27.7.07
"Sumar"fríið alveg á síðasta snúning!
Fríið byrjaði á laugardagsmorgni 31 júní en pabbi og mamma höfðu komið með næturfluginu og það var lagt í þegar þau komu. Áfangastaður var Hardangerfjorden.Pabbi alveg ósofin(var boðið að leggja sig en afþakkaði!)settist inn í sinn bílaleigubíl og við okkar og svo var brunað af stað. Mamma hefur trúlega aldrei séð eins lítið af neinu landslagi því hún var svo upptekin við að halda pabba vakandi en hann var nú orðin ansi lúin á tímabili. Á meðan þessu stóð var ég í okkar bíl upptekin með Sögu nánast alla leiðina því hún ákvað að gerast bílveik og ældi af mikilli innlifun. Ég varð að vera hálf aftur í með poka því það þýddi ekkert að gefa henni tóman ælupoka því hún blés þá bara upp og sprengdi þá. Sem betur fer tóma! En þrátt fyrir ælu og þreytu komumst við á áfangastað og fengum fína viku. Veðrið var svona upp og ofan en þó aðalega ofan. Var heitt og fengum nokkra sólardaga og 2 þar sem rigndi en annars bara milt og fínt. Og mikið agalega er nú fínt þarna í Hardangerfirðinum. Höfðum það alveg topp. Myndir frá Hardanger finnurðu hér.
Önnur vikan var á suðurlandinu, nánar tiltekið í Kristianssand.Þar fengum við fínan bústað(einbýlishús vill ég kalla þetta). Flott svæði við sjóinn og allt rosa fínt. Nema veðrið. Það var miklu kaldara þessa viku og ringdi meira svo að við vorum meira inni. Var líka endalaust rok! Eyddum 2 dögum í Dyreparken og það var alveg æðislegur garður.Það er að finna fullt af dýrum(sem hafa nóg pláss), Kardemommubæinn, Sjóræningjaþorp með skipum sem sigla um svæðið, tívolí og fullt af leiktækjum og fjöri. Þurfti alveg 2 daga til að ná að sjá allt. Stutt í barnið í manni á svona stað. Fórum líka á miðnætursýningu í garðinum að sjá Kaptein Sabeltann og Den Forheksede Øya.Það var alveg ægilega gaman og bæði börn og fullorðnir voru hæstánægð. Allt í allt fín vika en veðrið skemmdi smá! Myndir frá Kristiandsand finnurðuhér
Þriðja vikan var barnlaus fyrir okkur skötuhjúin. Baltasar fór til íslands með afa sínum og ömmu og fór á leikjanámskeið á Höfn og Saga fór í sumarbúðir. Á meðan nutum við JC þess að vera í rólegheitum, fórum út að borða nokkru sinnum, í bíó og keyptum nýtt parkett.
Vika 4. Farið til íslands.Búið var að ná í Sögu lúsuga í sumarbúðir og stefnan tekin á Hornafjörðin fagra til pabba og mömmu. Þar var öll fjölsk. samankomin enda Óskar og fam flutt þangað og Viggó og amma voru líka sem var mjög gaman. Ég byrjaði á því að verða veik og endaði á heilsó þar sem ég fékk pensilín. JC varð svo veikur og svo Baltasar og Saga með lús svo að þetta varð nú smá skrýtin vika. En samt voða gaman að koma heim og náði að hitta stelpurnar í mýflugumynd sem var betra en ekkert.Alltaf jafn yndislegar þessar elskur. Komum heim í gær og erum að hlakka til að fá húsið afhent á mánudagsmorguninn. Myndir frá þessari viku finnurðu hér
Over and out í bili.
29.6.07
Oh happy days !
Ef þú ekki kemst í föstudagsfíling með þessu lagi þá er nú eitthvað langt í stuðmanninn hjá þér!
Enjoy og Gleðilegt SUMARFRÍ!
25.6.07
Sumarfrí alveg að koma!
Myndi frá Hardangerfirðinum. Kannski að við verðum svona heppin með veðrið!
Seinni vikuna erum við búin að leigja bústað á suðurlandinu, nánar tiltekið við Kristianssand og þar verður meðal annars farið í dyreparken allavegna 2x. En það er risa garður með dýrum, leiktækjum, baðlandi,kardemommubænum og svo Kaptein Sabeltann. Hann er mikill og ógulegur sjóræningi sem öll börn í Noregi þekkja og elska. Saga er búin að halda mikið upp á hann, kann öll lögin og öll gömlu leikritin nánast utan að.
Hér er mynd tekin frá svæðinu við gistum á í Kristianssand.

