31.10.08

Ég var að ljúka við að lesa 980 síðna bók, byrjaði á henni í sumar, tók pásu og byrjaði svo aftur í haust. Í bókinni er kynntar um 5 persónur sem maður fylgist vel með og nokkrar aðrar sem maður fylgist einnig með bara ekki eins náið. Hvernig endar svo bókin, jú allar nema tvær persónur drepast. Hvað er þetta eiginlega. Hvað er verið að láta mann lesa svona helv.. langa bók og svo drepast allir. Algjör bömmer. En þegar þessi var búin varð ég að finna nýja bók og þar sem ég er í íslenska fílingnum þessa dagana valdi ég íslenskt, að sjálfsögðu. Og nú er spurningin, hvaða bók er ég að lesa? Hún hefst á þessa leið."Sú var tíð, segir í bókum, að íslenska þjóðin átti aðeins eina sameign sem metin varð til fjár. Það var klukka. þessi klukka hékk fyrir gafli Lögréttuhússins á Þingvöllum við Öxará, fest við bjálka uppí kverkinni" Sá fyrsti til að svara þessu fær vegleg verðlaun. Þau eru að viðkomandi fær að velja lag vikunnar í næstu viku. Hversu frábært er það! Eina skilyrðið er að lagið verður að finnast á Youtube. Væri samt gaman ef allir myndu geta á bókinni því þetta á hvert mannsbarn að þekkja.

Tæp vika í frumsýninguna hjá Dissimilis í Óperunni. M og P koma á miðvikudaginn og það verður voða gaman og svo förum við öll að sjá sýninguna eftir viku. Verð þá búin að sjá hana nokkru sinnum en aldrei alla í einu. Verð nú að viðurkenna að ég er smá stressuð fyrir þeirra hönd.

Annars er ég öll í sárum vinstra megin í munninum, var hjá tanna í gær en það hafði brotnað upp úr jaxli og hann deyfði mig svo einstaklega vel að ég var allann daginn í gær að bíta smá stykki úr innri kinn. Voða næs. En engar holur. Gat ekki verið betra en ég HATA tannlækna af ástríðu og skil ekki að einhverjum heilvita einstaklingum geti langað að vinna við þetta.

Jæja lag vikunnar bíða allir eftir. Rólegt og jollý fíling og allt það. Er í rólegu skapi þessa dagana.Góða helgi allir sem einn.

p.s ég slökkti á Bylgunni í dag, get bara ekki meira.

24.10.08

Vatnið komið

sem betur fer. Var einu sinna að vinna á leikskóla í RVK og þar var ákveðið að hafa þemadag - dag án rennandi vatns! Ekkert jafnast á við að vinna í leikskóla með 50+ börnum og slatta fullorðnum og geta ekki sturtað niður. Áhugaverður dagur sem seint gleymist en ég ætla ekkert að fara neitt nánar út í það.

Annars er ég orðin einstaklega þjóðleg. Eftir að hafa alið mannin erlendis síðan ég var rétt rúmlega tvítug hef ég orðið meira og meira "skandínavísk". Oft langt í íslendinginn í mér enda gift útlendingi og á útlensk börn og útlenskt líf. Hef svo sem haldið í ýmsa siði eins og hangikjöt á jólunum og maltesín og svo fengu börnin mín bara að hlusta á íslenska tónlist í mörg mörg ár en annars ekkert verið voða íslensk fyrir utan það. Nema núna. Eftir að allt fór í skrall á Íslandi er ég orðin miklu meiri íslendingur. Var í búð um daginn þar sem ég heyrið mann og konu tala saman um ástandið og hvort það væri komin vöruskortur á Íslandi og ég sem annars aldrei tala við ókunnugt fólk endaði í miklum samræðum við þetta fólk en maðurinn var á leiðinni til Íslands.Er yfirleitt ekkert að skifta mér af svona venjulega þótt ég heyri bláókunnugt fólk tala um ísland. Ég er búin að fara oft í lopavestið mitt góða sem ég keypti í sumar og Saga líka verið í sínu síðustu vikurnar. Svo hlustum við bara á íslenska tónlist í bílnum, aðalega þó þegar Saga er með. Við syngjum hástöfum "Ég er á leiðinni", "Vertu ekki að plata mig" og "Þitt fyrsta bros". Krökkunum finnst þetta æði. Ég drakk maltesín í gær og það er búið að bjóða mér í laufabrauðabakstur(first ever)í lok næsta mánaðar og ég ætla að mæta.Svo hlusta ég bara á íslenskt útvarp í vinnunni og horfði slatta á RUV þessa dagana. Þetta þýðir samt ekki að ég sé byrjuð að pakka og ætli að flytja til Íslands. Nei ekki freistandi þessa dagana en ég er samt með ykkur í anda og á Bylgjunni á hverjum degi.

