtilegt. Er alveg eldgamalt svo ég er ekki viss um hvort ég hafi verið fædd þegar þetta var tekið upp. Er ekki youtube alveg frábært. Mér finnst það. Þetta lag er flutt af manninum sem mér fannst svo skrýtið þegar ég var lítil að gæti sungið svona vel og verið blindur á sama tíma. Guess who!



Góða helgi

10.11.08

Stundum

leiðist mér í vinnunni eins og í dag.Ég er að bíða eftir að þeir sem ég er að vinna með skili mér því sem ég þarf til að geta haldið áfram með mitt verkefni. Þeir eru bara ekkert að gera það. Síðasta fundi sem ég hélt með þeim komu þeir 40 mínutum of seint og svo vilja þeir að allt sé tilbúið fyrir jól. Ég er ekki töframaður.Vildi bara koma því frá mér á móðurmálinu því ég nenni ekki að tuða lengur í þeim. Annars er búin að vera ægilega gaman og mikið að gera um helgina. Gama að hafa M og P og gaman að vera í Óperunni. Allar sýningar gengu vel og núna er þetta búið í bili. Skrýtið og gott á sama tíma. Nokkrar myndir á facebook. Legg út meira seinna.

Verður bara næs að geta slappað af næstu helgi og farið í búðir og keypt jólagjafir(afþví það er svo afslappandi!!). Ég er búin að lofa sjálfri mér því að vera búin að kaupa allar jólagjafir 1 desember. Mér finnst ekkert leiðinlegra en að fara í búðir í desember. Verð alveg hræðilega geðvond og fúl í búðartroðningi. Og sveitt, ekki gleyma því. Og mér finnst ekkert gaman að svitna nema þegar ég er í spinning. Er hálfnuð i þessum kaupum nú þegar. Þarf svo líka að kaupa jólaföt á börnin - fyrir 1. des. Baltasar ætlaði að fara í sparifötin að sjá systur sína í óperunni en greyið leit út eins og fimmtugur karl í fermingarfötunum sínum. Það sem hann hefur stækkað drengurinn.

Æi já, er annars bara að blogga þetta til að hafa eitthvað að gera annað en að bíða og láta mér leiðast. Hvernig væri að horfa á eitthvað skemmtilegt?


later

7.11.08

Annar í Óperu




Jæja það kom að því. Frumsýning á óperunni "Jenny - en anderledes opera" og það gekk alveg ljómandi vel. Á þriðjudaginn hefði ég veðjað á að þetta myndi engann veginn ganga en það er svo merkilegt með þennan hóp að æfingarnar geta gengið hörmulega en þegar alvara lífsins tekur við klikka þau ekki. Ég var bak við senuna, hjálpaði prímadonnunni að skifta um búinga og grét þegar við átti en þetta er dramatísk ópera eins og þær að vanda eru sem endar með dauðsfalli í lokin. Á eftir var rosa veisla með ræðuhöldum frá menningarráðherranum, Oslo ordförer og öðru merku fólki. Það voru veittar peningargjafir og fékk Dissimilis í allt um 500 þús norskar, ekki slæmt það. Svo voru borðaðar pulsur og kökur og drukkið djús með sólhlífarpunti, horft á galdramenn og spilað og sungið. Glæsilegt og gaman að þetta skuli hafa verið gert fyrir hópinn. Öll voru þau stolt yfir þessu afreki en þetta er í fyrsta skifti í norskri sögu að svona hópur setur upp óperu. Mikið var gaman að hafa verið með í þessu. Skrýtið að á sunnudaginn er þetta búið. Það ferli sem hófst fyrir 14 mánuðum er allt í einu að ljúka, allavegna í bili. Förum á suðurlandið í mars svo æfingar hefjast eftir áramót að nýju. Set inn nokkrar myndir af dömunni. Hún var nátturulega sætust eins og alltaf.

Guðrún Sigfinns á þetta lag vikunnar. Hún sendi mér link á youtube sem ekki virkaði en ég fann lagið engu að síður. Góða skemmtun Guðrún sem er hjá þýsku þjóðverjunum.



Í kvöld ætla ég í óperuna að sjá dóttur mína, þá verður stuðningsfulltrúinn hennar Sögu með henni. Hlakka voða til. Góða helgi.

3.11.08

And the winner is....



Enginn önnur en hún Guðrún Sigfinnsdóttir. Til hamingjum með það! Nú er bara að velja lag. Gaman að sjá að flestir kunnu þetta enda á hvert mannsbarn á Íslandi að hafa lesið þessa bók í grunnskóla. Stebbi hafði nú gaman að þessari bók og grunar að hann var nú smá skotin í henni Snæju pæju.
later!