Við erum búin að kaupa miða á miðnætursýninguna hans í garðinum og það verður örugglega rosa spennó.
Við gistum í bústað á sumarbústaðasvæði rétt hjá garðinum. Þar er bílaumferð bönnuð að mestu,fullt af leikvöllum, fótbolltavöllum, tennisvölllum og álíka til að halda okkur í formi. Ég er búin að panta gott veður því það er svo mikið af baðströndum þar svo að ég rétt vona að veðurguðirnir gleymi mér ekki. Ég vill verða brún!!!!
22.6.07
Rokkað á Jónsmessu!
Njótið vel og lengi og góða helgi.
15.6.07
Föstudagsgleði !
Þetta lag sem ég legg út þennan kalda föstudag hér í Osló er ansi gamalt, nánartiltekið frá 1976 en það naut aftur vinsælda um miðjan áttunda áratuginn og það var þá lagið komst inn á topp 100 listann minn. Mér hefur alltaf þótt það svo sætt og skemmtilegt.Videóið sjálft er barn síns tíma, tískan alveg geðveik og gæðin má deila um.Dásamlega lummó og allt það en samt gott að ljúka vikunni með svona léttmeti!
Njóttu vel og góða helgi.
8.6.07
Mikið að gera hjá þeirri stuttu!
Er ekkert búið að vera neitt smá mikið um að vera í kring um Sögu þessar vikurnar. Fyrstu helgina í júní tók hún þátt í íþróttamóti þroskaheftra- svokölluðum Vivil leikjum. Það voru 550 þáttakendur á öllum aldri og var keppt í nánast öllum íþróttagreinum. Þetta var í fyrsta skifti að svona ung börn tóku þátt en það voru um 30 krakkar á aldrinum 5-11 sem voru með. þetta var alveg frábær upplifun og sólin skein á okkur allann daginn. Það vantaði sko ekki keppnisandan hjá íþróttafólkinu og ekki var aðeins klappað fyrir eigin frammistöðu heldur allra hinna líka. Það er líka alveg greinilegt hvað yngri kynslóð fatlaðra er miklu betur á sig komin bæði líkamlega og andlega en þau sem eru komin um 30 og yfir. Allt annar heimur. Allavegna þá fannst Sögu agalega gaman,tók þátt í öllu sem hægt var og skemmti sér hið besta. Hún var líka tekin í viðtal hjá sjónvarpinu en þeir vildu fá að fylgja henni á mótinu sem þeir gerðu og svo var hún í íþróttaþætti sama kvöld á norska ríkissjónvarpinu. Það er gott að sjónvarpið hér er duglegt að fylgjast með og sýna frá heimi fatlaðra.


Dissimilis festival laugardaginn 9 jún!
Laugardaginn eftir var svo Dissimilis festival á ráðhústorginu í Oslo. Þar tók tónlistarfólk og dansarar frá öllu landinu þátt ásamt nokkrum frá Svíþjóð og Póllandi. Hópurinn hennar Sögu sungu og dönsuðu og voru nátturulega alveg ægilega sætust af öllum enda lang yngst.Veðrið lék við okkur með sól og 28 stiga hita og það var fullt af áhorfendum og mikil stemning.Á eftir fórum við svo með vinafólki okkar að þvælast um bæinn en það var líka Osló dagar með allskonar uppákomum og ekki versnaði nú dagurinn við ferð í tívolí.
Alveg ægilega sæt blómastelpa!
Ida, Saga, Thea og Jon blómabörn.
P.S Komnar nýjar myndir af Baltasar og Sögu á barnaland.
25.5.07
Afslöppun fyrir helgina
21.5.07
Búin að selja íbúðina mína - MILLI !!!
Over and out frá Norge.
16.5.07
Komin tími fyrir eina lauflétta uppskrift - Parmesanpai