Norðmenn eru uppteknir af því sem er að gerast og ég heyri nánast hvar sem ég er einhvern tala um ástandið á Íslandi, það hafa meira að segja verið fleiri lesendabréf í norsku blöðunum þar sem viðkomandi hafa viljað að norska ríkisstjórnin hjálpi Íslendingum svo við ekki þurfum að fá lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðinum. Svo það eru ekki allir útlendingar sem hata íslendinga. Verð nú samt að segja að kannski hefðu íslendingar átt að temja sér hófsemi norðmanna í gegnum árin í staðinn fyrir að vera að krítisera þá eins og ég hef oft upplifað. Kannski væri ástandið ekki alveg jafns slæmt hjá mörgum.Veit ekki!

Erfiðasta spurning dagsins (fyrir utan hvort ég ætti að fara í gammósíur eða ekki sem ég svo gerði en vissi ekki að það var 13 stiga hiti úti kl 8 og er að kafna!!!) er hvaða lag á ég að velja. Var að spá í að velja íslenskt að sjálfsögðu, eins og allir ættu að gera í dag en það er ekki svo auðvelt því það eru svo fá ísl. lög á Youtube og ekkert af mínum uppáhalds. Svo ég ákvað að velja þetta lag - alveg út úr kú miða við færslu dagsins.Ein uppáhalds hljómsveitin mín og svo var þetta líka uppáhalds söngvarinn hennar Hönnu Siggu vinkonu, henni fannst hann svo sætur(ha ha ha).Fór á tónleika með þeim í Köben - var ein og skemmti mér geðveikt vel. ELSKA síðustu mínúturnar.Enjoy.Gleðilega helgi.

22.10.08

Piss piss og pelamál

púðursykur og króna
ef að mér er mikið mál
þá pissa ég bara í skóna.

Já svona er ástandið hjá mér í dag en þegar ég kom í vinnuna í dag var mér og öllum hér tilkynnt að það væri vatnslaust í allan dag svo nú er eins gott að sleppa að drekka í dag. Og ég sem var búin að kaupa mér smá kók og ætlaði aldeilis að "hugga" mér í hádeginu. Best að sleppa því. Hefði betur unnið heima í dag hefði ég vitað þetta.

17.10.08

Ekki meira krepputal

Kreppa - nei takk.
Kvikmyndir - já takk.
Mér finnst voða gaman að horfa á kvikmyndir en fer nú samt sjaldan í bíó. Veit ekki afhverju. Ég er búin að komast að því að þrátt fyrir að vera komin á þennan virðulega aldur er ég með voða lítið þróaða húmor- eiginlega hálf barnaleg. Ég hlæ að ALLTAF yfir friends og Frasier. Og ég hef nú hlegið mikið yfir The Pink Panther, hann er nú bara alltaf fyndin. En stundum kem ég sjálfri mér á óvert eins og með mynd eina sem ég var alveg handviss um að ég ætti ALDREI eftir að hlægja að og ég man þegar ég sá brot úr henni hristi ég bara hausinn og tilkynnti hátt og snjallt að þessa mynd ætti ég ekki eftir að sjá því hún væri vitlaust, heimskulegog lítið fyndin. Ég fór þar af leiðandi ekki að sjá hana í bíó og leigði hana aldrei á video. Nokkrum árum eftir að hún kom út var hún svo sýnd í sjónvarpinu og ég fór eitthvað að horfa á hana og viti menn - ég hló eins og hálviti yfir nánast allri myndinni. Hálfpartinn skammaðist mín fyrir að þykja þessi myndi fyndin en hún fer svo yfir öll velsæmdarsmörk og vitlaus að það hálfa væri nóg. Hvaða mynd var svo þetta? Hver önnur en "Borat: Cultural Learnings of America for Make Benefit Glorious Nation of Kazakhstan ". Mér fannst hún eiginlega bara sprenghlægileg. Svei mér þá.

