Hvar í veröldinni, hvar í heimi hér
ei mannlaus staður, allstaðar er fólk
Já svona söng han "Skverrir Skormsker" (eða hvað hann nú heitir) þarna um árið. Svei mér þá ef hann ekki var að syngja um fólkið í Róm.Þar var nú meiri fólksmergðin en sem betur fer var nú stór hluti af þessu fólki ítalir, og það er nú ekkert ljótt fólk. Svona gasalega vel til höfð öll sömul og fín. Tók samt eftir að það var ekki mikið um börn en svona ykkur til gamans eru ítalir það fólk í Evrópu sem eignast hvað fæst börn.
Róm.Hvað er hægt að segja.Það er svo mikið að sjá að maður nær ekki nema smá á einni helgi.Svo mikið af fallegum byggingum, styttum og gosbrunnum og mannvirkjum. Og maturinn og vínin - ekkert um það að segja nema GÓÐ GÓÐ OG GÓÐ.
Helgin. Jú takk alveg ljómandi. Alveg til í aðra eins næstu helgi.Við byrjuðum laugardaginn á smá göngutúr sem byrjaði kl 10 um morguninn og endaði eftir miðnætti. Með pásum þó. Smá hádegisstopp kl 12 á Piazza Navone þar sem við drukkum smá vino og virtum fyrir okkur mannlífið og sleiktum sólina. Nokkrum tímum seinna önnur pása þar sem hádegisverður var snæddur.Fylltur ætisþistill í forrétt og Gnocchi með gorgonsola og perum í aðal. Dejlig.
Kvöldið, bara eitt orð til að lýsa því. TROÐIÐ! Ákváðum að borða í hverfi sem heitir Trastevere og höfðum ekki pantað borð. Troðningurinn byrjaði á strætóstöðinni þar sem mannfjöldi mikill safnaðist saman og allir að fara í strætó H. Ég varð nú létt stressuð, hvernig í ósköpunum færi allt þetta fólk að komast inn í einn strætó. Strætóinn kom, var alveg tómur. Áður en ég gat sagt alibaba var strætóinn orðinn fullur,fólk tróðst inn um þær 3 dyr sem voru á honum og ég bara flaut með.Flaut svo aftur út þegar allir fóru út og við tókum þá ákvörðun að við hlytum þá að vera á réttum stað. Mikið rétt.En ekkert borð að fá neinstaðar, allstaðar var fólk en við fengum svo loksins borð kl 22. Ljómandi matur en var nú orðin ansi lúin enda komin með hælsæri og blöðru á eina tánna.Reyndum þetta með strætó aftur heim en þá var enn meira fólk og við búin að bíða í ´30 mín eftir strætó en enginn kom svo við örkuðum af stað og náðum loksins í leigó. Gvuð hvað ég var ánægð að komast upp á hótel og sofa smá.
Sunnudagurinn var nú svipaður. Húsbandið 40 ára og við búin að ákveða að skoða vatíkanið. Well, vegna lélegrar skipulagningar af okkar hálfu var komið svo geðveikt mikið af fólki að við hreinlega guggnuðum. Péturskirkjan opnaði ekki fyrr en kl 13 því páfinn var að predika þar. Sá hann á stórum skjá fyrir framan vatíkanið. Ekki er ég nú góð í ítölsku en ég get svo svarið að hann sagðist biðja að heilsa öllum þeim sem lesa þetta blogg og ég varð nátturulega ánægð með það. Dagurinn fór svo í langa göngutúra og mikið af góðum mat, maturinn það kvöldið er nóg í heilt blogg og ég ætla að segja frá því seinna. Smá sjopping svona í endann enda sá afmælisbarnið garðslöngu forláta sem hann ákvað að gefa sjálfum sér í afmælisgjöf(ekki spyrja).
Þegar heim var komið og við búin að dást að pallinum sem er í byggingu heima var brunað á MCDonalds til að halda almennilega upp á afmælið. Börnin okkar alveg alsæl enda geta ekki hugsað sér meira gormet matsölustað. Skil hvað þau meina!!!!!!!!!
En þar sem við ekki náðum að skoða Péturskirkjuna, Vatikanið eða Colosseum almennilega verðum við víst að fara aftur til Rómar - sem fyrst. Goddem!
3 ummæli:
Já, gaman af þessu, og merkilgt hvað verður alltaf um allt sem mar ætlar að gera í þessum borgum. 'Eg þarf einmitt að fara aftur til Parísar...og e-r fleiri borga. En ég á eftir að fara til Róma en hún er ofarlega á listanum hjá mér;o)
Ég kíki hér inn öðru hvoru, og vildi kvitta núna, og þakka fyrir frábært kenslumyndband á Finnsku í diskódönsum um daginn.
Kv Siggi litli
Gaman að lesa en engar myndir ??? Vonandi einn daginn nær maður að berja þetta allt saman augum !
Guðrún
Skrifa ummæli