þetta pai hef ég eldað ansi oft. Er bæði gott og einfalt. Hægt að skifta rjomanum út með undanrennu eða léttmjólk ef maður vill hafa það aðeins fituminna.
Deig:
ÉG kaupi venjulega tilbúið í pokum frá Maizena en ef þú villt gera það sjálf þá er uppskriftin hér:
2 - 2.5 dl hveiti
100 gr smjör
salt
2 matskeiðar vatn
Ofninn hitaður(225). Hveiti, salti, smjöri blandað vel saman(best í blender eða annari eldhúsvél)vatnið sett smátt og smátt og blandað vel saman. Keflaðu út í stórt paiform eða 6 lítil og steikt í ca.10 mín.
Fylling:
2 egg
3 dl rjómi
3 dl parmesan ostur grófrifinn
100 gr ruccola salat
salt/pipar
Blandað saman og sett í ofn. Bakað í 30-40 mín á 225.
11.5.07
Þá er búið að setja íbúðina mína á sölu
Hér er svo gula húsið okkar, íbúðin falin bak við tré.

Nýja eldhúsinnréttingin mín sem ég á eftir að sakna mikið.

Restina getur þú svo séð hér. Þú klikkar bara á myndirnar til að fá þær stærri.
Annars bara skítaveður og kuldi.Var svona bongó blíða hér í heila viku um daginn og ég fór og keypti mér sumartoppa og læti og þeir hafa svo bara legið í skúffu alveg síðan þá. Vona að það verði sól næstu helgi því þá verður íbúðin seld og það er alltaf svo huggulegra þegar veðrið er gott.
Yfir og út í bili frá "redaksjonen" hér í Noregi
24.4.07
Keypti mér 4 pör af skóm á föstudaginn og í gær keypti ég mér hús!
Þetta er tekið fyrir framan húsið.

Lokaði garðurinn. Hinumegin við girðinguna er svo leiksvæði með rólum og fleira.

Stofan með þessum fína 70'arni.Finnst hann eiginlega soldið cool.

Eldhúsið er kannski það herbergi sem ég er minnst ánægð með en maður getur ekki fengið allt sem maður vill nema maður sé miljóner.

þetta er gangurinn sem er svona ægilega bjartur og heitur (v. gólfhita)

Og þetta er svo teikning af húsinu.(ef þú skildir vera í vafa um hvað þetta er!)

10.4.07
Engin páskaegg í ár !

Fyrstu páskarnir "ever" þar sem ég ekki borða páskaegg, fyrir utan kannski fyrstu páskana mína þar sem ég var bara 4 mánaða. Og þó! Maður veit svo sem aldrei hvað fólki datt í hug svona rétt eftir hippatímabilið.Kannski bara að ég fékk mitt eigið páskaegg sem svo bráðnaði ljúflega í tannlausum gómunum. Allt var svo frjálst þá. Kannski bara að það sé skýringin á hversvegna ég er svona súkkulaði sjúk. Hvað veit ég?
Annars lá leiðin til Svíþjóðar þessa páskana, nánar tiltekið Godås Gård við Vänern þar sem tengdó eiga sitt heimili. Þar var borðað mikið og gott og farið í langa göngutúra um skóg og strönd.
Veðrið var svo sem ekkert alveg að koma manni í sumarfíling en það var þó sól en kallt og rok. Við stoppuðum í 4 daga og 3 auka kíló. Á heimleiðinni byrjaði svo að snjóa og þegar við vorum að keyra inn í Osló var komin þessi litli snjóstormur. Og það snjóaði allt kvöldið og alla nóttina. Ég hélt ég yrði æf. Búin að þvo og pakka öllum vetrarfötum. En sem betur fer þá var þetta bara mútta náttúra að láta vita af sér og minna á hvað hún er komin í lélegt ásigkomulag.Maður verður að hugsa umhverfisvænna ef hún á ekki alveg að gefa upp öndina. Flokka rusl og svoleiðis.
Jæja og já þetta var nú bara það sem ég hafði til málana að leggja í dag.Annars er ég bara að komast í þetta fína vorskap. Er að fara að þrífa grillið um helgina og kannski að maður bara hendi nokkrum bringum á grillið og "tjilli" , það er spáð 19 gráðum og sól á sunnudaginn. Næs.
21.3.07
Páskaleg kalkúnabringa með safransósu

