24.9.10

Betur sjá augu en auga

Allavegna gleraugu! Allavegna þessi litlu sem kallast linsur en Saga kallar lítil gleraugu. Hún var nefninlega að fá linsur í gær. Fórum í fyrsta linsutíman okkar, sjónkallinn var búin að taka frá 1 1/2 tíma fyrir okkur því af fenginni reynslu getur svona linsuprufun tekið langann tíma hjá krökkum. Aldeilis ekki. Við vorum komnar út og búnar og borga eftir 45 min. Mín alsæl. Þegar við löbbuðum úti var hún alveg í skýjunum, "mamma sjáðu þetta, mamma ég sé, ég er ekki blind" og svo las hún á öll skilti sem við gengum fram hjá. Hún hefur að sjálfsögðu ekki séð glóru án gleraugnanna sinna í síðan hún var lítil. Við ákváðum að fá linsur þar sem við tökum alltaf af henni gleraugun þegar hún fer á skíði, skauta, fimleika og annað þar sem þau auðveldlega geta dottið af og skemmst. Sjónkallinn sagði við mig að ég ætti alveg að búast við að hún vildi nota linsur daglega þegar hún væri komin upp á lagið með það. Var með þau í gær frá miðjum degi og fram á kvöld, fór í Dissimilis og fimleika með þær. Mikið basl og streð að fá þær út í gær en það hlýtur að koma með æfingunni. En viti menn, fyrsta sem sú stutta spyr um í dag var hvort hún ætti ekki að vera með linsur í dag. Sorry sagði ég, ekki fyrr en á sunnudaginn. Hún varð voða sár. Núna á að venja augun hægt og rólega á að vera með linsur.

Annars fann ég þetta frábæra kort á einhverju bloggi um daginn. Segir mikið um hvernig það er að búa á Íslandi, eiginlega mesta furða að fólk búi þar. Þetta er svokallað hamfarakort. Mjög nytsamlegt, ef ég ætla t.d að ferðast til vestfjarða þá get ég kíkt á kortið og undirbúið mig undir þær hamfarir sem eru algengar á þeim slóðum. Greinilega mikið um ís og snjó á því svæði svo að ég tek með mér dúnúlpu og heitt kakó í það ferðalag. Gasalega sneðugt Vonandi að þið sjáið eins mikið gagn í þessu korti og ég.


Jæja ég held áfram leit minni af löngu gleymdum lögum. Maður man ekki svo auðveldlega því sem maður hefur gleymt og þessvegna er þetta ekki svo létt verkefni. Var svo sannalega búin að gleyma þessu.


Gleðilega helgi.

17.9.10

Bö!

Mikið vildi ég að ég væri séð og skrifaði þetta blogg á fimmtudögum í staðin fyrir að reyna að finna upp á einhverju áhugaverðu snemma á föstudagsmorgnum. Er svo fjandi þreytt og svo er oft svo mikið að gera hér í vinnunni á þeim degi. Persónulega finnst mér nú að föstudagarnir ættu að vera svona kósí dagar á vinnustöðum þar sem maður getur spjallað smá ekstra, hangið meira á internetinu og verið með föstudagskaffi og hygge. En nei, það er ekki tilfellið hjá okkur, við erum meira að segja með deildarfundi á föstudögum eftir hádegi. Skil ekki hver valdi þann hálfvitalega tíma. Ég meina, maður er lagstur á gólfið og farin að rótera þegar klukkan er að nálgast 3 og ekkert bendir til að fundurinn sé neitt að verða búin. Ég get bara hreinlega ekki einbeitt mér þegar svona langt er liðið á vikuna. Ég verð líka alltaf svo vandræðalega þreytt á fundum að það er ekki einleikið. Get hreinlega orðið rangeygð og á í mestu basli við að halda mér vakandi. Fæ gamla fílinginn frá menntó þegar maður sofnaði í miðjum tíma og vaknaði slefandi við að kennarinn spurði mann að einhverju. Hver hefur ekki slefað á skólabækurnar sínar ég bara spyr!

Annars lítið að frétta af okkar herstöðvum. Farið að kólna og fer að koma tími á gammósíurnar fínu. Ég er alltaf mjög sexý á veturna bara svo að það er sagt.

