11.4.08

Barn að eilífu

Síðastliðið föstudagskvöld komu 10 downs mömmur til mín í kjaftavínogostaát. Þetta voru konur með downs börn frá aldrinum 11 mánaða til 24 ára. Við sátum langt fram eftir nóttu og spjölluðum. Við svona tækifæri fær maður smá nasaþef af því hvað það felur í sér að eiga fatlað fullorðið barn.

Mamma Mari(24 ára) sagði frá því að Mari er flutt að heiman í eigin íbúð í sambýli. Það voru 12 foreldrar fatlaðra unglinga sem tóku sig til og létu byggja hús fyrir börnin sín þar sem þau gætu átt eigin íbúð og líka hefðu aðgang að sameiginlegri aðstöðu. Foreldrarnir keyptu hönnunarhúsgögn í húsið og allt er rosa fínt og núna rekur kommúnan þetta sambýli en íbúarnir eiga sínar íbúðir sjálf. Mari er líka í vinnu. Hún tók ákvörðun sjálf fyrir nokkrum árum að taka sig úr sambandi því hún gerir sér grein fyrir því að hún getur ekki alið upp barn því hún þarf mikla hjálp sjálf í sínu lífi. Já svona er Mari fullorðin. Á 24 ára afmælisdaginn var hennar stærsta ósk að fá sjóræningjarbúining í afmælisgjöf. Já svona er Mari mikið barn líka.

Mamma Poul(20 ára)sagði frá að hann hjólar einn í skólann á hverjum degi þegar ekki er snjór, annars tekur hann strætó einn. Þau eru að byrja að leita eftir íbúð handa honum.Hann á líflegt félagslíf og stendur sig alveg rosa vel. Foreldrar hans og Poul fóru á fjallahótel um páskana. Mamman tók eftir að allir á hennar aldri(50+) voru barnslaus.Hún og hennar maður voru með Poul sem hafði tekið með sér Línu Langsokk mynd til að horfa á yfir helgina.

Það er mjög erfitt að svara þegar fólk spyr hvar Saga er stödd í þroska, er hún eins og 3 ára eða 5 ára eða hvað! Saga er með málþroska á við 2-3 ára barn,uppáhalds myndin hennar er High School Musical og uppáhalds þátturinn í sjónvarpinu Hanna Montana, hún vill helst spila Nintendo eða hlusta á tónlist þegar hún kemur heim úr skólanum. Hún er með mikla fatadellu og vill helst taka með sér bleika glossinn sinn í skólann. Hún elskar að spila Nintendo DS og leika sér í sandkassa. Hún hefur líka gaman af að horfa á Teletubbies ef hún sér það í sjónvarpinu. Faglega séð er hún á við barn í lok 1. bekkjar. Eins og sjá má er hún ekki á einu aldursstigi og á ekki eftir að verða það heldur. Þrátt fyrir að Mari og Poul séu orðin fullorðin eru þau líka börn að eilífu. Það er svolítil skrýtin tilhugsun en maður verður nú bara að hlægja þegar maður heyrir svona sögur. Svona á mitt líf líka eftir að verða og það þýðir að ég ætti kannski að fara að gera "backup" af öllum þeim myndum sem Saga elskar í dag og við getum hugsað okkur að eldast við!

Allavegna þá var þetta alveg frábært kvöld.

Lag vikunnar er aftur í rólegri kantinum. Fjallar um vinkonur og mér fannst það hæfa svona eftir þetta mikla konukvöld.



Góða helgi

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Fallegur pistill um fallega einstaklinga. Gangi ykkur vel, og prófaðu þá bleiku! Gulla Hestnes

Álfheiður sagði...

Vel skrifað og maður er ríkari eftir lesturinn.
Hafið að gott!

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Takk fyrir þessa innsýn Helga Dís. Hlý og falleg lesning.
Kveðjur, Svanfríður

Iris Heidur sagði...

Fallegur pistill hjá þér Helga. Þetta hefur verið frábært kvöld.
KV, Íris

Nafnlaus sagði...

Æi..hvað ég er er glöð að eiga svona vinkonu sem ég er alltaf að læra eitthvað af...virkilega gaman að lesa pistlana þína hérna og fá fréttir af þér og þínum..;o)

Nafnlaus sagði...

Frábær færsla kæra bekkjarsystir. Ég komst í svona mússi fíling við að lesa þetta. Þau eru mikil blessun börnin og barn að eilífu eilíf blessun.
gangi þér vel
Bjarni Þór