29.2.08

Freaky Friday

I feel pretty,
Oh, so pretty,
I feel pretty and witty and bright!
And I pity
Any girl who isn't me tonight.

Jamm það er nú alveg orð að sönnu að hárgreiðslan skapa manninn. Fór í klippingu í gær og er barasta orðin ansi stutthærð. Sumarhárgreiðslan komin á sinn stað. Alveg merkilegt með úrsérvaxið hár að maður getur gert eitthvað við það lengi vel en svo allt í einu er eins og hárið segi "hingað og ekki lengra" og þá er barasta ekkert hægt að gera annað en fara í klippingu. Og það gerði ég semsagt í gær. Fór líka í gymmið og í ljós, hef nú ekki gert það í nokkur ár en ég er búin að ákveða að vera komin með smá roð í kinnar fyrir Rómar ferðina. Nenni sko ekki að vera sjálflýsandi þar með allt þetta lekkera ítalska fólk allt í kringum sig. Comprende!

Lag vikunnar er "so Casablanca in the good old days" og þá meina ég ekki myndina.Ekta stuðlag svo stattu upp og shake som ass.




Er annars farin í "hytte" ferð eina ferðina enn. Förum með vinafólki okkar langt upp á fjall, 3 tíma keyrsla.Vonandi verður veður eins og síðustu helgi, 5 stiga hiti og sól. Fínt að gönguskíða í svoleiðis veðri.Annars eru komnar nýjar myndir hér.
Góða og heilbrigða helgi.

p.s ég sá að Adda frá Öresundskollegie-dögunum kvittaði hjá mér um daginn. Long tæm nó sín segi ég bara, var einmitt að skoða myndir frá þeim tíma. Mikið stuð verður að segjast.

27.2.08

Hvar hafa dagar lífs míns lit sínum glatað?

Er með ljótuna þessa dagana. Hárið á mér er með ljótuna, fötin mín eru með ljótuna og ekki tala um andlitið. Ég fer að breytast í miðaldra kerlingu ef ég fer ekki að gera eitthvað við öll þessi ljótheit.

Hvað varð um roð í kinnum og leiftrandi augu. Núna eru bara grá hár og baugar og yfirdrifinn fölleiki sem hér ráða ríkjum. Sem betur fer ekki með bólu, annars hefði ég alveg farið yfir um.

Held ég fari í ljós - verð annars notuð sem eitt.

Eða klippingu.

Eða ljós og klippingu.

ARRGGG



Skjáumst!

25.2.08

Þar sem öryggið er í fyrirrúmi

or not!











Já svona er til mikið skrýtið í heiminum.

22.2.08

Vinnuvikulok eins og alltaf á föstudögum. Ekkert nýtt. Baltasar var í skíðaskóla alla vikuna frá 9 til 3 og alsæll með það. Tókst að vísu að detta í gær á skíðum og er allur út í sárum hægra meginn í andlitinu. Annars bara null.

Ég finn að ég er öll að lifna við enda daginn farin að lengja og vorið á næsta leiti (shit, ég sem er enn með appelsínuhúð sem átti að vera farin fyrir sumarið). Allt breytist þegar það er orðið bjart seinnipartinn, maður er bara ekki næstum eins sibbin. Fór meira að segja og heimsótti Ollu frænku eftir vinnu um daginn. Svoleiðis hefur bara ekki gerst síðan í oktober. Tek að vísu fram að 4x í viku er börnunum mínum keyrt í allskonar æfingar eftir skóla. Mikið að vera hjá ungu fólki en frá jan - mars eru vetraríþróttirnar stundaðar og þá lætur maður sig hafa það að leyfa þeim að æfa það líka, fyrir utan Dissimilis hennar Sögu og leiklistina hans Baltasars. Ekki svo langur tími og þegar er svo snjólaust eins og hefur verið í vetur er það kjörið tækifæri fyrir þau að halda kunnáttunni við.

Erum að fara í hytte um helgina á Norefjell. Siri vinkona mín og Thea dóttir hennar koma með en hún er með DS og er hálfu ári yngri en Saga. Alveg eins og svart og hvítt þær tvær en við höldum samt í vonina um að þær eigi eftir að verða vinkonur.

Lag vikunnar er eeeld gamalt og videoið algjör draumur.Þær eru svo sannfærandi. Brilljant.



Og til að geta dansað með laginu, legg ég við þetta video, er að vísu á finnsku en þú veist hvað karlinn er að reyna að segja. Ef þetta ekki er fyndið þá veit ég ekki hvað. Ekki gefast upp, endirinn er bara yndislegur. Mikið hlæ hlæ. Gvuð hvað ég elska youtube(getur maður sagt það??).