Jú lenti illa í því í gær, helvíti maður. Það er húseignarfélag í götunni okkar, allir sem búa þar eru meðlimir og hefur félagið eigin stjórn eins og vera ber. Nágranni minn hefur verið formaður í eitt ár og vildi láta af formennsku en gat samt hugsað sér að sitja áfram í stjórninni, ég hugsaði með mér að ég gæti alveg tekið þessa formennsku að mér og verið í stjórninni ásamt honum og einni í viðbót sem mætir samt lítið á fundi. Engin í félaginu gerði neinar athugarsemdir þegar þetta var tilkynnt og gerðum við ráð fyrir að það yrði þá ekkert nema formsatriði á aðalfundinum fyrst að engin bauð sig fram á móti okkur. Viti menn, á sjáfum fundinum sem var í gær var einn gamall íbúi sem fannst það alveg til vandræða að það væru bara nýir íbúar sem væru í stjórn. Yrðu að vera einhverjir eldri íbúar líka, við sögðum að það hafði engin gefið kost á sér og þessvegna hefði þetta verið svona. Hann tuðaði um þetta heillengi og á endanum sagði nágrannin sig úr stjórninni og þessi gamli fékk hans pláss. ÆÐISLEGT!! Hefði aldrei boðið mig fram hefði ég vitað að þetta myndi gerast. Ekki nóg með að þessi karl sé hundfrekur, vill ráðá nánast öllu og voða reiður, þá frétti ég í gær eftir fundin að það sé farið að slá út fyrir honum. Annar nágranni fann hann á flakki um daginn alveg út út kú. Akkúrat það sem félagið þurfti á að halda, formaður sem hefur ekki hugmynd hvað hún á að gera og stjórnarmeðlimur sem er alveg að missa sig og bókahaldari sem ekki nennir að mæta á aðalfundi. Vá hvað ég skaut sjálfa mig í fótin við þessa frábæru ákvörðun.

Jæja held að það sé komin tími fyrir eitt gamalt og gleymt með henni Cyndi - manstu eftir þessu? Sá mynd um daginn þar sem konan spurði manninn sinn ef hann gæti sofið hjá einni frægri konu hver það myndi vera. Hann svaraði Cindy Lauper!! Óborganlegt alveg.



God helg.

10.9.10

Pärnu

Einhver heyrt um það? Nei trúlega ekki, en það er bær í Eistlandi. Var að koma úr þriggja daga vinnuferð þaðan - Nordic Inhouse Conference. Þar hittust allir sem vinna á Inhouse(deildin mín) frá Noregi, Svíþjóð og Finnlandi svo að við vorum 25 í allt. Skemmtileg ferð, bæði frá faglegu og félagslegu sjónarmiði. En eitt skemmdi svolítið fyrir öllum og það var maturinn. Aldrei hef ég borðað eins vondan mat eins og í þessari ferð, allavegna ekki marga daga í röð. Hef eflaust fengið verri mat stöku sinnum en ekkert eins og þarna. Það vara búið að panta fyrir okkur 2 kvöldverði og einn hádegisverð á bestu veitingarhúsum bæjarins. God dem hvað ég var svöng þegar ég kom heim í gær.

Fyrsta kvöldið borðuðum við í bátklúbbnum, voða flott hús og allt mjög smart. Þjónninn byrjar á að ganga um og spyrja fólk hverjir borði EKKI pestó, við vissum að við fengjum kjúlla svo að við reiknuðum með að það væri kjúklingur með pestó. Maturinn kom og ekkert pestó neinstaðar. Fengum gjörsamlega bragðlausa pínulitla kjúklingabringu með heilum djöfuldóm af kartöflum og slöppu grænmeti og massa af dilli. Sósan sem var borin fram með þessu var trúlega gerð fyrir fiskrétt en við fengum hana með kjöti og útkoman varð voða skrýtin. Brauð og smjör var líka á borðum - dillsmjör. Í eftirrétt fengum við að vita að væri súkkulaðikaka en þegar hún kom var þetta einhver berjakaka með voða skrýtnu kremi sem var með hálfgerðu hveitibragði og smá súkkulaði skrauti. Ég borðaði skrautið!!

Morgunmatur á hóteli í nágrenninu. Stóð sjálfa mig að því að hlakka til að borða mat í flugvélinni þegar ég var að borða morgunmat. Þarf ekkert að útskýra það nánar.

Hádegismatur daginn eftir, var búið að segja að við fengum pasta. Nei ekki aldeilis. Fengum soðið nautakjöt án sósu, massa af kartöflum og salat. Ég gat ekki borðað kjötið, Það var eins og köttur á bragðið - ekki það að ég hafi smakkað kött en hafði það bara á tilfinningunni að hann bragðist svona. Eftirrétturinn var aftur á móti góður.