1 kalkúnarbringa
salt/pipar
beikon
Bringan söltuð smá og pipruð og beikon lagt yfir svo að það dekki bringurnar.
Smá vatn sett í botnin á fati og bringurnar settar í fat og inn í ofninn á 180-200 gráður eins lengi og stendur á umbúðunum.(1 - 1 1/2 kls)Ég hendi venjulega kartöflum, gulrótum og pastinak í fatið um leið til að allt sé á sama fati!!
SÓSA
2 laukar hakkaðir mjög fínt
2 dl þurr hvítvín
1/2 l rjómi (ég nota nú ekki svona mikið)
1/4 gr safranþræðir (ég tek bara smá safran milli fingrana ekkert hægt að mæla það neitt)
salt og pipar og sósujafnari.
laukarnir eru soðinir í hvítvíninu þangað til vökvin hefur minnkað til muna.(ekki steikja laukinn fyrst) Bæti við safran og rjóma og sýð saman þar til rjominn hefur þykknað. Jafna með maizena sósujafnara. Hægt er að bæta við safa af kjötinu eða kjúklingakrafti ef maður óskar.
Svo er bara að bera þetta fram með meðlæti að eigin vali og einhverju góðu víni (og þá meina ég ekki brennivíni).
Gleðilega páska.
18.3.07
Alltaf gaman að fá gesti ... jafnvel þótt þeir séu veikir

Óskar bróðir og Dagmar dóttir hans komu í heimsókn síðustu helgi. Það er orðin siður í okkar fjölskyldu að þegar við heimsækjum hvort annað verða einhverjir veikir og nú var komin tími á Dagmar sem varð veik strax á laugardeginum og á sunnudeginum var Baltasar komin með það sama. Undarlegt hvað þessi annars heilsuhrausta fjölskylda verður alltaf veik þegar við hittumst. Að vísu höfum við ekki endurtekið veikindajólin þar sem 80% af fjölsk fengu ælupest og mestu matargötin í fjölskyldunni höfðu enga list á neinum mat yfir hátíðirnar. Sjaldan hefur verið til eins mikið af smákökum fram í janúar eins og eftir þau jólin. Það er nú samt gott að við getum viðhaldið fjölskylduhefðunum þrátt fyrir að við erum svona dreifð!
Vill taka það fram að titillinn á þessu bloggi er tekin úr lagi sem ég samdi sjálf svo að ég geri ekki ráð fyrir að einhver kannist við það!
p.s Fara að hlakka til síðasta blogg fyrir páska og páskauppskriftinni minni með kalkúninum.
27.2.07
Fly Away!