Góða helgi

p.s Eiginmaður minn var að tilkynna mér að hann er búin að kaupa 2 miða á Kiss tónleika í maí svo ég er semsagt að fara á Kiss! Alltaf prófar maður eitthvað nýtt, en hann var mega fan sem barn og unglingur.Á fleiri fleiri bækur með úrklippum og myndum, prjónaða kiss húfu og ég veit ekki hvað.Ætli hann kunni tekstana svo hann geti sungið með?

18.2.08

If you want my body and you think I'm sexy

Come on, sugar, let me know. Já svona söng Rod Stewart hér um árið. Hann var alveg ÖRUGGLEGA EKKI að syngja um mig. Mér var litið niður á laugardaginn og þessi sýn blasti við. Var of önnum kafinn við matargerð að ég var bara ekkert að spá í hvernig ég leit út fyrir neðan hné ! En það var svona. Fannst alveg tilvalið að festa þessi ósköp á filmu.

En þessi útgangur á húsmóðurinni kom samt ekki í veg fyrir að geta eldað ljúffengan indverskan mat. Matseðillinn hljóðaði svo:

Apertizers:

- Beikonvafðar döðlur
- Manchengo ostur með ítölsku salami
- Mozarellaostur vafinn í hráskinku og hitað í ofni.

Þetta voru nú eiginlega afgangar af tapas frá kvöldinu áður og þessvegna var þetta svona aðeins útúr kú miða við þema en gott engu að síður.

Aðalréttur:

- Tandori kjúklingur - keypti nú bara tandori paste og blandaði með jógurt og lét marinerast í 8 tíma og var svo sett í ofn í ca 45 mín og fékk líka þennan rosa safaríka og meyra kjúlla.
- Kartöflur með spínati: Sauð kartöflur og brytjaði í meðal stóra bita, henti á pönnu með spínati(keypti nú bara frosið og lét þiðna fyrir steikingu- muna að kreista úr safann) og þetta blandaði ég með Kashmir paste(líka keypt tilbúið) og steikti saman. Þetta var mjög sterkt.
- Krydduð hrísgrjón: mýkti smátt hakkaðann lauk í smjöri og bætti útí nokkra negul nagla, 5-6 kardimommubelgi(ekki steytt verður að vera þessir grænu belgir), einni heilli kanilstöng, nokkrum heilum piparkornum og teskeið gurkemeie til að fá fínann gulann lit.Þessu blandaði ég vel samann og blandaði við hrísgrjónin og vatn útí og sauð í ca.15 mín.
- Raita:Tók hýðið af einni agúrku og skapaði kjarnan úr, reif gróft og blandaði við hnefa af ferskri myntu og 1 1/2 desil. hreinni jógurt

Var svo þar að auki með Naan brauð(sem ég keypti af indverskum veitingarstað) og Taj Mahal brjór(indverskur bjór) var notaður til væta kverkarnar með matnum. Miklu betra að drekka bjór með svona mat komst ég að.

Eftirréttur:
-Súkkulaðifrauð kaka með ferskum bláberjum og kaffi.

já svona var það nú einfalt og þægilegt. Alveg búin að gefast upp á að gera all frá grunni. Tekur óratíma og þessi paste frá Patkas eru bara alveg ljómandi góð.Bless í bili.

15.2.08

helgi pelgi

Jamm, komst í gegnum eina vikuna enn. Bílinn kominn, alveg eins og rjómaterta í bílskúrnum hjá mér svo fínn og hreinn er hann. JC að fara að ná í skiltinn í dag svo við getum farið að keyra hann.Kvöldið sem hann kom voru krakkarnir svo spennt að við urðum að fara í smá bíltúr með þau í náttfötunum.Annars bara allt við það sama.

Var hringt í mig úr skólanum(gæslunni) hans Baltasar í gær og mér tilkynnt að hann væri orðin veikur, rosa óglatt og slappur. Ég var að koma með Sögu frá lækni og var á leiðinn í apotekið og var svo búin að lofa henni að fara á kaffihús og hafa það kósí saman. Við að sjálfsögðu keyrðum í loftköstum að ná í Baltasar sem virkaði nú ekki neitt slappur. Í bílnum spurði ég hann svo hvað hann hafði borðað yfir daginn, jú eitt hrökkbrauð og einn kökubita (það var eitthvað kökustand í skólanum í gær) og þetta var allt sem hann hafði borðað frá kl 7:30 um morguninn og þarna var kl 14. Fór með hann heim og lét hann borða restina af nestinu sínu og viti menn barnið varð alhraust aftur!! Búin að margbiðja liðið um að passa að hann borði því það er ekki hans sterka hlið. Svei mér þá.

Fór með Sögu til læknis aftur í gær því táin var bara ekkert skárri. Fékk sýklalyf í viðbót við kremið. Kom upp úr kafinu að hún er bæði með streptokokker og stafylokokka sýkingu í tánni. Litli anginn minn.

