27.2.09

Kreppa

Það kom að því að kreppan næði Noregi og mínu heimili. Er að missa vinnuna. Staðan mín verður lögð niður og ég verð látin fara. Ég varð nú ekkert rosa hissa en hafði samt búist við að ef þetta gerðist yrði það nær sumrinu en þetta. 80% af tekjum fyrirtækisins koma frá auglýsingum og það verður nú að segjast að það hefur verið ansi lítið af þeim hjá okkur síðasta 1/2 árið. Hefði nú kosið að segja upp sjálf en satt best að segja er ég búin að vera óánægð þarna síðan í sumar en hefði samt þraukað. Maður veit ekkert hversu lengi þetta ástand varir og ég get þessvegna endað að vera atvinnulaus lengi og það er verra en að vera óánægður í vinnunni.Ég vona að ég eigi eftir að finna eitthvað flótlega en ég hef ekki áhuga á að vinna í fjölskyldufyrirtæki aftur og hafa son eigandans sem yfirmann.Það er mjög pirrandi oft á tíðum. En allavegna svona er staðan í dag, hætti að vinna í sumar og verð vonandi komin á skrið með eitthvað annað þá eða allavegna vel á veg. Á svona stundum kemur íslendingurinn upp í mér og ég segi bara "Þetta reddast!".

En annars bara veikindi enn og aftur, búin að vera heima alla vikuna með bronkítis og drulluslöpp en fékk á endanum pensilín og er að batna.

Síðustu helgi vorum við í hytte og á sunnudeginum hvarf heimasætan. Sú hafði ákveðið að fara í smá skíðatúr með hund frænku sinnar án þess að láta vita og þegar ég á endanum fann hana var hún búin að skíða 1 km. Ekki skemmtileg upplifun en hún var allveg sallarólega þegar ég spurði hvað hún hefði verið að gera. Jú hún hafði verið í göngutúr með hundinn. En mamma verður hrædd þegar þú ferð án þess að láta vita. Ó fyrigefðu mamma:-) !!


Lag vikunnar er með sjálfustu gæjunum í queen. Ekkert endilega besta lagið þeirra en ég heyrði þetta í útvarpinu um daginn og var alveg búin að gleyma þessu lagi sem ég hafði gaman af í den. Í þessu videoi er Freddie klæddur eins og risarækja með fjöðrum. Frekar furðulegt videó.


góða helgi.

20.2.09

hvað heldur þú?

Nokkru fyrir jól rakst ég inn á blogg á mogganum. Þar skrifaði íslensk kona búsett í bandaríkjunum, einhleyp og barnslaus. Hún var búin að ákveða að binda enda á líf sitt á aðfangadag vegna lífsleiða og vöntunar á einhverju að lifa fyrir. Hún var búin að selja hús sitt og hætt að vinna og flutt á gistiheimili í annari borg. Ég verð nú að viðurkenna að ég varð smá forvitin og las þetta blogg því það er ekki á hverjum degi að fólk skipuleggur brottför sína svona vel og kýs að skrifa um það á opinberum vettvangi en þar sem ég er frekar tortryggin var ég ekkert viss um hvort ég ætti að trúa þessum skrifum en sá samt enga ástæðu til að gera það ekki.

Á meðan hún var að bíða eftir að dagurinn rynni upp(og það var nú töluvert langt í hann) hitti hún mann sem hún svaf hjá og skrifaði eitthvað um það. Hún hélt svo áfram að skrifa og fór að skrifa um barnsæsku sína en hún hafði alist upp hjá fósturforeldrum sem voru vond við hana en höfðu svo framið sjálfsmorð bæði tvö - saman. Svo fór hún að leita að alvöru foreldrum sínum og fann að lokum afa sinn sem sagði henni hvernig kom til þess að hún endaði í fóstri. Kom í ljós á endanum að alvöru foreldrar hennar höfðu drepið fósturforeldrana og stungið af og engin komist að neinu. Þegar hér var komið til sögu var ég orðin ansi viss um að þetta væri allt saman spuni en ákvað nú að kíkja við aftur rétt fyrir jól til að sjá hvernig þetta blogg myndi enda.