Kvöldmatur aftur, í þetta skifti á Tex-Mex stað. Þjónarnir gleymdu forréttinum. Aðalréttur, grillað svínakjöt á stærð við barnslófa og þurrari en skósóli. Enn meiri kartöflur og slappt salat. Var ætt en ekki meira en það. Eftirréttturinn var bara pinlig. Aumingja fólkið. Komu með geðveikt stóra sneið af "ostaköku" sem var með karrýgulri og rauðri sósu og fjólubláu og grænu kókosmjöli sem skraut. Bragðið ólýsanlegt og aðeins 2 af 25 borðuðu þetta, restin smakkaði en gafst upp því þetta var algjör katastrófa.

Eftir þessa hörmungsupplifun dreif hópurinn sig á karioki bar og sleppti öllum hömlum og kastaði sér út í söngin af lífi og sál. Langt síðan ég hef skemmt mér svona vel. Semsagt vel heppnuð ráðstefna. Já gleymdi, pantaði eggjaköku á flugvellinum í gær og viti menn, fékk eggjaköku með dilli!!! Og mjög áhugavert að þjónustulundin á öllum stöðunum var í algjöru lágmarki. Engin brosti eða spurði hvernig okkur líkaði maturinn eða hvort okkur vantað eitthvað meira. Voða skrýtið allt saman.

Jæja komið að löngu gleymda laginu. Var sko löngu búin að gleyma þessu - wonder why! Voru alveg frábærlega blond þessir gæjar. Hvað ætli þeir séu að brasa í dag??



Glóða helgi alle sammen.

3.9.10

Er einhver hér?

Virkar sem það að blogga sé alveg að leggjast af hjá flestum. En ég ætla ekki að gefast upp, eina tækifærið sem ég hef til að skrifa móðurmálið og ég sé alveg þegar ég hef ekki skrifað neitt í lengri tíma. Á þá erfiðara með að muna sum orð og ruglast í setningsuppbyggingu og fleira. En voða væri gaman ef fólk sem kíkti hér inn nennti að kvitta fyrir sig svo að ég viti hvort einhverjir aðrir en Ellen og örfáir aðrir lesi þetta. Ætla að bæta mig sjálf og kvitta þar sem ég kem við.

Annars lítið að frétta héðan. Haustið komið, skítkallt á morgnana og kvöldin. Krakkarnir á fullu í skólum og bæði byrjuð í sínum tómstundum. Fótbollti og fimleikar hjá Baltasar og Dissimilis og fimleikar hjá Sögu. Já, ég ákvað að leyfa Sögu að prófa fimleika, skráði hana í fimleikaflokk sem æfir í skólanum hennar. Þau hafa aldrei verið með barn með Downs áður en við komum okkur saman um að hún skildi prófa og við myndum sjá til. Henni gekk svona ljómandi vel, er núna í hóp þar sem allir eru á svipuðum stað og hún er alls ekki lélegust. Hóparnir eru settir saman eftir hæfni og engin af þessum stelpum geta t.d farið í handahlaup. Kom mér svakalega á óvart, hélt að það væri eitthvað sem allar stelpur á þessum aldri gæti. Saga er nálægt að geta það en skilur ekki alveg hvernig hún á að lenda en það kemur með æfingunni. Ein af stelpunum í hópnum hennar á voða erfitt. Setur upp skelfingar svip í hvert skifti sem hún á að gera eitthvað sem hún ekki kann og skammast sín niður í rassgat þegar henni mistekst - sem er oftast. Greyið. Sögu aftur á móti finnst þetta bara voða gaman og er svakalega stollt af sjálfri sér og finnst hún rosa dugleg alveg sama hvað. Gerir mikið fyrir sjálfstraustið að hafa það viðhorf. Hin á eftir að læra þetta allsaman en tekur tíma og ef hún er svona kvíðin og stressuð yfir þessu kemur það kannski enn seinna. Vona að þjálfaranir fatti hvað þetta er erfitt fyrir hana. Þær eru nú hálfgerðar gelgjur flestar svo að maður veit ekki hvort þær sjái svona.

Erum að fara til Svíþóðar á eftir að heimsækja tengdó. Það er svona sveitahátíð hjá þeim þar sem er verið að selja matvörur og annað sem er framleitt á bæjunum í kring. Fórum í fyrra og það var voða gaman. Keyptum ægilega góða heimagerða osta og sultur. Hef svo gaman af svona.

Jæja held áfram leit minni af löngu gleymdum lögum. Ekki svo auðvelt þar sem ég man ansi mörg. Hér er eitt gamalt.



Góða helgi.