28.1.11

Morning

Klukkan er 7 um morgun. Pabbinn smyr nesti, mamman er að ljúka listaverkinu í baðherberginu(eigin andliti) og unglingarnir sitja og borða morgunmat. Útvarpið er á en samt sem áður sitja unglingarnir með sitt hvorn iPodin og hlusta á eigin tónlist. Bíddu nú hæg, þetta eru ekki unglingar. Þau eru bara 9 og 11 ára og eru börnin mín. Hvað er eiginlega að gerast ?? Ja ekki veit ég, en eitt veit ég og það er að börnum mínum þykir alveg einstaklega vænt um iPodin sín. Saga fékk sinn í afmælisgjöf í haust og hún er enn að þakka mér fyrir þessa bestu gjöf sem hún hefur nokkru sinni fengið - gerir það nánasgt daglega. Þau sofa með þetta í eyrunum og vakna með þetta í eyrunum og syngja bæði hástöfum. Og talandi um að syngja, Dissimilis ætlar að byrja með barnakór og við vorum spurð hvort Saga hefði áhuga á að prufa sig þar. Jú mikil ósköp sagði ég, þekki enga manneskju sem hefur meiri gaman af að syngja en hún. En það verður að viðurkennast að laglausari barn hef ég sjaldan hitt!! En við ætlum að prófa samt. Baltasar er búin að skrá sig í drama í skólanum og syngur nátturulega eins og engill og mamma sín.

Annars er vitlausa eldhúsið komið upp, borðplöturnar koma í dag og á morgun byrjar húsfreyjan að skipuleggja og setja inn í skápana. Já húsfreyjan segi ég því húsbandið fær ekki að koma nálægt þessari skipulagningu. Hér ræð ég ríkjum. Hann má þó hjálpa að setja inn í skápana. En ansi verður þetta fínt. Svo miklu rýmra og praktískara. Húsbandið sagði í gær að nú mætti ekki koma neinn vondur matur úr þessu fína eldhúsi. Hvað meinarðu maður, er ég vön að elda svona vondan mat spurði ég. Hann varð hálf bjánalegur. Ég ákvað að fyrirgefa honum, var örugglega bara enn að jafna sig á ferðalaginu mikla. Annars fékk ég nú smá plástur á sárið þegar hann sagði mér að hann hefði engann tíma til að skoða neitt í Barcelona, það var skítkallt og fékk ekkert sérstakan mat. Var aðalega borðað á steikhúsum og við erum lítið steikarfólk. Hi hi, gott á hann.

Hendi inn hér einu klassísku íslensku.



Gísli Eiríkur helgi.

21.1.11

Drasl.no


Nýja eldhúsið



Svona lifum við þessa dagana.

Eins og það sé ekki nóg að allt sé á hvolfi, ég var nátturulega farin að hlakka mikið til að fá nýtt eldhús. Komst að því í gær þegar var búin að fylla stofuna mína af elhúsinu að þetta er vitlaust eldhús!! Já við höfum fengið vitlausa neðri skápa eða skúffufronta til að vera nákvæm. Varð létt pirruð. Svo er rafvirkinn veikur og kemur ekki fyrr en á mánudaginn, sama dag og á að setja upp þetta vitlausa eldhús. Búið að vera svo mikið rugl á dömunni sem við pöntuðum af. Við höfðum t.d alveg í byrjun pantað svona innstungusúlu sem við svo afpöntuðum og hún sendi okkur meil og staðfesti að hún væri búin að taka það úr pöntununni. Hvað fáum við svo í gær, tvær súlur!!! OG VITLAUST ELDHÚS. Nei það á ekki af mér að ganga.GRRR frekar pirruð núna. Góða helgi.

14.1.11

Eldhúsið tómt...

og ég líka. Bara þreytt eftir þessa viku en nú erum við komin svo langt að eldhúsið er galtómt en stofan alveg troðfull. Ekki hægt að klemma inn einni flugu. Allt á fullu í framkvæmdum. Set inn myndir þegar allt er orðið fínt.