Viti menn, kvöldið sem hún ætlaði að keyra á fyrirfram ákveðna staðinn sem hún ætlaði að enda líf sitt lenti hún í bílslysi og slasaðist og var lögð inn á spítala. Þar kom í ljós að hún væri ólétt! Hún hafði samband við þennan mann sem hún hafði sofið hjá og viti menn - hann var ófrjór og hélt ekki að hann gæti átt börn og í þokkabót var að skilja við konuna sína því hann var orðin ástfanginn af þessari konu. Og þegar maður hélt að þetta væri búið þá kom næsta, hún er ólétt af tvíburum. Hvað annað!

Í byrjun var fullt af fólki sem kommenteraði hjá henni og óskaði þess að hún myndi skifta um skoðun og vilja lifa og allt það, eftir jól fór ansi að fækka því mig grunar að ég sé ekki sú eina sem grunaði að þetta væri bara spennandi saga en samt er enn fólk sem er að kommentera og óska henni til hamingju með tvíbbana. Ég verð svona hálf óviss hvað mér á að finnast um að fólk skrifi á blogg á þennan hátt og lætur fólk trúa að þetta sé satt. Líkurnar á að þetta sé satt eru engar því að það er karlmaður skrifaður sem ábyrgðarmaður fyrir þessu bloggi og allir sem eru með íslenska kennitölu geta skráð sig svo ef þessi kona er raunveruleg ætti hún að geta skráð sig sjálf. Hvað finnst þér? Er í lagi að fólk skrifi skáldsögur á bloggi án þess að gera fólki grein fyrir að þetta sé skáldskapur.

Annars bara allt á kafi í snjó og virðist ekkert vera að hætta að snjóa. Snjó-ruslahaugar Oslóar eru að verða fullir en talið er að sá snjór sem er þar núna eigi ekki eftir að bráðna fyrr en með haustinu!Það er ekki lengur hægt að mæta bíl í götunni minni og bílastæðið fer óðum minnkandi. Orðin meterssnjór í garðinu hjá okkur. Þetta er orðið alveg ágætt í bili finnst mér. Erum annars að fara í hytte, vonandi verður enginn veikur í þetta skiftið. Orðin leið á veikindum en Baltasar varð aftur veikur síðustu helgi.

Og eitt enn. Hvernig stendur á því að íslensk vefblöð eru svo lengi að opna síðurnar sínar. Ég les vefblöð frá hinum norðurlöndunum daglega og engin eru svona "slow" eins og þau íslensku! Vísir fær netlesarann minn til að frjósa reglulega.

Lag vikunnar er gamalt og gott og söngvarinn eitthvað með bad hair day!


Góða helgi.

13.2.09

Ojbarasta og ullabjakk

Magakveisa búin að herja á alla fjölskylduna síðan síðustu helgi, fyrst krakkarnir svo húsbandið og svo ég. Upp og niður út og suður og allt það.Versta sem ég veit. Við áttum að fara í hytte um helgina en verðum að sjá hvernig fer með þá ferð því gestgjafinn er búin að liggja með flensu alla vikuna og ég er ekki beint í toppformi. Kannski að það sé í lagi því það er svo hræðilega kallt hérna þessa dagana. Í gær þegar Saga fór í skólann sýndi mælirinn -20 gráður þar og það átti að vera skíðadagur. Þau fóru út en ekki fyrr en um 11 leitið því það var bara of kallt. Þegar er svona kallt frýs í nefinu á manni,maður fær hreinlega með grýlukerti í nös!Ekki á hverjum degi sem það gerist. JC var úti í garði síðustu helgi að saga greinar á stóra trénu okkar sem höfðu brotnað undan sjóþunga og hann óð snjó upp á mið læri. Á sama tíma var 52 stiga hiti í Ástralíu þar sem mágkona mín bjó en hún flutti heim í janúar. Held að 20 stiga frost sé þá betra, get ekki ímyndað mér hvernig 52 stiga hiti er.

Ég lærði nýtt orð í vikunni. Kameltá. Bjarni gamli granni kenndi mér það.Komst að því að ég hef afklæmst all verulega síðan ég flutti frá Íslandi.

Annars er orðið erfiðara og erfiðara að finna lag vikunar því youtube er farin að loka fyrir að maður leggi út fullt af lögum, eða svo er ekkert hljóð á þeim eða svo er ekki hægt að horfa á lögin í þessu og hinu landinu. Ferlega pirrandi.Þegar ég heyrði þetta lag aftur eftir mörg ár var ég alveg hissa að ég kunni tekstann enn og svo man ég ekki stundinni lengur hvað ég gerði í síðustu viku eða bara í gær!



