12.8.11

Maðurinn í mínu lífi þessa dagana..

er enn Prince! Fyrsta sem ég hugsaði þegar ég kom á tónleikana var að það væri nú gaman ef hann myndi byrja með "Let´s go crazy" og eins og við manninn mælt byrjaði hann að spila það. Er hægt að biðja um betra opnunarlag á tónleika? Já er enn að lifa á þessum tónleikum. Þegar maður er búin að bíða frá unga aldri að sjá visst fólk á sviði þá tekur smá tíma að melta allt saman. Kannski sérstaklega núna þar sem maður fær eiginlega samviskubit yfir því að vera glaður og skemmta sér þegar svo margt fólk í kringum mann er í sárum. Noregur er lítið land og þrátt fyrir að ég þekki ekki neitt persónulega sem missti neitt í árásinni þá missti kona sem vinnur í sama fyrirtæki og ég 17 ára gamla dóttur sína. Fleiri sem ég hef talað við þekktu einhverja sem annaðhvort létust eða voru á Utøya þegar þetta gerðist. Held að þetta sé svona fyrir marga í dag, eina mínútuna er maður í banastuði og þá næstu man maður það sem gerðist og allt verður dimmara.

Það er mikið í umræðunni hér hvað fólk eigi eftir að læra eftir þessa atburði. Virðist sem fólk sé aðeins meira upptekið af hvernig aðrir hafi það, séu umhyggjusamari við hvort annað. Svo virðist líka sem fólk sé meira tortryggið í garð annara. Fann fyrir því sjálf í síðustu viku. Það lá fullur plastpoki fyrir framan hurðina að hæðinni minni í vinnunni. Þessar hurðir sem ganga inn á skrifstofurnar eru alltaf læstar. Þessi poki var fullur af einhverju og var búin að liggja þarna í smá tíma, ég á endanum ákvað að reyna að sjá hvað væri í honum án þess að snerta pokann. Þegar ég byrjaði að beygja mig niður kom maður hlaupandi og sagðist eiga pokann. Hann sagðist hafa verið í vafa hvort hann ætti að skilja hann eftir þarna og eitthvað bla bla sem ég skildi ekki alveg en allavegna þá tók hann pokann. Fullt af fólki hafði tekið eftir þessum poka og varð hálf tortryggið og var að tala um hvað þetta gæti verið. Fyrir frí hefði trúlega engin velt þessu fyrir sér.

Það eru líka búnar að vera tvær sprengjuviðvaranir eftir þessa atburði. Engar sprengjur þegar allt kom til alls en hræðslan er til staðar í fólki núna og Noregur er kannski farin að opna augun fyrir því að ýmislegt getur gerst í þessu rólega landi. En mikið lifandi skelfing er ég og allir sem ég tala við fegin að þessi árás var ekki gerð af múslimum. Þá hefði orðið alveg skelfilegt ástand hérna. Það er hægt að lifa með að geðveikur maður geri svona hluti afþví að hann er snarbilaður en verra þegar fólk gerir svona í nafni trúar eða stjórnmála. Þá er líka sjaldnast ein persóna að verki, þá er yfirleitt verið að tala um heilann hóp fólks og það er töluvert öðruvísi. Sérstaklega þegar það er alltaf smá ólga í kringum þau mál hér í landi.

Jæja er þetta bara ekki að verða gott. Ætla ekki að gera neitt þunglyndan af þessum lestri en svona atburðir setja spor hjá öllum.

Viti menn, mér tókst að finna Prince lag á youtube. Var slatti núna, hann er kannski að verða latari að láta fjarlægja lögin sín. Hef áður fundið lag með honum sem var svo fjarlægt á nóinu. Njótum á meðan hægt er. Lovlí lag sem hann spilaði EKKI á tónleikunum. Alveg makalaust eiginlega að svona lágvaxinn maður geti sungið svona hátt!


Góðar stundir

3 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Takk fyrir pistilinn og gaman að sjá hvað Prince tónleikarnir fóru vel í þig:)

Íris sagði...

Góður pistill og held að það sem þú skrifar sé svo satt og rétt.

Nafnlaus sagði...

frábært að þú sást hann loksins, þessa elsku :)
En mikið skil ég fólk líka að vera svona tortryggið, sorglegt en skiljanlegt eftir þennan viðbjóð. Eigðu góða helgi Helga mín.
kv.Anna