Og svo var nú eitt ansi fyndið.Þriðjudagar eru skautadagur í skólanum hjá Baltasar þar sem er farið á skautahöll í nágrenninu og þá sendir maður nátturulega skauta og hjálm með honum í skólann.Núna á þriðjudaginn eftir skóla spurði ég Baltasar hvernig hafi verið á skautum -
Baltasar: jú takk það var fínt en ég þurfti að fá lánaða skauta.
Ég: Nú gleymdirðu skautunum þínum í skólanum?
Baltasar: Nei mamma, ég var með vitlausa skauta.
Ég: Æi Baltasar tókstu nú vitlausa skauta með þér frá skólanum?
Baltasar: Nei mamma,þú sendir mig með vitlausa skauta, einn skauta af pabba og einn af mér !!!
Ég hélt ég myndi míga í mig úr hlátri. Skautar eiginmannsins eru stærð 42 og Baltasars skautar í 27!!! Skiljanlegt að ég hafi eitthvað ruglast á þessu.

Jæja þá er komið að þessu skemmtilega - lagi vikunar.Hvernig væri nú að fá eina gamla góða lummu? Þetta lag spilaði ég fullt í partýum heima hjá mér á hinum svo ansi skemmtilega áttunda áratug(vona að mamma lesi þetta ekki því hún veit ekkert um þessi partý!!). Og hér verða ALLIR að syngja með því þetta lag er sungið af bæði karli og konu og á íslensku í þokkabót(og ég veit að þið kunnið að syngja á þeirri tungu) og þessvegna enginn afsökun að sleppa því, svo strákar og stelpur upp með hárburstann. Jibbý Jæ! ALLIR SAMAN NÚ!



Bissí bissí helgi með gestum og indverskum mat og hygge.

Góða helgi.

11.2.08

Just another manic Monday!

Gleðilega nýja viku!

Ja hér og jæja hvað margir urðu að ósk minni og sögðu álit sitt á Palla Ó. Greinilega elskaður af íslensku þjóðinni, af öllum nema mér. Æ ég veit ekki hvað það er, hann syngur ekkert illa, ekkert falskur eða svoleiðis mér bara leiðist svo óendanlega þegar ég heyri hannn syngja. Maður verður kannski að venjast honum. Hann var nú samt brilljant sem Frank Furter i Rocky Horror Picture Show hér um árið. Og svona bæ þe vei þá var það ekki mín tá, heldur Sögu tá sem var svona vond. Ég var þessi með horið. Allir að hressast.

Það stóra í lífi mínu þessa dagana er að á miðvikudaginn fáum við nýjan bíl. Og þá meina ég NÝJAN. Beint úr kassanum. Aldrei áður höfum við átt bíl sem er frá sama áratug og hann er keyptur á. Fyrsti bíllinn okkar sem við keyptum daginn sem Baltasar fæddist var að mig minnir frá lok áttunda áratugsins og sá sem við eigum í dag er 92 módel.

Við skelltum okkur á Skoda Octavia fjórhjóladrifinn, alveg eins og þessi bara svartur með ljósum leðursætum. Er maður grand eða hvað! Hinum almenna íslending finnst þetta nú örugglega vera hálf halló en við sem ekki höfum átt bíl nema í 6 ár og ekkert verið að skifta neitt of oft heldur finnst þetta bara geðveikur lúxus. Bílinn okkar er orðin svo lúin og gamall og svo er ég að brjálast á að geta ekki hækkað í græjunum (ef græjur skildi kalla), get bara hækkað til 17 sem er of lágt til að hægt sé að syngja almennilega með. Mannskemmandi að ekki geta sungið hátt í langferðalögum.

Allavegna þá brunar minn maður til Saffle í Svíþjóð og nær í bílinn um miðja viku. Eitt er allavegna víst að ég á EKKI eftir að keyra þann bílinn inn í bílskúr fyrstu árin. Klessi alltaf á eitt horn þegar ég keyri inn en það hefur ekki verið neitt mál því gamli bílinn er svo vanur því! Tek það fram að það er geðveikt þröng aðkoma að nýja bílskúrnum og svo er hann svo agnarsmár og það er líka hár kanntur frá bílskúr að götunni svo maður þarf að gefa aðeins í þegar maður keyrir hann inn. Tekst ekki alltaf hjá mér!

Later aligator.

8.2.08

ehem, grrrr

hóst hóst, snöff snöff - ég ,naglarótarbólga á stóru tá með bólgum og sýkingu - dóttir....And that's all I have to say about that!