Búin að panta 2. vikna ferð til Algarve í sumar. Jess beibí.Nú verður sumarið tekið með stæl. Hlakka geðveikt til enda veturinn hér orðin gaaaasalega langur. Jibbí jibbí jibbí jibbí. Verðum eina viku við Albufeira og eina viku við Portimao sem er hinu meginn í Algarve. Var ódýrara og svo bara gaman að sjá eitthvað nýtt. Ætlum að leigja bíl hluta af tímanum og skoða svæðið. Verðum á þessu hóteli fyrstu vikuna og þessu þá síðari. Ertu abbó?

Jæja er þetta ekki bara orðið gott? Held það bara. Vendi mér bara strax í föstudagslagið. Aldrei þessu vant er þetta boyband lag sem er ekki mér líkt því ég þoli ekki boyband svona yfirleitt. Nú eru kannski þeir í Take that ekki beint neinir strákar lengur . En allavegna, þá hreinlega líkar mér bara við þetta nýja lag þeirra. Hér í live útgáfu.



Góða helgi folkens.

7.1.11

Gleðilegt ár kindurnar mínar

Já það er sko komið nýtt ár - mehe fyrir því. Með því koma nýir möguleikar. Og nýtt eldhús. Ekki ekki má gleyma nýrri mokkakápu sem húsbandið gaf mér í 40 ára afmælisgjöf. Maður er sko glæsilegur á gamals aldri. Áramótaheitin alltaf söm við sig. Hreyfa sig meira og borða minna. Eða var það öfugt? Svei mér þá það er ekki alltaf gott að segja hvaða áramótaheit maður hefur sett sér.

Jólin fóru í alla staði vel fram. Allir fengu pakka,maturinn var góður, Viggó frændi var hin rólegasti(hi hi, þetta skilja bara þeir sem þekkja hann) og Saga var veik. Ég veit hreinlega ekki um neinn sem ekki átti annaðhvort veik börn eða var sjálf/ur veik/ur þessi jólin. Meiri pestarjólin. Saga var meira segja svo veik að hún læsti sig inni á klósetti á aðfangadagskvöld í staðin fyrir að opna jólapakka. Hún var nú hin hressasta daginn eftir þegar móðir hennar ákvað að fara í stutta gönguferð. Ekki nema 11 stiga frost og smá gjóla og þegar við komum heim, 2 klukkustundum seinna var sú stutta alveg búin á því. Kannski að maður ætti að fara að muna að það er ekki nóg að komast á valin stað, maður þarf líka að labba tilbaka. Gosh hvað lærin á mér voru freðin. Sem betur fer varð þeirri stuttu ekki meint af og lærin mín höfðu nú örugglega gott af smá blóðstreymisbreytingu(er það orð?).

Viggó fór svo heim á annan í jólum og ég fór að vinna í nokkra dag. Nú og svo gleymdi ég syni mínum. Ekki má gleyma því! Hann hafði farið á snowboard námskeið. Ég átti að ná í hann kl 1400. Klukkan 1440 kom pabbi hans heim og spurði hvernig Baltasar hafði gengið á námskeiðinu. Ups! Hafði mín ekki bara steingleymt að ná í barnið. Hverskonar móðir er það sem gleymir barninu sínu ég bara spyr. Ég hafði semsagt fengið gesti 10 mínútum áður en ég átti að ná í hann og það var hreinlega eins og ég hefði fengið snöggann heilaþvott. Allt gleymt. Eins gott að skíðabrekkan er hér rétt handan við hornið. Tók ekki langann tíma að ná í hann. En drengnum var nú ekki meint af. Honum fannst þetta nú bara fyndið, húmoristi hann sonur minn.

Ætla að halda smá veislu á morgun. Verðum 13 til borðs(er ekki hjátrúarfull). Bara konur sem ætla að borða Tapas, drekka vín og hafa það gaman. Sá mér ekki fært að ná svona háum aldri án þess að halda smá teiti. Hlakka til.

Hendi mér bara strax í stuðið með þessu ljómandi góða lagi.



God helg.