21.12.12

smá jólastress

Sumir dagar eru erfiðari en aðrir. Gærdagurinn var einn slíkur. Byrjaði á að ég átti tíma hjá kírópraktor klukkan 9. Ég mætti á réttum tíma því ég er með eindæmum stundvís kona, þegar ég var búin að sitja þar í 25 mínútur og klukkan að verða hálf 10 fór ég í móttökuna og spurði þar hvort hann væri ekki örugglega mættur til vinnu. Jú hann var nú það en voða seinn. Ég varð því miður að sleppa tímanum því ég átti að fara til læknis klukkan 10 og þurfti að koma við heima fyrst.

Ég var mætt til læknisins á réttum tíma og spurði hvort það væru seinkanir, nei nei ég var fyrsti sjúklingurinn. Eftir að hafa setið þar í að verða hálftíma fór ég í móttökuna og spurði hvort læknirinn væri ekki örugglega mættur í vinnu. Konan í móttökunni hringdi í lækninn sem var þá rétt að renna í bílastæðið. Kommon. Maður mætir ekki í vinnuna hálftíma eftir að fyrsti sjúklingurinn á að vera inni. Ég ákvað að segja eins og væri að þetta þætti mér bara alls ekki í lagi að koma svona seint og allt það og þetta var stutt heimsókn. Fékk allavegna lyfseðil og dreif mig í apótekið. Þar inni var um 20 manns og allt ellilífeyrisþegar, ekki þessir ungu og spræku en þessir sem eru um áttrætt og yfir.

Ég var orðin svo sein í vinnuna að ég ákvað að fara í annað apótek. Fór þangað, smá spölur að ganga, fyrst í gegnum verslunarmiðstöð og svo smá spotti úti. Ég hljóp þangað, klædd eins og eskimói í pelskápu og ull innst sem yst svo að ég var létt heit þegar ég kom þangað. Það apótek átti ekki þetta lyf!! Ég var búin að fylla innkaupakörfu með vítamínum og plástrum og jólagjöfum og varð nú pínu uppgefin en brosti eins og mér einni er lagið og sagði ok hvenær get ég náð í þetta? Á morgun var svarið og fyrst þú tekur þessu svona vel þá færðu allt sem þú ætlar að kaupa á 50 % afslætti. Mikið gladdi það mitt jólahjarta að fá svona gjöf svo ég þakkaði pent fyrir mig og sagði að ég næði í lyfið á morgun. Svo hljóp ég tilbaka að bílnum mínum og í því að ég var að hendast inn í bílinn hringir síminn. Apótekið. Ég hafði gleymt visakortinu mínu þar. Ég hljóp tilbaka náði í kortið og hljóp aftur tilbaka að bílnum. Orðin frekar sveitt og ég sem var að fara út eftir vinnu að hitta vinkonur og borða og hafa það gaman og sveitt delux. En klukkan orðin rúmlega hálf 12 og ég ekki enn komin í vinnuna, ákvað að keyra hraðbrautina þangað (sem ég helst ekki geri því mér leiðist að keyra hratt) og haldið þið að það hafi ekki verið bílaröð helvítis alla leiðina í vinnuna. Mjakaðist ekki fjanda á 20 mínútum.

Mætti í vinnuna AAAAlt of sein og að sjálfsögðu var serverinn niðri nánast allan daginn og ekkert hægt að gera og jólin að koma og auglýsingar þurftu að komast í prent og læti. Frábær vinnudagur, stress dauðans.

Fór svo út eftir vinnu og hafði það gaman.  Þegar ég ætlaði heim tókst mér að fara inn í vitlausa lest, lest sem keyrir bara einu sinni á klukkutíma og fer í þveröfuga átt við þar sem ég bý. Það voru einhver ónot í mér þegar ég henti mér inn í lestina en hafði ekki tíma að sinna þeim ónotum því þeir voru alveg að fara að loka dyrunum (kemur svona píphljóð). Á síðasta pípinu rann það upp fyrir mér hvaða ónot þetta voru og það rann upp fyrir mér hvað  eiginlega stóð á lestinni og náði að henda mér út rétt áður en hurðirnar lokuðust. Ég semsagt hljóp inn í lestina, inn í vagninn og í gegnum allan vagninng og út um næstu dyr. Tók nanósekúndu fyrir mig að hlaupa þetta! Hefði ég farið með þessari lest hefði það getað tekið mig fleiri tíma að koma mér heim aftur. Átti að taka Kongsberg lestina en var í Kongsvingerlestinni. Smá líkt en samt ekki!