Já takk væri sko alveg til í það, alveg komin með nóg af snjó/rigningu/slyddu.Langar ekkert smá að fara í sól, sjó,strönd og huggulegheit einhverstaðar í heitari löndum eða bara stórborg og shopping í hita og raka. Já takk, allt hljómar betra en þessi (vonandi) síðustu andartök vetursins hérna í Noregi. En maður veit svo sem aldrei, hér getur verið snjór alveg fram í miðjan apríl.Og svo er það nú þannig að ég vinn í Osló þar sem er enginn snjór en bý svo í sveitinni þar sem er mikill snjór svo að það er hálf bjánalegt að ganga um á vetrarbomsunum hér í vinnunni! Ég er þar af leiðandi er farin að gera eins og þær gerðu í myndinni "working girls" ég fer að heiman í vetrarbomsunum en tek með mér skó í poka!! Gvuð hvað maður getur verið praktískur stundum :-) Er orðin of gömul til að bara vilja líta vel út, núna eru það þægindin sem eru í hávegi höfð allavegna svona á veturna!
Á miðvikudaginn koma Óskar bróðir og Dagmar dóttir hans í heimsókn og það verður voða gaman að fá þau. Var að vísu búin að lofa skíðum og snjóþotufjöri hér hjá okkur en það er nú eitthvað óljóst hvort það verði hægt. Við verðum bara að gera okkur eitthvað til gamans í rigningunni, hver veit nema kötturinn með höttin láti þá sjá sig! Allavegna þá var það sjálfur Óskar bró sem gat rétt í síðustu getraun og fær hann klapp og hrós frá okkur hér á "redaksjonen".
Í næsta "pistli" ætla ég að gefa ykkur uppskrift af kalkúnabringum með safran sósu en þessa uppskrift eru fleiri búinir að reyna að fá hjá mér og ég hef alltaf gleymt að senda hana til þeirra svo nú er það bara að sjá hversu duglegar þessar konur verða að kíkja hér við hjá mér til að fá þessa uppskrift. En þetta er agalega páskalegur matur með því sósan er svo gul og góð!
Jæja þetta er víst alveg nóg að sinni.Kveð að sinni
28.1.07
það var í næturlestinni í Kairó...

að maður hefði alveg getað fengið þennan góða kjúkling sem ég eldaði á föstudaginn. Stundum er ég alveg hlessa yfir hvað ég ramba á góðar uppskriftir.Allavegna þá vill ég endilega deila þessum ljómandi góða kjúlla með ykkur hinum.
Marókanskur kjúklingur með tómötum og safranmarmelaði.
F.4 :: Tími 65 mín
1 kjúklingur
1 laukur hakkaður grófð
3 hökkuð hvítlauksrif
1 tsk saffran
2 msk sjóðandi vatn/eða bara mjög heitt
2 tsk malaður kanil
2 tsk malað engifer
4-6 tómtatar í grófum bitum
3 dl kjúklingakraftur
3- 4 msk fljótandi hunang(verður að vera fljótandi sortin)
100 gr ristaður möndluspænir
ferskt koríander ef maður vill
kjúkl bitaður, saltað og piprað og steikt á pönnu þar til hann er brúnaður á öllum hliðum. Tekin af og laukur og hvítlaukur mýktur á pönnunni. Safran blandað með vatni látið standa smá stund. Þurrkryddinu bætt við laukinn og blandað vel saman, tómötum og saffran bætt út í. Látið sjóða saman í 5 min. Kjúklingnum bætt ut í og kjuklingakraftinum bætt út í, látið malla í 30 mín. Kjúlli tekin af og hækkað á pönnunni. Safinn látin sjóða niður þar til hann er hæfilega þykkur,hunangi bætt út í og soðið þar til það minnir á marmelaði(ekki samt alveg eins þykkt). Kjúlli settur aftur útí og hitaður. Möndluspæni dreyft yfir áður en borið er fram með grjónum og góðu salati.
Gugga til hamingju með sigurinn í síðustu getraun!! Gott að þú vissir hver flutti þetta lag því ég gerði það ekki :-)
22.1.07
Á skíðum skemmti ég mér trallallala rallalalla......

