27.11.09

La la la la la ævintýri enn gerast

Síðustu helgi fórum við Saga í hytteferð með Aldísi og hennar dætrum. Þetta kallast eiginlega ekki hytte heldur seter sem er það sama sem sel en sel þetta er langt uppi í fjalli, um 30 mín akstur frá næsta þorpi og í gamla daga flutti fólk þangað á sumrin með dýrin sín sem fengu þar gott og vænt gras. Þetta er allt mjög svo upprunalegt, finnast munir frá 1923 í húsinu, gömul og flott húsgögn og flott staðsetning, hvorki rafmagn né rennandi vatn og útiklósett. Bara eins og í gamla daga.

Ferðin upp í fjall var ekkert voðalega skemmtileg enda er ég bílhrædd og það var niðamyrkur og glerhállt en upp komumst við og höfðum það gott föstudag og framan af á laugardeginum. Seinnipart laugardags þegar við vorum búnar að borða, var vaskað upp og Saga vildi hjálpa til. Hún þurkaði diska og átti svo að setja þá á sinn stað og átti einn þeirra að fara inn í stofu. Ekki gekk betur en svo við að setja diskinn á sinn stað en að hún datt um aðra stelpuna hennar Aldísar og skar sig á diskinum. Þeir sem hafa verið í bústað án rafmagns vita að þegar dimmt er úti er ekkert voða bjart inni þrátt fyrir kerti og luktir en ég færði hana í meiri birtu og sá þá að hún var með skurð við úlnliðinn á hægri hendi og svo gat undir olnboganum á vinsti handlegg. Ég sá strax að það yrði að sauma þetta en sem betur fer blæddi ekki neitt voða mikið og sárið á úlnliðinum var ekki alveg við púlsinn en var samt ekki gott að segja hversu nálægt það var. Við ákváðum að keyra niður eftir en þar sem maturinn var búin og við búnar að fá okkur rauðvínsglas með matnum vorum við smá stressaðar en lögðum íann samt. Við hringdum til að athuga hvar næsti læknir væri og það var í Lillehammer en það er um 55 km frá þorpinu undir fjallinu. Aldís hafði í öllu stressinu gleymt gleraugunum sínum og ég var ekki í stuði til að keyra enda afleytur bílstjóri og hefði endað mað taugaáfall áður en ég kæmist hálfa leið. Svo niður keyrði Aldís hálfblind með eitt rauðvínsglas í maganum. Á endanum ákvað ég að hringja í 113 því við vorum ekki alveg vissar hvernig það gengi að keyra til Lillehammer og það var ákveðið að senda sjúkrabíl til að keyra okkur til Lillehammer ef sjúkrafólkið í bílnum héldi að það yrði að sauma.

Við vorum heila eilífð niður fjallið því nú var komin niða þoka ofan í alla hálkuna. Svo þétt að maður sá varla húddið á bílnum. Sjúkrabíllinn hringdi oftar en einu sinni til að athuga hvað væri orðið af okkur en við keyrðum á snigla hraða til að tryggja að við kæmumst öruggar niður. Loksins komumst við að sjúkrabílnum og það var ljóst að það þyrfti að sauma og vorum við Saga keyrðar til Lillehammer- í niða þoku. Fyrst þegar Saga var deyfð byrjaði hún að gráta, hafði ekkert grátið síðan hún datt- ótrúlega dugleg. Hún var saumuð báðu meginn en læknirinn deyfði ekki vinstri hendina því það þurfti bara eitt spor til að loka en duglega stelpan mín lét sig hafa það. Fékk svo bara lási hring í verðlaun sem var allt of lítill, hefði hann passað hefði þetta verið topp verðlaun.

Þegar allt var búið var okkur boðið að taka leigubíl tilbaka sem hefði þýtt um hálftíma akstur frá Lillehammer að þorpinu í þoku og svo annan hálftíma í þoku og hálku upp fjallið og vera þar yfir nóttina og keyra heim morgunin eftir. Læknirinn hafði sagt að ég yrði að fylgjast með henni um nóttina og ég gat ekki hugsað mér að fara til baka. Fyrir það fyrsta var sjálf ferðin ekki skemmtileg og svo tilhugsunin ef hún hefði orðið eitthvað slæm um nóttina ekki skemmtileg. Fara út á klósett í hálku og niðadimmu osfr. Ég tók þá ákvörðun að fara á hótel sem við og gerðum og við höfðum það ægilega gott þar. Borðuðu snakk og horfðum á sjónvarpið. Saga var alltaf að vakna alla nóttina og gráta og átti erfitt svo að ég vissi að ég hefði tekið rétta ákvörðun. Morgunin eftir kom svo Aldís og náði í okkur en hún hafði á endanum fengið tengdapabba sinn til að keyra sér upp í fjall því færðin var svo erfið en það var annað ævintýri sem hún getur sagt frá.

