30.10.09

Hvað ætlarðu að verða þegar þú verður stór?

Það var að koma út bók hér í Noregi sem heitir "Facebook kynslóðin". Hún fjallar um kynslóð ungs fólks í dag sem er alið upp með farsíma í annari hendi og tölvu í hinni, alltaf loggað inn á Facebook eða Twitter og vill frekar sjást en sjá aðra og aldrei missa af neinu. Eiga 1200 vini á facebook en engan til að drekka kaffi með. Sá sem skrifar bókina segir að fólk af þessari kynslóð óski sér frægðar og frama. Enginn vill verða hjúkrunarkona eða lögga lengur. Allir vilja vera söngvarar eða sjónvarpsstjörnur án þess að þurfa að hafa fyrir því og að yfirborðsmennskan sé áberandi. Ég veit svo sem ekkert hvort þetta sé satt eða ekki en mig grunar að þetta sé ekki bara tómt bull.

Ég spurði Baltasar um daginn hvað hann vill verða þegar hann verður stór. Hann vill annað hvort verða frægur fótbolltaspilari eða frægur söngvari! Þegar ég var 8 ára vildi ég vera flugfreyja en það breyttist svo í arkitekt nokkrum árum seinna. Flestar af mínum vinkonum vildu vera búðarkonur eða hjúkkur. Meira að segja Saga ætlar sér að verða súperstjarna þegar hún verður fullorðin, hvorki meira né minna. Ég spurði Baltasar hvort hann gerði sér grein fyrir hvernig maður yrði frábær fótbolltaspilari. Jú hann þurfti að æfa mikið en hann var nú svo góður fyrir að hann þyrfti kannski ekki að æfa svo mikið!! Hann er bara 8 ára svo að það er skiljanlegt að þetta með að æfa og að þurfa að vinna fyrir hlutunum sé ekki eitthvað sem hann fattar núna. En mig grunar bara að það sé fullt af fólki sem er miklu eldra sem heldur það sama. Ekki eðlilegt hversu margir taka þátt í Idol og X-factor hérna úti án þess að geta sungið einn hreinan tón. Þetta er greinilega Facebook kynslóðin sem vill vera fræg og hellst vinna sem minnst fyrir frægðinni. Eða á þetta unga fólk svo vonda foreldra sem hefur tekist að telja börnunum sínum trú um að þau geti sungið. Veit það ekki eiginlega. Ætla allavegna að horfa á sænska Idol í kvöld með Sögu. Hún hefur svo gaman af svona þáttum. Í gær sagði hún mér að hana hafi dreymt svo fínan draum(og þetta var sagt á íslensku). Hana dreymdi að hún var að syngja og dansa í júróvisjon fyrir börn. Gott að hana dreymir þetta því litla skinnið á aldrei eftir að syngja á sviði því hún er alveg vita laglaus, er ég ekkert að ýkja þar.

Annars lítið að frétta frá okkur hér í Noregi. Saga fékk svínasprautu í gær, varð ekkert slöpp eða neitt. Sást ekki einu sinni á handleggnum að hún hafi fengið sprautu. Hún er voða hraust. Annars er ég enn að bíða eftir minni. Orðið tómt hjá lækninum svo að ég verð að bíða eitthvað. Baltasar fékk tilboð um bólusetningu í skólanum og við ætlum að taka því. Fleiri í bekknum hans búin að vera veik og hér í Noregi hafa 14 mannsl látist úr þessari flensu. Noregur toppar evrópulistan yfir dauðsföll og mér finnst það hund stressandi og þessvegna förum við öll í sprautu. Ætla að reka JC líka.

Svo er líka orðið kallt úti. Frost á nóttunni og ég dró fram dúnúlpuna í morgun og lúffurnar. Nú er ekki aftur snúið. En sem betur fer koma jólin til að gleðja mína lund. Er byrjuð að kaupa jólagjafir og hugsa hvað ég ætla að baka og búa til af konfekti því ég ætla að prófa það í ár. Ekki mikið - bara pínu. Jæja nú er ég alveg komin á útopnu. Best að fara að vinna.

Æi best að skella sér í smá diskó.Góða Halloween helgi.

23.10.09

Jú ég er hérna, bara smá sein.

Var að koma úr vinnuferð frá suðurlandinu. Nánar tiltekið Lyngör.
Veðrið var ekki upp á sitt besta, stormur og rigning en samt gaman að komast í burtu.

Svínaflensan að fara með norðmenn, Saga og ég erum að fara í sprautu. Hún á fimmtudaginn eftir viku og ég þegar ég fæ tíma. Vona að við höldum okkur frískum þangað til. Besti vinur Baltasar sem hann situr við hliðina á í skólanum er komin með þennan andskota og ég er skíthrædd um að Baltasar hafi smitast. Það kemur trúlega í ljós um helgina en sem betur fer er Saga að heiman svo að maður vonar að þetta sleppi allt.