Annars er ég orðin svona fílgúd kvikmyndaáhorfandi. Nenni ekki að horfa á einhverjar ægilega dramatískar myndir með dauða og sorg og melankólíu. Mér finnst eiginlega nóg af því í fréttunum. Vill horfa á myndir sem fá mér til að líða vel eða farast úr spenningi, þær þurfa ekkert endlega að skilja mikið eftir sig annað en það. Ég viðurkenni alveg fúslega að mér finnst enn gaman að sjá "A four weddings and a funeral" , "Love acctually" og álíka myndir með reglulegu millibili. Hlæ alltaf yfir þeim þrátt fyrir að ég viti hvað eigi eftir að gerast. Og svei mér þá ef maður er ekki búin að sjá myndir eins og Grease billjón sinnum og meira að segja Mamma Mia tvisvar sinnum og útiloka ekki að ég eigi eftir að sjá hana aftur. Ef það var ekki fílgúd þá veit ég ekki hvað.
Jú og svo er ég ægilega hrifin af Jane Austen myndum og þáttum. Líka svona fílgúd með húmor og ást og flott föt(en á þessum tíma voru konur í voða fínum kjólum). Já það finnast nú margar fínar myndir sem hægt er að horfa á og gleðjast yfir á þessum síðustu og verstu tímum. Er nokkuð betra en að hlægja yfir mynd á föstudagskvöldi og gefa skít í kreppuna? Hvet alla til að horfa á eina góða mynd um helgina.

En þá er komið að því sem þú ert búin að bíða í ofvæni eftir alla vikuna. Lagi vikunar!!! Var að spá í svona fílgúd lagi fyrir þessa helgina.Very very old song(berist fram með inverskum hreim) !Hljóða helgi!!!!!

14.10.08

Saga 9 ára

Litla stelpan mín er að verða stór. Er 9 ára í dag. Til hamingju með það.

Fann þetta og finnst það passa svo vel við Sögu: "I've learned that people will forget what you said, people will forget what you did, but people will never forget how you made them feel." Það verður nú að segjast að jákvæðari einstakling er erfitt að finna. Er geðgóð og tekur öllur á jákvæðann hátt - nema þegar hún er með fyrirtíðar unglingarveiki! Þá rúllar hún augunum í hringi og segir "herregud mamma" en baráttan um sjálfstæðið er farið að gera vart við sig suma daga og ekkert nema gott um það að segja.

Á eftir verður afmæli með 12 stelpum og það verður voða stuð. Sögu er búið að hlakka til í marga mánuði. Hún var voða sæl með afmælisgjöfina frá okkur en við gáfum henni Playmo hús með fjölskyldu og alles og Baltasar hafði keypt handa henni Disney púsl og Disney bók með öllum helstu sögunum. Hún hefur enn voða gaman að því en þessi bók er með nógu stórum stöfum til að Saga geti lesið sjálf(svo dugleg er hún orðin).

Hér er mynd af Sögu á Dissimilisæfingu í einum af búningnum hún á að vera í. Hún tók andköf þegar hún sá þennan fína kjól.


Góða skemmtun í kvöld í Latarbæjarafmælinu þínu Saga sæta. Hipp Hipp Húrra.

10.10.08

Det er da eddermame noget LORT !

Afsakið orðbragðiði en það er nú lítið annað hægt að segja um ástandið í dag.

Sonur minn kom inn á mánudaginn um sexleitið og sagði við mig "mamma hvað er eiginlega að þér, geturðu ekki passað upp á dóttur þína ?". Ég kom af fjöllum, vissi ekki betur en hún væri heima í góðu yfirlæti. Nobb, hún hafði stungið af. Saga hafði skotist út til nágrannana berfætt í hvítum sumarkjól frá Aldísi og farið að hoppa á trambolíninu. Sem betur fer var Baltasar að leika sér þar og var nú ástæðan fyrir þessum flótta hennar en hún hefur séð sér færi að láta sig hverfa þegar hún sá að mamma hennar var upptekin við annað. Hvað var ég svo að gera. Jú,ég var að horfa á íslenska forsetisráðherran hiksta í beinni útsendingu á netinu. Sat sem negld en það var ekki svo auðvelt að skilja þetta hikst hans en það var hræðilegt samband svo allt sem hann sagði var slitrótt en ég náði nú samt því helsta. Mér leið eins og þriðja heimstyrjöld væri að hefjast þvílík var alvaran. Alla vikuna hef ég hlustað, horft og lesið íslenska netfjölmiðla og bara búin að vera á nálum. Mikið lifandi skelfing er ég fegin að við fluttum peninginn okkar frá Kaupþing síðustu helgi. Er að lesa um fólk hér í Noregi sem er búin að "týna" peningnum sínum. Hafði yfirfært frá Kaupþing og fengið kvittun um að peningurinn væri sendur af stað en kom svo aldrei á áfangastað og enginn veit neitt. Hræðilegt ástand allstaðar. Ekkert hægt að segja meira um það.