Saga er í fínu formi núna en getur ekki notað hægri hendina svo þessa vikuna hef ég þurft að klæða hana í föt og skeina og allt sem hún annars getur sjálf. Hefur verið mjög sár og bólgin en gat lokað lófanum í gær svo þetta fer allt að koma. Saumarnir verða teknir um miðja næstu viku.

Þetta var semsagt það helsta. Er að fara út að borða með húsbandinu í kvöld, halda upp á síðbúin brúðkaupsdag og svo afmælið mitt sem verður eftir viku. Síðasti afmælisdagurinn minn sem 30 og eitthvað. Djí hvað ég er orðin gömul. Svo fer ég bara að jólast. Held svei mér þá að ég taki upp jóladiskana á sunnudaginn og spili smá jólalög meðan ég hendi saman aðventukransinum. Í ár verður ekki neitt jóladagatal hér á blogginu. Hef hreinlega ekki tíma.

Held mig við nútímann þessa vikuna. Smá rokk frá Noregi.Glóða helgi.

20.11.09

Stundum fer ég ægilega í taugarnar á húsbandinu. Það er oftast þegar ég er að ganga frá. Ég fæ svona köst. Dæmi: húsbandið fær sér vatn í glas og klárar það og leggur það frá sér. Ég geng fram hjá, tek glasið og set það í uppþvottavélina. Hann leitar út um allt að glasinu sem hann var að nota en viti menn það finnst hvergi. Hann spyr mig hvort ég hafi tekið glasið hans og ég kannast ekkert við það. Hann finnur það í uppþvottavélinni og ég skil ekkert í neinu. Þetta eru nefninlega alveg ósjálfráð viðbrögð. Var að steikja kótelettur í vikunni. Tók gaffal til að flytja kjötið frá pakkningu yfir á bretti og setti gaffalinn í uppþvottavélina. Barði svo kjötið og ætlaði að færa það yfir á pönnuna og fann ekki gaffalinn, skildi ekki neitt í neinu og náði í nýjan. Ég notaði 3 gaffla í þessari steikingu. Veit ekki hvað kemur yfir mig stundum. þetta er eins og að vera flogaveik. Kemur einstöku sinnum og ég man ekkert eftir að hafa gert þetta en ég hef tekið eftir því að þetta gerist yfirleitt þegar er óvenju fínt og hreint heima hjá mér. Greinilega einhver desperat þörf fyrir að halda fínu smá lengur. Tekur yfirleitt ekki nema 3 tíma frá við komum heim í hreint hús þegar ræstitæknirinn hefur verið að verki þangað til að allt er við það sama. Sorglegt en satt. Drasl á það til að koma af sjálfu sér.

Er að fara í hytteferð með Aldísi og dætrum. Stelpu-fyrir-aðventu-ferð. Ég varð smá stressuð því ég misskildi Aldísi og hélt að hún ætlaði að föndra fullt í þessari ferð. Ég er algjör sveppur þegar kemur að föndri. Hverju ættum við mægður að finna upp á. Sem betur fer var þetta misskilningur svo að hún ætlar bara að skrifa á jólakort og ég ætla bara að slappa af og lesa blöð eða eitthvað. Jólakortin hjá mér eru í vinnslu og svei mér þá ef þau verða ekki send fyrr en síðar.

Þarf ekkert að kynna lag vikunar. Gamalt og gott.Góða helgi.

13.11.09

Matargat

Var að panta mér nýja uppskriftarbók frá Amazon. Rakst á hana fyrir tilviljun þegar ég var að kaupa jólagjöf þar og þar sem ekki færri en 67 einstaklingar gáfu þessari bók toppeinkun varð félagsveran ég, nátturulega að vera eins og allir hinir og kaupa bókina. Mikið hlakka ég til að fá hana heim. Hef bara sjaldnast hlakkað eins mikið til að fá neina bók eins og þessa. Alveg er ég handviss um að líf mitt eigi eftir að taka stakkaskiftum við lestur þessarar bókar. Ég er búin að vera svo andlaus í eldamennskunni í allt sumar og haust og ég þarf á innblæstri að halda og ég trúi því ekki að allt þetta fólk sé að plata mig.