Munið þið eftir þegar Emil í Kattholti varð að draga Anton,sem var með blóðeitrun til læknis? Brjálaður snjóbilur og læti. Svona var veðrið fyrsta skíðadaginn okkar á árinu. Við ákváðum að skella okkur upp í bústað til systur JC, brunuðum uppeftir á laugardagsmorgun og vorum komin í brekkuna um hádegisbil. Geðveikt rok og lárétt snjókoma. Saga búin að gleyma öllu sem hún var búin að læra í fyrra svo að JC var að skíða afturábak með hana fyrir aftan sig til að passa að hún myndi ekki bara húrra niður brekkuna en hún vildi helst bara fara beina leið niður á fullri ferð. Baltasar var eins og áður fullfær um að sjá um sig sjálfur og fór 2-3 ferðir á meðan ég, móðir hans fór eina. Sniglahraðinn á minni var nú frekar skoplegur en þetta var í 3 skifti á ævinni ég fór á skíði og vegna veðurs var ég nú ekkert að láta mig gossa! Var örugglega eins og að sjá mynd í slow motion.Við entumst í brekkunni í 1 1/2 tíma en þá orðin alveg dofin af kulda.
Sunnudaginn snóaði enn lárétt og blés þokkalega en þá ákváðum við að skella okkur á gönguskíði. Mjög praktískt að vera úti í svona veðri því ef maður varð þyrstur var ekki annað en að opna munnin og láta snjókornin bara snjóa beint inn. Núna er semsagt komin vetur í Noregi með tilheyrandi -10 gráðum og KULDA OG SNJÓ. Hvar er regnið þegar ég þarfnast þess?
Til hamingju Ásdís, þú ert aftur sigurvegarinn.
15.1.07
Isn't She Lovely

Sjáið bara hvað nýjasta frænka mín er sæt.Kíkið hér á hana!
Til hamingju aftur Ásdís, maður sér hverjir eru duglegir að koma við hér hjá mér. Er þetta lag eiginlega um rosa þynnku eða hvað?
12.1.07
Happy new year

Jólaföndur og piparkökur voru á dagskrá í skóla og leikskóla allan Desembermánuð hjá báðum krökkunum og var mikill spenningur yfir að jólin væru að koma og að afi og amma myndu koma um jólin. Saga tók þátt í jólatónleikum í Lommedalen kirkju 9 des og dansaði þar engladans og gekk Lucia göngu. Agalega sæt að vanda. Baltasar var Lucia strákur í ár og gekk í leikskólanum. Var voða sætur í hvíta kjólnum sínum með silfurborða um hárið!!
Því miður gerðist það að afi minn á Nesinu dó 2 dögum fyrir jól, það kom nú ekki alveg óvænt því hann var búin að vera veikur og ég hafði farið til Íslands helgina fyrir jól til að kveðja hann því okkur grunaði að það væri ekki langt eftir. Hann var svo orðin betri og við héldum að hann væri ekki alveg að fara frá okkur en svo reyndist ekki vera. Hann var jarðsunginn 4 janúar í Dómkirkju Reykjavíkur. Þetta var erfitt þrátt fyrir að hann væri orðin svona veikur. Þrátt fyrir sorg yfir afa var nú líka gleði þennan daginn því Óskar bróðir og Íris kærastan hans eignuðust litla dóttur þennan sama morgun. Svona getur nú lífið verið skrýtið. Einn kemur og annar fer!
Þrátt fyrir að jólakætin væri ekki í toppformi þá áttum við samt notarleg jól í snjóleysinu hér í Noregi. Mamma og pabbi komu og krakkarnir alsæl yfir því. Við borðuðum fullt af góðum mat og íslensku nammi. Við stefnum á íslensk jól í ár.
Svona að lokum verð ég að krýna vinningshafa síðasta bloggs en það var hún Álfheiður I á Egilstöðum sem var sú klára í það skiftið. Verður spennandi að sjá hver þekkir þetta lag!! Hef eiginlega alveg gleymt þessari spennandi krýningu í hin skiftin svo Ásdís mín,TIl HAMINGJU með Nóvember getraunina!