9.4.10

Brún og sæl

og það á ég Egyptalandi að þakka. Ekkert smá ljúft að fara í frí til heitari landa eftir þennan mikla frostavetur. Yndislegt veður og allt bara pottþétt. Fórum í ferð til Kaíró og sáum pýramídana og Sfinxinn og múmíusafnið(frekar dáið fólk þar!) ásamt fleiru gömlu og glæsilegu frá gamla Egyptalandi. Helvíti voru þeir klárir að búa til fallega hluti. Fórum líka í frábæra bátsferð þar sem við syntum(snorklet- svona hálf köfun) með villtum höfrungum og skoðuðum kóralrif og fullt af fínum fiskum. Og svo slöppuðum við bara af "ön mass" og lifðum hinu ljúfa lífi. Engir GSM símar, tölvur eða dagblöð. Hafði ekki hugmynd um hvað var að gerast úti í hinum stóra heimi og var nokk sama,lifði bara fyrir líðandi stund. Ekki oft sem maður gerir það verð ég að viðurkenna. Krakkarnir orðin svo stór að maður gat af þeim litið og lesið bók, las eina langa bók og hálfa í viðbót. Ágætur matur(fékk að vísu í magan!) og yndislegt hótel. Egypskir kaupmenn algjör pest og plága eins og vera ber. Frábær vika og við ákváðum að gera þetta að föstum lið. Fara minnst eina viku á ári í hita og sól. Hér er svo hrottalega kallt á veturna og þegar maður eyðir öðru hverju sumarfríi í kaldari landi en í því sem maður býr er alveg nauðsynlegt að þiðna smá. Gerir svo mikið fyrir geðið sjáið til. Og ekki var amalegt að koma heim í snjólaust land. Laukarnir komnir upp og fyrstu gulu blómin blómstruðu í dag. Já vorið er að koma. Mikið er ég fegin að ég fór þessa ferð. Verð í góðu skapi langt fram í maí held ég barasta. Og verð að skjóta því inn að í Gautaborg, daginn fyrir ferðina fékk ég bestu pizzu sem ég hef fengið í áraraðir. Magnað alveg!

Annars gerðis svolítið fyndið fyrir utan pýramídana. Húsbandið og sonur ákváðu að fara inn í einn mídann og ganga þar langann og þröngan og dimman gang og ég sá enga ástæðu til þess að ég og Saga værum neitt að yfirgefa sólina svo að við ákváðum bara að spóka okkur úti á meðan. Og svo er ég voða lítið hrifin af þröngum dimmum íverum. Saga var nýkomin með fléttur að framan(erfitt að útskýra en hægt að sjá á myndum á facebook)og var voða sæt og fín eins og henni er einni lagið. Á svæðinu var stór hópur egypskra stelpna sem voru í einhverri skólaferð og þeim fannst Saga svo sæt að þær flykktust að okkur þar sem við sátum við rætur eins pýramídans. Vildu þær allar taka myndir af Sögu og fá að vita hvað hún héti og hvaðan hún væri og koma smá við hana sem að þær fengu. En ekki stoppuðu þær við það, nei þær vildu líka myndir af mér svo að þær stilltu sér upp ein og ein í einu við hliðinan á mér og létu taka myndir. Kennarinn þeirra var farin að arga sig hása á þær og kom á endanum og náði í þær og ein var svo æst og glöð að hann varð nánast að draga hana í burtu. Allt í einu stóð lítll hópur ungra manna svona 20-25 ára fyrir framan okkur og voru þeir farnir að læna sig upp við hliðina á mér og ætluðu að fara að taka myndir. Þá fannst mér nóg um og greip í höndina á Sögu og forðaði mér í burtu. Þeir hafa örugglega haldið að ég væri einhver fræg því það voru svo mikil læti í stelpunum, og hafa hugsað með sér að það væri nú best að láta taka mynd af sér með mér svona til vonar og vara þótt þeir hefðu ekki hugmynd um hver ég væri. Ekkert smá fyndið.

Hellti mér í eitís fílinginn og eitt gamalt og gott frá menntaskólaárunum sem ég var bara alveg búin að gleyma að væri til. Tek mér smá snúning hér á gólfinu á eftir.



Góða helgi.

4 ummæli:

Iris Heidur sagði...

Frábært að heyra og fyndið þetta með æsinginn í liðinu...þú hefðir þurft að gefa eiginhandaáritanir á endanum :)
Eru myndir einhversstaðar?
KV. Íris

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Gaman að heyra í þér aftur-ég saknaði bloggsins og er því bara fegin að þið séuð komin heim:)
Er ekki óþarfi að æsa upp fólkið svona í útlöndum Helga mín:) Hafið það gott.

Íris Gíslad sagði...

Hvernig var svo fílingurinn að vera svona fræg :)

ellen sagði...

Já thad er ekkert betra en ad "tjuvstarta" sumrinu med svona ferd á vorin, vid gerdum thetta nokkur ár í röd en svo keyptum vid húsid..... og ferdunum faekkadi ;)
Svo verd ég nátúrulega ad spyrja hvar thid keyptud pizzuna gódu?