Ótrúlegt hvað matur skiftir miklu máli. Stundum verð ég svo matleið að ég finn ekki upp á neinu og stundum er ég svo frjó að ég enda á að fá valkvíða sem endar með að ég finn ekki upp á neinu! Núna vill ég elda eitthvað annað og nýtt. Annars man ég eftir þegar ég hef borðað þetta og hitt í fyrsta sinn. Man þegar ég fékk Taco í fyrsta skifti. Það var mín fyrsta mat-upplifun sem breytti lífi mínu smá. Aldrei hafði ég smakkað neitt eins og þetta og fannst það æði og lærði meira segja að elda það (Vá hvað ég er leið á því í dag). Og svo man ég þegar ég bragðaði á Thai mat í fyrsta skifti. Það var hrein opinberun. Var á ferlaga sjöbbí veitingarstað í Köben og bjóst nú við flestu öðru en góðum mat, þjónarnir voru í eigin fötum eins og smekkbuxum, diskarnir pössuðu ekki saman og voru sumir úr plasti, veggirnir voru læm grænir með glimmermyndum og maður fékk vatn á fernu. En mikið fjandi kunni þetta fólk að elda. Ég næstum grét. Og ég man eftir spagettí sem ég borðaði á Rimini þegar ég var 13 ára, það var svo gott að ég man hvar staðurinn var. Ég man líka þegar ég smakkaði Ostrur í fyrsta skifti. Það var einnig það síðasta. Og svo fékk ég ægilega góðan forrétt í Róm í hittifyrra sem samanstóð af kartöflum, trufflutapenade og osti. Geðveikt. Og ekki má gleyma upplifun ársins og ef ekki áratugarins sem er ísinn sem ég borðaði í París í vor. Hvítan súkkulaðiís með Wasabi sósu. Ég næstum dó. Og hvað var svo í matinn hjá mér í gærkvöldi. Jú pizza úr búðinni og brauð með spægipylsu. Ef það er ekki gormei svo veit ég ekki hvað.

Er annars að fara á mömmu downs kvöld í kvöld og allir eiga að taka með smá rétt. Ég ákvað að búa til eigið artichok tapenade. Sjáum hvort það verði einhver upplifun.

Lag vikunar er rólegt. Með einni af mínum uppáhalds söngkonum. Ég fer alltaf næstum því að gráta þegar ég heyri það. Svo krúttlegt.Góða helgi og eitt að lokum. Hlustar einhver á lag vikunar? SVARA!

6.11.09

Góð lykt

Baltasar er að vonast til að fá að ganga í skóla á Höfn í lok skólaársins. Það fer samt eftir námsárangri hjá honum hvort hann fær að fara, hann er ekkert ægilega áhugasamur um nám og árangur eftir því. Ef hann tekur sig á og lærir að lesa á íslensku í vetur fær hann að fara. Honum langar rosalega. Við vorum að labba í skólann um daginn og þá fór hann að tala um hvað hann saknar vina sinna á Höfn en hann hefur verið mikið með frændum sínum, Hafsteini(Gugga og Steini) og Axel (Eva og Frissi) og svo nágrannastrák sem heitir Andri. Svo saknar hann afa og ömmu og restinni af fjölskyldunni og svo saknar hann lyktarinnar á Höfn. Hún er svo góð!! "Ha" sagði ég, finnst þér góð lykt á Höfn. Já það er svo góð lykt þar sagði hann og svo er svo notalegt hvað er langt á milli húsana þar. Og svo er svo notalegt hvað er stutt til allra vina minna þegar ég er þar. Ég myndi segja að sonur minn sé Hornfirðingur í hjarta, en hann hefur verið þar undanfarin sumur og á vonandi eftir að dvelja þar hvert sumar þangað til afi hans og amma segja að þau vilji ekki fá hann lengur. Ég vona að hann eigi eftir að fá að vinna á Höfn á sumrin. Það var alltaf svo ægilega gaman á Höfn á þeim árstíma eða nei, það var kannski of mikið stuð til að ég þori að senda hann þangað sem ungling!

Fékk svínabóluna í gær og enn sem komið er finn ég ekki fyrir svo miklu nema mér er hundillt í handleggnum þar sem ég var sprautuð. Vaknaði oftar en einu sinni í nótt til að skifta um stellingu og hagræða handleggnum. Vona að þetta verði það eina sem ég finn fyrir af aukaverkunum.

Jú og svo eigum við hjónakornin brúðkaupsafmæli á sunnudaginn. Verð nú að viðurkenna að við munum ekkert alltaf þennan dag og Jc man hann yfirleitt betur en ég. Ég er voða léleg í afmælum og svoleiðis. Hef meira að segja gleymt sjálfri mér hálfan dag, mundi það eftir hádegi að ég ætti afmæli. Maður er ekki alltaf í lagi!


Lag vikunar er norskt og mér finnst það gott og flott video.Goða helgi.