Gæða helgi.

6.2.09

Það er komin föstudagur og flösku ég mér fæ..

Man einhver eftir þessu lagi sem einhver samdi við lagið "Súrmjók í hádegið" og maður söng hástöfum á föstudögum í frystihúsinu? Nei segi bara svona.

Hér er bara annars lítið í fréttum. Hef ekkert merkilegt að segja og þetta verður eflaust mjög andlaus og lítil áhugaverður pistill. Sjáum hvað setur. Annars eru bara vetraríþróttir hér í hámæli. Krakkarnir fara með skíði og skauta í skólann og allt er voða vetrarlegt og kalt. Saga fór á gönguskíði síðustu helgi með okkur, við vorum svo vitlaus að taka ekki með okkur skíði því við ætluðum bara að tölta við hliðina á henni. How stupid! Hún hefur tekið svo miklum framförum síðan í fyrra að hún skíðaði miklu hraðar og betur en áður og þar að auki var svo mikill snjór að við sukkum niður að hnjám sumstaðar. Mægod hvað ég var þreytt eftir þetta ferðalag. Baltasar fer í fullorðinsbrekkurnar eins og ekkert sé og Saga fór í sína fyrstu fullorðinsbrekku í vikunni. Held að mamma gamla verði að taka sig á því ég er lélegust á skíðum í þessari fjölskyldu - en best í eldamennsku, skipulagningu og bakstri!! Við erum að fara 2 helgar í röð í hytte í vetrarfríinu og þá verð ég að taka á stóra mínum og skrönglast í brekkurnar með skíðin og æfa smá. Ég er bara ekki mikil skíðamanneskja í hjarta mínu og það er nú ekki gaman þegar maður býr í Vinter Wonderland. Og ef þú heldur að hytte sé einhver smá kofi uppi í fjalli þá eru báðar þessar stærri en húsið sem ég bý í. Mjög svo villandi finnst mér að kalla það hytte.

Er að skipuleggja sumarfrí í Danmörku í júlí. Búin að panta far og ekki seinna vænna því það var að verða fullt. Geggjun segi ég nú bara. Verðum rétt fyrir utan Aarhus í bústað rétt hjá strönd svo að það er ekki verra ef það verður sól. Verðum svo nokkra daga á Samsö þegar þessi vikudvöl í bústað er lokið. Hefur alltaf svo langað að vera á danskri eyju í smá tíma og kobla mig út úr stressinu og bílívjúmí vikan á Jótlandi verður ekkert sumarFRÍ. Búið að lofa ungviðinu bæði Legolandi, Sommerland og Givskud Zoo. Fyrir utan þessa viku er ekkert búið að skipuleggja meira af fríinu en ef maður ætlar að fá far með ferjum og sumarhús á sæmilegu verði er það núna sem maður verður að ákveða sig. Norðmenn eiga eftir að ferðast meira um norðurlöndin í ár en önnur ár vegna kreppu og þá flykkjast allir til DK í von um betra veður og ódýrari bjór. Hann er það nú ekkert lengur, það er bara svo hyggelig i Danmark. Búin að ákveða að kaupa súkkulaði álegg, svona plötur eins og við borðuðum á rúgbrauð meðan ég bjó þar. Það er svo gott saman. Mikilvægt að skipuleggja svona hluti ! Svo ætla ég líka að vera brún og líta út eins og fyrirsæta - ekki Kate Moss samt. Mér hefur aldrei fundist hún flott eða falleg.

Merkilegt að ég hef aldrei neitt að segja en þegar ég kemst í gang þá er ég alveg óstöðvandi, það sem er hægt að blaðra um allt og ekkert. það kjaftar á manni hver tuska. Hvernig ætli ég verði þegar ég verð búin með þessa flösku !!!

Jæja þá er komið að rólega lagi vikunnar. Búið að vera uppáhaldslagið frá það kom út, verð svo vær þegar ég heyri það.( Vissir þú að þetta lag kom út á Agnetha Faltskogplötu(cd) úr Abba hér áður fyrr? - já svona veit ég mikið).



Gleðilega helgi.