24.12.10

Jólakveða

Ef einhver skyldi detta hér inn yfir hátíðina óska ég þér Gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Sjáumst fyrsta föstudag á nýju ári.

Lag vikunar er lagið okkar afa.

17.12.10

Bókajól

Ég var svo heppin sem barn að ein amma mín vann á bókasafni og önnur átti bókabúð. Vantaði ekki bækurnar í mínu lífi. Fannst svo gaman að lesa, man ein jólin. Fékk bara eina bók í jólagjöf, verstu jól ever. Þegar ég bjó í bænum og var í 1-3 bekk kom amma oft og náði í mig í skólann og ég fór með henni í vinnuna. Það voru meiri draumastundirnar. Fyrst fékk ég kók og snúð eða súkkulaði sem annaðhvort amma eða Finnur sem vann með henni voru búin að kaupa handa mér. Svo lá ég endilöng og las og las og las. Ég var mest fyrir stelpubækur og teiknimyndasögur. Held hreinlega að ég hafi lesið allar Tinna bækurnar, Sval og Val, Astrix,Lukku Láka og svo allar hinar sem ég man ekki svo vel eftir. Hver man ekki eftir honum Gormi? Eða Dalton bræðrunum? Fannst voða gaman líka að lesa bækur um hvernig það var í gamla daga, bækurnar hennar Lauru Ingals og svo eina bók sem ég á enn sem heitir Bernska í byrjun aldar og fjallar um lífið í Reykjavík rétt eftir aldamót. Held að mamma hafi átt hana þegar hún var lítil. En hafði samt ekki gaman af bókunum um vesalings strákin frá í gamla daga sem var tekin frá fátækri mömmu sinni sem var farandvinnukona og hafði ekki efni á að hafa hann hjá sér. Var hann sendur á bóndabæ til að vinna fyrir fæði og húsnæði. Hitti mömmu sína nokkru sinnum á ári og þetta var allt mikil eymd og volæði. Man ekki hvað þessar bækur hétu en þær voru margar - heill bókarflokkur. Og sorglegar. En ég las þær nú samt.

Svo fór maður að eldast og fór að lesa bækur fyrir aðeins eldra fólk. Ísfólksbækurnar voru nú kapítuli í mínu lífi og enn þann daginn í dag það bláasta sem ég hef lesið. Það sem ég hafði gaman af þessum bókum. Hvaðan haldið þið að Sögu nafnið komin frá?? Jú jú, Ísfólkinu. Þegar ég las um hana Sögu Símonar ákvað ég að þessu nafni ætti mitt fyrsta barn að heita. Eins gott að ég eignaðist stelpu fyrst. Var nú alveg til í enn eitt ísfólksnafn þegar Baltasar fæddist. Mér hefur nefninlega alltaf þótt nafnið Sölvi svo flott.En Sölvi er konu nafn í Noregi, hann hefði þurft að heita Sölve og það er ekki flott og fáir sem heita því líka hér í landi.Hef ekki lagt í að lesa þær aftur, er hrædd um að ég verði ansi vonsvikin. Held bara að ég lifi í minningunni.

Já mikið var gaman að lesa sem barn. Hef illan grun um að börn í dag séu ekkert sérstaklega iðin við frístundarlestur lengur. Þarf allavegna að pína mín börn í það. Les enn daglega,en bara áður en ég fer að sofa. Get ekki sofnað öðruvísi. Mér til mikillar ánægju fæ ég íslenska bók fyrir jólin. Ánægð með lífið.

Hendi inn einu jólalagi svona í tilefni jólanna í næstu viku. Eitt með púrungum David Bowie,ekki láta blekkjast af öllu talinu í byrjun.Það kemur lag.Góða oghlýja aðventuhelgi.

10.12.10

Hendari eða kaupari?