Annars smá kvart - svona hversdagskvart eiginlega. Ekki neitt eins mikilvægt og ógnvænlegt eins og fjármálaheimurinn. Bara pirrandi að strengur á flestum kvenngallabuxum í dag eru svona á miðjum mjöðmum og flestir hlýrabolir ná rétt niður fyrir miðjar mjaðmir. Þetta þýðir að ef maður ætlar að girða bolinn oní buxurnar og maður sest fer bolurinn upp úr buxunum og maður endar á því að vera ber á milli laga. PIRRANDI!

Ekki er samt hægt að sleppa lagi vikunnar. Mikill bjartsýnissöngur og hægt að dansa við hann líka. Tekstinn passar bara vel við það sem er að gerast núna. En ef þetta er ekki rétti tíminn til að bregða undir sig betri fætinum og taka smá snúning til að létta á sér lundina þá veit ég ekki hvað.
Góða helgi og ekki gleyma að kíkja við á þriðjudaginn því þá eiga sumir afmæli.

3.10.08

Vetur á Íslandi

Sá á Mogganum áðan að það hefur snjóað í höfuðborginni(þeirri íslensku). Ekki var það nú á bætandi, svona ofan í allt sem á hefur gengið síðustu viku. Er búin að hlusta á Bylgjuna alla morgna þessa vikuna og það hefur ekki beint verið uppörvandi. Nú er komin vetur á Íslandi. Eina huggunin er að íslendingar eru jú harðgerð þjóð sem hefur upplifað tímana tvenna og maður bara vonar að þessi harðindi eigi ekki eftir að vera langlíf. Það er á tæru að á Íslandi sem hér í Noregi verður fólk að fara að lifa sparlegra en áður og því miður eru kannski margir sem eiga eftir að missa mikið. Það er nú bara svoleiðis að það sem fer upp kemur alltaf niður aftur .

Finnst alltof mikil neysla í þjóðfélaginu í dag og þá ekki bara á Íslandi. Bara neysla í kringum börn er alveg hræðileg. Hversvegna þarf eiginlega 6 ára krakki sem notar fötin sín kannsi í 3-6 mánuði að eiga merkjaföt eiginlega. Og afhverju er svona mikilvægt að allt þurfi að vera nýtt. Hef ekki ennþá keypt ný hjól handa börnunum mínum. Kaupi notað eða þau erfa hjól frá öðrum krökkum. Vorum einmitt í Lier hjá Aldísi en hún gaf Sögu hjól og fullt af fötum frá dætrum sínum. Frábært alveg. Baltasar erfir föt frá frænda sínum og syni vinafólks okkar. Auðvitað kaupum við nýtt líka en flest þessi föt eru eins og ný því þau hafa verið notuð svo stutt. Honum finnst ekkert að því að ganga í fötum frá öðrum strákum,hefur fengið föt frá vinum sínum líka og finnst það bara kúl.Við gefum svo vinafólki okkar föt af Baltasar og þá oft því sem hann hefur erft og þá eru 3-4 krakkar sem nota sömu fötin. Mér finnst það hið besta mál. Spariföt, t.d notar hann kannski 5 x á ári. Sér ekki á þeim. Saga noar sín föt í tætlur en þar sem hún vex frekar hægt notar hún flest þangað til að það er hreinlega orðið gamalt og tætt. Mér finnt mikilvægt að nýta það sem maður getur hvort sem það eru föt eða annað. Spara þar sem það er hægt. Og ekki það að við ekki tökum þátt í þessari neyslu, auðvitað gerum við það en að öllu jöfnu held ég samt að við séum frekar nægjusöm enda höfum við aldrei tekið lán fyrir neinu nema húsinu og svo námslánin góðu.

Annars lítið að frétta frá Noregi. Rigning og aftur rigning þessa vikuna. Annars allt við það sama. Boring!

Lag vikunnar er gamalt eins og svo oft áður- eldgamalt. Frá einni af mínum uppáhaldsplötum allra tíma. Hef haldið upp á þennan mann frá ég var mjög ung og hlusta alltaf þennan disk reglulega. Og ekki er verri að horfa á hann syngja því hann er nú bara alveg fjallmyndalegur á svona Jésúlegan hátt. Leiðinlegra þykir mér að hann er búin að skifta um nafn.Góða helgi folkens.!