4.5.12

Minning

Það er að koma ár frá því að amma mín dó. Ótrúlegt hvað maður venst hlutunum, en á sama tíma þá getur maður gleymt sér í eitt augnablik. Það var bara síðast í gær þegar ég var að tala við pabba minn um hina ömmu mína sem er að fara að flytja í þjónustuíbúð að ég, eina örsekúndu, gleymdi að amma væri dáin og hugsaði að svona íbúð væri góð fyrir hana. En svo mundi ég.

En það er svo margt annað sorglegt sem maður er minntur á hér í Noregi þessa dagana að ég er bara þakklát að hafa átt ömmu og það svona lengi. Sorgin yfir að missa hana er eðlileg. Sorgin í Noregi núna er ekki eðlileg því hún er svo mikil og svo stór blönduð svo mörgum öðrum tilfinningum. Ég fann það þegar þessi réttarhöld byrjuðu að ég er ekki manneskja til að fylgjast náið með þeim. Les eina og eina grein en reyni annars að láta þetta fara fram hjá mér. Vill ekki gera þessu ómenni það til geðs að lesa um hann daglega. Hef lesið þó nokkrar frásagnir þeirra sem voru á Utøya og það er svo hryllilegt að maður skilur bara ekki hvernig fólk kemst í gegn um svona. Og allir foreldrarnir sem misstu börnin sín. Þetta er svo sárt. Stundum dettur maður í umræður um ómennið, það eru skiftar skoðanir um hvort hann sé geðveikur eða bara vondur. Þegar hann var lítill var barnaverndarnefnd fengin til að fylgjast með fjölskyldu hans því það voru áhyggjur um að hann væri ekki að fá þá umönnun sem hann ætti að fá en ekkert gerðist meira í því málinu. Og hann hélt áfram að alast upp hjá sömu fjölskyldu. Kannski að eitthvað hafi vantað í hanns uppeldi sem gerði það að verkum að hann er svona eins og hann er. Maður veit það ekki og það skiftir ekki máli í þessu samhengi. Finnst bara sorglegra en orð fá lýst að ungur maður, uppalin í Noregi og á að hafa haft það eins og blóm í eggi miða við svo marga aðra í heiminum hafi framið svona voðaverk. Bara út af hatri.

Þetta varð nú drungalegra en ég hafði ætlað mér svo að nú drífum við okkur í léttari sálma. Ekki annað hægt á föstudegi eftir svona stutta viku. Föstudagslagið þessa vikuna er í minningu ömmu minnar sem var borgarbarn mikið. Held að þetta sé hann Raggi okkar allra Bjarna! Syngja með, maður verður svo vorglaður af að syngja þetta lag.



Góða og gleðilega helgi.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég hef sneitt framhjá þessum fréttum nema fyrirsögnum. Það er það sem hann vill ... athygli heimsins ... hreinn viðbjóður, mannvonska og óskiljanlegt. Get rétt ímyndað mér að þjóðfélagið í Noregi sé þungt í vöfum núna.

GSigfinns

Íris sagði...

Sammála þér, get ekki með nokkru móti fylgst stíft með réttarhöldunum og í kringum mig tala fáir um þau. Ég les af og til eina og eina grein í blöðunum og á erfitt með það. Horfði á viðtal við aumingja drenginn sem kallaði á bátinn til að flytja ABB yfir í Utøya. Hann er búinn að eiga erfitt og hefur verið plagaður af samviskubiti, honum fannst gott að fá að bera vitni í réttarsalnum. Segi eins og þú að mér finnst með ólíkindum að fólk standi upprétt eftir að hafa upplifað svona hörmungar.

Nafnlaus sagði...

Ekta ömmulag, lengi lifi minning hennar. Verðum í bandi fljótlega...

Skari bró...

Nafnlaus sagði...

Þetta er allt svo yfirmáta ljótt og óhugnanlegt. Ég fylgist ekki með meðvitað, en finn svo innilega til með öllum hinum. Hafðu það gott Helga mín með kærri frá okkur Bróa.