Tónlist getur maður samt alltaf haft gaman af þrátt fyrir hor og gröft og einmitt á svoleiðis tímum þarf maður á einhverju gömlu og góðu að halda. Einhverju sem iljar manni um hjartaræturnar. Þetta lag er lagið okkar Jan Chr. Var vinsælt á þeim tíma sem við vorum að byrja að hittast og seinna var þessi diskur spilaður mikið á okkar heimili og er enn. Lisa Ekdahl heitir þessi svenska flicka og lagið Vem vet!Enjoy!



Góða heilsu og helgi.

p.s Mér finnst Páll Óskar eiginlega frekar lélegur söngvari - sammála - ósammála?(Var að hlusta á bylgjuna og varð bara að deila þessum pælingum og heyra álit annara á þessum stórmerku vangaveltum)

2.2.08

Notuðu konur með Downs heilkenni í sprengjuárás

"Hryðjuverkamenn í Írak virðast hafa notað tvær konur með Downs heilkenni til þess að bera á sér sprengjur sem urðu 99 manns að bana í Bagdad í gær. Mikill óhugur er í fólki í Írak vegna þessa. Ólíklegt er talið að konurnar hafi vitað um sprengjurnar eða gert sér grein fyrir þeim."

Þessa frétt er hægt að lesa á Visi.is. Manni setur hljóðan við svona lestur, ég verð ekki einu sinni reið bara óendalegar sorgmædd yfir mannvonskunni sem finnst í heiminum. Ég hreinlega vissi ekki að þessir hryðjuverka andskotar gætu lagst svona lágt.Notfæra sér hjartahreint og saklaust fólk sem treystir öllum. Eitt er með þessa fjanda sem vinna þessi "störf" af fúsum og frjálsum vilja, er kannski farið að minnka ásóknin í þessa vinnu fyrst þeir velja þessa leiðina. Eða eru þeir að spara þá "bestu" fyrir önnur tækifæri. Vá er bara döpur og eiginlega orðlaus yfir þessu.
Varð bara að koma þessu frá mér.

over and out.

1.2.08

Livet er ikke det værste man har og om lidt er Kaffen klar

Eða svoleiðis, drekk nú ekki kaffi en Danmark er dejlig! Helgarferðin okkar Sögu var vel heppnuð í alla staði fyrir utan veðrið sem ekki var beint að fara í sparifötin fyrir okkur. Geðveikt rok og rigning svo ég endaði á að ekki fara niður í bæ og fyrir vikið fannst ég ekki almennilega vera í Köben.En hef nú svo sem alveg komið á strikið ca. milljón sinnum. En hitti samt fullt af góðu og skemmtilegu fólki og hafði það náðugt. Finnst janúar vera góður mánuður fyrir stuttar ferðir. Er svo leið eitthvað þá á vetrinum og veðrinu og þarf á smá tilbreytingu að halda.

Saga var svo dugleg og bara virkilega stór stelpa orðin allt í einu. Ekkert mikið um hlaup og læti og hún hlýddi mömmu sinni. Þar sem hun hefur alltaf verið ansi fjörug og erfitt að ná henni niður oft á tíðum höfum við haldið frekar ströngum aga (svona á íslenskan mælikvarða allavegna) og það er greinilega farið að borga sig. Hún kynnti sig fyrir þeim sem við hittum með handabandi og var svo ægilega kurteis. Hún var ekkert að æða um og skoða í skápa og skúffur þar sem við komum. Fór meira að segja að sofa þegar hún var beðin um það þótt að hinir krakkarnir hafi farið á útopnu eftir alveg gasalegt sælgætisát.Ég var nú eiginlega bara bit hvað þau fengu að úða í sig af nammi en sem gestur er maður nú ekki að segja neitt. Lætur bara eins og ekkert sé.Saga er lítill nammigrís(er stundum ekki viss um að hún sé mín!!!) sem betur fer.Við eigum örugglega eftir að fara í fleiri mæðraferðir saman.

Annars er ég farin að sjá fyrir endan á þessum vetri. Loksins orðið bjart þegar ég kem í vinnuna á morgnana og þegar ég fer heim. Ég er kannski ekki nein sérstök sumarmanneskja, er meiri vor eða haust- svona peysuveðursmanneskja má segja.Samt er ég alltaf farin að hlakka til sumarsins á þessum tíma.

Veðrinu hér má nú ekki gleyma, rigning, frost, snjór, slydda, you name it. Hálka delux! Óveðrið Tuva herjar á suðurströndina, þök fjúka. Óveður a la Iceland.

Og Britney greyið, loksins búið að leggja hana inn. Norsku blöðin eru mjög svo iðin að segja fréttir af henni og svei mér þá ef maður er bara ekki farin að fylgjast vel með hennar lífi enda erfitt að komast hjá því. Maður bara bíður spenntur hvað gerist næst!