Ogs svo eru piparkökurnar í ár hjá mér svartar! Lovlí.

Jæja þetta var jólastress saga ársins. Versegúð.

Jólalagið er norskt. Fallegt.



Næsta blogg á trúlega eftir að fjalla um fjölgun í fjölskyldunni okkar og pælingar um það.

Gleðileg jól og farsælt komandi ár.

7.12.12

Bestustu jólagjafirnar í ár.

Haldið þið að ég hafi ekki gengið inn um útganginn í Ikea í gær. Manni er stundum ekki viðbjargandi! En nóg um það, best að demba sér í jólin.

Ef það hefur farið fram hjá þér þá eru jólin að koma.  Það er alltaf sama sagan á hverju ári að það situr fólk út um allt land og ef ekki heim og veltir fyrir sér hvað það á að gefa vinum og ættingjum í jólagjöf. Kannski eru sumir svo skipulagðir að þeir gera jólagjafalista sem er geymdur svo að maður getur fylgst með hvað maður hefur gefið fólki í gegnum árin og passar þannig upp á að maður gefi ekki það sama ár eftir ár. Hef lent í því sjálf, sama manneskjan fékk ilmkerti mörg jól í röð. Ekki sjarmerandi! Og afþví mér er svo annt um annað fólk vill ég hér með þessu bloggi hjálpa þeim sem eru enn ekki búnir að kaupa jólagjafirnar og gefa ykkur góðar hugmyndir að frumlegum og nýtilegum gjöfum sem fólk trúlega ekki á fyrir.

 1. Handa eiginmanninum.
Er eitthvað skemmtilegra fyrir eiginmannin en að  spranga um í þessum náttslopp á jóladagsmorgun og segja "may the force be with you" ? Þessi sloppur er uppspretta endalausrar barnslegrar gleði fyrir fullorðna mannin sem alltaf langaði að vera einn af Jediunum og vera í klíkunni hans Obi-Wan Kenobi. Og svo er hægt að nota sloppin sem baðkápu á sumrin og fara á ströndina og láta hina mennina verða öfundsjúka yfir stælnum á húsbandinu. Eðalgjöf finnst mér.

2. Unglingssonurinn
Hvað er betra í kuldanum en að vera heitt. Allstaðar. Þetta fína skegg/flískragi kemur í mismunandi litum en án gleraugna svo að maður þarf ekki að stunda skíðaíþróttir til að geta notað þetta skegg. Þetta er sérlega hentugt fyrir unglinginn með lítin eða engan skeggvöxt. Bústar sjálfsmyndina og heldur þér heitum á sama tíma. Þetta ætla ég klárlega að gefa syni mínum í ár.

3. Fyrir húsmóðurina


Hvað er betra en að geta verið hrein hvert sem þú ferð og ekki minnst hvenær sem er? Að geta skroppið í þína eigin sturtu þar sem engin er að berja á baðherbergishurðina afþví einhver krakkarass þarf að kúka. Óþolandi pirrandi. En nú er málið leyst. Þín eign ferðasturta. Er kannski best utandyra en mér finnst ekki málið að redda sér buslulaug sem hægt er að blása upp og rúmar smá slatta af vatni sem hægt er að standa í  þegar maður sturtar sig innandyra. Svona langar mér allavegna í!

4. Heimasætan


Svefnpoki og útigalli í sömu flík. Er því miður uppseld í bleiku í ár en kemur fyrir næstu jól í bæði bleiku og fjólubláu. Hér er ekkert vesen. Er dóttirin að fara að gista hjá vinkonunni en fyrst ætla þær að fara á skíði eða að renna sér? Nú þarf hún ekki að drösla með sér tösku. Stingur bara tannburstanum í vasan og svo er hún tilbúin fyrir helgina. Sneðugt.

Vona að þið hafið fengið smá innblástur hér og að þessar ljómandi fínu gjafir verði undir ykkar tré í ár.

Jólatónlist alltaf vinsæl í desember. Því þjóðlegri því betra.



Góðar aðventustundir frá henni sem átti afmæli í vikunni og varð eldri!