Síðustu ár hef ég tekið eftir að ég fer í rosa henduskap fyrir jól. Ekki það að ég hendi endilega neinu en ég fer allavegna að hugsa um hvað við eigum nóg af öllu. Þegar fólk spyr mig hvað þau eiga að gefa Sögu og Baltasar í jólagjöf fer ég alveg í hnút. Mér finnst þau eiga allt til alls eiginlega. Gætu átt fleiri sokka og vettlinga en ekki það sem þau vilja fá í jólagjöf en fyrir utan það vantar þeim ekki neitt. Þeim langar aftur á móti í hitt og þetta sem er alveg skiljanlegt. Þegar ég var barn átti ég ekkert mikið, ekki lítið heldur bara alveg nóg. Nóg til að meta þær gjafir sem ég fékk frá fólki. Gera krakkar það í dag?

Þegar ég kemst í henduskapið langar mig að einfalda heimilið mitt. Henda því sem sjaldan eða aldrei er notað, tæma, tæma,tæma. Málið er svo að ég er gift kaupara. Ekki það að hann sé alltaf að versla en hann fer t.d aldrei á bókasafn. Kaupir heldur bækurnar, oft þá sem hljóðbók en samt líka bækur. Alltaf á útsölu!! Gera góð kaup!! Ég vill heldur fara á bókasafn, finnst líka gaman að eiga góðar bækur en ekki allar bækur eru það. Ég gef regulega úr bókahillunum og hann tekur ekki einu sinni eftir því!! Ég hef stundum pínt hann til losa sig við fatnað. Skil ekki þessa áráttu að geyma föt í mörg ár. Hefur maður ekki notað flíkina í 2 ár á maður ekki eftir að gera það. Gefa þetta allt saman, fullt af fólk sem hefur meiri ánægju af flíkinni en sá sem lætur hana bara hanga inni í skáp og safna ryki. Ég er semsagt hendarakona sem er gift kauparamanni.

Annars er ég orðin 40 ára. Og hvað gerist þá? Jú eins og við manninn mælt, sama dag bilar heilsan og ég verð veik. Lá heima í 3 daga og er enn að drösla mér saman. Algjört svindl. Gat ekki einu sinni drukkið kampavínið frá vinnunni. Fór bara að sofa snemma.

Hér eru flísalagnir að verða búnar. Mæli nú ekki með svona framkvæmdum rétt fyrir jól. Frekar taugatrekkjandi að hafa allt í rúst á sama tíma og maður er að reyna að hafa það kósí fyrir jól. En mikið déskoti verður nú fínt hjá manni og ekki talandi um heitt.Loksins hægt að pissa á litla klóinu án þess að það myndist grýlukerti!

Jæja hvað er hægt að finna skemmtilegt að spila á þessum nístingskalda desemberdegi? Vildi finna eitthvað bráðhallærislegt og gamalt. Held að mér hafi tekist vel til(takið eftir tækninni). Þori að veðja að þetta er lag þú heyrir ekki oft.Megi alheimurinn gefa þér góða og hlýja aðventu.

3.12.10

Hipp hipp húrra

Ég á afmæli á morgun
Ég á afmæli á morgun
Ég á afmæli ég sjá-álf
Ég á afmæli á morgun

Ég verð 40 ára á morgun
Ég verð 40 ára á morgun
Ég verð 40 ára ég sjá-álf
Ég verð 40 ára á morgun

Hipp Hipp Húrra
Hipp Hipp Húrra
Hipp Hipp Húrra

Til hamingju með það Helga litla. Takk fyrir!

Droppa afmælislaginu og spila heldur þetta yndislega lag frá tónleikunum síðustu viku sem voru held ég þeir bestu ég hef farið á í ansi langann tíma. Mikið er hún Eivör bara brilljant í alla staði. Ég verð alltaf uppfull af norrænum tilfinningum þegar ég hlusta á hana, víkingakonan í mér vaknar til lífs og mig langar næstum að nema land. Njótið vel. Læt heyra í mér í næstu viku þegar ég verð orðin 40 ára og komin með glænýtt þvottahús og gestaklósett bæði með hita. Maður er sko farin að leyfa sér lúxus á eftir árum!Túrílú.

p.s Man einhver eftir myndinni The Day After Tomorrow? Grunar að það verður svona hér eftir nokkrar vikur.