Jæja nú ætla ég ekki að snuða neinn um lag vikunar en það er flutt af hinni Írönsku -sænskbúandi Laleh og hefur verið í miklu uppáhaldi frá það kom út í 2006.



Góða helgi
over and out

25.1.08

Stutt og laggott

verður þetta hjá mér í dag, er að fara til Köben með henni dóttur minni.Í svona mæðraferð! Ætlum að gista hjá vinkonu minni sem heitir Nacima en hún á dóttur sem heitir Elisa og er 2 vikum eldri en Saga. Hún er líka með downs heilkenni og við kynntumst þegar þær voru bara nokkra vikna. Höfum haldið sambandi síðan, stundum miklu og stundum minna en alltaf eitthvað band. Hlakka þvílíkt til, er alltaf eins og að koma heim.Á trúlega alltaf eftir að sakna Köben. Hún er mín borg. Hef aldrei saknað Reykjavíkur á sama hátt enda hef ekki búið þar jafn lengi eða allavegna samfleytt jafn lengi. 10 ár er langur tími og svo er nú ekki erfitt að láta sér líka við Köben. En danir er aftur á móti alveg hræðilega gamaldags þegar kemur að fötlunarmálum. Langt aftur í rassi þar. Var rosalega á móti þeirra kerfi en þeir stunda stífa aðskilnaðarstefnu fyrir þessa krakka. Þeir gátu ekki skilið þarna á fötlunarskrifstofunni hennar Sögu þegar hún var lítil að ég vildi að hún gengi í venjulegum leikskóla.Það er ekkert bannað, bara mál og ekki mælt með því.Steinaldarmenn!

En úr einu í annað þá las ég þessa frétt hér á Vísi.is og mikið innilega vildi ég óska að þetta væri lifandi vera Vá hvað yrði gaman. Spáðu ef það loksins eftir allann þennan tíma kæmi í ljós að það væri í rauninni líf á Mars.Hef verið að bíða eftir lífsmarki frá ég var krakki. En þetta er samt örgugglega bara klettur.

Nú þetta var kannski ekki svo stutt. Er allavegna farin. Þessa vikuna ákvað ég að breyta aðeins til legg hér út þetta fyndna video um dani!




Ha' en god weekend alle sammen

22.1.08

Hendi inn hér einni uppskrift


enda orðið langt síðan síðast.
Eldaði þennan fína lax(eða var það bleikja!) um daginn. Svo einfalt og gott og hollt.

600 gr fiskur (hvaða sem er)
2 dl sweet chili sósa
1/2 dl sesamolía
slatti af fersku kóríander hakkað eða hægt að nota úr krukku


þetta er blandað saman og dreift yfir fiskinn sem er svo settur í ofn þangað til hann er tilbúin(það fer svo eftir stærð fisksins).


Með þessu var ég með wokkað grænmeti og núðlur með soyasósu og ristuðum sesamfræum sem ég dreifði yfir fiskinn.


Enjoy.


p.s tók enga mynd svo ég læt hér fylgja mynd af Nemo greyinu, þótt ekki hafi það verið hann sem var til átu.

18.1.08

Austurland og Austurland að glettingi

Norðlæg átt, víða 10-15 m/s og snjókoma eða él, þokubakkar við ströndina. Útlit fyrir hvassa suðaustan átt með slyddu og rigningu og hlýnandi veðri og glerhálku og hræðilegri bleytu og eymd og volæði. Móðir Náttúra haldin alvarlegum valkvíða og veit ekkert hvort á að vera vetur eða vor eða rosalega síðbúið haust. Tókst að týna nýju regnhlífinni minni og komst einnig að því að það er ekki viturlegt að stytta sér leið í glerhálku og vaðandi vatn upp að öklum! Maður sparar hvorki tíma né bleytu.

Annars var hún Swaný hér að spyrjast fyrir um börnin mín, hvort þau gerðu eða segðu aldrei neitt sniðugt. Það held ég nú, all the time. Er bara svo ægilega léleg í að muna svona enda er það ekki eins áberandi eins og þegar þau voru lítil. Baltasar er hættur að klifra upp á 2. hæð og ganga jafnvægisgang á svalahandriði og ekki hefur hann heldur kúkað á tröppurnar úti lengi! Og ekki hefur Saga horfið úr skólanum nú í að verða ár, og ekki hangið utan á 2. hæða húsi. Okkar líf er orðið svo rólegt miða við fyrri ár að manni(og konu(vill ekki fá femínista félag íslands á hnakkann!)) finnst bara lítið gerast.

Saga er að vísu rosa upptekin af að skifta um hlutverk og klæðir sig eftir því. Einn daginn er hún Hermine í Harry Potter og ég verð að laga hárið hennar og svo finnur hún sér dökk föt, eða þá er hún Stefani og vill endilega klippa sig stutt og láta lita á sér hárið bleikt(over my dead body) eða svo er hún hundleiðinlega Lotta sem flytur að heiman og er alltaf í fílu. Okkur leiðist hún.