Annars lítið og hef lítinn tíma núna. Er að fara að keyra heimasætunni til stuðningsfjölskyldunnar hennar það sem verður stjanað við hana heila helgi. Yndislegt fólk og henni hlakkar alltaf svo til að fara þangað.

Nýtt lag þessa vikuna aldrei þessu vant. Fatta ekki alveg videoið en kannski er ekkert að fatta. OG bæ ðei vei þá er alltaf verið að spila íslenska júróvisjonlagið frá í ár í norska útvarpinu.Verð að þjóta. Góða helgi

16.10.09

Ég fylgist ágætlega með íslenskum fjölmiðlum og bloggum og umræðunni um kreppuna sem íslendingar eru að upplifa núna og þakka fyrir að ég aldrei flutti heim. Ástandið á Íslandi er alveg ferlegt og dapurt þegar fólk á erfitt með að ná endum saman og neyðist til að flýja land til að fá mannsæmandi líf. Ég las á einu blogginu að börn á Íslandi í dag eiga erfitt með að skilja að foreldrarnir þurfi að spara og þau ekki lengur fái merkjagallabuxur eða nýjan iPod og álíka. Ég hef oft síðustu ár tekið eftir því hvað börn og unglingar í dag eru farin að gera miklar kröfur. Auðvitað er það slæmt ef börn fái ekki mannsæmandi föt, skólabækur og hluti aðra nauðsynjavöru en merkjaföt og leikjatölvur flokkast ekki undir nauðsynjavörur hjá mér. Kannski það góða sem kemur úr þessari kreppu er kynslóð sem lærir nægjusemi og góða nýtingu. Finnst við lifa í allt of miklu "henda á haugana" samfélagi. Þetta gildir alls ekki bara um íslendinga og íslensk börn. Sama vandamál hér. Aldrei verið hent eins miklu af heimilistækjum, fötum osfr sem ekkert er að. Sjónvörp t.d eru orðin svona henda á haugana vara. Baltasar er hundfúll afþví hann fær ekki sjónvarp inn í herbergið sitt. Mér dettur ekki til hugar að kaupa sjónvarp handa 8 ára gömlum strák þegar við erum með 2 sjónvörp á heimilinu sem bæði virka ennþá. Hann vill líka tölvu. Fær hana þegar við kaupum okkur nýja tölvu, þá getur hann fengið okkar gömlu ef hún lifir svo lengi annars verður hann að bíða fram að fermingu. Ég kem úr fjölskyldu sem nýtti hlutina í botn og þá meina ég það í bókstaflegri merkingu. Við vorum eflaust sú fjölskylda á öllum norðurlöndunum sem fengu síðast litasjónvarp. Man ekki hvað ég var orðin gömul en ég var orðin unglingur, mæli kannski ekki endilega með svona mikilli nýtingu. Hægt að fara milliveginn.

Mágkona mín á unglingsstrák sem gengur aldrei í fötum frá H & M. Þetta er mál sem við erum orðnar sammála um að ekkert þýðir að ræða okkar á milli því ég fatta ekki svona snobb en henni finnst það alveg sjálfsagt að hann gangi í rándýrum fötum og við erum gjörsamlega ósammála í þessu máli. Fatta ekki svona. Flestir krakkar í dag eiga meira en nóg og það gildir líka um mín börn. Veit aldei hverju ég á að svara þegar fólk spyr hvað það eigi að gefa þeim í jóla og afmælisgjafir. Mér finnst þeim ekki vanta neitt, auðvitað koma tímabil þar sem þarf að kaupa nyja skauta og skíði og annað sem þau eru vaxin upp úr en leikföng eiga þau nóg af. Finns mér. Ekki viss um að þau séu sammála.

Mér finnst erfitt að kynna hugtök eins og þakklæti og nægjusemi þegar við lifum í samfélagi sem margir eiga mikið og sumir lítið en samt meira en fólk í svo mörgum öðrum löndum. Held að krakkar í dag haldi að það sé alveg sjálfsagt að þau eigi sem mest og fái sem mest. Ég er þakklát fyrir að hafa alist upp á tíma þar sem kröfurnar voru minni og samfélagið einfaldara á margan hátt. Er það bara ég sem hugsa svona?

Jæja best að hætta þessu röfli. Vinnuvikan alveg að verða búin. Var með stelpuafmæli í gær og prinsessan ægilega ánægð með veisluna. Verður fjölskylduveisla á sunnudaginn með hornunum hennar mömmu og heimsins bestu eplaköku.Hætt í bili.


Best að halda sig í gömlu deildinni um stund.Glóða helgi.

14.10.09

Hún á afmæli í dag.

