4.2.11

"Ætlarðu ekki að kyssa hana"

Þetta sagði amma mín við mig sem barn/ungling þegar gamlar frænkur komu í heimsókn út á Nes þar sem hún bjó. Ekkert langaði mig eins lítið eins og að kyssa hálf ókunnugar gamlar konur. Kannski voru þær ekki svo gamlar en í barns augum er allt fólk yfir 25 ára gamalt fólk. Börnin mín þurfa ekki að kyssa neinar gamlar frænkur nema þau vilji það sjálf. Annars er það fyndið hvað maður gat hugsað sem barn. Lengi vel hélt ég að piss væri í mismunandi pastel litum og man þegar ég loksins komst að því að svo var ekki. Bjó í Bólstaðarhlíðinni og var um 7 eða 8 ára. Kíkti ofan í klósettið í hvert skifti eftir að ég hafði pissað og komst að því að allir hinir höfðu rétt fyrir sér. Piss var bara ljós gult. Aldrei ljós bleikt, blátt eða grænt. Frekar skúffandi. Þegar við bjuggum þarna átti ég vinkonu sem bjó í sama stiga gangi. Hún kom frá svona stórfjölskyldu þar sem amman bjó með þeim. þau voru 6 sem bjuggu í sömu íbúðinni. Allavegna þá átti þessa vinkona mín systur sem var í gagnfræðaskóla. Hún var komin með brjóst og svaf i stuttermabol. Mér fannst hún gasalega svöl. Það sem ég hlakkaði til að fá að sofa bara í bol. Um leið og ég var komin með aldur til þess hætti ég að sofa í þessum lummó náttfötum og náttkjólum og fór að sofa í bol og hef gert það allar götur síðan með örfáum undantekningum. En brjóstin á henni voru önnur saga, ég held ekki að ég hafi þorað að spyrja hvernig þau urðu til en ég ímyndaði mér að maður fengi brjóst svona allt í einu. Að maður gæti t.d. farið í bað og svo myndu þau bara poppa upp. Já það var margt skrýtið sem maður velti fyrir sér á þessum árum.

Annars er Saga orðin ansi fær að nota vefsíðuna nrk.no sem er ríkissjónvarpið hér. Þar getur hún horft á barnatímann aftur og aftur og aðra þætti sem hafa verið sýndir á þessari stöð. Uppáhalds þátturinn núna er "Jordmödrene" eða ljósmæðurnar. Í þeim þætti eru sýndar fæðingar hér og þar um landið. Argandi konur í fæðingu, ungabörn sem koma út öll blóðug og feður sem hálf líður yfir. Þetta finnst henni alveg einstaklega áhugavert! Sonurinn aftur á móti er allur í tölvunum núna, hann er farin að blogga. Legg út link þegar hann er komin aðeins í gang.

Diskó friskó eitís.



Góða helgi

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þennan pistil. Já, það er margt sem ungviðið hugsar :)
kv Íris

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Ég brosti við lesturinn og kannaðist við þennan hugsunargang,bæði frá sjálfri mér og mínum börnum.