Baltasar er bara sætur að vanda, komin með tvöfaldan tanngarð í neðri og við verðum bara að bíða eftir að barnatönnunum þóknist að detta út. Er farin að æfa bandy og voða ánægður með það og er ekki enn búin að ákveða hvað hann ætlar að verða þegar hann verður stór. Síðast var það spæari! Hann ætlar allavegna að búa á Mallorca og eiga hunda. Og við megum koma í heimsókn á sumrin.

Þetta var nú bara slatti.

Lag vikunar, Girlpower delux með einni sem hefur verið að í langann tíma. Hefði sko ekkert á mótir því að vera svona glæsileg og svöl á sekstugsaldri. Finnst þetta æðislegt lag hjá henni,rokk on Blondie. Þetta er svona lag sem manni langar til að hoppa við á tónleikum.



Vonandi áttu notarlega janúarhelgi. Over and out frá austurlandi hinu norska

15.1.08

Bloggarar hér og þar og allstaðar

Ég er svona frekar forvitin manneskja að eðlisfari og blogg hefur alveg hitt í mark hjá mér. Í gegnum það get ég "njósnað" um fólk án þess að hanga á glugganum hjá viðkomandi(hætti því um 12 ára aldur).Komist að hinu og þessu, bæði nytsamlegu og svo minna nytsamlegu. Nenni samt ekki að lesa stjórnmálaþvaður og svoleiðis neikvætt - tel það ekki nytsamlegt. Stoppa samt oftast stutt við hjá ókunnugum, finnst skemmtilegra að lesa um vini og kunningja og hvað þeir/þau/þær eru að gera. Mikilvægt að fylgjast með.

Rakst á einn blogg um daginn hjá guðfræðinema sem ætlar sér að verða djákn þegar hún er búin með nám. DJÁKN ! Verð nú bara að viðurkenna að ég er svo vitlaus að ég veit ekki hvað svoleiðis fólk gerir - hef bara heyrt um djáknan á Myrká. Fannst það allavegna voða spennó að ætla að verða djákn!

Og svo eru öll útlensku bloggin með allskonar skemmtilegum myndum og videoum sem er algjör nauðsyn að skoða svona við og við. Mikið hlæ hlæ oft á tíðum. Finnast líka íslensk blogg eins og þetta "fréttablogg". Algjör della en stundum er ágætt að lesa algjöra dellu sem mótvægi við allar harmafréttirnar maður les um í blöðunum daglega.

Matarblogg ættu að vera öllu mataráhugafólki skyldulesning. Það er ekki neitt smá spennandi heimur þarna úti. Það sem maður á eftir að læra í matargerðarlist. Þessi síða er algjör snilld. Ætlaði nú að vera svo dugleg og prófa eina nýja uppskrift á viku en verð nú að viðurkenna að það hefur ekki alveg tekist - enn!

Það er svo mikið spennandi og áhugavert og líka óspennandi og óáhugavert þarna úti í himin-blogg-geiminum. Ætli mitt blogg teljist nú ekki sem það síðara enda færi ég engum neina visku, bara góða tónlist öðru hverju ;-)



Vildi bara blogga aðeins um blogg og deila með ykkur þessum mjög svo krúttlega kettlingi sem ég fann á einum af mínum ferðum um bloggheiminn.

sjáumst á föstudaginn

11.1.08

Djí hvað tíminn líður hratt !

Núna er janúar alveg að verða hálfnaður. Mér finnst ég stundum lifa í einhverju vakúmi,veit ekki alveg hvað verður að tímanum. Finnst ég ekki nota hann neitt gáfulega. Ætla alltaf að æfa meira, borða minna óhollt, elda fyrir alla vikuna, taka til í skápum, læra meira, heimsækja vini mína oftar, fara á tónleika og leikhús og bara lifa skemmtilegra. En fyrr en varir hafa vikurnar liðið og ég hef ekki gert neitt af því sem ég ætla mér. Það var víst einhver vitur maður eða kona sem sagði að "Life is what happens when you're busy making other plans". Mikið rak sú manneskja naglann á höfuðið. Vikan semsagt farið í ekki neitt, hef að vísu farið í gymmið 2x(geðveikar harðsperrur) og svo eldaði ég fisk á þriðjudaginn svo ég hef nú allavegna eldað hollt og svei mér þá eldaði líka stóran skammt af súpu og gat fryst restina(talandi um myndarlega húsmóður). Jú og byrjaði á ljósmyndanámskeiði á miðvikudaginn. Hmm, kannski að það gerist fullt í mínu lífi! Hef bara ekki tekið eftir því.