Heimasætan á afmæli í dag, 10 ára. Hversu tíminn líður fljótt. Eftir nokkur ár verður hún orðin unglingur. Er farin að æfa sig í því og gengur vel. Hún verður trúlega afburðar unglingur í einu og öllu. Hún lætur varla sjá sig í skólanum nema með bleikan gloss svo að ég bíð spennt eftir hvernig þetta pjatt á eftir að þróast. Ekki var ég svona pjöttuð á hennar aldri. Allavegna þá verður smá veisla í dag, ein aftur á morgun og svo á sunnudaginn. Til hamingju með daginn sætust.
9.10.09

Himinn eða helvíti!

Mikið andskoti hefur maður djöfulli lítið að segja suma fjandans daga. Þessi helvítis dagur er einn af þeim, gerist andskotans ekki rassgat í mínu lífi þessa djöfulsins dagana nema að ég er fjandans veik en sem betur helvítis fer er ég að hressast en er samt heima frá fjandans vinnu. Djöfulli leiðis mér að vera veik, er ekki nógu andskoti veik til að liggja í rúminu og ekki nógu fjandans hress til að vera í vinnunni. Er eins helvíti erfitt að lesa þennan djöfulsins texta eins og er erfitt að djöflast við að skrifa hann?? Það er ekki tekið út með helvítis sældinni að bölva í öðru hverju fjandans orði. Það er eiginlega algjört helvítis fokking fokk og ég nenni því fjandan ekki lengur og hana nú.

Já eins og ég segi þá er lítið að gerast hér þessa dagana og ætla ekkert að vera að pína ykkur að lesa um ekki neitt og þar af leiðandi ætla ekki að skrifa meira. Verð með smá afmæliskveðju hér á miðvikudaginn. Endilega kíkja við.

Til að bæta upp skrifleysið býð ég upp á tvö lög þessa vikuna. Það fyrsta er brilljant á margan hátt. Munið eftir finnska diskódansaranum? Þetta eru frændsystkini hans. Ég veit eiginlega ekki hvort ég á að hlæja eða gráta. Seinna lagið er til að róa aðeins niður eftir allt þetta diskó. Gamalt að vanda.

Stuðhelgi.

2.10.09

óllah

Þá er vel heppnaðri og skemmtilegri ferð lokið. Allir þáttakendur voru mjög ánægð með dvölina á Íslandi og sýningin gekk vonum framar. Held ekki að allir áhorfendur hafi átt von á þess konar sýningu en mig grunar að það finnist ekki hópar af þessari gerð á Íslandi þar sem svona margir á mismunandi aldri taki þátt í sömu sýningu. Ekki er verra heldur að Dissimilis eru góð í að hanna og sauma búninga. Var á ráðstefnu á mánudaginn og þar var einmitt verið að tala um hversu mikilvægt er að hafa góða umgjörð fyrir hópa af þessu tagi en Dissimilis eru alltaf góð í því. Annars var stíft prógram hjá okkur og svo mér. Náði smá vinkonu hittingi og fjölskyldu hittingi en var annars á fullu. Er eiginlega enn hálf þreytt eftir þessa ferð því að vakna kl 4:15 og fara í flug gerir mann þreyttan og ekki talandi um ef maður hefur svo ekki komið sér í bælið á almennilegum tíma frá ég kom heim. Keypti mér nýlega bók eftir Arnald Indriðason og fór að lesa hana og þá er bara ekki sofið. Svoleiðis er það.

Húsbandið er að fara á sitt fyrsta skytterí um helgina. Er að fara til þrándheims á rjúpu. Kannski bara að hann veiði eitthvað. Maður kannski lærir að elda rjúpu. Svo er tengdó með stórt land í svíþjóð þar sem hægt er að veiða elg og fleira en húsbandið þykist ekki vilja veiða svona stór dýr. Kjaftæði segi ég við hann, "vertu nú svolítið matsjó og veiddu einn elg fyrir konuna þína!". Eða hann getur líka veitt héra og skógardúfur þar. Vildi samt hels að hann færi á gæs. Veit ekki hvar maður veiðir svoleiðis hér í þessu landi, sendi hann bara á Höfn á gæs með Óskari bróður næsta haust. Hef mikil plön um að læra að elda villibráð.

Annars ekkert, þreytt og syfjuð núna kl 7 23 á föstudagsmorgni. Það er orðið svo dimmt og kallt á morgnana og það var hrím á bílnum í morgun. Verð að horfast í augu við þá dapurlegu staðreynd að það er að koma vetur. Ég er meiri svona haust, vor og sumarmanneskja. Veturinn í Köben var alveg við mitt hæfi. Rigning og rok.

Er ekki við hæfi á þessum kalda föstudegi að velja eitt gamallt og gott.Góða helgi.