Annars var hún dóttir mín svolítið fyndin um daginn, hún var að læra heima í stærðfræði og ég var eitthvað að reyna að hjálpa henni. Þetta var ekki alveg að falla í kramið og sagði sú stutta hátt og skýrt við móður sína "Láttu mig vera, ég vill vinna sjálfstætt". Well eksjús mí!Held allavegna að hún eigi sko alveg eftir að pluma sig í lífinu.(Vill vekja athygli á að hún er búin að skifta um nafn og heitir núna Stefani(eða Solla stirða á ísl.))

Lag vikunar er ekki gamallt. Ákvað að breyta aðeins til og taka smá pásu(en bara smá)á þessu gamla og góða og leggja út mín uppáhalds lög bæði róleg og ekki.Troða upp á ykkur mínum tólistarsmekk. Þetta lag hér er með noskri rokk hljómsveit sem heitir Maderudgada, einhverra hluta vegna gáfu þeir út hálfgert kántrílag sem ég fíla bara svona rosa vel. Hvað finnst þér um þetta lag?



Gróðahelgi!

7.1.08

Gleðilegt 2008

Jæja þá er hversdagsleikinn tekinn við. Byrjuð að vinna aftur, pabbi og mamma farin til Íslands og krakkarnir byrjuð í skólanum.

Það verður nú að segjast að 2007 hafi verið viðburðarríkt ár. Eitt að þessum árum þar verða eitthvað nýtt gerist.

Við byrjuðum að leita að nýju húsnæði í 2006.Eftir árs leit fundum við loksins það sem leitað var að og við keyptum loksins nýtt hús sem við tókum við 1.ágúst 2007. Svo byrjaði Baltasar í Levre barnaskóla í lok ágúst. Ég fetjaði í hans fótspor og fór í fjarnám í Háskólanum í Bergen í margmiðlun. Bara ein önn, svona til að bæta aðeins við mig. Við vorum svo allt haustið að koma okkur fyrir og læra heima! Gekk vel í prófum og við erum búin að koma okkur fyrir að mörgu leiti, verðum samt örugglega að í mörg ár. Tekur alltaf tíma að ákveða hvar myndir eigi að vera, kaupa gardínur osfr. Eigum eftir að gera fullt eiginlega en það verður gert smám saman.

Núna fer garðverkefnið mitt að byrja, erum að fara að teikna garðinn og ákveða hvað á að gera í sumar.Við erum með 3-5 ára plan fyrir garðinn. Gera lítið í einu svo maður eyði ekki öllu sumrinu i garðframkvæmdir.Ætlum að byrja á að byggja pall og setja upp sandkassa handa heimasætunni. Hún er enn þar og finnst fátt skemmtilegra en að moka(hún kallar það baka). Verðum að hafa eitthvað fyrir hana að dunda sér í garðinum því hún fer ekkert ein út að leika. Verðum að geta fylgst með henni öllum stundum. Er svo mikill álfur þessi elska. Ætlum líka að rífa upp fullt af ljótum runnum sem hvorki blómstra fallega eða bera ávöxt. Og fjarlæga/flytja rósarunnana sem eru staðsettir undir öllum svefnherbergisgluggunum. Skil ekki hvaða staðsetning það er fyrir rósir. Vespur og aðrar flugur keppast við að halda sig í námunda þessi blóm og fyrir vikið eru vespur á sveimi þar sem við sofum. Ekki sniðugt.

Jólin hafa annars verið ansi ljúf. Búið að slappa mikið af, sofa lengi, borða alveg óhugnalega mikið af öllu góðu og ekki endilega svo hollu. Það var nú enginn snjór hér í jólafríinu en var samt kallt svo það var hægt að fara á skauta. Keypti mér skauta og fór á skauta í fyrsta skifti síðan ég var 12 ára. Verð nú að viðurkenna að það gekk betur en ég hafði reiknað með. Dett allavegna ekki en get nú ekki sagt að ég þjóti neitt um ísinn. Og er búin að gleyma hvernig maður bremsar en það hlýtur að koma. Baltasar byrjaði svo að æfa bandy en hann er nú bara nokkuð seigur á skautum. Saga líka. Pabbi keypti sér skauta og dreif sig á svellið með okkur, gekk alveg vonum framar. Datt allavegna ekki!

Önnur plön eru að ég er að fara á ljósmyndanámskeið, ætla loksins að læra á nýjustu myndavélina mína.Förum til Rómar í apríl en eigimaðurinn verður 40 ára gamall/ungur! Komum til Íslands í júlí og verðum tæpar 3 vikur. Gerum ráð fyrir að heimsækja mágkonu mína í Portúgal líka í júlí.Semsagt nóg að gera eins og alltaf.

over and out í bili.

p.s. gleymdi lagi vikunar í síðustu viku.Gleymi því ekki þessa vikuna.

3.1.08

HANN Á AFMÆLI Í DAG

Pabbi minn á afmæli í dag, er 60 ára. Ekki finnst mér hann nú gamall, hvorki í anda né útliti. Alveg ótrúlega unglegur drengurinn þótt toppurinn sé farin að þynnast! Svo skemmtilega vill til að hann er hérna úti hjá okkur á þessum merka degi og ætlum við að halda upp á daginn með að fara út að borða á voða góðan kínveskan veitingarstað.

Smá myndasería af afmælisbarninu.






Til hamingju með daginn.Hipp Hipp Húrra

28.12.07

Kæri jóli. Ertu hérna enn?

Ætlaði nú ekki að blogga meira á þessu ári, var eiginlega komin í bloggpásu en svo fór ég í vinnuna!!! Erum tvö í vinnunni í dag og nákvæmlega ekkert að gera svo ég sá mér ekki annars fært en að skrifa smá hér svona til að hafa eitthvað fyrir stafni. Ætla að reyna að skrifa hægt svo þetta endist eitthvað.

Við erum búin að eignast nýjan fjölskyldumeðlim, hún heitir Amanda. Hún er vélmenni. Hún vill annaðhvort leika sér,fara á koppinn, borða, sofa eða láta faðma sig. Mér þykir líklegt að ég láti ættleiða hana í lok 2008. Verð örugglega komin með alveg nóg af hennar endalausu kröfum. Saga varð voða glöð að fá hana og lék sér við hana fyrsta kvöldið, allur dagurinn eftir fór svo í að horfa á Latarbæjarmyndina sem hún fékk í jólagjöf svo hún hafði ekki tíma til að leika við hana. Um kvöldið bað hún svo Amöndu um að hætta þessum látum! Vupsi.En hún er nú samt ánægð yfir að eiga dúkku sem segist elska hana.

Baltasar fékk skateboard frá okkur. Var alsæll en ekki eins sæll þegar hann fékk að vita að það væri ekki leyfilegt að "skeita" í stofunni. Og úti var frost og svell.

Annars erum við búin að borða á okkur gat.Hef ekki verið svöng síðan löngu fyrir jól. Er eiginlega farin að sakna þess. Ekkert betra að borða en þegar maður er svangur,maturinn bragðast svo miklu betri fyrir vikið.En það sem maður hefur torgað af smákökum og konfekti. Veit hverju ég þarf að byrja á eftir áramót.

En nú er víst föstudagur og ég get nú ekki verið þekkt fyrir að blogga á þeim degi og sleppa lagi vikunnar. Þekki eiginlega engin nýárslög en fannst það svo tilvalið að velja nýárslag. Mundi þó eftir þessu. Alveg sama hvað er hægt að segja um þetta fólk þá voru þau alveg brillíant hljómsveit.




Gleðilegt ár og þakka það gamla.

Vill að lokum leggja til link fyrir ykkur sem hafa 10 mínutur aflögu. Þessi eldgamla mynd er alltaf sýnd um jól eða áramót í Noregi og Danmörku og er alveg ómissandi finnst mér.
Þú getur séð hana hér.

24.12.07

Dagur 24. Kæri Jóli

(ha ha fannst hann bara svo sætur og fyndin að ég varð að velja hann sem bloggjólakortið mitt)


Gleðileg jól og farsælt komandi ár. Þakka innlit á liðnu ári. Vonast til að vera dugleg í blogginu á komandi ári.


skjáumst síðar!
en hvernær það verður veit nú enginn
vandi er um slíkt að spá
eitt er víst að alltaf verður ákaflega gaman þá

21.12.07

Dagur 21. Kæri Jóli

Á morgun er ár frá því að afi minn á Nesinu dó.
Voru nú smá skrýtin jól í fyrra. Fór til Íslands helgina fyrir jól til að kveðja hann en hann var orðin voða lélegur og það var auðsjáanlegt að hann ekki átti langt eftir. Hann var búin að vera að bíða eftir eilífðinni lengi að eigin sögn. Svo dó hann, ekki óvænt en alltaf samt sorglegt þegar fólk deyr.Sérstaklega fólk sem maður hefur verið svo náin alla æfi. Hann var jarðsettur í janúar svo öll jólin var maður hálf stressaður og sorgmæddur. Daginn sem hann kvaddi formlega fæddist svo lítil stelpa í fjölskylduna. Merkilegur dagur.
Við áttum eitt uppáhaldslag saman. Þegar ég bjó hjá honum og ömmu spiluðum við þetta lag oft og eftir ég flutti þaðan og kom í sunnudagssteikina gerðum við það sama. Þetta síðasta lag ársins vill ég tileinka afa mínum.



Góða helgi